Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 96. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 96  —  96. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Flm.: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lilja Mósesdóttir,
Þráinn Bertelsson, Þór Saari.


1. gr.

    Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Verðtryggt lánsfé skal ekki bera hærri almenna vexti en 2%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Við útreikning vaxta af verðtryggðum lánum er skv. 4. gr. vaxtalaga miðað við að vextir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum hjá lánastofnunum, ef hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin. Með þessu frumvarpi er hins vegar lagt til að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en nemur 2%.
    Afar brýnt er að lækka raunvexti fasteignalána sem eru að meðaltali 4,8% (Skýrsla sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna, 10. nóvember 2010) og hærri en gerist í nágrannalöndunum þar sem verðtrygging er ekki jafnútbreidd. Rök fyrir verðtryggingu hafa m.a. verið þau að með henni sé hægt að halda vöxtum lægri en ella vegna þess hve lítil áhætta lánveitandans er. Verðtrygging lána tryggir hagsmuni lánveitanda með þeim hætti að hann er varinn fyrir öllum sveiflum í verðlagi. Sá sem tekur verðtryggt lán er hins vegar með öllu óvarinn á tímum verðbólgu. Hækki verðlagið, hækka lánin. Á Íslandi hafa lánveitendur getað tryggt lánsfjármagnið með verðtryggingu og breytilegum vöxtum, stundum meira að segja hvoru tveggja í senn.
    Mikilvægt er að ná fram raunvaxtalækkun til að létta undir með skuldsettum heimilum. Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu Íslands frá 2010 voru 10,1% heimila í vanskilum með húsnæðislán eða leigu einhvern tíma á sl. 12 mánuðum og 13,3% voru í vanskilum með önnur lán. 16,5% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og 19,2% töldu greiðslubyrði annarra lána þunga. Nálega helmingur allra heimila átti erfitt með að ná endum saman. Tæp 36% þeirra gátu ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 140 þús. kr. með þeim leiðum sem þau nýta venjulega til að standa undir útgjöldum. Þegar heildarmyndin er skoðuð hefur fjárhagsstaða heimilanna farið stigversnandi frá ársbyrjun 2008.
    Í þágu heimilanna í landinu er brýnt að afnema vísitölubindingu lána eins fljótt og auðið er. Þar til það hefur verið gert er hér lagt til úrræði til varnar lántakendum þannig að auk verðtryggingar sem leggst ofan á höfuðstól lánanna sé lánveitanda ekki heimilt að leggja vexti umfram tiltekið hámark, eða 2%.