Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 230. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 236  —  230. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar
á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Gunnar Bragi Sveinsson.


1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „20%“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 25%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þeir sem hafa fengið endurgreiðsluvilyrði fyrir gildistöku laga þessara eiga þess kost að sækja aftur um endurgreiðsluvilyrði eftir að endurgreiðsluhlutfallið hefur verið hækkað enda sé framleiðsla kvikmyndar eða sjónvarpsefnis ekki hafin.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndaframleiðslu verði hækkað. Á undanförnum árum hefur mikil þekking skapast í kvikmyndagerð hér á landi, m.a. vegna endurgreiðslukerfisins og aukinna framlaga til Kvikmyndasjóðs. Kvikmyndir, leikstjórar og leikarar hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar sem hafa haft mikið gildi í landkynningu. Eftirvinnsla kvikmynda, sem er tímafrekasti þátturinn við gerð kvikmynda, hefur aukist. Bakslag hefur komið í uppbyggingu greinarinnar vegna efnahagsástandsins og niðurskurðar hjá ríkinu. Mikilvægt er að snúa þeirra þróun við og fjölga um leið störfum en áætlað er að um 70% af kostnaði við gerð kvikmynda sé launakostnaður. Því er hér lagt til að endurgreiðsluhlutfallið verði hækkað úr 20% í 25%, í samræmi við tillögur atvinnumálahóps Framsóknarflokksins sem lagðar voru fram á flokksþingi 2011.