Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 133. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 293  —  133. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um innflutning aflandskróna frá því að gjaldeyrishöft voru sett á.

    Óskað var eftir því að Seðlabanki Íslands tæki saman svör við fyrirspurninni og eru svör bankans eftirfarandi.

     1.      Hver er heildarfjárhæð innstreymis innlends gjaldeyris frá því að gjaldeyrishöft voru sett á og allt til dagsins í dag, sundurliðað eftir árum?
    Vakin er athygli á því að með breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, sbr. lög nr. 134/2008, var Seðlabankanum veitt heimild til að ákveða að gefa út reglur, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, sem takmarka og stöðva tiltekna flokka fjármagnshreyfinga til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast með útgáfu reglna, sbr. bráðabirgðaákvæði I. Á grundvelli lagaheimildarinnar gaf Seðlabankinn, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, út fyrstu reglur um gjaldeyrismál, sbr. reglur nr. 1082/2008, hinn 28. nóvember 2008.
    Takmörkunum á fjármagnshreyfingar á milli landa í innlendum gjaldeyri var fyrst komið á með reglum nr. 880/2009, um gjaldeyrismál, og tóku þær gildi hinn 31. október 2009. Neðangreindar fjárhæðir miðast því við gildistöku þeirra reglna. Sá fyrirvari er gerður að fjárhæðirnar byggjast á innstreymi innlends gjaldeyris hingað til lands sem Seðlabankinn hefur veitt heimild til á grundvelli beiðna um undanþágu frá framangreindum reglum um gjaldeyrismál (nú laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. lög nr. 127/2011). Seðlabankinn hefur hins vegar ekki yfir að ráða upplýsingum um hver sé heildarfjárhæð innstreymis innlends gjaldeyris frá því að gjaldeyrishöft (sbr. reglur nr. 1082/2008) voru sett á.
    Heildarfjárhæð innstreymis innlends gjaldeyris sem Seðlabankinn hefur veitt heimild til á grundvelli beiðna um undanþágu frá banni við fjármagnshreyfingu í innlendum gjaldeyri er eftirfarandi:

Ár Fjárhæð
2009 181.000.000 kr.
2010 11.784.867.585 kr.
2011 (1. janúar – 31. ágúst) 3.765.679.072 kr.


     2.      Hverjir hafa fengið að flytja inn aflandskrónur, þ.e. hvaða:
                  a.      íslenskir einstaklingar,
                  b.      erlendir einstaklingar,
                  c.      íslensk fyrirtæki, og
                  d.      erlend fyrirtæki?


    Seðlabanka Íslands er óheimilt að láta af hendi upplýsingar um fjármagnshreyfingar á milli landa í innlendum gjaldeyri í skilningi laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglna settum á grundvelli þeirra, með þeim hætti sem óskað er í fyrirspurninni.
    Í 15. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, segir að þeir sem annast framkvæmd laganna séu bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt.
    Seðlabanki Íslands vill taka eftirfarandi fram:
    Seðlabanki Íslands hefur fallist á beiðnir um flutning á innlendum gjaldeyri hingað til lands vegna framfærslu hér á landi eða sambærilegrar notkunar eða til greiðslu skuldbindinga sem fallnar eru í gjalddaga eða hafa verið gjaldfelldar. Er miðað við að sýnt sé fram á óslitið eignarhald eiganda hins innlenda gjaldeyris frá því fyrir 28. nóvember 2008, þegar fyrstu reglur um gjaldeyrismál tóku gildi. Í tilviki innlendra einstaklinga er lögð til grundvallar sú forsenda að þeir framfæri sig og fjölskyldur sínar hér á landi og séu með fjárhagslegar skuldbindingar í innlendum gjaldeyri. Í tilviki innlendra aðila er því nóg að sýna fram á fasta búsetu hér á landi til þess að uppfylla skilyrðið um að fjármunirnir séu ætlaðir til framfærslu viðkomandi hér á landi. Í tilviki erlendra einstaklinga þarf að framvísa gögnum sem sýna fram á kostnað af framfærslu hér á landi, svo sem í tengslum við búferlaflutning til landsins, ferðalög hér á landi, skattaálagningar o.s.frv. Er þá samanlögð fjárhæð framlagðra reikninga lögð til grundvallar við afgreiðslu beiðni. Í tilviki lögaðila þarf að sýna fram á skuldbindingu í íslenskum krónum, en meginreglan er sú að ekki er fallist á beiðnir er varða utanríkisviðskipti.
    Þá bendir Seðlabankinn á að þeir einstaklingar sem eru með fasta búsetu hér á landi og þeir lögaðilar sem skráðir eru til heimilis hérlendis, teljast innlendir aðilar í skilningi laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglna nr. 370/2010, um gjaldeyrismál. Aðrir en þeir eru skilgreindir sem erlendir aðilar.