Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 64. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 325  —  64. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Lilju Mósesdóttur um yfirfærslu lánasamninga.


     1.      Hvaða fjármálafyrirtæki eru lögmætir eigendur lánasamninga sem voru færðir frá gömlu fjármálafyrirtækjunum (hinum föllnu bönkum)?
    Með 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. (neyðarlögin), var nýju ákvæði, 100. gr. a, bætt við lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þar sem Fjármálaeftirlitinu voru veittar viðtækar heimildir til sérstakra ráðstafana teldi það þörf á vegna sérstakra aðstæðna og atvika. Ákvæðið er nú að finna í 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis nr. VI við lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og er það svohljóðandi:
    „Séu aðstæður mjög knýjandi getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, þar á meðal að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Við slíka ráðstöfun gilda hvorki ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um tilboðsskyldu né ákvæði laga þessara um auglýsingu samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt er í slíkum tilfellum. Verði það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að samruni viðkomandi fjármálafyrirtækis við annað tryggi best þá hagsmuni sem í húfi eru gilda ákvæði samkeppnislaga og samrunaákvæði laga þessara ekki um þá ráðstöfun. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku á rekstri fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna opinberlega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.“ (leturbr. EVR.)
    Á grundvelli þessa ákvæðis tók Fjármálaeftirlitið m.a. yfir vald hlutahafafunda viðskiptabankanna þriggja, vék stjórnum þeirra frá störfum og skipaði þeim skilanefndir sem tóku við öllum heimildum stjórna félaganna. Með sérstakri ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda var eignum fjármálafyrirtækjanna ráðstafað til nýrra fjármálafyrirtækja sem stofnuð voru á grundvelli 1. gr. neyðarlaganna. Nefna má sem dæmi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. 9. október 2008. Þar segir í 1. tölul. ákvörðunarinnar:
„1.    Öllum eignum Landsbanka Íslands hf. hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum, er ráðstafaða til Nýja Landsbanka Íslands hf. þegar í stað. Þær eignir og réttindi sem tilgreindar eru í VIÐAUKA eru þó undanskildar framsalinu. Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur jafnframt samningsbundin afnotaréttindi til fasteigna og lausafjár.“
    Nýju bankarnir urðu því eigendur þeirra eigna, þ.m.t. einstakra lánasamninga, sem fluttar voru yfir í hin nýju fjármálafyrirtæki.

    Sama á við um önnur fjármálafyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir.

     2.      Bar fjármálafyrirtækjum sem tóku við lánasamningunum að láta þinglýsa sig sem eigendur þeirra lánasamninga? Ef svo er, hver var þinglýsingarkostnaðurinn vegna þeirrar þinglýsingar?
    Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins sem byggðust, eins og áður er vikið að, á 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, núgildandi 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI í lögunum, eru taldir upp þeir aðilar sem falið var að skrá eða yfirfæra réttindi og/eða eignarheimildir til nýju bankanna, m.a. þinglýsingarstjórar samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga nr. 39/1978.

     3.      Hver er réttur lántaka gagnvart fjármálafyrirtæki sem yfirtekið hefur lánasamning hans án þess að láta þinglýsa sig sem eiganda samningsins?
    Sjá svar við 2. lið fyrirspurnarinnar.
    Þá er í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins jafnframt að finna ákvæði þar sem kveðið er á um að greiðslustaða skuldaskjala miðist við það tímamark sem hinn nýi banki tók yfir starfsemina og að greiðslustaður skuldaskjala teljist vera hjá samsvarandi útibúi nýja bankans. Þá er tekið fram að víxlar teljist rétt sýndir til greiðslu hjá nýja bankanum.

     4.      Hver er réttur þess fjármálafyrirtækis sem fær lánasamning framseldan til sín gagnvart lántaka ef það er ekki þinglýstur eigandi samningsins?
     5.      Hver er réttur hins gamla fjármálafyrirtækis gagnvart lántaka ef það fjármálafyrirtæki sem fær lánasamning framseldan til sín er ekki þinglýstur eigandi samningsins?
    Sjá svar við 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar.

     6.      Hver er lögmætur eigandi afskrifta sem hin gömlu fjármálafyrirtæki veittu á upphæð lánasamninga þegar þeir fóru til þeirra nýju?
    Tilteknar eignir og skuldbindingar voru fluttar frá „hinum föllnu bönkum“ til hinna nýju, sbr. svar við 1. lið. Í samræmi við ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins voru óháðir aðilar fengnir til þess að meta virði þeirra eigna og skulda sem ráðstafað var til nýju bankanna. Niðurstöður þess mats voru síðan grundvöllur mats á eignum, þ.m.t. mats á útlánasöfnum, sem lagt var til grundvallar samninga nýju og gömlu bankanna. Yfirfærðar eignir, hvort sem raunvirði þeirra er umfram mat eða undir mati, eru eign viðtökuaðila. Samkvæmt framansögðu veittu gömlu fjármálafyrirtækin hinum nýju ekki afskriftir; eignir voru fluttar yfir á því verði sem talið var raunvirði á þeim tíma.