Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.

Þingskjal 369  —  315. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 57/2011,
um skil menningarverðmæta til annarra landa.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Í stað ártalsins „2012“ í 16. gr. laganna kemur: 2013.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Það frumvarp sem varð að lögum nr. 57/2011 var lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011 og var samþykkt sem lög 20. maí 2011. Það var lagt fram samhliða þremur öðrum frumvörpum, þ.e. til laga um Þjóðminjasafn Íslands, til nýrra safnalaga og til laga um menningarminjar. Ákveðin samverkan var á milli allra frumvarpanna og var m.a. gert ráð fyrir að umrædd lög tækju öll gildi á sama tíma, þ.e. 1. janúar 2012.
    Við umfjöllun menntamálanefndar Alþingis um síðarnefndu frumvörpin varð ljóst að aðeins yrði mögulegt að ljúka afgreiðslu tveggja þeirra á 139. löggjafarþingi og var því ákveðið að breyta gildistöku þeirra til 1. janúar 2013. Þann 17. september 2011 var frumvarp til laga um Þjóðminjasafn Íslands samþykkt sem lög (nr. 140/2011), sem og frumvarp til nýrra safnalaga (nr. 141/2011). Í báðum tilvikum var kveðið á um að þau tækju gildi 1. janúar 2013. Afgreiðslu frumvarps til laga um menningarminjar var ekki lokið og verður slíkt frumvarp lagt fram að nýju á 140. löggjafarþingi þar sem tillaga verður gerð um að lög um menningarminjar taki gildi 1. janúar 2013.
    Í 3. gr. laga um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, kemur fram að Minjastofnun Íslands skuli annast framkvæmd þeirra fyrir hönd íslenska ríkisins og einnig er vísað til stofnunarinnar í 6., 7., 8. og 11. gr. laganna. Gerð er tillaga um tilurð umræddrar stofnunar í frumvarpi til laga um menningarminjar, en henni er auk þessa verkefnis samkvæmt lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa m.a. ætlað að taka við núverandi verkefnum Fornleifaverndar ríkisins og Húsafriðunarnefndar, en þær stofnanir verða lagðar niður.
    Minjastofnun Íslands verður ekki til fyrr en frumvarp til laga um menningarminjar hefur verið samþykkt sem lög og þau taka gildi og getur því ekki sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum nr. 57/2011. Því er nauðsynlegt að fresta gildistöku laganna til þess tíma sem ætlunin er að sú stofnun taki til starfa, þ.e. til 1. janúar 2013.
    Því er þetta lagafrumvarp um breytingu á lögum um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, lagt fram.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að seinka gildistöku laganna til 1. janúar 2013. Með samþykkt laganna um skil menningarverðmæta til annarra landa í maí 2011 var gert ráð fyrir að lögin tækju gildi 1. janúar 2012. Frumvarp til laga um Þjóðminjasafn Íslands og ný safnalög voru samþykkt í september 2011 og taka þau gildi 1. janúar 2013. Frumvarp til laga um menningaminjar verður lagt fram á 140. löggjafarþingi þar sem gerð verður tillaga um að lögin taki gildi 1. janúar 2013. Ákveðin samverkan er á milli fyrrnefndra laga sem samþykkt hafa verið og frumvarps til laga um menningarminjar og er því nauðsynlegt að þau taki gildi samtímis.
    Í frumvarpi til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa kemur fram að Minjastofnun Íslands skuli m.a. annast framkvæmd þeirra fyrir hönd íslenska ríkisins og í frumvarpi til laga um menningarminjar er gerð tillaga um Minjastofnun, en áætluð gildistaka þeirra laga er 1. janúar 2013.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að fresta gildistöku laga um skil menningarverðmæta til annarra landa til 1. janúar 2013 eða til þess tíma sem áætlað er að lög um Minjastofnun Íslands taki gildi. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs