Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 244. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 406  —  244. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar
um íbúðir sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið.


     1.      Hversu margar íbúðir hefur Íbúðalánasjóður yfirtekið frá 2006 og hvernig skiptast þær eftir kjördæmum?
    Íbúðalánasjóður hefur frá árinu 2006 yfirtekið 2.038 íbúðir. Flestar íbúðanna, eða um fjórðungur, eru á Suðurnesjum. Langflestar íbúðirnar yfirtók Íbúðalánasjóður á árunum 2010 og 2011. Nánar má sjá skiptingu íbúða eftir árum og landshlutum í töflu 1.

Tafla 1. Fjöldi íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið frá árinu 2006.

Keyptar eignir 2006 2007 2008 2009 2010 2011 Samtals
Höfuðborgarsvæðið 1 1 5 33 240 112 392
Suðurnes 6 18 36 44 194 172 470
Vesturland 2 3 18 31 127 70 251
Vestfirðir 5 17 21 16 20 17 96
Norðurland 4 19 29 32 55 70 209
Austurland 10 34 52 20 146 28 290
Suðurland 24 14 29 78 90 95 330
Samtals 52 106 190 254 872 564 2.038
Heimild: Íbúðalánasjóður

    Eignir sjóðsins sem eru á byggingar- og framkvæmdastigi eru 207 talsins og eru flestar þeirra fokheldar. Þá þurfa um 510 eignir á umtalsverðu viðhaldi að halda og því er ekki unnt að leigja þær út nema kostað verði til verulegs viðhalds. Skýrir þetta að nokkru leyti af hverju þær eru ekki í útleigu og af hverju þær hafa ekki selst.

     2.      Hvert er áætlað verðmæti íbúðanna?
    Heildarverðmæti eigna sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið ef miðað er við fasteignamat 2011 er rúmur 21 milljarður kr. en skiptingu þeirrar fjárhæðar má sjá í töflu 2. Bókfært virði eignanna í efnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs, að teknu tilliti til ástands þeirra, er um 2 milljörðum kr. lægra eða 19.211 millj. kr.

Tafla 2. Heildarverðmæti íbúða í eigu Íbúðalánasjóðs
miðað við fasteignamat.

Höfuðborgarsvæðið 5.216.890.000
Suðurnes 5.399.312.000
Vesturland 2.811.184.000
Vestfirðir 186.600.000
Norðurland 1.286.050.000
Austurland 2.360.933.000
Suðurland 4.008.265.000
Samtals 21.269.234.000
Heimild: Íbúðalánasjóður

     3.      Hversu mörgum þessara íbúða hefur sjóðurinn komið í leigu?
    Íbúðalánasjóður byrjaði að leigja út íbúðir í mars 2009 en þá voru 34 íbúðir í útleigu. Þann 31. október 2011 voru 615 eignir í útleigu hjá sjóðnum. Skiptingu þeirra eftir landshlutum má sjá í töflu 3.

Tafla 3. Íbúðir í útleigu í eigu Íbúðalánasjóðs.

Höfuðborgarsvæði 143
Suðurnes 91
Vesturland 114
Vestfirðir 7
Norðurland 61
Austurland 58
Suðurland 141
Samtals 615
Heimild: Íbúðalánasjóður

    Íbúðalánasjóður hefur takmarkaðar heimildir til útleigu á íbúðum og verður að gæta að ákvæðum samkeppnislaga. Aðilum sem búa í eignunum á þeim tíma er sjóðurinn yfirtekur þær er alltaf gefinn kostur á að leigja þær tímabundið og er unnt að gera leigusamning til eins árs. Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur samþykkt að fjölga íbúðum í útleigu á þeim svæðum þar sem brýn þörf er á leiguhúsnæði.

     4.      Hversu margar þessara íbúða hafa verið seldar?
    Íbúðalánasjóður hefur frá árinu 2006 selt 553 íbúðir. Skiptingu þeirra eftir landshlutum má sjá í töflu 4.

Tafla 4. Fjöldi íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur selt frá árinu 2006.

Seldar eignir 2006 2007 2008 2009 2010 2011 Samtals
Höfuðborgarsvæðið 2 1 0 12 27 50 92
Suðurnes 2 4 11 23 19 21 80
Vesturland 1 2 3 5 11 6 28
Vestfirðir 6 7 2 8 11 7 41
Norðurland 9 16 12 17 29 26 109
Austurland 10 4 26 27 20 12 99
Suðurland 13 31 6 8 12 10 80
Afturk.e.uppboð 0 0 0 0 14 10 24
Samtals 43 65 60 100 143 142 553
Heimild: Íbúðalánasjóður