Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 339. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 415  —  339. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004,
með síðari breytingum.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Eygló Harðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                  Endurgreiða skal 50% olíugjalds af olíu sem flutningsaðilar skv. i- og j-lið 3. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, kaupa til flutnings. Reglur um endurgreiðslu samkvæmt þessari málsgrein skulu settar af fjármálaráðherra í samráði við ráðherra samgöngumála.
     b.      Í stað orðanna „endurgreiðslu skv. 1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: endurgreiðslur skv. 1. og 3. mgr.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Ákvæði 3. mgr. 6. gr. laganna skal endurskoðað í upphafi árs 2014.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 135. löggjafarþingi, aftur á 136. þingi, enn að nýju á 138. þingi og er nú endurflutt. Lagt er til að flutningsaðilar sem stunda farmflutninga í skilningi i- og j-liðar 3. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga skuli fá endurgreidd 50% olíugjalds vegna starfsemi sinnar. I-liður fjallar um farmflutninga í atvinnuskyni sem eru skilgreindir svo: „Flutningur á hvers kyns farmi gegn endurgjaldi þegar flutningsþjónusta er seld sérstaklega og flytjandi starfar við flutningsþjónustu. Sem dæmi má nefna farmflutningafyrirtæki og vörubifreiðastjóra sem starfa sem verktakar við flutning á farmi.“ Í j-lið er fjallað um farmflutninga í eigin þágu og þeir skilgreindir svo: „Flutningur farms þegar ekki er innheimt sérstakt gjald fyrir flutninginn. Sem dæmi má nefna flutning iðnfyrirtækis á eigin hráefni og/eða aðföngum með merktum bifreiðum, svo sem flutning á gosdrykkjum og flutning með mjólkurbifreiðum. Einnig flutningur verktaka sem starfa við annars konar verktöku en flutningsþjónustu þótt flutningurinn sé hluti af verki, svo sem verktaka við byggingar.“
    Á síðustu árum hafa álögur hins opinbera á olíu og bensín hækkað umtalsvert og koma áhrif þess víða fram með beinum eða óbeinum hætti. Flutningskostnaður framleiðslu- og sjávarútvegsfyrirtækja í dreifðum byggðum hefur aukist verulega. Samkeppnisaðstaða þessara fyrirtækja hefur veikst töluvert miðað við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Dæmi eru um að fyrirtæki úti á landi hafi íhugað að flytja starfsemi sína á höfuðborgarsvæðið til að stemma stigu við auknum flutningskostnaði. Það er áhyggjuefni að fyrirtæki þurfi að flytja af landsbyggðinni til að styrkja rekstrargrundvöll sinn.
    Umræddar hækkanir rata út í verðlagningu á flutningum sem aftur hefur áhrif á vöruverð. Þessi kostnaðaraukning kemur illa við íbúa landsbyggðarinnar þar sem stór hluti aðfanga er fluttur þangað frá höfuðborgarsvæðinu.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar með lægri flutningskostnaði og stuðla þannig að jákvæðri byggðaþróun. Þá viðleitni styðja meðal annars Bændasamtök Íslands og hagsmunasamtök heimilanna sem tóku undir jákvæð sjónarmið þess.
    Við fyrri flutning málsins barst athugasemd frá Vegagerðinni, sem taldi frumvarpið fara gegn því meginsjónarmiði að kostnaður af uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins skuli borinn af notandanum og ríkisskattstjóra sem tók fram að endurgreiðsluleiðin væri flókin, tímafrek og kostnaðarsöm í framkvæmd.
    Í 2. mgr. 23. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald er kveðið á um að innheimtar tekjur af olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi renni til Vegagerðarinnar að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar skerðist en eftir sem áður er lögð rík áhersla á að stofnunin fái það tekjutap bætt með framlögum úr ríkissjóði. Einnig er vísað til skýrslu sem starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins skilaði af sér í maí 2008. Skýrslan fjallar um heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis en þar kemur fram að lög og reglugerðir á þessu sviði séu uppfull af sértækum reglum, afsláttum og undanþágum fyrir hina og þessa hagsmunaaðila.