Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 245. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 460  —  245. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar
um tollgæslu ferjunnar Norrænu.


     1.      Er í bígerð að flytja til Seyðisfjarðar störf sem tengjast tollgæslu ferjunnar Norrænu?
    Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra mun fjöldi tollvarða á Seyðisfirði vegna tollafgreiðslu á ferjunni Norrænu verða sá sami á næsta ári og á þessu ári. Það ber að skoða í því samhengi að fjárheimildir tollyfirvalda hafa verið lækkaðar umtalsvert eins og hjá flestum öðrum stofnunum ríkisins á undanförnum þremur árum. Þetta hefur óhjákvæmilega haft það í för með sér að tollvörðum hefur fækkað töluvert. Í ársbyrjun 2009 voru starfandi á landinu 117 tollverðir, en í dag eru starfandi tollverðir einungis 104. Á síðustu þremur árum hefur starfandi tollvörðum fækkað um 13, eða liðlega 11%. Mest fækkun hefur verið á höfuðborgarsvæðinu en þar hefur tollvörðum fækkað um ellefu. Í Keflavík hefur þeim fækkað um tvo en annars staðar á landinu hefur þeim ekki fækkað. Af þessu má vera ljóst að í þeim sparnaði sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur tollstjóri haft það að leiðarljósi að vernda störf á landsbyggðinni eftir því sem unnt hefur verið.

     2.      Hversu margir tollverðir annast að jafnaði tollgæslu ferjunnar?
    Það er mjög breytilegt hvað margir tollverðir annast tollafgreiðslu ferjunnar Norrænu hverju sinni. Það fer allt eftir því hversu mikið af farþegum, ökutækjum og öðrum varningi er meðferðis hverju sinni. Jafnframt skiptir miklu máli hvort það séu einhver sérstök atvik sem valda því að ákveðið er að senda tollverði sem hafa sérhæfingu á ákveðnum sviðum til að aðstoða við tollafgreiðslu ferjunnar. Stundum eru það einungis tveir tollverðir sem annast tollafgreiðslu ferjunnar en í öðrum tilvikum þegar þeir eru flestir geta þeir verið allt að ellefu. Tollverðir sem fara til aðstoðar á Seyðisfirði koma frá Eskifirði, Vestmannaeyjum, Akureyri, Keflavíkurflugvelli og/eða höfuðborgarsvæðinu.
    Á þessu ári hefur ferjan komið í 43 skipti til Seyðisfjarðar. Ef reynt er að áætla hve margir hafa að meðaltali komið að afgreiðslu ferjunnar á þessu ári þá eru það um fjórir tollverðir að meðaltali í hverri ferð. Rétt er að taka það fram í þessu sambandi að fjöldi annarra starfsmanna á Austurlandi aðstoðar við tollafgreiðslu ferjunnar sérstaklega yfir sumartímann og er launakostnaður vegna þeirra fjármagnaður af tollstjóraembættinu. Um er að ræða skrifstofufólk, lögreglumenn og aðra starfsmenn sem eru ráðnir sérstaklega til að aðstoða við afgreiðslu ferjunnar. Af þessu má sjá að tollstjóri hefur lagt mikla áherslu á að viðhafa öflugt tolleftirlit með ferjunni á Seyðisfirði sem hefur skilað góðum árangri.

     3.      Hversu margir tollvarðanna sem annast verkið koma af höfuðborgarsvæðinu?
    Það er mjög breytilegt hvað margir tollverðir eru sendir af höfuðborgarsvæðinu til Seyðisfjarðar til að aðstoða heimamenn við að tollafgreiða ferjuna Norrænu. Fjöldi tollvarða sem annast tollafgreiðsluna veltur á því eins og áður sagði hversu mikið af farþegum, ökutækjum og öðrum varningi er með ferjunni hverju sinni. Í þessu samhengi er þó rétt að líta til þess að sérstök atvik geta valdið því að þörf er á tollvörum með sérhæfingu á ákveðnum sviðum, en þeir tollverðir eru einungis staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þegar það liggur fyrir að umfang tollafgreiðslunnar er ekki mikið og áhættumat lítið eru ekki sendir tollverðir af höfuðborgarsvæðinu til að aðstoða við afgreiðsluna. Sem fyrr segir hefur ferjan komið til Seyðisfjarðar í 43 skipti á þessu ári. Tollverðir af höfuðborgarsvæðinu hafa verið sendir til að aðstoða við tollafgreiðslu ferjunnar í 18 tilvikum af þessum 43. Það er breytilegt eftir aðstæðum hve margir tollverðir frá höfuðborgarsvæðinu hafa farið til aðstoðar í þessum 18 tilvikum – allt frá tveimur tollvörðum upp í sex tollverði þegar mest var.

     4.      Hver er kostnaður þessara tollvarða á árunum 2006–2010, þ.e.
                  a.      flugkostnaður,
                  b.      hótelkostnaður, og
                  c.      annar kostnaður sem ríkið greiðir?

    Þær upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar í svari þessu koma annars vegar úr bókhaldi tollstjóra vegna áranna 2009 og 2010 og úr bókhaldi tollstjórans í Reykjavík vegna áranna 2006 til 2008. Eins og kunnugt er var landið gert að einu tollumdæmi 1. janúar 2009. Það er rétt að hafa þann fyrirvara að við hluta af þessum upplýsingum þurfti að leggja mat á það hvað væri tengt þessu verkefni. Launakostnaður tollvarða er ekki inni í þessum tölum vegna áranna 2006–2010. Hins vegar er kostnaður vegna bílaleigubifreiða inni í tölum um annan kostnað sem ríkið greiðir svo eitthvað sé nefnt. Engu að síður er talið að þessar tölur gefi nokkuð góða mynd af þeim kostnaði sem hlýst af því að senda tollverði af höfuðborgarsvæðinu til að aðstoða við tollafgreiðslu ferjunnar á Seyðisfirði. Að því er varðar launakostnað tollvarða þá má ætla að launakostnaður vegna starfa tollvarða af höfuðborgarsvæðinu á Seyðisfirði muni nema um 2,5 millj. kr. á þessu ári. Ef umræddir tollverðir hefðu ekki verið að störfum á Seyðisfirði hefði þessi launakostnaður verið greiddur vegna annarra starfa þeirra t.d. vegna starfa þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Gróft mat tollstjóra er að á þessu ári muni heildarkostnaður (launakostnaður meðtalinn) vegna ferða tollvarða af höfuðborgarsvæðinu til að aðstoða við tollafgreiðslu ferjunnar á Seyðisfirði nema um 6 millj. kr. Í þessu sambandi má benda á að í dag eru starfandi tveir tollverðir á Seyðisfirði.

A. Flugkostnaður
2006 567.844 kr.
2007 944.136 kr.
2008 1.346.904 kr.
2009 1.060.657 kr.
2010 1.931.022 kr.
B. Hótelkostnaður
2006 472.315 kr.
2007 501.060 kr.
2008 557.250 kr.
2009 731.460 kr.
2010 1.275.870 kr.
C. Annar kostnaður sem ríkið greiðir
2006 205.335 kr.
2007 279.924 kr.
2008 620.449 kr.
2009 307.866 kr.
2010 696.412 kr.