Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 261. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 461  —  261. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um sölu og neyslu áfengis.


     1.      Telur ráðherra mikilvægt að hið opinbera fylgist með þróun á sölu og neyslu áfengis hér á landi?
    Rannsóknir sýna að skaðleg áfengisneysla dregur úr lífsgæðum og getur valdið ótímabærum dauðsföllum og fötlunum. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er áfengi þriðji stærsti áhættuþáttur í heimi hvað varðar sjúkdómabyrði og annar stærsti áhættuþátturinn í Evrópu hvað varðar ótímabær dauðsföll.
    Hætta vegna skaðlegrar neyslu áfengis ræðst af aldri, kyni og öðrum líffræðilegum þáttum neytandans. Þá eru áhrif áfengisneyslu á sjúkdóma og meiðsl einnig að miklu leyti ákvörðuð af nokkrum aðskildum en tengdum þáttum neyslunnar en það er heildarmagn þess áfengis sem neytt er, neyslumynstur og við hvaða aðstæður og í hvaða samhengi áfengis er neytt.
    Á Íslandi blasir sú staðreynd við að heildaráfengisneysla á mann hefur aukist á síðustu þremur áratugum frá því að vera 4,3 lítrar af hreinu alkóhóli á íbúa 15 ára og eldri árið 1980 í 7,53 lítra á íbúa árið 2007 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands um selda áfengislítra á hvern íbúa.
    Vorið 2011 samþykkti ríkisstjórnin stefnu stjórnvalda í áfengismálum og er fyrirhugað að vinna aðgerðaáætlun til að fylgja stefnunni eftir. Eitt af aðalmarkmiðum stefnunnar snýr að stýringu neyslu og því að draga úr heildarneyslu áfengis.
    Í íslenskri heilbrigðisáætlun er markmið sem miðar að því að draga úr áfengisneyslu og við endurskoðun heilbrigðisáætlunar sem nú er unnið að í velferðarráðuneytinu er áfengisneysla og afleiðingar hennar eitt af þeim viðfangsefnum sem sjónum er beint að.
    Þá eru í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum sem lögð var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi dregin fram tengsl áfengisneyslu og ofbeldis og það tjón sem notkun áfengis getur valdið öðrum, en það er nýtt sjónarhorn í áfengisrannsóknum.
    Til að geta fylgt eftir stefnu og aðgerðaráætlunum stjórnvalda í áfengismálum og í ljósi aukningar í áfengisneyslu er nauðsynlegt að hið opinbera haldi áfram að fylgjast með þróun á sölu og neyslu áfengis hér á landi.

     2.      Telur ráðherra að slíkar upplýsingar séu mikilvæg forsenda starfs yfirvalda og annarra sem starfa að forvörnum?
    Þekking á umfangi áfengisneyslu, þ.e. á magni og neyslumynstri, er forsenda starfs yfirvalda og annarra sem starfa að forvörnum. Til að geta á sem bestan hátt unnið að forvörnum tengdum áfengisneyslu er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir þróun mála og geta stuðst við ýmis konar gögn, þ.m.t. upplýsingar um sölu og neyslu áfengis, til að geta metið árangur og gert áætlanir um frekari viðbrögð og aðgerðir.
    Upplýsingar um heildaráfengisneyslu gefa gagnlegar vísbendingar um langtímaþróun neyslunnar en einnig er mikilvægt að skoða neyslumynstur mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa.

     3.      Er rétt að Hagstofan hafi hætt slíkri upplýsingaöflun nýlega?
    Í mörg ár og fram til ársloka árið 2007 birti Hagstofa Íslands árlega tölur um sölu og neyslu áfengis.
    Við eftirgrennslan fyrr á þessu ári greindi hagstofustjóri velferðarráðuneytinu frá því að í kjölfar niðurskurðar á útgjöldum til hagskýrslumála hafi Hagstofa Íslands ákveðið að hætta söfnun upplýsinga um áfengissölu.

     4.      Ef svo er, hver er ástæðan og mun ráðherra beita sér fyrir því að slíkra upplýsinga verði áfram aflað?
    Hagstofustjóri greindi velferðarráðuneytinu frá því að í kjölfar niðurskurðar á fjárheimildum hafi Hagstofa Íslands, líkt og aðrar stofnanir, þurft að fækka starfsfólki og forgangsraða verkefnum. Enn fremur hefur komið fram að Hagstofan hafi ákveðið að hætta söfnun upplýsinga um áfengissölu því ekki séu lagalegar eða alþjóðlegar skuldbindingar sem krefjast þess að það sé gert. Enn er þó í gildi reglugerð sem gerir framleiðendum, innflytjendum og heildsölum áfengis skylt að afhenda Hagstofunni upplýsingar um áfengissölu og framleiðslu ef farið er fram á slíkar upplýsingar.
    Með hliðsjón af framangreindu hefur velferðarráðherra óskað eftir því að fá upplýsingar frá Hagstofunni um umfang þeirrar upplýsingasöfnunar sem hún hefur staðið að varðandi sölu og neyslu áfengis. Síðan mun velferðarráðherra skoða með þar til bærum yfirvöldum hvort koma megi upplýsingasöfnuninni aftur á eða jafnvel hvort koma megi henni við annars staðar í stjórnkerfinu.