Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 154. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 464  —  154. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um virðisaukaskatt
af erlendum blöðum og tímaritum.


     1.      Hversu mikið hefur innheimst af virðisaukaskatti á blöð og tímarit sem send eru í áskrift í pósti frá útlöndum, sbr. reglugerð nr. 336/1993, árlega árin 1993–2010?
    Eftirfarandi tafla sýnir greiddan virðisaukaskatt vegna blaða og tímarita sem send eru í áskrift í pósti frá útlöndum, sbr. reglugerð nr. 336/1993, á árunum 1993–2010. Umbeðnar upplýsingar eru fengnar frá Fjársýslu ríkisins.

Virðisaukaskattur af erlendum
blöðum og tímaritum.

Ár Upphæð
1993 259.082 kr.
1994 1.334.649 kr.
1995 712.009 kr.
1996 791.942 kr.
1997 413.718 kr.
1998 350.309 kr.
1999 424.785 kr.
2000 169.995 kr.
2001 224.996 kr.
2002 203.998 kr.
2003 136.104 kr.
2004 118.505 kr.
2005 104.329 kr.
2006 69.531 kr.
2007 60.800 kr.
2008 72.529 kr.
2009 52.854 kr.
2010 11.724 kr.
Samtals 5.511.859 kr.


     2.      Hversu oft hefur skatturinn verið greiddur á þessu tímabili eftir árum?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda greiðslna, sundurliðaðar á árunum 1993–2010. Umbeðnar upplýsingar eru fengnar frá Fjársýslu ríkisins.


Fjöldi greiðslna
eftir árum.

Ár Fjöldi
1993 1
1994 2
1995 3
1996 10
1997 12
1998 11
1999 12
2000 10
2001 10
2002 12
2003 10
2004 26
2005 38
2006 21
2007 13
2008 9
2009 9
2010 6
Samtals 215

    Reglugerð nr. 336/1993, um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti, var sett þann 20. ágúst 1993. Markmið reglugerðarinnar var að jafna samkeppnisstöðu þeirra aðila sem selja blöð og tímarit í áskrift hér á landi gagnvart erlendum söluaðilum blaða og tímarita, þ.e. í þeim tilfellum þegar aðilar hér á landi keyptu blöð og tímarit beint frá erlendum söluaðilum. Samkvæmt reglugerðinni ber viðtakendum slíkra blaða og tímarita ótilkvöddum að greiða virðisaukaskatt vegna kaupanna hér á landi.
    Sambærilegt fyrirkomulag var viðhaft á kaupum óskattskyldra aðila á rafrænni þjónustu erlendis frá fyrir setningu laga nr. 121/2011, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Fyrir setningu þeirra laga bar innlendum óskattskyldum aðilum að skila virðisaukaskatti vegna kaupa á rafrænni þjónustu erlendis frá. Eftir breytinguna ber hinum erlenda söluaðila rafrænnar þjónustu nú að skila virðisaukaskattinum í ríkissjóð þegar sala á sér stað til óskattskylds aðila hér á landi. Ástæðan fyrir breytingunni var m.a. sú að erfitt var að hafa eftirlit með skilum óskattskyldra aðila á virðisaukaskatti í ríkissjóð.
    Þær tölur sem raktar eru hér að framan sýna að fáir aðilar greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt vegna kaupa á blöðum og tímaritum erlendis frá. Með vísan til þessa telur ráðuneytið rétt að farið verði yfir reglugerðina í samráði við Íslandspóst, tollstjóra og ríkisskattstjóra með það að markmiði að meta hvort eða eftir atvikum að hve miklu leyti breytinga sé þörf á núverandi fyrirkomulagi.