Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 383. máls.

Þingskjal 491  —  383. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla,

nr. 75/1985, með áorðnum breytingum.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Í samræmi við samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms sem undirritað var 13. maí 2011 greiðir ríkissjóður árlegt framlag á árunum 2011, 2012 og 2013 í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að standa straum af kennslukostnaði að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað vegna söngnáms á miðstigi og söng- og hljóðfæranáms á framhaldsstigi.
    Greiðslur sem sveitarfélag fær frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að mæta kostnaði vegna söngnáms á miðstigi og söng- og hljóðfæranáms á framhaldsstigi skulu renna til þeirra tónlistarskóla þar sem nemendur stunda nám óháð lögheimili þeirra.
    Ráðherra sveitarstjórnarmála setur nánari ákvæði um úthlutun framlags skv. 1. mgr. og eftirlit með ráðstöfun þess í reglugerð sem samin er í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

II. KAFLI
Breyting á lögum um námsgögn, nr. 71/2007, með áorðnum breytingum.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Á fjárlagaárunum 2012 og 2013 greiðist framlag skv. 1. mgr. 6. gr. af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga. Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

III. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með áorðnum breytingum.

3. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. skal framlag samkvæmt þeirri málsgrein, á fjárlagaárunum 2012 og 2013, greitt af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga. Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með áorðnum breytingum.

4. gr.

    Í stað 3. og 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögunum kemur nýr töluliður, 3. tölul., sem orðast svo: Framlög ríkis og sveitarfélaga. Á árunum 2012 og 2013 greiðast 50 millj. kr. hvort ár af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga, til verkefnis varasjóðs húsnæðismála skv. 44. gr. Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og samkomulag um varasjóð húsnæðismála frá 23. nóvember 2010 verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

V. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með áorðnum breytingum.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Á árunum 2012 og 2013 greiðir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kostnað sveitarfélaga vegna eftirtalinna verkefna eftir því sem nánar er ákveðið í fylgiskjali með samkomulagi frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga:
     a.      Sumardvalarheimilis í Reykjadal, sbr. fjárlagalið 08-809-1.35.
     b.      Tölvumiðstöðvar fatlaðra, sbr. fjárlagalið 08-809-1.15.
     c.      Vistheimilisins Bjargs, sbr. fjárlagalið 08-809-1.36.
    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir fyrir hönd sveitarfélaga kostnað við uppgjör á uppsöfnuðum og óafgreiddum endurgreiðslubeiðnum sveitarfélaga á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði, sbr. fjárlagalið 09-999-1.20, fyrir árin 2009–2011.
    Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011, um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, verður kostnaður vegna verkefna skv. 1. og 2. mgr. innheimtur af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

VI. KAFLI
Gildistaka.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Frumvarpið byggist á samkomulagi sem undirritað var hinn 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Í samkomulaginu er lagður grundvöllur að eflingu tónlistarnáms með aðkomu ríkissjóðs að kennslukostnaði í tónlistarskólum sem gerir nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi, óháð búsetu. Jafnframt er í samkomulaginu og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þess leitast við að jafna aðstöðumun annarra nemenda til tónlistarnáms óháð búsetu með því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði hluta kennslukostnaðar á móti því sveitarfélagi þar sem nemandi á lögheimili. Á gildistíma samkomulagsins veitir ríkissjóður framlag að fjárhæð 480 millj. kr. á ársgrunni vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Í 2. mgr. 4. gr. samkomulagsins er mælt fyrir um að kveða skuli á um stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í reglugerð sem ráðherra sveitarstjórnarmála gefur út. Jafnframt er kveðið á um að viðræður um framlengingu og endurskoðun samkomulagsins skuli hefjast eigi síðar en 1. júní 2012.
    Framlag ríkissjóðs skal greiðast til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í jöfnum mánaðarlegum greiðslum og nemur það á samningstímanum samtals 1.040 millj. kr. Á móti skuldbinda sveitarfélög sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 millj. kr. á ársgrunni. Heildargreiðslur þeirra verkefna sem sveitarfélögin taka yfir nema 498 millj. kr. yfir samningstímann. Ákveðið var að gert yrði sérstakt samkomulag um verkefnatilfærslu.
    Samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem undirritað var 5. október 2011, verða meðal annars eftirfarandi lögákveðin verkefni færð frá ríki til sveitarfélaga á gildistíma samkomulagsins:
     1.      Fjármögnun endurmenntunarsjóðs grunnskóla, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.
     2.      Fjármögnun og rekstur námsgagnasjóðs, sbr. 6. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007.
     3.      Fjármögnun varasjóðs húsnæðismála, sbr. samkomulag frá 23. nóvember 2010.
    Eins og fram er komið er frumvarp þetta lagt fram á haustþingi 2011 (140. löggjafarþingi) vegna nauðsynlegra lagabreytinga á ýmsum lögum vegna tímabundinnar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga í kjölfar samkomulags um eflingu tónlistarnáms. Í samkomulaginu segir að framlag ríkisins vegna tónlistarfræðslu fyrir haustönn 2011 sé ekki háð því að slíkar lagabreytingar hafi tekið gildi. Í 2.–4. gr. frumvarpsins er kveðið á um tímabundna fjármögnun ofangreindra verkefna með því að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.
    Önnur verkefni sem sveitarfélögin taka tímabundið yfir fjármögnun á kalla ekki á sérlög en í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði kostnað við þau verkefni fyrir hönd sveitarfélaga en innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutuðum framlögum til sveitarfélaga. Um er ræða eftirtalin verkefni:
     *      Sumardvalarheimili í Reykjadal, sbr. fjárlagalið 08-809-1.35.
     *      Tölvumiðstöð fatlaðra, sbr. fjárlagalið 08-809-1.15.
     *      Vistheimilið Bjarg, sbr. fjárlagalið 08-809-1.36.
     *      Uppgjör á uppsöfnuðum og óafgreiddum endurgreiðslubeiðnum sveitarfélaga á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði, sbr. fjárlagalið nr. 09-999-1.20.
    Jafnframt er kveðið á um það í samkomulaginu að frá og með árinu 2012 verði endurgreiðslufyrirkomulagi virðisaukaskatts af slökkvibúnaði breytt og að endurgreiðslubeiðnir verði framvegis afgreiddar með sama hætti og beiðnir björgunarsveita. Fjármálaráðherra mun á grundvelli samkomulagsins breyta reglugerð um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, nr. 248/1990, til samræmis við samkomulagið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Vegna þess umsýsluhlutverks sem Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er ætlað að sinna, samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 13. maí 2011 og samkomulagi um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011, er talið nauðsynlegt að veitt verði sú lagastoð sem felst í 1. gr. frumvarpsins. Ákvæðið mælir fyrir um heimild ráðherra sveitarstjórnarmála, í lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, til að setja reglugerð um úthlutun framlags ríkisins til tónlistarskóla og eftirlit með ráðstöfun þess.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er tekið fram að reglugerðin verði samin í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ákvæðið felur í sér skýra lagastoð fyrir reglur sem innanríkisráðuneytið gaf út 30. ágúst 2011 um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda og frekari stjórnvaldsfyrirmælum sem settar kunna að verða á grundvelli samkomulagsins.

Um 2. gr.

    Í greininni lögð til breyting á lögum um námsgögn, nr. 71/2007, í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um verkefnatilfærslu, um að fjármögnun námsgagnasjóðs færist tímabundið á gildistíma samkomulagsins frá ríkissjóði til sveitarfélaga. Umsýsla sjóðsins hefur fram til þessa verið hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hafa starfsmenn ráðuneytisins annast meðferð umsókna fyrir hönd stjórnar sjóðsins. Gert er ráð fyrir því að stjórn sjóðsins verði óbreytt en að umsýsla færist nú til Sambands íslenskra sveitarfélaga, samhliða því að ábyrgð á fjármögnun sjóðsins færist til sveitarfélaga á gildistíma samkomulags um breytta verkaskiptingu.
    Ef niðurstaða viðræðna ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun samkomulagsins verður að framlengja samkomulagið má búast við því að tilefni verði til að festa þessa lagabreytingu varanlega í sessi en þar sem samkomulag er aðeins til rúmlega tveggja ára þykir eðlilegast að leggja til að um verði að ræða bráðabirgðaákvæði við lögin um námsgögn.
    Í 2. málsl. ákvæðisins er lagt til að framlög sveitarfélaga til námsgagnasjóðs verði innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári. Sömu aðferð hefur verið beitt um árabil í hliðstæðum tilvikum, m.a. vegna framlaga sveitarfélaga til varasjóðs húsnæðismála. Lagabreytingin hefur því engin áhrif á útreikning jöfnunarframlaga sjóðsins heldur er einungis um að ræða innheimtu af úthlutuðum framlögum í hlutfalli við íbúafjölda þeirra.

Um 3. gr.

    Lagt er til að við ákvæði til bráðabirgða II í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, bætist ný málsgrein þar sem kveðið er á um að fjármögnun á endurmenntunarsjóði grunnskóla færist tímabundið á gildistíma samkomulagsins til sveitarfélaga. Umsýsla sjóðsins er nú þegar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en með þeirri breytingu sem hér er lögð til flyst ábyrgð á fjármögnun hans einnig til sveitarfélaga, á gildistíma samkomulags um breytta verkaskiptingu. Að öðru leyti vísast til skýringa við 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, er kveðið á um fjármögnun varasjóðs húsnæðismála. Sjóðurinn gegnir meðal annars því mikilvæga hlutverki að létta á fjárhagslegum byrðum sveitarfélaga vegna rekstrar og sölu á félagslegu íbúðarhúsnæði. Ríki og sveitarfélög hafa árlega veitt 50 millj. kr. til sjóðsins á grundvelli sérstaks samkomulags þar um. Síðasta samkomulag um þetta verkefni var undirritað 23. nóvember 2010 og gildir það fyrir árin 2010 og 2011.
    Í 2. gr. samkomulags um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011 er kveðið á um að samkomulagið frá 23. nóvember 2010 sé framlengt um tvö ár og þannig að „á því tímabili komi áfram 20 m.kr. frá sveitarfélögum eins og verið hefur“. Þetta orðalag í samkomulaginu er raunar ekki nógu skýrt þar sem sameiginlegur skilningur ríkis og sveitarfélaga er að á grundvelli samkomulagsins greiði sveitarfélögin samtals 50 millj. kr. í varasjóðinn, þ.e. 30 millj. kr. framlag sem ríkið hefur greitt til þessa auk þeirra 20 millj. kr. sem sveitarfélögin hafa greitt á grundvelli samkomulagsins. Í 4. gr. frumvarpsins er tekinn af allur vafi um þetta atriði en þar segir að á árunum 2012 og 2013 greiðast 50 millj. kr. hvort ár af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, f.h. sveitarfélaga, til verkefnis varasjóðs húsnæðismála skv. 44. gr. Í samræmi við samkomulag frá 5. október 2011 um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og samkomulag um varasjóð húsnæðismála frá 23. nóvember 2010, verður framlagið innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

Um 5. gr.

    Eins og lýst er í almennum athugasemdum með frumvarpinu er í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011 kveðið á um tímabundna tilfærslu fjögurra verkefna frá ríki til sveitarfélaga sem ekki kalla á breytingar á sérlögum. Rétt þykir hins vegar að leggja til að við lög um tekjustofna sveitarfélaga verði bætt bráðabirgðaákvæði til að kveða á um fjármögnun þeirra verkefna í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Um er að ræða eftirfarandi verkefni:
     *      Sumardvalarheimili í Reykjadal, sbr. fjárlagalið 08-809-1.35.
     *      Tölvumiðstöð fatlaðra, sbr. fjárlagalið 08-809-1.15.
     *      Vistheimilið Bjarg, sbr. fjárlagalið 08-809-1.36.
     *      Uppgjör á uppsöfnuðum og óafgreiddum endurgreiðslubeiðnum sveitarfélaga á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði, sbr. fjárlagalið 09-999-1.20.
    Þrjú þeirra verkefna sem hér um ræðir tengjast samkomulagi sem tók gildi 1. janúar 2011 um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga en af ýmsum ástæðum voru þessi verkefni þá undanskilin við gerð heildarsamkomulags um þá verkefnatilfærslu. Gengið er út frá því að fjárhæðir til ofangreindra verkefna verði í samræmi við fylgiskjal með umræddu samkomulagi frá 5. október 2011 og að Jöfnunarsjóður innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Mennta- og menningarmálaráðuneyti:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna
samkomulags ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms.

    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að lögfesta breytingar sem leiðir af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms og samkomulagi sömu aðila frá 5. október um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í tengslum við fyrrgreint samkomulag. Bæði samkomulögin gilda frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013 en gert er ráð fyrir því að viðræður um endurskoðun þeirra hefjist fyrir 1. júní 2012.
    Á gildistíma samkomulags frá 13. maí 2011 veitir ríkissjóður framlag að fjárhæð 480 m.kr. á ársgrunni vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Í samkomulaginu er lagður grundvöllur að eflingu tónlistarnáms með aðkomu ríkissjóðs að kennslukostnaði í tónlistarskólum sem gerir nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi, óháð búsetu. Jafnframt er í samkomulaginu og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þess leitast við að jafna aðstöðumun annarra nemenda til tónlistarnáms óháð búsetu með því að Jöfnunarsjóður greiði hluta kennslukostnaðar á móti sveitarfélagi þar sem nemandi á lögheimili. Framlag ríkissjóðs skal greiðast til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í jöfnum mánaðarlegum greiðslum og nemur það á samningstímanum samtals 1.040 m.kr.
    Á móti skuldbinda sveitarfélög sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr. á ársgrundvelli, sbr. samkomulag frá 5. október 2011. Heildargreiðslur til þeirra verkefna sem sveitarfélögin taka yfir nema 498 m.kr. yfir samningstímann eins og lýst er í fylgiskjali með samkomulaginu. Fylgiskjalið byggist m.a. á þeim forsendum að um er að ræða áætlanir sem byggjast á rekstrargrunni fjárlaga 2011 og að fjárhæðir til tiltekinna rekstrarverkefna á sviði málefna fatlaðra taki verðlagsbreytingum í samræmi við verðlagsbreytingar í fjárlögum.
    Á grundvelli samkomulagsins frá 5. október 2011 færast eftirfarandi lögákveðin verkefni frá ríki til sveitarfélaga á gildistíma samkomulagsins:
     1.      Fjármögnun Endurmenntunarsjóðs grunnskóla, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.
     2.      Fjármögnun og rekstur Námsgagnasjóðs, sbr. 6. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007.
     3.      Fjármögnun Varasjóðs húsnæðismála, sbr. samkomulag frá 23. nóvember 2010.
    Í frumvarpinu er í 2.–4. gr. kveðið á um tímabundna fjármögnun framangreindra verkefna með því að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.
    Önnur verkefni sem sveitarfélögin taka tímabundið yfir fjármögnun á kalla ekki á breytingar á sérlögum en í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði kostnað við þau verkefni fyrir hönd sveitarfélaga en innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutuðum framlögum til sveitarfélaga. Um er að ræða eftirfarandi verkefni:
     1.      Sumardvalarheimili í Reykjadal, sbr. fjárlagalið 08-809-1.35.
     2.      Tölvumiðstöð fatlaðra, sbr. fjárlagalið 08-809-1.15.
     3.      Vistheimilið Bjarg, sbr. fjárlagalið 08-809-1.36.
     4.      Uppgjör á uppsöfnuðum og óafgreiddum endurgreiðslubeiðnum sveitarfélaga á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði, sbr. fjárlagalið nr. 09-999-1.20.
    Jafnframt er kveðið á um það í samkomulaginu frá 5. október 2011 að frá og með árinu 2012 verði endurgreiðslufyrirkomulagi virðisaukaskatts af slökkvibúnaði breytt og að endurgreiðslubeiðnir verði framvegis afgreiddar með sama hætti og beiðnir björgunarsveita. Fjármálaráðherra mun á grundvelli samkomulagsins breyta reglugerð um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, nr. 248/1990, til samræmis við samkomulagið.
    Samkvæmt útreikningum sem byggt var á við gerð samkomulagsins frá 13. maí 2011 var gert ráð fyrir að þær 480 m.kr. sem ríkissjóður greiðir sveitarfélögum á grundvelli samkomulagsins mundu nægja til þess að standa undir greiðslu kennslukostnaðar á framhaldsstigi í söng og hljóðfæraleik og miðstigi í söng. Var við útreikningana miðað við að fjöldi nemenda í tónlistarskólum á skólaárinu 2009–2010 á umræddum námsstigum yrði sem næst óbreyttur og að ákveðin yrði viðmiðunarfjárhæð sem næmi áætluðum meðalkennslukostnaði á hvern nemanda og yrði hún greidd til sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Skráðir nemendur voru þá 711. Nú liggur hins vegar fyrir að nemendur á yfirstandandi skólaári eru umtalsvert fleiri eða 822. Vegna þessa hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga neyðst til þess að lækka viðmiðunarfjárhæðina umtalsvert. Af hálfu sveitarfélaga er bent á að þar sem framlag ríkisins taki ekki verðlagsbreytingum og sé óháð breytingum á kennslukostnaði er leiðir af gerð kjarasamninga megi vænta þess að framlagið muni enn síður standa undir kennslukostnaði á næsta skólaári miðað við óbreyttan nemendafjölda. Sveitarfélögin benda á að ekki sé ljóst á þessu stigi hvort teknar verða upp formlegar viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun samkomulagsins til að bregðast við þessum breyttu forsendum fyrir 1. júní nk.
    Miðað við forsendur samkomulagsins var gert ráð fyrir að heildarniðurstaða væri sveitarfélögunum hagstæð um 250 m.kr. á ársgrundvelli, þ.e. að á móti þeim 480 m.kr. sem ríkið greiðir til tónlistarkennslu sé verðmæti þeirra verkefna sem sveitarfélögin taka að sér 230 m.kr. á ársgrundvelli. Nánari sundurliðun fjárhæða vegna fyrrgreindra verkefna kemur fram í fylgiskjali með samkomulaginu sem telst hluti þess.
    Eins og áður segir nemur heildarframlag ríkissjóðs á samningstímanum samtals 1.040 m.kr. Á móti skuldbinda sveitarfélög sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr. á ársgrunni. Heildargreiðslur vegna þeirra verkefna sem sveitarfélögin taka yfir nema 498 m.kr. yfir samningstímann og skiptast þannig að árið 2011 greiðast 108 m.kr., árið 2012 193,8 m.kr. og 2013 196,4 m.kr. Eins og áður segir mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimta þessar greiðslur af úthlutuðum framlögum úr sjóðnum í hlutfalli við íbúatölu. Útgjöld sveitarfélaga verða því í beinu hlutfalli við íbúafjölda þeirra.




Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum vegna samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kjölfar samkomulags um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.
    Forsögu þessa máls má rekja til ársins 2003 þegar Reykjavíkurborg ákvað að greiða eingöngu kennslukostnað við tónlistarnám fyrir þá nemendur sem ættu lögheimili í Reykjavík. Árið 2009 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um að teknar yrðu upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi fjárhagslegan stuðning við tónlistarnám.
    Þann 13. maí 2011 var undirritað samkomulag á milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðu nemenda til tónlistarnáms. Með samkomulaginu er lagður grundvöllur að eflingu tónlistarnáms með aðkomu ríkissjóðs að kennslukostnaði við námið. Nemendum er gert kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi óháð búsetu og jafnað er aðgengi annarra nemenda að tónlistarnámi óháð búsetu. Ríkissjóður greiðir samkvæmt samkomulaginu 480 m.kr. vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum á hverju skólaári.
    Í kjölfar framangreinds samkomulags undirrituðu fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Samband íslenskra sveitarfélaga samkomulag um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga 5. október 2011. Gildistími samkomulagsins er frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013. Í samkomulaginu kemur fram að ríkissjóður greiðir á ársgrundvelli 480 m.kr. vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum, eða samtals 1.040 m.kr. á samningstímanum. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríkinu sem nemur 230 m.kr. á ársgrundvelli, samtals 498 m.kr. á samningstímanum.
    Verkefni sem sveitarfélögin taka yfir frá ríkinu á gildistíma samkomulagsins eru eftirfarandi: Fjármögnun endurmenntunarsjóðs grunnskóla og varasjóðs húsnæðismála og fjármögnun og rekstur námsgagnasjóðs. Gert er ráð fyrir að útgjöld til fyrrgreindra verkefna skiptist jafnt milli sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda og að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði falið að standa skil á greiðslum sveitarfélaga með því að draga kostnað hvers sveitarfélags frá framlögum sjóðsins.
    Auk þess er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður geri þjónustusamning við rekstraraðila vegna eftirfarandi verkefna: Sumardvalarheimilis í Reykjadal, Tölvumiðstöðvar fatlaðra og Vistheimilisins Bjargs. Gert er ráð fyrir því að útgjöld vegna þessara verkefna skiptist jafnt á milli sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda, nema komist sé að annarri niðurstöðu í samskiptum aðila. Að auki eru aðilar sammála um að árinu 2011 fari fram uppgjör á uppsöfnuðum óafgreiddum endurgreiðslubeiðnum á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði sem sveitarfélögin höfðu sent inn fyrir árslok 2010.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til eftirfarandi breytingar: Í fyrsta lagi bætist við 1. gr. laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, ákvæði til bráðabirgða þar sem fram kemur m.a. að ríkisstjórnin greiðir árlegt framlag samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi frá 13. maí 2011 á árunum 2011, 2012 og 2013. Framlagið verður greitt í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að standa straum af kennslukostnaði að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað vegna miðnáms í söng og framhaldsnáms í söng og hljóðfæraleik.
    Í öðru lagi bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um námsgögn, nr. 71/2007. Í ákvæðinu kemur fram að framlag það sem greiðist úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011 verður á fjárlagaárunum 2012 og 2013 dregið af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða II í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008. Lagt er til að fjármögnun á námsleyfissjóði grunnskólakennara færist tímabundið á gildistíma fyrrnefnds samkomulags frá 5. október 2011 til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ábyrgð á fjármögnun sjóðsins flyst með þessu móti til sveitarfélaga á gildistímanum. Lagabreytingin hefur engin áhrif á útreikning jöfnunarframlaga sjóðsins heldur er einungis um að ræða skerðingu á úthlutuðum framlögum í hlutfalli við íbúafjölda.
    Í fjórða lagi kemur nýr töluliður, 3. tölul., í stað gildandi 3. og 4. tölul., við ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Samkvæmt nýja töluliðnum greiðast úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 50 m.kr. á árinu 2012 og 50 m.kr. á árinu 2013 til verkefnisins varasjóður húsnæðismála. Verður framlagið dregið af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á næstliðnu ári samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011. Ríki og sveitarfélög hafa sl. ár veitt 50 m.kr. til sjóðsins. Með fjármögnun varasjóðs húsnæðismála er samkomulag aðila frá 23. nóvember 2010 framlengt um tvö ár þannig að á því tímabili koma áfram 20 m.kr. frá sveitarfélögum eins og verið hefur.
    Í fimmta lagi eru aðilar sammála um að á árinu 2011 fari fram uppgjör á uppsöfnuðum óafgreiddum endurgreiðslubeiðnum á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði sem sveitarfélög höfðu sett inn fyrir árslok 2010. Uppgjör vegna virðisaukaskatts vegna slökkvibúnaðar er talið verða um 54 m.kr. Lögin öðlast þegar gildi.
    Ríkissjóður veitir á gildistíma fyrrnefndra samkomulaga framlag að fjárhæð 480 m.kr. á ársgrunni vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum, eða samtals 1.040 m.kr. á tímabilinu. Sveitarfélögin skuldbinda sig til að taka tímabundið yfir verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr. á ársgrunni, samtals 498 m.kr. á samningstímanum. Allar áætlanir um kostnað byggjast á rekstrargrunni fjárlaga 2011.
    Verði frumvarp þetta að lögum má því búast við að nettóútgjöld ríkisins aukist á tímabilinu, þ.e. frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013, um u.þ.b. 588 m.kr. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 hefur þegar verið gert ráð fyrir 480 m.kr. framlagi ríkisins á næsta ári og á móti að niður falli framlög sem samtals nema um 190 m.kr. vegna verkefna sem færast í umsjá sveitarfélaga. Auk þess taka sveitarfélögin yfir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði sem uppsafnað er um 54 m.kr. en ríkið hefur á yfirstandandi ári veitt 27,3 m.kr. í þetta verkefni.