Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 500  —  281. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar um opinber innkaup
og verndaða vinnustaði.


     1.      Hversu oft hefur heimildarákvæði 18. gr. laga um opinber innkaup, nr. 84/2007, verið nýtt, en þar er kveðið á um heimild til þess að takmarka rétt til þátttöku í útboði við verndaða vinnustaði fatlaðs fólks?
    
Ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, er svohljóðandi: „Heimilt er að takmarka rétt til þátttöku í útboði við verndaða vinnustaði eða miða samning við að framkvæmd hans fari fram samkvæmt áætlun um verndaða vinnustaði þar sem flestir starfsmenn eru fatlaðir þannig að þeir geta ekki sinnt starfi á venjulegum vinnumarkaði vegna starfsorkuskerðingar.“
    Þetta ákvæði heimilar aðilum sem annast innkaup fyrir hið opinbera að afmarka útboðsferli við ákveðna hópa sem fullnægja skilyrðum um verndaða vinnustaði. Þetta ákvæði veitir þó ekki heimild til að víkja alfarið frá innkaupareglum heldur gerir ráð fyrir því að þátttaka í einhverju því innkaupaferli sem lögin kveða á um sé takmörkuð við verndaða vinnustaði eða þá að samningur miðist við að framkvæmd hans fari fram í samræmi við áætlanir um verndaða vinnustaði.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort eða í hversu miklum mæli framangreind heimild hefur verið nýtt í útboðsgögnum frá setningu laganna árið 2007.

     2.      Stendur til að nýta ákvæðið frekar? Ef ekki, hvers vegna?
    Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði geta einstakir aðilar sem annast innkaup fyrir ríkið nýtt heimildina við útboð samkvæmt lögum um opinber innkaup. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að tekin hafi verið ákvörðun um beitingu heimildarinnar af framangreindum aðilum.
    Fjármálaráðuneytið er að hefja vinnu við endurskoðun á innkaupastefnu ríkisins. Í þeirri vinnu verður hugað að ýmsum þáttum sem varða stefnumörkun, markmið og umgjörð við opinber innkaup. Við endurskoðunina koma m.a. til skoðunar áherslur varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki, umhverfismál og þau félagslegu sjónarmið sem tengjast umræddri 18. gr. laganna.