Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 518  —  389. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgang almennings að hljóðupptökum Blindrabókasafns Íslands.

Flm.: Helgi Hjörvar.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að leita leiða til að opna almenningi aðgang að hljóðupptökum Blindrabókasafns Íslands. Í því skyni falist ráðherra m.a. eftir samningaviðræðum við Rithöfundasamband Íslands um dreifingu hljóðbóka og réttmætt endurgjald höfundaréttarhafa.

Greinargerð.

    Hljóðbækur Blindrabókasafns Íslands eru mikill fjársjóður. Safnið býður lánþegum sínum aðgang að um það bil sjö þúsund titlum og eru útlán á hverju ári kringum eitt hundrað og sjötíu þúsund. Um safnið segir á vefsíðu Blindrabókasafnsins:
    „Blindrabókasafnið er ríkisstofnun og er bundið lögum … hlutverk safnsins er að sjá blindum, sjónskertum, lesblindum og öðrum þeim, sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt, fyrir alhliða bókasafnsþjónustu. Eins kveða höfundalög á um að „heimil sé eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lesblinda eða aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál.“ Þetta er í raun grunnurinn að því að safnið getur framleitt svo mikið af hljóðbókum og raun ber vitni, vegna þess að þær eru aðeins ætlaðar þessum hópi. Framleiðsla fyrir almennan markað fylgir mun flóknari lögmálum.“
    Um framleiðslu efnis og hverjir geta verið lánþegar Blindrabókasafnsins gilda skýrar takmarkanir, sbr. ákvæði í samningi menntamálaráðuneytisins og Rithöfundasambandsins: „Hljóðupptökur sem framleiddar eru samkvæmt samningi þessum eru til afnota fyrir blinda, sjónskerta, lestrarhamlaða eða aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál. Forsenda fyrir aðgangi að þessu efni er að notandinn sé skráður sem slíkur hjá Blindrabókasafni Íslands. Útlán slíkra hljóðupptaka til annarra eru óheimil.“

Samningar við rétthafa.
    Eins og gefur að skilja er ekki unnt að veita almenningi aðgang að hinum mikla safnkosti Blindrabókasafnsins nema fyrst sé gengið frá samningum við handhafa höfundaréttar. Það kæmi til kasta mennta- og menningarmálaráðuneytisins að leita eftir samningum við Rithöfundasamband Íslands. En um leið þarf að huga að samkeppnissjónarmiðum. Blindrabókasafnið hefur megintekjur sínar af fjárlögum en einnig er til Styrktarsjóður Blindrabókasafns Íslands sem er ætlaður fyrir frjáls framlög einstaklinga og félaga til styrktar starfsemi safnsins. Sjóðurinn gegnir því hlutverki að stuðla að framförum í starfsemi safnsins og sjóðsstjórn úthlutar úr honum fjárveitingum. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Framleiðendur hljóðbóka eða rafbóka á samkeppnismarkaði hljóta að hafa sitthvað um það að segja ef „ríkisútgáfa“ setur í einu vetfangi gríðarlegt magn af stafrænu efni á almennan markað.
Útlán á netinu.
    Almenningsbókasöfn eru smám saman að feta sig í átt að því að bjóða upp „streymi“ hljóðbóka eða niðurhal bóka og með síaukinni útgáfu rafbóka og mjög almennri tölvueign er þess ekki langt að bíða að það útlánaform, þ.e. streymi eða niðurhal, verði ekki síður algengt en hefðbundin útlán. Mætti hugsa sér að útlán til almennings á safnkosti Blindrabókasafnsins yrðu bundin við þessi nýju útlánaform, þ.e. útlán á netinu.

Allra hagur.
    Á því er enginn vafi að það getur orðið mörgum til hagsbóta að opna almenningi aðgang að safnkosti Blindrabókasafnsins. Þannig fengju handhafar höfundaréttar nokkrar tekjur af útlánum en síst má þó gleyma hag allra þeirra nýju notenda sem mundu eiga völ á stórauknu úrvali hljóðbóka.



Fylgiskjal.


SAMNINGUR
um eintakagerð fyrir blinda, sjónskerta og lestrarhamlaða
byggt á 19. gr. höfundalaga nr. 73/1972 með áorðnum breytingum

(Tekið af vef Blindrabókasafns Íslands.)



1. gr.
Almenn ákvæði

1.1 Aðilar samningsins:
Samningur þessi er gerður af menntamálaráðuneyti f.h. Blindrabókasafns Íslands og Rithöfundasambandi Íslands.

2. gr.
Viðfangsefni samningsins og umfang

2.1 Viðfangsefni:
Samningur þessi kveður á um rétt Blindrabókasafns Íslands til gerðar hljóðupptaka á ritverkum á íslensku og til dreifingar í samræmi við höfundalög, reglugerðir sem settar eru með stoð í höfundalögum og í samræmi við ákvæði þessa samnings.

2.2 Notendur:
Hljóðupptökur sem framleiddar eru samkvæmt samningi þessum eru til afnota fyrir blinda, sjónskerta, lestrarhamlaða eða aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál. Forsenda fyrir aðgangi að þessu efni er að notandinn sé skráður sem slíkur hjá Blindrabókasafni Íslands. Útlán slíkra hljóðupptaka til annarra eru óheimil.

2.3 Stafræn framleiðsla:
Hljóðupptökur sem gerðar eru samkvæmt samningi þessum má framleiða og geyma á stafrænu formi. Á grundvelli hinnar stafrænu gerðar má framleiða eintök af upptökunum í ólíkum gerðum og fyrir mismunandi afspilunartækni eftir því sem hentar þörfum og aðstæðum notenda sem skilgreindir eru í 2.2.

3. gr.
Öryggisákvæði, dreifing o.fl.

3.1. Dreifing:
Einstakar hljóðupptökur sem framleiddar eru á grundvelli höfundalaga og þessa samnings má afrita og dreifa með áþreifanlegum hætti (t.d. á geisladiskum og dvd-diskum) og lána endurgjaldslaust. Einnig má bjóða notendum endurgjaldslausan aðgang að eintaki af upptökum á netinu (t.d. með niðurhali). Notendum er frjálst að nota eigin spilunarbúnað og að gera afrit til eigin nota af eintakinu sem þeir hafa fengið að láni, svo framarlega sem afritin eru eyðilögð við lok útlánstímans.

3.2. Upplýsingaskylda framleiðanda:
Framleiðanda ber að upplýsa notendur um að lánaðar upptökur séu aðeins til einkanota og að þeim megi ekki undir nokkrum kringumstæðum dreifa áfram. Með sama hætti ber framleiðandanum að upplýsa notendur um að þeim beri að eyða eða skila öllum eintökum af upptökum eftir því sem við á. Blindrabókasafn Íslands skuldbindur sig til að sjá til þess að öll eintök sem framleidd eru á grundvelli þessa samnings séu merkt með eftirfarandi texta fremst í eintakinu: „Þessi útgáfa er framleidd …. [ártal fært inn] í samræmi við ákvæði höfundarlaga og samning menntamálaráðuneytis og Rithöfundasambands Íslands. Útgáfan er eign Blindrabókasafns Íslands og má ekki afrita án leyfis. Útgáfan er ein­göngu ætluð til útlána til lánþega safnsins og henni má ekki dreifa til annarra.“

4. gr.
Skyldur og réttindi

4.1.Merking eintaka:
Þegar hljóðupptökur eru gerðar skal höfundar, titils og upphaflegs útgefanda getið á hverju eintaki, sem og framleiðsluárs og framleiðanda. Að öðru leyti gildaákvæði höfundarlaga um merkingar eintaka.

4.2. Tilkynningar:
Blindrabókasafn Íslands skal birta á vef sínum www.bbi.is lista yfir þær hljóðupptökur sem framleiddar eru ár hvert auk lista yfir allar hljóðupptökur sem það hefur til útlána.

5. gr.
Gjaldskrá og greiðslur

Fyrir framleiðslu hljóðupptaka á grundvelli samnings þessa og höfundalaga á höfundur rétt á sanngjörnum greiðslum bóta.

5.1 Gjaldskrá:
Greiðslur skulu miðast við hvern titil, án tillits til þess hversu mörg eintök eru framleidd af upptökunum:
a)     Blindrabókasafn Íslands skal greiða kr. 17.000 pr. titil fyrir ritverk sem eru frumsamin á íslensku, en fyrir þýdd ritverk greiðist helmingur taxtans.
b)     Auk þess skal Blindrabókasafn Íslands árlega greiða í eingreiðslu gjald að upphæð 1,3 m.kr. vegna almennra afnota á rétti höfunda vegna eigin verka og afnota á vegum Blindrabókasafnsins á ofangreindum hljóðupptökum.

5.2. Greiðslur:
Greiðslur samkvæmt 5.1 a) skulu reiknaðar ársfjórðungslega:
1. febrúar, 1. maí, 1, ágúst og 1. nóvember.
Greiðslur samkvæmt 5.1 b) skulu greiddar fyrir 31. mars ár hvert,

5.3 Viðmiðun gjaldskrár:
Allar upphæðir í samningi þessum skulu reiknaðir 1. janúar árlega út breytingum á launavísitölu.

6. gr.
Framkvæmd samnings

6.1 Viðtakandi greiðslna:
Allar greiðslur samkvæmt samningi þessum skulu inntar af hendi til Rithöfundasambands Íslands sem annast meðferð tekna og dreifingu til eigenda höfundaréttar óháð félagsaðild, að frádregnum kostnaði samkvæmt góðum reikningsskilavenjum. Samkomulag er milli Rithöfundasambands Íslands og Hagþenkis um skil á greiðslum skv. 5. gr. samnings þessa til félaga í Hagþenki.

6.2 Trúnaðarmaður:
Trúnaðarmanni sem Blindrabókasafn Íslands og Rithöfundasamband Íslands velja sam­eigin­lega er heimilt að fylgjast með framleiðslu og útlánum á hljóðútgáfum og hefur aðgang að gögnum Blindrabókasafns Íslands þar að lútandi. Trúnaðarmaðurinn er bundinn þagnarskyldu um það sem hann verður áskynja í starfi sínu og varðar persónulega hagi lánþega safnsins.

7. gr.
Lausn ágreiningsmála.

Ágreining vegna samnings þessa skal leysa með málamiðlun. Þegar ekki tekst að leysa mál með þeim hætti skal ágreiningur borinn undir héraðsdóm Reykjavíkur.

8. gr.
Gildistími

Samningur þessi gildir til ársloka 2010 og framlengist um eitt ár í senn, nema honum sé sagt upp skriflega með þriggja mánaða fyrirvara.

9. gr.
Undirritun

Samningur þessi er gerður í þremur eintökum og heldur hvor samningsaðili einu eintaki og fjármálaráðherra einu.


Reykjavík, ……………. 2009.




F. h. menntamálaráðuneytis          F.h. Rithöfundasambands Íslands

_____________________________     _______________________________




Staðfest f.h. fjármálaráðuneytis

_____________________________