Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 649  —  335. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar
um námaveg á Hamragarðaheiði.


     1.      Hver er stefna ráðherra varðandi veg í námu á Hamragarðaheiði sem var notuð við gerð Landeyjahafnar en nýtist nú við fyrirhleðslur í ám eftir eldgosið í Eyjafjallajökli? Er ætlunin að eyða fjármunum í að mjókka veginn með öllu því jarðraski sem slíku fylgir?
    Námuvegurinn verður á forræði Rangárþings eystra. Vegurinn hefur þegar verið mjókkaður í samræmi við umhverfismat og samning við verktaka. Það tók verktaka innan við viku að færa veginn í það horf sem umhverfismatið og skipulag gerði ráð fyrir.

     2.      Er unnið að málinu í samráði við Landgræðslu ríkisins og sveitarfélagið Rangárþing eystra?
    Unnið var að málinu í samræmi við umhverfismat og skipulag á svæðinu. Í skipulagi var ekki gert ráð fyrir 13 m breiðum vegi upp í námuna. Slík framkvæmd hefði jafnvel þurft að fara í sérstakt umhverfismat. Að halda við vegi sem er 13 m breiður er mun erfiðara en að halda við vegi sem er 6–8 m breiður og því ætti slíkur vegur að vera hentugri fyrir þær fyrirhleðslur sem vinna þarf að.
    Landgræðsla ríkisins, sveitarfélagið Rangárþing eystra og fleiri aðilar höfðu sýnt áhuga á að vegurinn yrði áfram í þeirri mynd sem hann var við gerð hafnarinnar í Landeyjum. Siglingastofnun taldi sig hins vegar bundna af þeim skilyrðum sem Skipulagsstofnun hafði sett fyrir því að framkvæmdir yrðu heimilaðar. Þrenging vegarins var eingöngu hluti af verki þessa tiltekna verktaka. Þrengingin var eini verkþátturinn sem eftir var til að hægt væri að ljúka uppgjöri við hann. Upphaflega var gert ráð fyrir að síðasti spölur vegarins að námunni yrði fjarlægður með öllu en fallið frá því þar sem erfitt yrði þá að nota efni úr námunni til fyrirhleðslna.