Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 464. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 710  —  464. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um griðasvæði hvala í Faxaflóa.

Flm.: Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Árni Þór Sigurðsson.


    Alþingi ályktar að griðasvæði hvala í Faxaflóa verði stækkað, frá Eldey í suðri að ysta odda Snæfellsness í norðri, og enn fremur tryggt griðasvæði hvala fyrir Norðurlandi þar sem hvalaskoðun hefur verið vaxandi atvinnugrein. Enn fremur felur Alþingi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að setja heildstæðar reglur um framkvæmd og skipulag hvalaskoðunar.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur hvalaskoðun orðið að æ mikilvægari grein innan ferðamennskunnar. Nýlega sendu Hvalaskoðunarsamtök Íslands frá sér ályktun þar sem þau vöktu athygli á því „að yfir 70.000 ferðamenn fara á þessu ári í hvalaskoðun frá Reykjavík og um 60.000 frá Norðurlandi“. Þannig er hvalaskoðun orðin ein mikilvægasta grein ferðaþjónustu hér á landi. Um leið vöruðu samtökin við því að haldi hrefnuveiðar á Faxaflóa áfram eins og undanfarin ár sé hætta á því að hvalaskoðun muni leggjast þar af og við slíkri þróun verði að sporna. Samtök ferðaþjónustunnar hafa tekið undir þessi sjónarmið í sérstakri ályktun til menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar þar sem þetta mál er nú til umræðu.
    Í þessu ljósi virðist ljóst að verið sé að fórna miklum hagsmunum fyrir litla með veiðum á helstu skoðunarslóðum. Vegna augljóss mikilvægis hvalaskoðunar í ferðaþjónustu er því hér lagt til að Alþingi feli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að stækka griðasvæði hvala í Faxaflóa, og nái frá Eldey í suðri að ysta odda Snæfellsness í norðri, að tryggja samsvarandi griðasvæði hvala fyrir Norðurlandi, og setja heildstæðar reglur um framkvæmd og skipulag hvalaskoðunar.


Fylgiskjal I.


Ályktun aðalfundar Hvalaskoðunarsamtaka Íslands.
(27. október 2011.)

    Aðalfundur Hvalaskoðunarsamtaka Íslands hvetur sjávarútvegsráðherra til að stækka griðarsvæði hvala á Faxaflóa þannig að það markist af línu sem dregin verði frá Eldey að Öndverðarnesi.
    Vegna hrefnuveiða sem stundaðar hafa verið á síðustu árum á Faxaflóa telja samtökin einsýnt að hvalaskoðun muni leggjast af á Faxaflóa ef heldur fram sem horfir. Athygli er vakin á að yfir 70.000 ferðamenn fara á þessu ári í hvalaskoðun frá Reykjavík og um 60.000 frá Norðurlandi.
    Einnig þarf að tryggja griðarsvæði hvala fyrir Norðurlandi. Þar er lagt til að dregin verði lína frá Hornbjargi um Grímsey að punkti 12 km norður af Hraunhafnartanga í Font á Langanesi.
    Bent er á að Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað sent ályktanir um stækkun griðarsvæða hvala en því miður án sýnilegs árangurs.
    Hvalaskoðun er orðin ein mikilvægasta afþreying á sviði ferðaþjónustu, því er brýnt að hún líði ekki undir lok vegna aðgerða eða aðgerðarleysis stjórnvalda.


Fylgiskjal II.


Ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF).
(15. nóvember 2011.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.