Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 249. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 781  —  249. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar um þjóðlendur.


     1.      Hvernig miðar gerð opinbers regluverks sem varðar þjóðlendur hér á landi?
    Forsætisráðuneytið fer með málefni þjóðlendna samkvæmt lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Í 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er að finna heimildarákvæði um setningu reglugerðar varðandi meðferð og nýtingu þjóðlendna. Þessi heimild til reglugerðarsetningar hefur enn sem komið er ekki verið nýtt, enda er nú unnið á vegum ráðuneytisins að stefnumörkun í auðlindamálum þjóðarinnar sem verður grundvöllur reglugerðarinnar.
    Þannig hefur forsætisráðuneytið, í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 31. maí sl. um Auðlindasjóð og gjaldtöku fyrir nýtingarrétt, sett á fót nefnd um stefnumörkun ríkisins í auðlindamálum. Er nefndinni ætlað að taka á þáttum sem lúta að ráðstöfun nýtingarréttar sameiginlegra auðlinda og ýmissa réttinda sem ríkið ræður yfir, umsýslu þessara réttinda og meðferð tekna sem hún skapar. Nefndinni var ætlað ljúka störfum 1. desember sl. en vegna umfangs verkefnisins hefur starfstími nefndarinnar verið framlengdur til 1. júlí 2012. Fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir er ekki rétt að nýta heimild til reglugerðarsetningar, enda mótast stefnumörkun um meðferð og nýtingu þjóðlendna af niðurstöðu nefndarinnar.
    Forsætisráðuneytið hefur samhliða fyrrgreindri nefndarskipan sent erindi til Orkustofnunar og óskað eftir samstarfi við stofnunina um kortlagningu þeirrar nýtingar sem á sér stað á köldu vatni, heitu vatni á lághitasvæðum auk nýtingar háhitasvæða í þjóðlendum. Í tengslum við þetta hefur ráðuneytið óskað eftir því við stofnunina að hún vinni tillögur að því hvernig best sé að haga verðlagningu fyrir nýtingu þessara auðlinda. Standa vonir til að Orkustofnun ljúki þessari vinnu fyrir 1. maí nk. Er það liður í mótun stefnu um gjaldtöku fyrir þá nýtingu sem þegar á sér stað, sem og varðandi framtíðarnýtingu auðlinda sem finna má í þjóðlendum.
    Þá má að lokum geta þess að í tengslum við fyrirhugaðar samningaviðræður við HS Orku hf. vegna jarðhitanýtingar á jörðunum Stað og Kalmannstjörn á Reykjanesi hefur ráðuneytið skipað starfshóp sem ætlunin er að verði til ráðgjafar meðan á samningaviðræðunum stendur og m.a. gera tillögur að því hvernig best sé að haga samningsmarkmiðum ríkisins um gjaldtöku fyrir þau réttindi sem ætlunin er að semja um. Þótt sá starfshópur fjalli fyrsta kastið um jarðhitaréttindi á ríkisjörð standa vonir til þess að tillögur hans verði einnig innlegg í frekari stefnumótun og reglusetningu um ráðstöfun og nýtingu auðlinda í þjóðlendum.

     2.      Hversu víðfeðmar eru skilgreindar þjóðlendur, annars vegar úrskurðaðar (eða dæmdar) og hins vegar óúrskurðaðar?
    Óbyggðanefnd hefur þegar úrskurðað um 70 prósent af landinu öllu og 86 prósent af miðhálendinu. Nánar tiltekið er um að ræða svæði sem nær frá Suðvesturlandi til Hornafjarðar og frá Norðausturlandi til vestanverðs Norðurlands. Á þessum svæðum er niðurstaðan að 47 prósent landsvæðisins teljast þjóðlendur en 53 prósent eignarland. Af þeim hluta miðhálendisins sem búið er að úrskurða um eru 89 prósent svæðisins þjóðlendur en 11 prósent teljast eignarland.
    Eftir er að úrskurða á Austfjörðum, Norðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Næst liggur fyrir hjá óbyggðanefnd að taka til meðferðar svokallað svæði 8A, Húnavatnssýsla vestan Blöndu ásamt Skaga. Hefur fjármálaráðherra fengið frest til 31. mars nk. til að skila kröfum um þjóðlendur á því svæði, ef einhverjar eru.

     3.      Hverjar eru hugmyndir ráðuneytisins um notkun þjóðlendna fyrir:
                  a.      sveitarfélög,
                  b.      bændur, og
                  c.      almenning?

    Eins og segir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er nú að störfum nefnd sem m.a. er ætlað að taka á þáttum sem lúta að ráðstöfun nýtingarréttar á auðlindum sem og ráðstöfun annarra réttinda sem finna má í þjóðlendum og ríkið ræður yfir. Fyrr en niðurstaða fæst í starf nefndarinnar er ekki rétt að fjalla frekar um hvernig hátta skuli notkun lands og landsréttinda í þjóðlendum, óháð því hver á í hlut.
    Þess er þó að geta að forsætisráðuneytinu berast reglulega erindi með beiðnum um nýtingu ýmissa réttinda í þjóðlendum. Þar á meðal eru óskir um leyfi til framkvæmda, þ.e. viðbætur og breytingar á ýmiss konar skálum, einkum í eigu félagasamtaka og sveitarfélaga. Ráðuneytið hefur litið slíkar beiðnir jákvæðum augum enda er nýting þjóðlendna til útivistar fyrir almenning mikilvæg. Hefur einkum verið um að ræða breytingar eða viðbætur við byggingar sem þegar eru fyrir hendi í þjóðlendum eða frekari uppbyggingu í tengslum við slíkar byggingar. Hvað hins vegar viðkemur heimildum til frekar nýtingar þjóðlendna sem ekki byggist með einhverjum hætti á fyrri nýtingu eða öðrum hefðbundnum notum, sbr. 5. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, bíður sú stefnumótun niðurstöðu þeirrar nefndar sem títtnefnd hefur verið hér að framan.