Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 537. máls.

Þingskjal 832  —  537. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 119/2010 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir,
staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur, og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur, og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.
    Með tilskipun 2007/23/EB eru settar reglur sem ætlað er að tryggja frjálst flæði skotelda innan ESB og jafnframt að tryggja neytendavernd á þessu sviði. Með tilskipun 2008/43/EB er komið á fót samræmdu kerfi að því er varðar rekjanleika sprengiefna til almennra nota. Með sprengiefni til almennra nota er átt við sprengiefni sem ekki er ætlað til hernaðarnota, t.d. sprengiefni sem notað er til byggingaframkvæmda.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur.
    Með tilskipuninni er settir öryggisstaðlar sem skoteldar verða að uppfylla til þess að verða settir á markað. Ákvæði tilskipunarinnar gilda um hefðbundna skotelda, sem og sviðsskotelda og aðra hluti sem springa, svo sem gashylki sem skjóta út líknarbelgjum og strekkja á öryggisbeltum í ökutækjum þegar óhapp á sér stað.
    Í tilskipuninni er kveðið á um að ESB sé heimilt að gefa út sameiginlega staðla sem skoteldar sem settir eru á markað í ríkjunum verða að uppfylla og er jafnframt kveðið á um að allir skoteldar verði að vera CE-merktir. Í 4. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um hlutlæga ábyrgð innflytjenda í vissum tilvikum. Í 1. mgr. 4. gr. kemur fram að framleiðendur skuli tryggja að flugeldar samrýmist tilteknum öryggiskröfum sem mælt er fyrir um í viðauka I við tilskipunina. Í 2. mgr. ákvæðisins er hins vegar tiltekið að ef framleiðandi á ekki aðsetur innan ESB skuli innflytjandi skoteldanna tryggja að framleiðandi þeirra hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipuninni eða taka sjálfur á sig þær skyldur sem þar er kveðið á um. Kallar þetta ákvæði á breytingar á vopnalögum.

4.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/43/EB um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.
    Með tilskipuninni er komið á fót samræmdu kerfi að því er varðar rekjanleika sprengiefna til almennra nota. Þannig er m.a. kveðið á um það að framleiðendur og innflytjendur sprengiefnis skuli auðkenna það þannig að það sé rekjanlegt til framleiðanda í samræmi við það sem kemur fram í viðauka við tilskipunina. Er þetta gert til þess að auðvelda rekjanleika sprengiefnisins. Kallar þetta ákvæði á breytingar á vopnalögum.

5. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipana 2007/23/EB og 2008/43/EB kalla á breytingar á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum. Fyrirhugað er að innanríkisráðherra muni á yfirstandandi löggjafarþingi leggja fram frumvarp til slíkra lagabreytinga til innleiðingar á tilskipununum.
Hugsanlegar breytingar á högum þeirra sem hagsmuna eiga að gæta snúa fyrst og fremst að innflutningi sprengiefna og flugelda og mögulegri ábyrgð innflytjanda á vörunni ef hún uppfyllir ekki skilyrði tilskipananna. Þá þarf að gefa þeim aðilum sem flytja inn slík efni og vörur svigrúm til að finna birgja sem uppfylla skilyrði tilskipananna og tíma til að selja það efni og vörur sem þegar eru til og ekki uppfylla skilyrðin.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 119/2010

frá 10. nóvember 2010

um breytingu II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN,

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        II. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 8/2006 frá 27. janúar 2006 ( 1 ).
2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur ( 2 ).
3)        Fella ber inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota ( 3 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.



Eftirfarandi liðir bætist við á eftir 3. lið (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2004/57/EB) í XXIX. kafla II. viðauka við samninginn:

„4.         32007 L 0023: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur (Stjtíð. ESB L 154, 14.6.2007, bls. 1).

5.         32008 L 0043: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota (Stjtíð. ESB L 94, 5.4.2008, bls. 8).“

2. gr.



Íslenskur og norskur texti tilskipana 2007/23/EB og 2008/43/EB, sem verður birtur í EES- viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.



Ákvörðun þessi öðlast gildi 11. nóvember 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).     

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 10. nóvember 2010.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Stefán Haukur Jóhannesson

formaður.



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2007/23/EB
frá 23. maí 2007
um að setja á markað flugeldavörur
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Gildandi lög og stjórnsýslufyrirmæli í aðildarríkjunum að því er varðar að setja flugeldavörur á markað eru mismunandi, einkum að því er varðar þætti eins og öryggi og nothæfiseiginleika.
2)        Þar sem þessi lög og stjórnsýslufyrirmæli eru líkleg til að valda viðskiptahindrunum í Bandalaginu, skulu þau samræmd í því skyni að tryggja frjálsa flutninga á flugeldavörum á innri markaðinum ásamt því að tryggja öfluga heilsu- og öryggisvernd manna og neytendavernd og vernd fagmanna.
3)        Í tilskipun ráðsins 93/15/EBE frá 5. apríl 1993 um samhæfingu ákvæða um markaðssetningu og eftirlit með sprengiefnum til almennra nota ( 3 ) eru flugeldavörur undanskildar frá gildissviði hennar og þar er því lýst yfir að flugeldavörur krefjist viðeigandi ráðstafana til tryggja neytendavernd og almannaöryggi og að viðbótartilskipun á þessu sviði sé fyrirhuguð.
4)        Í tilskipun ráðsins 96/82/EB frá 9. desember 1996 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna ( 4 ) eru settar fram öryggiskröfur fyrir starfsstöðvar þar sem sprengiefni, þ.m.t. skoteldaefni, eru til staðar.
5)        Til flugeldavara skulu teljast skoteldar, flugeldavörur fyrir leikhús og flugeldavörur til tækninota, s.s. gasbúnaður í öryggispúðum eða sætisbeltastrekkjurum.
6)        Þessi tilskipun gildir ekki um flugeldavörur sem tilskipun ráðsins 96/98/EB frá 20. desember 1996 um búnað um borð í skipum ( 5 ) og viðeigandi alþjóðasamningar, sem getið er um í henni, taka til.
7)        Í því skyni að tryggja nægilega öfluga vernd skulu flugeldavörur fyrst og fremst flokkaðar með hliðsjón af hættustigi þeirra hvað varðar notkun, tilgang eða hávaðastig.
8)        Samkvæmt meginreglunum sem settar eru fram í ályktun ráðsins frá 7. maí 1985 um nýja aðferð við tæknilega samhæfingu og staðla ( 6 ) skal flugeldavara uppfylla ákvæði þessarar tilskipunar þegar varan er sett á markað Bandalagsins í fyrsta sinn. Með tilliti til trúarlegra, menningarlegra og hefðbundinna hátíðahalda í aðildarríkjunum skulu skoteldar sem framleiðandi býr til til eigin nota og sem samþykktir eru af aðildarríki til notkunar á yfirráðasvæði þess ekki teljast hafa verið settir á markað og þurfa því ekki að fara að þessari tilskipun.
9)        Vegna eðlislægrar hættu samfara notkun á flugeldavörum er viðeigandi að mæla fyrir um aldurstakmörk fyrir sölu þeirra til neytenda og notkunar þeirra og til að tryggja að á merkingum þeirra komi fram nægar og viðeigandi upplýsingar um örugga notkun í því skyni að tryggja heilsu- og öryggisvernd manna og vernda umhverfið. Kveða skal á um að tilteknar flugeldavörur séu aðeins tiltækar viðurkenndum sérfræðingum með nauðsynlega þekkingu, hæfni og reynslu. Að því er varðar flugeldavörur fyrir ökutæki skulu kröfur um merkingar vera með hliðsjón af gildandi venjum og því að þessar vörur eru eingöngu seldar fagmönnum.
10)        Flugeldavörur, einkum skoteldar, eru notaðar í tengslum við afar mismunandi menningu, siði og hefðir í hverju aðildarríki fyrir sig. Því er nauðsynlegt að heimila aðildarríkjum að grípa til eigin ráðstafana til að takmarka notkun eða sölu á tilteknum flokkum skotelda til almennings af ástæðum sem varða almannaöryggi.
11)        Rétt þykir að koma á grunnkröfum um öryggi fyrir flugeldavörur í því skyni að vernda neytendur og til að koma í veg fyrir slys.
12)        Framleiðandinn ber ábyrgð á því að tryggja að flugeldavörur uppfylli ákvæði þessarar tilskipunar, einkum grunnkröfur um öryggi. Ef framleiðandinn hefur ekki staðfestu í Bandalaginu skal sá einstaklingur eða lögaðili sem flytur flugeldavöru inn í Bandalagið tryggja að framleiðandinn hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun eða sjálfur taka á sig allar skyldur framleiðandans.
13)        Ef grunnkröfum um öryggi er fullnægt ætti aðildarríki ekki að geta bannað, takmarkað eða hindrað frjálsan flutning á flugeldavörum. Þessi tilskipun gildir með fyrirvara um landslöggjöf aðildarríkjanna um leyfisveitingar fyrir framleiðendur, dreifingaraðila og innflytjendur.
14)        Í því skyni að auðvelda ferlið sem sýnir fram á að farið sé að grunnkröfum um öryggi er verið að þróa samhæfða staðla um hönnun, framleiðslu og prófun á flugeldavörum.
15)        Staðlasamtök Evrópu (CEN), Rafstaðlasamtök Evrópu (CENELEC) og Fjarskiptastaðlastofnun Evrópu (ETSI) semja, samþykkja og breyta samræmdum evrópskum stöðlum. Þessar stofnanir eru viðurkenndar sem þar til bærar til að samþykkja samhæfða staðla, sem þær semja í samræmi við almennar viðmiðunarreglur fyrir samvinnu milli þeirra og framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna og Fríverslunarsamtaka Evrópu ( 1 ), og í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta á sviði tæknistaðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu ( 2 ). Að því er varðar flugeldavörur fyrir ökutæki skulu alþjóðlegar áherslur evrópska ökutækjabirgjaiðnaðarins endurspeglast í því að tekið er tilliti til viðeigandi alþjóðlegra ISO-staðla.
16)        Í samræmi við „nýju aðferðina við tæknilega samhæfingu og stöðlun“ skulu flugeldavörur, sem framleiddar eru í samræmi við samhæfða staðla, njóta ávinnings af því að gengið sé út frá samræmi við grunnkröfur um öryggi sem kveðið er á um í þessari tilskipun.
17)        Með ákvörðun 93/465/EBE frá 22. júlí 1993 um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu ( 3 ) innleiddi ráðið samræmdar aðferðir við samræmismat. Beiting þessara aðferðareininga á flugeldavörur mun gera kleift að ákvarða ábyrgð framleiðenda og aðila sem koma að samræmismatinu með því að taka tillit til hvers eðlis viðkomandi flugeldavara er.
18)        Tilkynntir aðilar skulu meta flokka af flugeldavörum sem eru líkar að hönnun, virkni eða hegðun sem vöruhópa.
19)        Svo hægt sé að setja þær á markað skulu flugeldavörur bera CE-merki til upplýsingar um það að þær samræmist ákvæðum þessarar tilskipunar til að greiða fyrir frjálsum flutningi þeirra innan Bandalagsins.
20)        Samkvæmt „nýju aðferðinni við tæknilega samhæfingu og stöðlun“ er verndarákvæðisaðferð nauðsynleg sem gerir kleift að véfengja samræmi flugeldavöru eða benda á bilanir. Því skulu aðildarríki grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að banna eða takmarka að vörur, sem bera CE-merki, séu settar á markað eða til að afturkalla slíkar vörur af markaði ef þær ógna heilbrigði og öryggi neytenda þegar vörurnar eru notaðar í fyrirhuguðum tilgangi.
21)        Að því er varðar öryggi í flutningum falla reglur um flutninga á flugeldavörum undir alþjóðasamþykktir og -samninga, þ.m.t. tilmæli Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum farmi.
22)        Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og tryggja framfylgd þeirra. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa letjandi áhrif.
23)        Það er í þágu framleiðandans og innflytjandans að afhenda öruggar vörur svo að komist sé hjá kostnaði vegna bótaábyrgðar á gölluðum vörum sem valda því að einstaklingar og eignir í einkaeigu verði fyrir tjóni. Í þessu tilliti kemur tilskipun ráðsins 85/374/EBE frá 25. júlí 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum vegna skaðsemisábyrgðar á gölluðum vörum ( 1 ) til viðbótar við þessa tilskipun þar sem sú tilskipun leggur strangt bótaábyrgðarkerfi á framleiðendur og innflytjendur og tryggir neytendum fullnægjandi vernd. Enn fremur er kveðið á um það í þessari tilskipun að tilkynntir aðilar skuli hafa fullnægjandi tryggingar að því er varðar atvinnustarfsemi þeirra, nema eitt aðildarríki sé bótaskylt samkvæmt landslögum þess eða aðildarríkið sjálft beri beina ábyrgð á prófunum.
24)        Nauðsynlegt er að kveða á um aðlögunartímabil til að gera kleift að aðlaga landslög á tilgreindum sviðum smám saman. Gefa þarf framleiðendum og innflytjendum tíma til að neyta réttinda sinna samkvæmt landsreglum sem eru í gildi áður en þessi tilskipun tekur gildi, t.d. svo þeir geti selt birgðir sínar af framleiddum vörum. Enn fremur myndu tilgreind aðlögunartímabil, sem kveðið er á um vegna beitingar þessarar tilskipunar, veita viðbótarfrest til að samþykkja samhæfða staðla og tryggja skjóta framkvæmd þessarar tilskipunar í því skyni að auka neytendavernd.
25)        Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessum markmiðum.
26)        Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 2 ).
27)        Framkvæmdastjórnin skal einkum hafa umboð til þess að samþykkja ráðstafanir Bandalagsins varðandi tilmæli Sameinuðu þjóðanna, kröfur um merkingar á flugeldavörum og aðlögun að tækniframförum í II. og III. viðauka sem varða öryggiskröfur og samræmismatsaðferðir. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, eða að bæta við hana nýjum veigalitlum atriðum, verður að samþykkja þær í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem mælt er fyrir um í a-lið 5. gr. í ákvörðun 1999/468/EB.
28)        Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 3 ) eru aðildarríkin hvött til þess, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, að taka saman og birta sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem kostur er, samsvörun milli þessarar tilskipunar og lögleiðingarráðstafana þeirra.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið og gildissvið

1.     Með þessari tilskipun eru settar reglur sem ætlað er að koma á frjálsum flutningum á flugeldavörum á innri markaðinum jafnframt því að tryggja öfluga heilsuvernd manna og almannaöryggi og vernd og öryggi neytenda og taka tillit til viðkomandi þátta er varða umhverfisvernd.
2.     Í þessari tilskipun eru settar fram grunnkröfur um öryggi sem flugeldavörur verða að uppfylla áður en þær eru settar á markað.
3.     Tilskipun þessi gildir um allar flugeldavörur eins og þær eru skilgreindar í 1. til 5. mgr. 2. gr.
4.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    flugeldavörur sem í samræmi við landslög eru ekki ætlaðar til notkunar í viðskiptalegum tilgangi og notaðar eru af her, lögreglu eða slökkviliði,
b)    búnað sem fellur undir gildissvið tilskipunar 96/ 98/EB,
c)    flugeldavörur sem ætlaðar eru til notkunar í flug- og geimiðnaðinum,
d)    hvellhettur sem ætlaðar eru sérstaklega fyrir leikföng sem falla undir gildissvið tilskipunar ráðsins 88/378/EBE frá 3. maí 1988 um samræmingu laga aðildarríkjanna um öryggi leikfanga ( 1 ),
e)    sprengiefni sem fellur undir gildissvið tilskipunar 93/15/EBE,
f)    skotfæri, þ.e.a.s. skeyti, drifhleðslur og púðurskot sem notuð eru í færanlegum skotvopnum, öðrum byssum og fallbyssum.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „flugeldavörur“: allar vörur sem innihalda sprengifim efni eða sprengifima blöndu efna sem er hönnuð til þess að framleiða varma, ljós, hljóð, lofttegund eða reyk eða sambland slíkra áhrifa með sjálfbærum, útvermnum efnahvörfum.
2.    „setning á markað“: að bjóða fram vöru í fyrsta sinn á markaði Bandalagsins til dreifingar og/eða notkunar, hvort sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds. Skoteldar sem framleiðandi framleiðir til eigin nota og sem aðildarríki hefur samþykkt til notkunar á yfirráðasvæði sínu teljast ekki hafa verið settir á markað.
3.    „skoteldur“: flugeldavörur sem ætlaðar eru til skemmtunar.
4.    „flugeldavörur fyrir leikhús“: flugeldavörur sem ætlaðar eru til notkunar á sviði innanhúss eða utan, þ.m.t. fyrir sjónvarps- eða kvikmyndaframleiðslu eða til svipaðra nota.
5.    „flugeldavörur fyrir ökutæki“: íhlutir í öryggisbúnaði til notkunar í ökutækjum sem innihalda skoteldaefni sem notuð eru til að virkja hann eða annan búnað.
6.    „framleiðandi“: einstaklingur eða lögaðili sem hannar og/eða framleiðir flugeldavörur, eða sem sér til þess að slíkar vörur séu hannaðar og framleiddar með það í huga að setja þær á markað undir eigin nafni eða vörumerki.
7.    „innflytjandi“: einstaklingur eða lögaðili með staðfestu í Bandalaginu sem býður flugeldavöru frá þriðja landi fram á markaði í Bandalaginu í fyrsta skipti sem lið í starfsemi sinni.
8.    „dreifingaraðili“: einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni sem býður flugeldavöru fram á markaði sem lið í starfsemi sinni.
9.    „samhæfður staðall“: Evrópustaðall sem evrópsk staðlastofnun hefur samþykkt í umboði framkvæmdastjórnarinnar, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í tilskipun 98/34/EB, og þar eð samræmi við hann er ekki skyldubundið.
10.    „einstaklingur með sérfræðiþekkingu“: einstaklingur sem aðildarríki hefur heimilað að meðhöndla og/eða nota á yfirráðasvæði sínu skotelda í 4. flokki, flugeldavörur fyrir leikhús í flokki T2 og/eða aðrar flugeldavörur í flokki P2 eins og þær eru skilgreindar í 3. gr.

3. gr.
Flokkun

1.     Framleiðandi skal flokka flugeldavörur samkvæmt notkun, eða tilgangi og hættustigi, þ.m.t. hávaðastig. Tilkynntu aðilarnir sem um getur í 10. gr. skulu staðfesta flokkunina sem hluta af samræmismatsaðferðinni í samræmi við 9. gr.
Flokkunin skal vera sem hér segir:
a)      Skoteldar
    1. flokkur:    skoteldar sem af stafar mjög lítil hætta, hávaðastig er óverulegt og sem eru ætlaðir til notkunar á lokuðum svæðum, þ.m.t. skoteldar sem eru ætlaðir til notkunar inni í íbúðarhúsum,
    2. flokkur:    skoteldar sem af stafar lítil hætta, hávaðastig er lágt og sem ætlaðir eru til notkunar utanhúss á lokuðum svæðum,
    3. flokkur:    skoteldar sem af stafar miðlungs hætta, sem eru ætlaðir til notkunar utandyra á stórum opnum svæðum og með hávaðastig sem er ekki skaðlegt heilbrigði manna,
    4. flokkur:    skoteldar sem af stafar mikil hætta, sem eru aðeins ætlaðir til notkunar af einstaklingum með sérfræðiþekkingu (almennt þekktir sem skoteldar til faglegra nota) og með hávaðastig sem ekki er skaðlegt heilbrigði manna.
b)      Flugeldavörur fyrir leikhús
    Flokkur T1:    flugeldavörur til notkunar á sviði sem af stafar lítil hætta,
    Flokkur T2:    flugeldavörur til notkunar á sviði sem aðeins eru ætlaðar til notkunar af einstaklingum með sérfræðiþekkingu.
c)      Aðrar flugeldavörur
    Flokkur P1:    flugeldavörur aðrar en skoteldar og flugeldavörur fyrir leikhús sem af stafar lítil hætta,
    Flokkur P2:    flugeldavörur aðrar en skoteldar og flugeldavörur fyrir leikhús sem eru eingöngu ætlaðar til meðhöndlunar eða notkunar af einstaklingum með sérfræðiþekkingu.
2.     Aðildarríki skulu upplýsa framkvæmdastjórnina um verklagsreglur sem notaðar eru til að tilgreina og votta einstaklinga með sérfræðiþekkingu.

4. gr.
Skyldur framleiðanda, innflytjanda og dreifingaraðila

1.     Framleiðendur skulu sjá til þess að flugeldavörur sem settar eru á markað uppfylli grunnkröfur um öryggi sem settar eru fram í I. viðauka.
2.     Ef framleiðandinn er ekki með staðfestu í Bandalaginu skal innflytjandinn tryggja að framleiðandinn hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun eða gangast sjálfur undir þær skyldur.
Innflytjandi kann að vera dreginn til ábyrgðar af yfirvöldum og aðilum innan Bandalagsins með tilliti til þessara skylda.
3.     Dreifingaraðilar skulu gæta þess vandlega að farið sé að gildandi lögum Bandalagsins. Einkum skulu þeir ganga úr skugga um að flugeldavaran beri áfest samræmismerki sem krafist er og að henni fylgi þau skjöl sem krafist er.
4.    Framleiðendur flugeldavara skulu:
a)    leggja flugeldavöruna fyrir tilkynntan aðila sem um getur í 10. gr. sem framkvæmir samræmismat í samræmi við 9. gr. og
b)    festa CE-merki á og merkja flugeldavöruna í samræmi við 11. gr. og 12. eða 13. gr.

5. gr.
Setning á markað

1.     Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að eingöngu sé hægt að setja flugeldavörur á markað ef þær uppfylla kröfur þessarar tilskipunar, bera CE-merki og eru í samræmi við skyldurnar sem varða samræmismatið.
2.     Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að CE-merki sé ekki ranglega sett á flugeldavörur.

6. gr.
Frjáls flutningur

1.     Aðildarríki skulu ekki banna, takmarka eða hindra að flugeldavörur sem uppfylla kröfur þessarar tilskipunar séu settar á markað.
2.     Ákvæði þessarar tilskipunar skulu ekki koma í veg fyrir ráðstafanir, sem aðildarríki grípa til í því skyni að banna eða takmarka vörslu, notkun og/eða sölu til almennings á skoteldum í 2. og 3. flokki, á flugeldavörum fyrir leikhús og á öðrum flugeldavörum, sem réttlæta má með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða umhverfisverndar.
3.     Aðildarríkin skulu ekki koma í veg fyrir að flugeldavörur, sem eru ekki í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar, séu til sýnis og til notkunar á kaupstefnum, sýningum og kynningum vegna markaðssetningar þeirra að því tilskildu að vel sýnilegt merki gefi greinilega til kynna heiti og dagsetningu kaupstefnunnar, sýningarinnar eða kynningarinnar sem um er að ræða og að þær samræmist tilskipuninni ekki og verði ekki fáanlegar fyrr en framleiðandinn, eða, ef hann hefur ekki staðfestu í Bandalaginu, innflytjandinn, hefur fært þær til samræmis. Meðan á slíkum viðburðum stendur skal gera viðeigandi öryggisráðstafanir í samræmi við allar kröfur sem gerðar eru af lögbæru yfirvaldi í hlutaðeigandi aðildarríki.
4.     Aðildarríki skulu ekki hindra frjálsan flutning og notkun á flugeldavörum sem eru framleiddar í rannsóknar-, þróunar- og prófunarskyni og sem ekki samræmast ákvæðum þessarar tilskipunar að því tilskildu að skýrt sé tilgreint á sýnilegu skilti að þær samræmist ekki tilskipuninni og að þær séu ekki fáanlegar nema til rannsókna, þróunar og prófunar.

7. gr.
Aldurstakmörk

1.     Ekki skal selja flugeldavörur eða gera þær á annan hátt aðgengilegar neytendum undir eftirfarandi aldurstakmörkum:
a)      Skoteldar
    1. flokkur: 12 ára.
    2. flokkur: 16 ára.
    3. flokkur: 18 ára.
b)     Aðrar flugeldavörur og flugeldavörur fyrir leikhús
    Flokkar T1 og P1: 18 ára.
2.     Aðildarríkjum er heimilt að hækka aldurstakmörk skv. 1. gr. í rökstuddum tilvikum á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis. Aðildarríkjum er einnig heimilt að lækka aldurstakmörk fyrir einstaklinga sem hafa hlotið starfsmenntun eða eru í slíkri starfsþjálfun.
3.     Framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar skulu ekki selja eða gera eftirfarandi flugeldavörur aðgengilegar með öðrum hætti nema til handa einstaklingum með sérfræðiþekkingu:
a)    skotelda í 4. flokki,
b)    flugeldavörur í flokki P2 og flugeldavörur fyrir leikhús í flokki T2.

8. gr.
Samhæfðir staðlar

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í tilskipun 98/34/EB, að óska eftir því við evrópskar staðlastofnanir að þær semji eða endurskoði Evrópustaðla til stuðnings þessari tilskipun eða hvetja viðkomandi alþjóðastofnanir til að semja eða endurskoða alþjóðlega staðla.
2.     Framkvæmdastjórnin skal birta tilvísanir í þessa samhæfðu staðla í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að samhæfðu staðlarnir sem birtir eru í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins séu viðurkenndir og samþykktir. Aðildarríki skulu líta svo á að flugeldavörur sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar séu í samræmi við grunnkröfur um öryggi, sem settar eru fram í I. viðauka, þegar þær eru í samræmi við viðkomandi landsstaðla, sem eru til framkvæmdar þessum samhæfðu stöðlum sem birtir eru í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Aðildarríkin skulu birta tilvísunarnúmer í landsstaðla sem þessir samhæfðu staðlar eru teknir upp í.
Þegar aðildarríki samþykkir landsbundna lögleiðingu á samhæfðu stöðlunum skulu þau birta tilvísunarnúmer lögleiðingarinnar.
4.     Telji aðildarríki eða framkvæmdastjórnin að samhæfðu staðlarnir, sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, uppfylli ekki að öllu leyti grunnkröfur um öryggi, sem settar eru fram í I. viðauka, skal framkvæmdastjórnin eða hlutaðeigandi aðildarríki vísa málinu ásamt rökstuðningi til fastanefndarinnar sem komið var á fót með tilskipun 98/34/EB. Fastanefndin skal skila áliti sínu innan sex mánaða frá því að málið var lagt fram. Í ljósi álits fastanefndarinnar skal framkvæmdastjórnin upplýsa aðildarríkin um ráðstafanir sem gera skal varðandi samhæfðu staðlana og birtinguna sem um getur í 2. mgr.

9. gr.
Samræmismatsaðferðir

Við samræmismat á flugeldavörum skal framleiðandinn fylgja einni af eftirfarandi aðferðum:
a)    EB-gerðarprófun (aðferðareining B) sem um getur í 1. hluta II. viðauka og, að vali framleiðanda, annaðhvort:
    i.    aðferðinni með gerðarsamræmi (aðferðareining C) sem um getur í 2. hluta II. viðauka,
    ii.    aðferðinni með gæðatryggingu í framleiðslu (aðferðareining D) sem um getur í 3. hluta II. viðauka eða
    iii.    aðferðinni með gæðatryggingu vöru (aðferðareining E) sem um getur í 4. hluta II. viðauka,
b)    einingarsannprófun (aðferðareining G) sem um getur í 5. hluta II. viðauka,
c)    fullri gæðatryggingu vöru (aðferðareining H) sem um getur í 6. hluta II. viðauka að því leyti sem hún varðar skotelda í 4. flokki.

10. gr.
Tilkynntir aðilar

1.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um þá aðila sem þau hafa tilnefnt til að framfylgja samræmismatsaðferðunum, sem um getur í 9. gr., ásamt þeim sérstöku verkefnum sem þessum aðilum hefur verið falið að leysa af hendi og hvaða kenninúmerum framkvæmdastjórnin hefur úthlutað þeim.
2.     Framkvæmdastjórnin skal gera skrá yfir tilkynnta aðila ásamt kenninúmerum þeirra og verkefnum sem þeim hafa verið falin aðgengilega almenningi á vefsetri sínu. Framkvæmdastjórnin skal sjá til þess að skráin sé uppfærð.
3.     Aðildarríkin skulu beita lágmarksviðmiðunum, sem settar eru fram í III viðauka, við mat á þeim aðilum sem á að tilkynna til framkvæmdastjórnarinnar. Aðilar sem uppfylla matsviðmiðin sem mælt er fyrir um í samhæfðu stöðlunum sem skipta máli fyrir tilkynnta aðila skulu teljast uppfylla viðkomandi lágmarksviðmiðanir.
4.     Aðildarríki, sem hefur tilkynnt framkvæmdastjórninni um tiltekinn aðila, skal afturkalla tilkynninguna verði það þess áskynja að aðilinn uppfylli ekki lengur lágmarksviðmiðanirnar sem um getur í 3. mgr. Sé það gert skal ríkið tafarlaust tilkynna það öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni.
5.     Ef tilkynning um aðila er afturkölluð skulu staðfestingar á samræmi og tengd skjöl, sem aðilinn sem um er að ræða leggur fram, halda gildi sínu nema sýnt sé fram á yfirvofandi og beina hættu fyrir heilbrigði og öryggi.
6. Framkvæmdastjórnin skal gera afturköllun á tilkynningu um hlutaðeigandi aðila aðgengilega almenningi á vefsetri sínu.

11. gr.
Skylda um áfestingu CE-merkis

1.     Eftir að samræmismatinu er lokið með fullnægjandi árangri í samræmi við 9. gr. skulu framleiðendur festa CE-merkið sýnilega, læsilega og óafmáanlega á flugeldavörurnar sjálfar eða, ef það er ekki unnt, á auðkenniplötu sem fest er þar á eða á umbúðirnar. Auðkenniplatan verður að vera svo hönnuð að ekki sé unnt að nota hana aftur.
Fyrirmyndin að CE-merkinu skal vera í samræmi við ákvörðun 93/465/EBE.
2.     Ekki má festa neinar merkingar eða áletranir sem geta villt um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu og form CE-merkisins á flugeldavörur. Allar aðrar merkingar má festa á flugeldavörur að því tilskildu að þær dragi ekki úr sýnileika og læsileika CE-merkisins.
3.     Ef flugeldavörur falla undir aðra löggjöf Bandalagsins, sem tekur til annarra þátta og þar sem mælt er fyrir um áfestingu CE-merkis, gefur þetta merki til kynna að þessar vörur teljist einnig vera í samræmi við þau ákvæði þessarar löggjafar sem um er að ræða.

12. gr.
Merkingar á vörum öðrum en flugeldavörum fyrir ökutæki

1.     Framleiðendur skulu sjá til þess að flugeldavörur aðrar en flugeldavörur fyrir ökutæki séu merktar með sýnilegum, læsilegum og óafmáanlegum hætti á opinberu tungumáli eða tungumálum aðildarríkisins þar sem varan er seld neytendum.
2.     Í merkingum á flugeldavörum skal að lágmarki koma fram nafn og heimilisfang framleiðanda eða, ef framleiðandi hefur ekki staðfestu í Bandalaginu, nafn framleiðanda og nafn og heimilisfang innflytjanda, nafn og gerð vörunnar, lágmarksaldur sem tilgreindur er í 1. og 2. mgr. 7. gr., viðkomandi flokkur og notkunarleiðbeiningar, framleiðsluár fyrir skotelda í 3. og 4. flokki og, eftir því sem við á, lágmarksöryggisfjarlægð. Í merkingum skal nettóþyngd virkra sprengiefna koma fram.
3.     Á skoteldum skulu eftirfarandi lágmarksupplýsingar einnig koma fram:
    1. flokkur:    eftir því sem við á: „eingöngu til notkunar utandyra“ og lágmarksöryggisfjarlægð.
    2. flokkur:    „eingöngu til notkunar utandyra“ og, eftir því sem við á, lágmarksöryggisfjarlægð(ir).
    3. flokkur:    „eingöngu til notkunar utandyra“ og lágmarksöryggisfjarlægð(ir).
    4. flokkur:    „notist aðeins af einstaklingum með sérfræðiþekkingu“ og lágmarksöryggisfjarlægð(ir).
4.     Á flugeldavörum fyrir leikhús skulu eftirfarandi lágmarksupplýsingar einnig koma fram:
    Flokkur T1:    eftir því sem við á: „eingöngu til notkunar utandyra“ og lágmarksöryggisfjarlægð.
    Flokkur T2:    „notist aðeins af einstaklingum með sérfræðiþekkingu“ og lágmarksöryggisfjarlægð(ir).
5.     Ef ekki er nægilegt rými á flugeldavörunni til að uppfylla kröfurnar um merkingar sem um getur í 2.–4. mgr. skulu upplýsingarnar koma fram á minnstu umbúðunum.
6.     Ákvæði þessarar greinar skulu ekki gilda um flugeldavörur sem sýndar eru á kaupstefnum, sýningum og kynningum til markaðssetningar á flugeldavörum eins og um getur í 3. mgr. 6. gr. eða sem eru framleiddar eru í rannsóknar-, þróunar- og prófunarskyni eins og um getur í 4. mgr. 6. gr.

13. gr.
Merkingar á flugeldavörum fyrir ökutæki

1.     Í merkingum á flugeldavörum fyrir ökutæki skal koma fram nafn framleiðanda eða, ef framleiðandi hefur ekki staðfestu í Bandalaginu, nafn innflytjanda, nafn og gerð vörunnar og öryggisleiðbeiningar.
2.     Ef ekki er nægilegt rými á vörunni til að uppfylla kröfurnar um merkingar sem um getur í 1. mgr. skulu upplýsingarnar koma fram á umbúðunum.
3.     Öryggisblað, sem tekið er saman í samræmi við viðaukann við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/58/EB frá 27. júlí 2001 um aðra breytingu á tilskipun 91/155/EBE ( 1 ), skal látið fagmönnum í té á tungumálinu sem þeir fara fram á.
Öryggisblaðið má afhenda á pappír eða rafrænt að því tilskildu að viðtakandi hafi aðgang að nauðsynlegum búnaði til að taka við því.

14. gr.
Markaðseftirlit

1.     Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að flugeldavörur megi aðeins setja á markað ef þær stofna ekki heilbrigði og öryggi fólks í hættu þegar þær eru geymdar á réttan hátt og þær notaðar í fyrirhuguðum tilgangi.
2.     Aðildarríki skulu framkvæma reglulegar skoðanir á flugeldavörum við komu inn í Bandalagið og á geymslu- og framleiðslustöðum.
3.     Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að kröfur um öryggi og almannaöryggi og vernd í þessari tilskipun séu uppfylltar við flutning á flugeldavörum innan Bandalagsins.
4.     Aðildarríki skulu skipuleggja og framkvæma viðeigandi eftirlit með vörum sem settar eru á markað að teknu tilhlýðilegu tilliti til þess að gengið sé út frá samræmi vara sem bera CE-merki.
5.     Aðildarríki skulu upplýsa framkvæmdastjórnina árlega um aðgerðir sínar á sviði markaðseftirlits.
6.     Ef aðildarríki kemst að því að flugeldavörur bera CE-merki með meðfylgjandi EB-samræmisyfirlýsingu og eru notaðar eins og ætlast er til geti stofnað heilsu og öryggi fólks í hættu skal það gera allar nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir til að taka vöruna af markaði, banna að hún verði sett á markað eða takmarka frjálsa flutninga á henni. Aðildarríkið skal tilkynna það hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni.
7.     Framkvæmdastjórnin skal birta á vefsetri sínu nöfn þeirra vara sem hafa, skv. 6. mgr., verið teknar af markaði, verið bannaðar eða verið settar á markað með takmörkunum.

15. gr.
Skjót skipti á upplýsingum um vörur sem hafa í för með sér alvarlega áhættu

Ef aðildarríki hefur nægilegar ástæður til að ætla að flugeldavara hafi í för með sér alvarlega áhættu fyrir heilbrigði og/eða öryggi fólks í Bandalaginu skal það tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um það og framkvæma viðeigandi mat. Það skal upplýsa framkvæmdastjórnina og önnur aðildarríki um bakgrunn og niðurstöður matsins.

16. gr.
Verndarákvæði

1.     Ef aðildarríki er ósammála bráðabirgðaráðstöfunum sem annað aðildarríki grípur til skv. 6. mgr. 14. gr., eða ef framkvæmdastjórnin telur þær ráðstafanir ganga gegn löggjöf Bandalagsins, skal framkvæmdastjórnin ráðfæra sig án tafar við alla viðkomandi aðila, meta ráðstafanirnar og taka afstöðu til þess hvort ráðstafanirnar séu réttlætanlegar. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna aðildarríkjunum um afstöðu sína og upplýsa hagsmunaaðila um hana.
Ef framkvæmdastjórnin telur að landsbundnu ráðstafanirnar séu réttlætanlegar skulu hin aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að varan sem er ekki örugg sé tekin af þeirra markaði og upplýsa framkvæmdastjórnina um það.
Ef framkvæmdastjórnin telur að landsbundnu ráðstafanirnar séu ekki réttlætanlegar skal hlutaðeigandi aðildarríki draga þær til baka.
2.     Þegar bráðabirgðaráðstafanirnar, sem um getur í 1. mgr., byggja á annmarka á samhæfðum stöðlum og ef aðildarríkið, sem gerði ráðstafanirnar, hvikar ekki frá þeim skal framkvæmdastjórnin vísa málinu til fastanefndarinnar, sem komið er á með tilskipun 98/34/EB, og framkvæmdastjórnin eða hlutaðeigandi aðildarríki hefja málsmeðferðina sem um getur í 8. gr.
3.     Ef flugeldavara er ekki í samræmi við kröfur en ber CE-merkið skal lögbært aðildarríki gera viðeigandi ráðstafanir gegn þeim sem sett hefur merkið á og tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það hinum aðildarríkjunum.

17. gr.
Ráðstafanir sem fela í sér synjun eða takmörkun

1.     Í ráðstöfun sem gerð er samkvæmt þessari tilskipun til þess
a)    að banna eða takmarka setningu vöru á markað eða
b)    að taka vöru af markaði,
skal greina nákvæmlega frá ástæðunum sem liggja að baki henni. Slíkar ráðstafanir skal án tafar tilkynna hlutaðeigandi aðila og honum um leið kynnt þau lagaúrræði sem hann getur nýtt sér samkvæmt landslögum í viðkomandi aðildarríki og fresturinn sem hann hefur til þess.
2.     Ef gripið er til ráðstöfunar, sem um getur í 1. mgr., skal viðkomandi aðila gefast tækifæri til að koma sínu sjónarmiði á framfæri fyrirfram, nema að slíkt samráð sé ekki mögulegt vegna þess hversu brýnar ráðstafanirnar eru sem taka þarf, og færa megi rök fyrir því sérstaklega út frá kröfum varðandi lýðheilsu eða öryggi.

18. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Eftirfarandi ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, m.a. með því að bæta við hana nýjum veigalitlum þáttum, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 19. gr.:
a)    aðlaganir sem nauðsynlegar eru með hliðsjón af síðari breytingum á tilmælum Sameinuðu þjóðanna,
b)    aðlögun II. og III. viðauka að tækniframförum,
c)    aðlögun að kröfum um merkingar sem settar eru fram í 12. og 13. gr.
2.     Samþykkja skal eftirfarandi ráðstafanir í samræmi við reglunefndarmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 19. gr.:
a)    að setja upp rekjanleikakerfi, þ.m.t. skráningarnúmer og skráningu á vettvangi ESB í því skyni að auðkenna gerðir flugeldavara og framleiðendur þeirra,
b)    að setja fram sameiginlegar viðmiðanir um reglubundna söfnun og uppfærslu gagna um slys sem tengjast flugeldavörum.

19. gr.
Nefnd

1.    Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr., 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr., 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.

20. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og tryggja framfylgd þeirra. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa letjandi áhrif.
Aðildarríkin skulu einnig samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir sem gera þeim kleift að leggja hald á sendingar með flugeldavörum sem eru ekki í samræmi við þessa tilskipun.

21. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 4. janúar 2010. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða.
2.     Þau skulu beita þessum ákvæðum eigi síðar en 4. júlí 2010 vegna skotelda í 1., 2. og 3. flokki og eigi síðar en 4. júlí 2013 fyrir aðrar flugeldavörur, skotelda í 4. flokki og flugeldavörur fyrir leikhús.
3.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
4.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.
5.     Landsbundin leyfi, sem veitt eru fyrir viðkomandi dagsetningu sem tilgreind eru í 2. mgr., skulu halda gildi sínu á yfirráðasvæði aðildarríkisins sem veitti leyfið uns gildistími þess er útrunninn eða í allt að 10 ár frá gildistöku þessarar tilskipunar, hvort heldur er styttra.
6. Þrátt fyrir 5. mgr. skulu landsbundin leyfi fyrir flugeldavörur fyrir ökutæki, sem veitt eru fyrir viðkomandi dagsetningu sem tilgreind er í 2. mgr. halda gildi sínu þar til þau renna út.

22. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

23. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 23. maí 2007.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING G. GLOSER
forseti. forseti.

———






I. VIÐAUKI


GRUNNKRÖFUR UM ÖRYGGI



1)    Allar flugeldavörur verða að hafa þá nothæfiseiginleika sem framleiðandi tilgreinir tilkynnta aðilanum til tryggingar hámarksöryggis og áreiðanleika þess.

2)    Allar flugeldavörur verða að vera hannaðar og framleiddar með þeim hætti að hægt sé að farga þeim á öruggan hátt með viðunandi ferli þannig að það hafi sem minnst áhrif á umhverfið.

3)    Allar flugeldavörur verða að virka rétt þegar þær eru notaðar í fyrirhuguðum tilgangi.

    Allar flugeldavörur verða að vera prófaðar við raunhæf skilyrði. Ef ekki er unnt að gera það á rannsóknarstofu verður að framkvæma prófanirnar við skilyrðin sem ætlunin er að nota flugeldavörurnar við.

    Eftirfarandi upplýsingar og eiginleikar verða að vera, eftir atvikum, tekin til athugunar eða prófuð:

    a)    hönnun, smíði og einkennandi eiginleikar, þ.m.t. ítarleg efnasamsetning (massi og hundraðshluti efna sem notuð eru) og stærðarmál,

    b)    eðlisrænn og efnafræðilegur stöðugleiki flugeldavörunnar við allar venjulegar og fyrirsjáanlegar umhverfisaðstæður,

    c)    næmi fyrir venjulegri og fyrirsjáanlegri meðhöndlun og flutningi,

    d)    samhæfi milli allra efnisþátta að því er varðar efnafræðilegan stöðugleika þeirra,

    e)    hve vel flugeldavaran þolir raka ef nota á flugeldavöruna í raka eða bleytu og raki getur dregið úr öryggi og áreiðanleika hennar,

    f)    þol gagnvart lágu og háu hitastigi þegar fyrirhugað er að geyma eða nota flugeldavöruna við slíkt hitastig og áhrif kælingar og hitunar á einstaka íhluti eða flugeldavöruna alla geta dregið úr öryggi og áreiðanleika hennar,

    g)    öryggisþættir sem ætlað er að koma í veg fyrir ótímabæra ræsingu eða íkveikju af slysni,

    h)    viðeigandi leiðbeiningar og, ef nauðsyn krefur, merkingar að því er varðar örugga meðhöndlun, geymslu, notkun (þ.m.t. öryggisfjarlægðir) og förgun á opinberu tungumáli eða tungumálum viðtökuaðildarríkisins,    

    i)    geta flugeldavörunnar, umbúða hennar eða annarra íhluta til að þola skemmdir við venjuleg, fyrirsjáanleg geymsluskilyrði,

    j)    lýsing á öllum búnaði og nauðsynlegum fylgihlutum og notkunarreglur sem þörf er á til að flugeldavaran virki á öruggan hátt.

    Flugeldavörur skulu innihalda skoteldaefnin við flutning og venjulega meðhöndlun, nema annað sé tilgreint í fyrirmælum framleiðanda.

4)    Flugeldavörur mega ekki innihalda:

    a)    sprengiefni til viðskiptalegra nota, að undanskildu svörtu púðri eða blossaefni,

    b)    sprengiefni til hernaðarlegra nota.

5)    Mismunandi flokkar flugeldavara verða einnig að uppfylla eftirfarandi kröfur hið minnsta:

    A. SKOTELDAR

    1)    Framleiðandinn verður að raða skoteldum í mismunandi flokka skv. 3. gr. sem einkennast af nettóþyngd sprengiefna, öryggisfjarlægð, hávaðastigi eða svipuðu. Tilgreina verður flokkinn skilmerkilega á merkimiðanum.
        
        a)    Skoteldar í 1. flokki verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

            i.    öryggisfjarlægð verður að vera 1 m hið minnsta; hins vegar má öryggisfjarlægð vera styttri, eftir því sem við á,

            ii.    hámarkshávaðastig í öryggisfjarlægð má ekki vera meira en 120 dB (A, imp), eða jafngilt hávaðastig sem mælt er með annarri viðeigandi aðferð,

            iii.    í 1. flokki mega ekki vera hvellsprengjur (e. bangers), samhangandi hvellsprengjur (e. banger batteries), blossahvellsprengjur (e. flash bangers) og samhangandi blossahvellsprengjur (e. flash banger batteries),

            iv.      hvellkúlur (e. throwdowns) í 1. flokki mega ekki innihalda meira en 2,5 mg af silfurfúlmínati.
            
        b)    Skoteldar í 2. flokki verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

            i.    öryggisfjarlægð verður að vera 8 m hið minnsta; hins vegar má öryggisfjarlægð vera styttri, eftir því sem við á,

            ii.    hámarkshávaðastig í öryggisfjarlægð má ekki vera meira en 120 dB (A, imp), eða jafngilt hávaðastig sem mælt er með annarri viðeigandi aðferð.
        
        c)    Skoteldar í 3. flokki verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
            i.    öryggisfjarlægð verður að vera 15 m hið minnsta; hins vegar má öryggisfjarlægð vera styttri, eftir því sem við á,
            ii.    hámarkshávaðastig í öryggisfjarlægð má ekki vera meira en 120 dB (A, imp), eða jafngilt hávaðastig sem mælt er með annarri viðeigandi aðferð.

    2)    Skotelda má aðeins búa til úr efnum sem draga eins og hægt er úr áhættu fyrir heilbrigði, eignarmuni og umhverfi af völdum leifa.

    3)    Íkveikjuaðferðin verður að vera vel sýnileg eða tilgreind á merkimiðanum eða í leiðbeiningunum.

    4)    Skoteldar mega ekki hreyfast á tilviljanakenndan og ófyrirsjáanlegan hátt.

    5)    Verja verður skotelda í 1., 2. og 3. flokki gegn íkveikju fyrir slysni annaðhvort með hlíf, umbúðunum eða smíði vörunnar. Verja verður skotelda í 4. flokki gegn íkveikju fyrir slysni með aðferðum sem tilgreindar eru af framleiðanda.

    B. AÐRAR FLUGELDAVÖRUR

    1)    Flugeldavörur verða að vera hannaðar þannig að dregið sé eins og hægt er úr áhættu fyrir heilbrigði, eignarmuni og umhverfi við venjulega notkun.

    2)    Íkveikjuaðferðin verður að vera vel sýnileg eða tilgreind á merkimiðanum eða í leiðbeiningunum.

    3)    Flugeldavara verður að vera hönnuð þannig að dregið sé eins og hægt er úr áhættu fyrir heilbrigði, eignarmuni og umhverfi af völdum leifa þegar kveikt er í þeim fyrir slysni.

    4)    Eftir því sem við á verða flugeldavörur að vinna rétt fram að lokadagsetningu sem tilgreind er af framleiðanda.

     C. KVEIKJUBÚNAÐUR

    1)    Unnt verður að vera að ræsa kveikjubúnað á áreiðanlegan hátt og hann verður að hafa nægilega ræsigetu við öll venjuleg og fyrirsjáanleg notkunarskilyrði.

    2)    Verja verður kveikjubúnað fyrir rafstöðuafhleðslu við venjuleg og fyrirsjáanleg geymslu- og notkunarskilyrði.

    3)    Verja verður rafmagnskveikjur fyrir rafstöðuafhleðslu við venjuleg og fyrirsjáanleg geymslu- og notkunarskilyrði.

    4)    Hlífar á kveikiþráðum verða að hafa nægilegan vélrænan styrk og veita sprengifimu fyllingunni fullnægjandi vernd við venjulegt og fyrirsjáanlegt, vélrænt álag.

    5)    Mæliþættir fyrir brunatíma kveikiþráða verða að fylgja með vörunni.

    6)    Rafmagnseiginleikar rafmagnskveikja (t.d. straumþröskuldur innan öryggismarka, viðnám o.s.frv.) verða að fylgja með vörunni.

    7)    Rafþræðir rafmagnskveikja verða að vera með fullnægjandi einangrun og hafa fullnægjandi vélrænan styrk, þ.m.t. traust tenging við kveikjuna, með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar.

———



II. VIÐAUKI


SAMRÆMISMATSAÐFERÐIR


1. AÐFERÐAREINING B: EB-GERÐARPRÓFUN

1.     Í þessari aðferðareiningu er lýst þeim hluta af aðferðinni sem tilkynntur aðili beitir til að ganga úr skugga um og votta að sýnishorn, sem er einkennandi fyrir viðkomandi framleiðslu, uppfylli ákvæði tilskipunar 2007/23/EB (hér á eftir kölluð „þessi tilskipun“).

2.    Framleiðandi verður að leggja inn umsókn um EB-gerðarprófun hjá tilkynntum aðila að eigin vali.

Með umsókninni verða að fylgja:

a)    nafn og heimilisfang framleiðanda,

b)    skrifleg yfirlýsing þess efnis að sama umsókn hafi ekki verið lögð inn hjá öðrum tilkynntum aðila,

c)    tækniskjöl eins og lýst er í 3. lið.

Umsækjandinn verður að hafa tiltækt fyrir tilkynnta aðilann sýnishorn sem er dæmigert fyrir þá framleiðslu sem um er að ræða, hér á eftir nefnt ,,gerðareintak". Tilkynnti aðilinn getur farið fram á að fá fleiri sýnishorn sé þess þörf til að gera fyrirhugaðar prófanir.

3.     Tækniskjölin verða að gera kleift að meta samræmi vörunnar við kröfur í þessari tilskipun. Þau verða, eftir því sem þörf er á fyrir slíkt mat, að ná til hönnunar, framleiðslu og notkunar vörunnar og innihalda eftir því sem við á fyrir matið:

a)    almenna lýsingu á gerðareintakinu,

b)    frumdrög að hönnun, framleiðsluteikningar og skýringarmyndir af íhlutum, undireiningum, straumrásum o.s.frv.,

c)    lýsingar og útskýringar sem eru nauðsynlegar til að skilja teikningarnar og skýringarmyndirnar og átta sig á notkun vörunnar,

d)    skrá yfir samhæfðu staðlana, sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar og sem beitt er að öllu eða einhverju leyti og lýsing á þeim lausnum sem eru valdar í því skyni að uppfylla grunnkröfur í þessari tilskipun um öryggi þegar samhæfðu stöðlunum, sem um getur í 8. gr., hefur ekki verið beitt,

e)    niðurstöður hönnunarútreikninga sem gerðir eru, athuganir sem farið hafa fram o.s.frv.,

f)    prófunarskýrslur.

4.    Tilkynnti aðilinn verður að:

a)    skoða tækniskjölin, sannprófa að gerðareintakið hafi verið framleitt í samræmi við þau skjöl og ganga úr skugga um hvaða hlutar hafa verið hannaðir í samræmi við viðkomandi ákvæði samhæfðu staðlanna sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar og einnig hvaða íhlutir hafa verið hannaðir án þess að beita viðeigandi ákvæðum þessara samhæfðu staðla,

b)    gera eða láta gera viðeigandi athuganir og nauðsynlegar prófanir til að kanna hvort lausnirnar, sem framleiðandinn hefur valið, uppfylla grunnkröfur þessarar tilskipunar um öryggi þegar samhæfðu stöðlunum, sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar, er ekki beitt,

c)    gera eða láta gera viðeigandi athuganir og nauðsynlegar prófanir til að kanna, þegar framleiðandinn hefur kosið að beita viðkomandi samhæfðum stöðlum, hvort þeim hefur verið beitt,

d)    sammælast við umsækjandann um hvar athuganir og nauðsynlegar prófanir skuli fara fram.

5.     Þegar gerðareintakið uppfyllir viðkomandi ákvæði þessarar tilskipunar verður tilkynnti aðilinn að gefa út EB-gerðarprófunarvottorð til handa umsækjandanum. Vottorðið verður að innihalda nafn og heimilisfang framleiðandans, niðurstöður athugunarinnar og nauðsynlegar upplýsingar til að auðkenna gerðareintakið sem hlotið hefur samþykki.

Skrá yfir þau tækniskjöl, sem við eiga, verður að fylgja sem viðauki við vottorðið og verður tilkynnti aðilinn að geyma afrit af henni.

Ef framleiðanda er synjað um gerðarvottorð verður tilkynnti aðilinn að gera ítarlega grein fyrir ástæðum fyrir synjuninni.

Kveða verður á um málsmeðferð við áfrýjun.

6.     Umsækjandi verður að upplýsa tilkynnta aðilann, sem geymir tækniskjölin er varða EB-gerðarprófunarvottorðið, um allar breytingar á vöru sem er samþykkt en þarfnast viðbótarsamþykkis þar sem slíkar breytingar geta haft áhrif á samræmi við grunnkröfur eða skilyrði sem sett eru vegna notkunar vörunnar. Þetta viðbótarsamþykki verður að veita í formi viðbótar við upphaflega EB-gerðarprófunarvottorðið.

7.     Allir tilkynntir aðilar verða að senda öðrum tilkynntum aðilum viðeigandi upplýsingar um EB-gerðarprófunarvottorð sem gefin hafa verið út eða afturkölluð og viðbætur við þau.

8.     Aðrir tilkynntir aðilar geta fengið afrit af EB-gerðarprófunarvottorðum og/eða viðbótum við þau. Viðaukarnir við vottorðin verða að vera tiltækir öðrum tilkynntum aðilum.

9.     Framleiðandi verður að geyma afrit af EB-gerðarprófunarvottorðunum og viðbótum við þau með tækniskjölunum í a.m.k. tíu ár eftir að varan, sem um er að ræða, var síðast framleidd.

Hafi framleiðandi ekki staðfestu í Bandalaginu ber sá aðili, sem setur vöruna á markað, ábyrgð á að tækniskjölin séu tiltæk.

2. AÐFERÐAREINING C: GERÐARSAMRÆMI

1.     Í þessari aðferðareiningu er lýst þeim hluta af aðferðinni þegar framleiðandi sér til þess og lýsir yfir að viðkomandi flugeldavörur séu í samræmi við gerðareintakið sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og uppfylli þær kröfur þessarar tilskipunar sem við þær eiga. Framleiðandi verður að festa CE-merkið á hverja flugeldavöru og gera skriflega samræmisyfirlýsingu.

2.     Framleiðandinn verður að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framleiðsluferlið tryggi að framleiddar vörur séu í samræmi við gerðareintakið sem er lýst í EB-gerðarprófunarvottorðinu og uppfylli grunnkröfur um öryggi í þessari tilskipun.

3.     Framleiðandi verður að geyma eintak af samræmisyfirlýsingunni í a.m.k. tíu ár eftir að varan, sem um er að ræða, var síðast framleidd.

Hafi framleiðandi ekki staðfestu í Bandalaginu ber sá aðili, sem setur vöruna á markað, ábyrgð á að tækniskjölin séu tiltæk.

4.     Tilkynnti aðilinn, sem valinn er af framleiðanda, verður að gera eða láta gera athuganir á vörunni með óreglulegu millibili. Tilkynntur aðili tekur hæfilegt úrtak á staðnum til að athuga fullunnu vöruna og gerir viðeigandi prófanir sem skilgreindar eru í gildandi, samhæfðum staðli, sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar, eða jafngildi þeirra. Ef ein eða fleiri af þeim vörum sem eru athugaðar í úrtakinu uppfylla ekki kröfurnar verður tilkynnti aðilinn að gera viðeigandi ráðstafanir.

Framleiðandi verður, á ábyrgð tilkynnta aðilans, að festa kenninúmer hins síðarnefnda á vörurnar meðan á framleiðslu stendur.

3. AÐFERÐAREINING D: GÆÐATRYGGING Í FRAMLEIÐSLU

1.     Í þessari aðferðareiningu er því lýst með hvaða aðferð framleiðandi, sem rækir þær skyldur sem eru settar fram í 2. lið, sér til þess og lýsir yfir að viðkomandi flugeldavörur séu í samræmi við gerðareintakið sem er lýst í EB-gerðarprófunarvottorðinu og uppfylli kröfurnar í þessari tilskipun. Framleiðandi verður að festa CE-merkið á hverja vöru og gera skriflega samræmisyfirlýsingu. CE-merkinu verður að fylgja kenninúmer tilkynnta aðilans sem ber ábyrgð á vöktuninni sem um getur í 4. lið.

2.     Framleiðandi verður að nota samþykkt gæðakerfi fyrir framleiðslu, skoðun og prófun á fullunninni vöru eins og tilgreint er í 3. lið. Hann verður að falla undir vöktunina sem um getur í 4. lið.

3. Gæðakerfi

3.1. Framleiðandinn verður að leggja inn umsókn um mat á gæðakerfi sínu vegna viðkomandi flugeldavara hjá tilkynntum aðila að eigin vali.

Með umsókninni verða að fylgja:

a)    allar upplýsingar sem skipta máli fyrir þann flokk flugeldavara sem um er að ræða,

b)    skjölin um gæðakerfið,

c)    tækniskjöl varðandi samþykkta gerðareintakið og afrit af EB-gerðarprófunarvottorðinu.

3.2. Gæðakerfið verður að tryggja að flugeldavörurnar séu í samræmi við gerðareintakið sem lýst er í EB- gerðarprófunarvottorðinu og þær kröfur þessarar tilskipunar sem gilda um þær.

Skjalfesta verður alla þá þætti, kröfur og ákvæði, sem framleiðandi hefur stuðst við, á kerfisbundinn og skipulegan hátt sem skriflegar reglur, aðferðir og leiðbeiningar. Þessi gögn um gæðakerfið verða að vera með þeim hætti að áætlanir, skipulag, handbækur og skýrslur, er varða gæði, séu alltaf túlkuð á sama hátt.

Í þeim verður einkum að vera fullnægjandi lýsing:

a)    á gæðamarkmiðum og skipulagi, ábyrgð og valdi stjórnenda með tilliti til gæða flugeldavörunnar,

b)    á aðferðum við framleiðslu, gæðastýringu og gæðatryggingu og þeim ferlum og kerfisbundnu aðgerðum sem nota skal,

c)    á þeim athugunum og prófunum sem gerðar verða fyrir, við og eftir framleiðslu og hversu oft þær verða gerðar,

d)    á gæðaskýrslum, s.s. skoðunarskýrslum og prófunargögnum, kvörðunargögnum og skýrslum um menntun og hæfi hlutaðeigandi starfsfólks,

e)    á aðferðum til að fylgjast með því að tilskilin gæði flugeldavörunnar hafi náðst og að gæðakerfið sé skilvirkt.

3.3. Tilkynnti aðilinn verður að meta gæðakerfið til þess að ákveða hvort það fullnægi kröfunum sem um getur í lið 3.2. Hann verður að gera ráð fyrir að samræmis sé gætt við þessar kröfur að því er varðar gæðakerfi sem eru byggð á viðeigandi samhæfðum staðli. Í úttektarhópnum verður að vera a.m.k. einn maður sem hefur reynslu af því að meta framleiðslutæknina sem um er að ræða. Matið verður að fela í sér heimsókn á athafnasvæði framleiðanda.

Tilkynna verður framleiðanda um tilhlýðilega rökstudda ákvörðun varðandi matið. Tilkynningin verður að fela í sér niðurstöður athugunarinnar.

3.4. Framleiðandi verður að skuldbinda sig til að uppfylla þær skyldur sem gæðakerfið, í þeirri mynd sem það hefur verið samþykkt, leggur honum á herðar og að viðhalda því svo það sé fullnægjandi og skilvirkt.

Framleiðandi verður að upplýsa tilkynnta aðilann, sem samþykkti gæðakerfið, um allar fyrirhugaðar breytingar á því.

Tilkynnti aðilinn verður að meta þær breytingar sem lagðar eru til og ákveða hvort breytt gæðakerfi uppfylli áfram kröfurnar, sem um getur í lið 3.2, eða hvort nýtt mat þurfi að fara fram.

Tilkynna verður framleiðanda um tilhlýðilega rökstudda ákvörðun varðandi matið. Tilkynningin verður að fela í sér niðurstöður athugunarinnar.

4. Vöktun á ábyrgð tilkynnta aðilans

4.1. Tilgangurinn með vöktuninni er að tryggja að framleiðandi uppfylli þær skyldur sem samþykkta gæðakerfið leggur honum á herðar.

4.2. Framleiðandinn verður að veita tilkynnta aðilanum aðgang til að skoða framleiðslu-, eftirlits-, prófunar- og geymslustaði og láta honum í té allar nauðsynlegar upplýsingar, einkum:

a)    skjölin um gæðakerfið,

b)    gæðaskýrslur, s.s. skoðunarskýrslur og prófunargögn, kvörðunargögn og skýrslur um menntun og hæfi hlutaðeigandi starfsfólks.

4.3. Tilkynnti aðilinn verður með jöfnu millibili að gera úttekt á því hvort framleiðandi viðheldur gæðakerfinu og notar það og gefa framleiðanda skýrslu um úttektina.

4.4. Að auki getur tilkynnti aðilinn komið óvænt í heimsókn til framleiðandans. Í slíkum heimsóknum er tilkynnta aðilanum heimilt að gera, eða láta gera, prófanir til að færa sönnur á að gæðakerfið vinni rétt, ef með þarf. Tilkynnti aðilinn verður að gefa framleiðandanum skýrslu um heimsóknina og afhenda honum prófunarskýrslu hafi prófun farið fram.

5.     Framleiðandinn verður að varðveita eftirfarandi og hafa tiltæk fyrir yfirvöld í hverju aðildarríki í a.m.k. tíu ár eftir að síðasta eintak vörunnar hefur verið framleitt:

a)    skjölin sem um getur í b-lið í lið 3.1,

b)    gögn um þær breytingar sem um getur í annarri undirgrein í lið 3.4,

c)    ákvarðanir og skýrslur frá tilkynnta aðilanum sem um getur í fjórðu undirgrein liðar 3.4 og í liðum 4.3 og 4.4.

6.     Sérhver tilkynntur aðili verður að láta öðrum tilkynntum aðilum í té viðeigandi upplýsingar um samþykki gæðakerfa sem hafa verið gefin út eða afturkölluð.

4. AÐFERÐAREINING E: GÆÐATRYGGING VÖRU

1. Í þessari aðferðareiningu er því lýst með hvaða aðferð framleiðandi, sem rækir þær skyldur sem eru settar fram í 2. lið, sér til þess og lýsir yfir að flugeldavörurnar séu í samræmi við gerðareintakið sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu. Framleiðandi verður að festa CE-merkið á hverja vöru og gera skriflega samræmisyfirlýsingu. CE-merkinu verður að fylgja kenninúmer tilkynnta aðilans sem ber ábyrgð á vöktuninni sem um getur í 4. lið.

2. Framleiðandi verður að nota samþykkt gæðakerfi fyrir skoðun og prófun á fullunninni flugeldavöru eins og tilgreint er í 3. lið. Hann verður að falla undir vöktunina sem um getur í 4. lið.

3. Gæðakerfi

3.1. Framleiðandinn verður að leggja fram umsókn hjá tilkynntum aðila að eigin vali um mat á gæðakerfinu í tengslum við flugeldavörurnar.

Með umsókninni verða að fylgja:

a)    allar upplýsingar sem skipta máli fyrir þann flokk flugeldavara sem um er að ræða,

b)    skjölin um gæðakerfið,

c)    tækniskjöl varðandi samþykkta gerðareintakið og afrit af EB-gerðarprófunarvottorðinu.

3.2. Samkvæmt gæðakerfinu verður að athuga og gera viðeigandi prófanir á öllum flugeldavörum, eins og skilgreint er í viðkomandi samhæfðum staðli eða stöðlum sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar, eða samsvarandi prófanir, til að sannreyna að varan samræmist viðkomandi kröfum þessarar tilskipunarinnar.

Skjalfesta verður alla þá þætti, kröfur og ákvæði, sem framleiðandi hefur stuðst við, á kerfisbundinn og skipulegan hátt sem skriflegar reglur, aðferðir og leiðbeiningar. Þessi gögn um gæðakerfið verða að vera með þeim hætti að áætlanir, skipulag, handbækur og skýrslur, er varða gæði, séu alltaf túlkuð á sama hátt.

Í þeim verður einkum að vera fullnægjandi lýsing:

a)    á gæðamarkmiðum og skipulagi, ábyrgð og valdi stjórnenda með tilliti til gæða vörunnar,

b)    á þeim athugunum og prófunum sem verða gerðar að framleiðslu lokinni,

c)    á aðferðum til að fylgjast með því að gæðakerfið sé skilvirkt,

d)    á gæðaskýrslum, s.s. skoðunarskýrslum og prófunargögnum, kvörðunargögnum og skýrslum um menntun og hæfi hlutaðeigandi starfsfólks.

3.3. Tilkynnti aðilinn verður að meta gæðakerfið til þess að ákveða hvort það fullnægi kröfunum sem um getur í lið 3.2. Hann verður að gera ráð fyrir að samræmis sé gætt við þessar kröfur að því er varðar gæðakerfi sem eru byggð á viðeigandi samhæfðum staðli.

Í úttektarhópnum verður að vera a.m.k. einn maður sem hefur reynslu af því að meta framleiðslutæknina sem um er að ræða. Matið verður að fela í sér heimsókn á athafnasvæði framleiðanda.

Tilkynna verður framleiðanda um tilhlýðilega rökstudda ákvörðun varðandi matið. Tilkynningin verður að fela í sér niðurstöður athugunarinnar.

3.4. Framleiðandi verður að skuldbinda sig til að uppfylla þær skyldur sem gæðakerfið, í þeirri mynd sem það hefur verið samþykkt, leggur honum á herðar og að viðhalda því svo það sé fullnægjandi og skilvirkt.

Framleiðandi verður að upplýsa tilkynnta aðilann, sem samþykkti gæðakerfið, um allar fyrirhugaðar breytingar á því.

Tilkynnti aðilinn verður að meta þær breytingar sem lagðar eru til og ákveða hvort breytt gæðakerfi uppfylli áfram kröfurnar sem um getur í lið 3.2 eða hvort nýtt mat þarf að fara fram.

Tilkynna verður framleiðanda um tilhlýðilega rökstudda ákvörðun varðandi matið. Tilkynningin verður að fela í sér niðurstöður athugunarinnar.

4. Vöktun á ábyrgð tilkynnta aðilans

4.1. Tilgangurinn með vöktuninni er að tryggja að framleiðandi uppfylli þær skyldur sem samþykkta gæðakerfið leggur honum á herðar.

4.2. Framleiðandinn verður að veita tilkynnta aðilanum aðgang til að skoða framleiðslu-, eftirlits-, prófunar- og geymslustaði og láta honum í té allar nauðsynlegar upplýsingar, einkum:

a)    skjölin um gæðakerfið,

b)    tækniskjölin,

c)    gæðaskýrslur, s.s. skoðunarskýrslur og prófunargögn, kvörðunargögn og skýrslur um menntun og hæfi hlutaðeigandi starfsfólks.

4.3. Tilkynnti aðilinn verður með jöfnu millibili að gera úttekt á því hvort framleiðandi viðheldur gæðakerfinu og notar það og gefa framleiðanda skýrslu um úttektina.

4.4. Að auki getur tilkynnti aðilinn komið óvænt í heimsókn til framleiðandans. Í slíkum heimsóknum er tilkynnta aðilanum heimilt að gera, eða láta gera, prófanir til að færa sönnur á að gæðakerfið vinni rétt, ef með þarf. Tilkynnti aðilinn verður að gefa framleiðandanum skýrslu um heimsóknina og afhenda honum prófunarskýrslu hafi prófun farið fram.

5. Framleiðandinn verður að varðveita eftirfarandi og hafa tiltæk fyrir yfirvöld í hverju aðildarríki í a.m.k. tíu ár eftir að síðasta eintak vörunnar hefur verið framleitt:

a)    skjölin sem um getur í b-lið í lið 3.1,

b)    gögn um þær breytingar sem um getur í annarri undirgrein í lið 3.4,

c)    ákvarðanir og skýrslur frá tilkynnta aðilanum sem um getur í fjórðu undirgrein liðar 3.4 og í liðum 4.3 og 4.4.

6. Sérhver tilkynntur aðili verður að framsenda öðrum tilkynntum aðilum viðeigandi upplýsingar um samþykki gæðakerfa sem hafa verið gefin út eða afturkölluð.

5. AÐFERÐAREINING G: EININGARSANNPRÓFUN

1.     Í þessari aðferðareiningu er því lýst með hvaða aðferð framleiðandi sér til þess og lýsir yfir að flugeldavara, sem hefur fengið vottorð, eins og um getur í 2. lið, sé í samræmi við viðkomandi kröfur þessarar tilskipunar. Framleiðandi verður að festa CE-merkið á vöruna og gefa út samræmisyfirlýsingu.

2.     Tilkynntur aðili verður að athuga flugeldavöruna og gera viðeigandi prófanir eins og mælt er fyrir um í viðkomandi samhæfðum stöðlum, sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar, eða samsvarandi prófanir, til að tryggja að varan sé í samræmi við viðkomandi kröfur þessarar tilskipunar.

Tilkynnti aðilinn verður að festa eða láta festa kenninúmer sitt á samþykktu flugeldavöruna og gefa út samræmisvottorð með hliðsjón af þeim prófunum sem hafa verið gerðar.

3. Markmiðið með tækniskjölunum er að gera kleift að meta samræmi við kröfurnar í þessari tilskipun og skilja hönnun, framleiðslu og notkun flugeldavörunnar.

Skjölin verða, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt fyrir matið, að innihalda eftirfarandi upplýsingar:

a)    almenna lýsingu á gerðareintakinu,

b)    frumdrög að hönnun, framleiðsluteikningar og skýringarmyndir af íhlutum, undireiningum og straumrásum,

c)    nauðsynlegar lýsingar og skýringar til að skilja frumdrög að hönnun, framleiðsluteikningar, skýringarmyndir af íhlutum, undireiningum og straumrásum og notkun flugeldavörunnar,

d)    skrá yfir samhæfðu staðlana, sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar og sem beitt er að öllu eða einhverju leyti og lýsing á þeim lausnum sem eru valdar í því skyni að uppfylla grunnkröfur í þessari tilskipun um öryggi þegar samhæfðu stöðlunum, sem um getur í 8. gr., hefur ekki verið beitt,

e)    niðurstöður hönnunarútreikninga sem gerðir eru og athugana sem farið hafa fram,

f)    prófunarskýrslur.

6. AÐFERÐAREINING H: FULL GÆÐATRYGGING

1.     Í þessari aðferðareiningu er því lýst með hvaða aðferð framleiðandinn, sem rækir þær skyldur sem settar eru fram 2. lið, sér til þess og lýsir yfir að vörurnar sem um er að ræða uppfylli kröfur þessarar tilskipunar. Framleiðandi eða innflytjandinn verður að festa CE-merkið á hverja vöru og gera skriflega samræmisyfirlýsingu. CE-merkinu verður að fylgja kenninúmer tilkynnta aðilans sem ber ábyrgð á vöktuninni sem um getur í 4. lið.

2.     Framleiðandi verður að nota samþykkt gæðakerfi fyrir hönnun, framleiðslu, skoðun og prófun á fullunninni vöru, eins og tilgreint er í 3. lið, og falla undir vöktunina sem um getur í 4. lið.

3. Gæðakerfi

3.1. Framleiðandinn verður að leggja inn umsókn um mat á gæðakerfi sínu hjá tilkynntum aðila.

Með umsókninni verða að fylgja:

a)    allar upplýsingar sem skipta máli fyrir þann flokk flugeldavara sem um er að ræða,

b)    skjölin um gæðakerfið.

3.2. Gæðakerfið verður að tryggja að varan samræmist kröfum þessarar tilskipunar.

Skjalfesta verður alla þá þætti, kröfur og ákvæði, sem framleiðandi hefur stuðst við, á kerfisbundinn og skipulegan hátt sem skriflegar reglur, aðferðir og leiðbeiningar. Þessi gögn um gæðakerfið verða að vera með þeim hætti að áætlanir, skipulag, handbækur og skýrslur, er varða gæði, séu alltaf túlkuð á sama hátt.

Í þeim verður einkum að vera fullnægjandi lýsing:

a)    á gæðamarkmiðum og skipulagi, ábyrgð og valdi stjórnenda með tilliti til hönnunar og gæða vörunnar,

b)    á tækniforskriftum fyrir smíði, þ.m.t. gildandi staðlar og, ef stöðlunum sem um getur í 8. gr. þessarar tilskipunar hefur ekki verið beitt að fullu, aðferðum við að ganga úr skugga um að viðkomandi grunnkröfur þessarar tilskipunar hafi verið uppfylltar,

c)    á aðferðum við að hafa eftirlit með og meta niðurstöður þróunar, verkferli og kerfisbundnar aðferðir, sem notaðar verða til að þróa vörur sem tilheyra vöruflokknum sem um er að ræða,

d)    á aðferðum, ferlum og kerfisbundnum aðgerðum sem beitt er við framleiðslu, gæðaeftirlit og gæðatryggingu,

e)    á þeim athugunum og prófunum sem gerðar verða fyrir, við og eftir framleiðslu og hversu oft þær verða gerðar,

f)    á gæðaskýrslum, s.s. skoðunarskýrslum og prófunargögnum, kvörðunargögnum og skýrslum um menntun og hæfi hlutaðeigandi starfsfólks,

g)    á aðferðum til að fylgjast með því að tilskilin hönnun og gæði vörunnar hafi náðst og að gæðakerfið sé skilvirkt.

3.3. Tilkynnti aðilinn verður að meta gæðakerfið til þess að ákveða hvort það fullnægi kröfunum sem um getur í lið 3.2. Hann verður að gera ráð fyrir að samræmis sé gætt við þessar kröfur að því er varðar gæðakerfi sem eru byggð á viðeigandi samhæfðum staðli.

Í úttektarhópnum verður að vera a.m.k. einn maður sem hefur reynslu af því að meta framleiðslutæknina sem um er að ræða. Matið skal fela í sér heimsókn á athafnasvæði framleiðanda.

Tilkynna verður framleiðanda um tilhlýðilega rökstudda ákvörðun varðandi matið. Tilkynningin verður að fela í sér niðurstöður athugunarinnar.

3.4. Framleiðandi verður að skuldbinda sig til að uppfylla þær skyldur sem gæðakerfið, í þeirri mynd sem það hefur verið samþykkt, leggur honum á herðar og að viðhalda því svo það sé fullnægjandi og skilvirkt.

Framleiðandi verður að upplýsa tilkynnta aðilann, sem samþykkti gæðakerfið, stöðugt um allar fyrirhugaðar uppfærslur á því.

Tilkynnti aðilinn verður að meta þær breytingar sem lagðar eru til og ákveða hvort breytt gæðakerfi uppfylli áfram kröfurnar, sem um getur í lið 3.2, eða hvort nýtt mat þurfi að fara fram.

Tilkynna verður framleiðanda um tilhlýðilega rökstudda ákvörðun varðandi matið. Tilkynningin verður að fela í sér niðurstöður athugunarinnar.

4. EB-vöktun á ábyrgð tilkynnta aðilans

4.1. Tilgangurinn með EB-vöktuninni er að tryggja að framleiðandi uppfylli þær skyldur sem samþykkta gæðakerfið leggur honum á herðar.

4.2. Framleiðandinn verður að veita tilkynnta aðilanum aðgang til að skoða framleiðslu-, eftirlits-, prófunar- og geymslustaði og láta honum í té allar nauðsynlegar upplýsingar, einkum:

a)    skjölin um gæðakerfið,

b)    gæðaskýrslur, sem krafist er samkvæmt gæðakerfinu viðvíkjandi þróunarsviðið, s.s. niðurstöður úr greiningum, útreikningum og prófunum,
c)    gæðaskýrslur, sem krafist er samkvæmt gæðakerfinu viðvíkjandi framleiðslusviðið, s.s. skoðunarskýrslur og prófunargögn, kvörðunargögn og skýrslur um menntun og hæfi hlutaðeigandi starfsfólks.
4.3. Tilkynnti aðilinn verður með jöfnu millibili að gera úttekt á því hvort framleiðandi viðheldur gæðakerfinu og notar það og gefa framleiðanda skýrslu um úttektina.

4.4. Að auki getur tilkynnti aðilinn komið óvænt í heimsókn til framleiðandans. Í slíkum heimsóknum er tilkynnta aðilanum heimilt að gera, eða láta gera, prófanir til að færa sönnur á að gæðakerfið vinni rétt, ef með þarf. Tilkynnti aðilinn verður að gefa framleiðandanum skýrslu um heimsóknina og afhenda honum prófunarskýrslu hafi prófun farið fram.

5. Framleiðandinn verður að varðveita eftirfarandi og hafa tiltæk fyrir yfirvöld í hverju aðildarríki í a.m.k. tíu ár eftir að síðasta eintak vörunnar hefur verið framleitt:

a)    skjölin sem um getur í b-lið í lið 3.1,

b)    gögn um þær breytingar sem um getur í annarri undirgrein í lið 3.4,

c)    ákvarðanir og skýrslur frá tilkynnta aðilanum sem um getur í fjórðu undirgrein liðar 3.4 og í liðum 4.3 og 4.4.

6.     Sérhver tilkynntur aðili verður að láta öðrum tilkynntum aðilum í té viðeigandi upplýsingar um samþykki gæðakerfa sem hafa verið gefin út eða afturkölluð.

———





III. VIÐAUKI



LÁGMARKSVIÐMIÐANIR SEM AÐILDARRÍKIN SKULU TAKA TILLIT TIL VEGNA AÐILA SEM BERA ÁBYRGÐ Á SAMRÆMISMATI


1.     Tilkynnti aðilinn, forstjóri hans og þeir starfsmenn, sem sjá um sannprófanir, mega hvorki vera hönnuðir, framleiðendur, birgjar né annast uppsetningu á eða flytja inn flugeldavörurnar sem þeir skoða né heldur vera viðurkenndir fulltrúar neins þessara aðila. Þeir mega hvorki taka beinan þátt í hönnun, smíði, markaðssetningu, viðhaldi eða innflutningi á þessum vörum né vera viðurkenndir fulltrúar aðila sem þátt taka í þessari starfsemi. Þetta útilokar ekki möguleikann á skiptum á tæknilegum upplýsingum milli framleiðandans og tilkynnta aðilans.

2.     Tilkynnti aðilinn og starfsmenn hans verða að framkvæma sannprófanir með faglegu sjálfstæði og tæknikunnáttu á hæsta stigi og vera lausir við allan þrýsting og hvatningu, einkum fjárhagslega, sem kynni að hafa áhrif á mat þeirra og niðurstöður skoðunar, einkum frá einstaklingum eða hópum einstaklinga sem eiga hagsmuna að gæta varðandi niðurstöður úr sannprófunum.

3.     Tilkynnti aðilinn verður að hafa á að skipa nauðsynlegu starfsliði og hafa nauðsynlega aðstöðu til að framkvæma á réttan hátt þau stjórnunarlegu og tæknilegu verkefni sem tengjast sannprófun og verður hann einnig að hafa aðgang að þeim búnaði sem þörf er á fyrir sérstakar sannprófanir.

4.     Það starfslið, sem ber ábyrgð á skoðun, verður að hafa:

a)    trausta tækni- og starfsþjálfun,

b)    fullnægjandi þekkingu á kröfum varðandi prófanirnar sem það framkvæmir og næga reynslu af slíkum prófunum,

c)    getu til þess að semja þau vottorð, skrár og skýrslur sem þarf til að sýna að prófanir hafa verið framkvæmdar.

5.     Hlutleysi skoðunarmanna verður að vera tryggt. Laun þeirra mega hvorki vera háð fjölda prófana sem framkvæmdar eru né niðurstöðum úr þessum prófunum.

6.     Tilkynnti aðilinn verður að hafa ábyrgðartryggingu nema ríkið sé bótaskylt samkvæmt landslögum eða aðildarríkið sjálft beri beina ábyrgð á prófunum.

7.     Starfsmenn tilkynnta aðilans verða að fara með allar upplýsingar, sem þeir afla sér í starfi sínu samkvæmt þessari tilskipun eða hverju því ákvæði landslaga sem sett er í tilefni af henni, sem trúnaðarmál (nema gagnvart lögbærum stjórnvöldum í ríkinu þar sem starfsemin fer fram).

———




IV. VIÐAUKI


SAMRÆMISMERKI



CE-samræmismerkið skal samanstanda af hástöfunum „CE“ með eftirfarandi útliti:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Ef merkið er minnkað eða stækkað verða hlutföllin í teikningunni hér að framan að haldast óbreytt.

——— ———


Fylgiskjal III.


TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 2008/43/EB
frá 4. apríl 2008

um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna
og rekja sprengiefni til almennra nota

(Texti sem varðar EES)


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af tilskipun ráðsins 93/15/EBE frá 5. apríl 1993 um samhæfingu ákvæða um markaðssetningu og eftirlit með sprengiefnum til almennra nota ( 1 ), einkum öðrum málslið annarrar málsgreinar 14. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Í tilskipun 93/15/EBE er mælt fyrir um reglur um að tryggja örugga og áreiðanlega dreifingu sprengiefna á markaði Bandalagsins.

2)        Eins og kveðið er á um í þeirri tilskipun er nauðsynlegt að tryggja að fyrirtæki í sprengiefnageiranum búi yfir kerfi til að rekja sprengiefni í því skyni að hægt sé að auðkenna þá sem hafa sprengiefnin í vörslu sinni hvenær sem er.

3)        Brýnt er að auðkenna sprengiefni sérstaklega ef halda á nákvæmar og fullnægjandi skrár yfir sprengiefni á öllum stigum aðfangakeðjunnar. Þetta skal gera kleift að auðkenna og rekja sprengiefni frá framleiðslustað og fyrstu setningar á markað til endanlegs notanda og endanlegrar notkunar með það í huga að hindra misnotkun og þjófnað og að aðstoða löggæsluyfirvöld við að rekja uppruna týndra eða stolinna sprengiefna.

4)        Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, eru í samræmi við álit stjórnarnefndarinnar sem komið var á fót skv. 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 93/15/EBE.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. KAFLI

ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr.

Efni


Með þessari tilskipun er komið á samræmdu kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.

2. gr.


Gildissvið


Tilskipun þessi gildir ekki:

a)    um sprengiefni sem flutt eru og afhent óinnpökkuð eða í dælubílum til beinnar losunar í sprengjuholuna,

b)    um sprengiefni sem framleidd eru á sprengistaðnum og sem hlaðin eru um leið og þau hafa verið framleidd (framleiðsla á staðnum),

c)    um skotfæri.

2. KAFLI

AUÐKENNI VÖRU

3. gr.

Sérstakt auðkenni


1.     Aðildarríkin skulu tryggja að fyrirtæki í sprengiefnageiranum, sem framleiða eða flytja inn sprengiefni eða setja saman hvellhettur, merki sprengiefni og allar minnstu pökkunareiningarnar með sérstöku auðkenni.

Ef sprengiefni fara í frekara framleiðsluferli skulu framleiðendur ekki skyldugir að merkja sprengiefnin með nýju sérstöku auðkenni nema upphaflega sérstaka auðkennið sé ekki lengur í samræmi við 4. gr.

2.     Ákvæði 1. mgr. gilda ekki ef sprengiefnin eru framleidd til útflutnings og eru merkt með auðkenni sem gerir kleift að rekja sprengiefnin í samræmi við kröfur innflutningslandsins.

3.     Sérstaka auðkennið skal samanstanda af þáttunum sem lýst er í viðaukanum.

4.     Hverjum framleiðslustað skal úthlutað þriggja stafa talnakóða hjá yfirvaldi í aðildarríkinu þar sem hann hefur staðfestu.

5.     Ef framleiðslustaðurinn er staðsettur utan Bandalagsins skal framleiðandinn, sem hefur staðfestu innan Bandalagsins, hafa samband við yfirvald í innflutningsaðildarríkinu til þess að fá úthlutað kóða fyrir framleiðslustaðinn.

Ef framleiðslustaðurinn er staðsettur utan Bandalagsins og framleiðandinn hefur ekki staðfestu innan Bandalagsins skal innflytjandi sprengiefnisins, sem um er að ræða, hafa samband við yfirvald í innflutningsaðildarríkinu til þess að fá úthlutað kóða fyrir framleiðslustaðinn.

6.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að dreifingaraðilar sem umpakka sprengiefnum gangi úr skugga um að sérstaka auðkennið sé fest á sprengiefnið og minnstu pökkunareininguna.

4. gr.

Merking og áfesting


Sérstaka auðkenninu skal komið fyrir á eða tryggilega fest á viðkomandi hlut með varanlegum hætti og þannig að tryggt sé að það sé auðlæsilegt.

5. gr.

Sprengiefni í hylkjum og sprengiefni í sekkjum


Að því er varðar sprengiefni í hylkjum og sprengiefni í sekkjum skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem límdur er á hvert hylki eða hvern sekk eða prentað beint á þau. Líma skal tengdan merkimiða á hvern kassa af hylkjum.

Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust rafrænt merki sem fest er við hvert hylki eða hvern sekk og á sama hátt tengt rafrænt merki fyrir hvern kassa af hylkjum.

6. gr.

Tveggja þátta sprengiefni


Að því er varðar tveggja þátta sprengiefni í umbúðum skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem límdur er á allar minnstu pökkunareiningarnar, sem innihalda báða þættina, eða sérstaka auðkennið prentað beint á þær.

7. gr.

Púðurhvellhettur og púðurkveikiþræðir


Að því er varðar púðurhvellhettur eða púðurkveikiþræði skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem límdur er á hylki púðurhvellhettunnar eða sérstaka auðkennið prentað eða stimplað beint á það. Líma skal tengdan merkimiða á hvern kassa af púðurhvellhettum eða púðurkveikiþráðum.

Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust rafrænt merki, sem fest er við hverja púðurhvellhettu eða púðurkveikiþráð, og tengt merki fyrir hvern kassa af púðurhvellhettum eða púðurkveikiþráðum.

8. gr.

Rafmagnshvellhettur, höggtúbuhvellhettur og rafeindahvellhettur


Að því er varðar rafmagnshvellhettur, höggtúbuhvellhettur og rafeindahvellhettur skal sérstaka auðkenninu annaðhvort komið fyrir á merkimiða sem límdur er á leiðslur eða rör eða á hylki hvellhettunnar eða sérstaka auðkennið prentað eða stimplað beint á hylkið. Líma skal tengdan merkimiða á hvern kassa af hvellhettum.

Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust rafrænt merki sem fest er við hverja hvellhettu og tengt merki fyrir hvern kassa af hvellhettum.

9. gr.

Kveikjur og forsprengjur


Að því er varðar kveikjur og forsprengjur skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem límdur er á kveikjuna eða forsprengjuna eða sérstaka auðkennið prentað beint á þær. Líma skal tengdan merkimiða á hvern kassa af kveikjum eða forsprengjum.

Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust rafrænt merki sem fest er við hverja kveikju eða forsprengju og tengt rafrænt merki fyrir hvern kassa af kveikjum eða forsprengjum.

10. gr.

Tundurkveikiþræðir og öryggispúðurkveikiþræðir


Að því er varðar tundurkveikiþræði og öryggispúðurkveikiþræði skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem er límdur á keflið eða sérstaka auðkennið prentað beint á það. Sérstaka auðkenninu verður annaðhvort komið fyrir með fimm metra millibili á ytri kápu hvors þráðarins eða á pressaða innra plastlaginu sem er rétt undir ytri trefjum tundurkveikiþráðarins eða öryggispúðurkveikiþráðarins. Líma skal tengdan merkimiða á hvern kassa af tundurkveikiþráðum eða öryggispúðurkveikiþráðum.

Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust rafrænt merki, sem komið er fyrir inni í þræðinum, og tengt merki fyrir hvern kassa af tundurkveikiþráðum eða öryggispúðurkveikiþráðum.

11. gr.

Dósir og tunnur sem innihalda sprengiefni


Að því er varðar dósir og tunnur sem innihalda sprengiefni skal sérstaka auðkenninu komið fyrir á merkimiða sem límdur er á dósina eða tunnuna sem inniheldur sprengiefni eða sérstaka auðkennið prentað beint á þær.

Að auki skal fyrirtækjum heimilt að nota hlutlaust, óvirkt rafrænt merki sem fest er við hverja dós og tunnu.

12. gr.

Afrit af upprunalega merkimiðanum


Fyrirtækjum er heimilt að festa lausa límmiða með afritum af upprunalega merkimiðanum á sprengiefnin sem viðskiptavinir þeirra geta notað. Þessi afrit skulu merkt á skýran hátt sem afrit af frumritinu til að hindra misnotkun.

3. KAFLI

GAGNAÖFLUN OG SKRÁAHALD

13. gr.


Gagnaöflun


1.     Aðildarríkin skulu tryggja að fyrirtæki í sprengiefnageiranum komi á fót kerfi til að safna gögnum í tengslum við sprengiefni, að meðtöldu sérstöku auðkenni í allri aðfangakeðjunni og á endingartímanum.

2.     Gagnaöflunarkerfið skal gera fyrirtækjunum kleift að rekja sprengiefnin þannig að hægt sé að auðkenna þá sem hafa sprengiefnin í vörslu sinni hvenær sem er.

3.     Aðildarríkin skulu tryggja að gögn, sem aflað er, þ.m.t. sérstök auðkenni, séu geymd og þeim viðhaldið í tíu ár eftir afhendingu eða, ef þau eru þekkt, við lok endingartíma sprengiefnisins jafnvel þótt rekstri fyrirtækjanna hafi verið hætt.

14. gr.

Skyldur fyrirtækja


Aðildarríkin skulu tryggja að fyrirtæki í sprengiefnageiranum uppfylli eftirfarandi kröfur:

a)    haldi skrár yfir öll auðkenni sprengiefna ásamt öllum viðeigandi upplýsingum, þ.m.t. tegund sprengiefnis, fyrirtæki eða einstaklingur sem fékk það í hendur,

b)    skrái staðsetningu hvers sprengiefnis á meðan sprengiefnið er í eigu eða vörslu þeirra þar til það er flutt til annars fyrirtækis eða notað,

c)    prófi, með reglulegu millibili, gagnaöflunarkerfið í því skyni að tryggja skilvirkni þess og gæði skráðra gagna,

d)    geymi og viðhaldi gögnum sem er aflað, þ.m.t. sérstök auðkenni, á tímabilinu sem tilgreint er í 3. mgr. 13. gr.,

e)    verndi gögnin gegn tjóni eða eyðileggingu fyrir slysni eða af illum hvötum,

f)    leggi fram upplýsingar, sem lögbært yfirvald fer fram á, varðandi uppruna og staðsetningu alls sprengiefnis á endingartíma þess og í gegnum alla aðfangakeðjuna,

g)    veiti viðkomandi yfirvöldum í aðildarríkjunum samskiptaupplýsingar og nöfn einstaklinga sem geta veitt upplýsingarnar, sem fjallað er um í f-lið, utan hefðbundins skrifstofutíma.

Að því er d-lið varðar skal fyrirtækið, þegar um er að ræða sprengiefni sem framleidd eru eða flutt inn fyrir þann dag sem tilgreindur er í annarri undirgrein í 1. mgr. 15. gr., varðveita skrár í samræmi við gildandi ákvæði landslaga.

4. KAFLI

LOKAÁKVÆÐI

15. gr.

Lögleiðing


1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 5. apríl 2009. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða og samsvörunartöflu milli viðkomandi ákvæða og þessarar tilskipunar.

Þau skulu beita þessum ákvæðum frá og með 5. apríl 2012.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

16. gr.

Gildistaka


Tilskipun þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

17. gr.


Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 4. apríl 2008.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Günter VERHEUGEN

varaforseti



———



VIÐAUKI


Sérstakt auðkenni samanstendur af:

1.     hluta auðkennisins sem er læsilegur mönnum og inniheldur eftirfarandi:

    a)     heiti framleiðanda,

    b)     alstafakóða sem inniheldur:

        i.    tvo bókstafi sem auðkenna aðildarríkið (sem framleiðir eða flytur inn á markað Bandalagsins, t.d. AT = Austurríki),

        ii.    þrjá tölustafi sem auðkenna heiti framleiðslustaðarins (úthlutað af yfirvaldi í hverju aðildarríki fyrir sig),

        iii.    sérstakan vörukóða og vörustjórnunarupplýsingar sem hannaðar eru af framleiðanda,

2.     auðkenni sem unnt er að lesa með rafrænum hætti í formi strikamerkis og/eða fylkiskóða sem tengist beint við alstafaauðkenniskóðann.

Dæmi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3.     Að því er varðar hluti, sem eru of litlir til að festa á sérstaka vörukóðann og vörustjórnunarupplýsingarnar, sem hannaðar eru af framleiðanda, skulu upplýsingarnar í i. og ii. lið b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. teljast fullnægjandi.

—————

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 92, 30.3.2006, bls. 29, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 17, 30.3.2006, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 154, 14.6.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 94, 5.4.2008, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 195, 18.8.2006, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 30. nóvember 2006 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 16. apríl 2007.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB L 121, 15.5.1993, bls. 20. Tilskipuninni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 10, 14.1.1997, bls. 13. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/105/EB (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 97).
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB L 46, 17.2.1997, bls. 25 Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/84/EB (Stjtíð. ESB L 324, 29.11.2002, bls. 53).
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB C 136, 4.6.1985, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. ESB C 91, 16.4.2003, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 13
(3)    Stjtíð. EB L 220, 30.8.1993, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB L 210, 7.8.1985, bls. 29. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/34/EB (Stjtíð. EB L 141, 4.6.1999, bls. 20).
Neðanmálsgrein: 15
(2)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2006/512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 16
(3)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. EB L 187, 16.7.1988, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 18
(1)    Stjtíð. EB L 212, 7.8.2001, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. EB L 121, 15.5.1993, bls. 20. Tilskipuninni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).