Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 553. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 982  —  553. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um starfsmannastefnu ráðuneytis
og undirstofnana varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.


     1.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig megi auðvelda ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/ 1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en eru að sama skapi jákvæð gagnvart því.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess gripið til viðeigandi ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa og þá hvaða?
    Ráðuneytið og stofnanir hafa ekki gert sérstakar ráðstafanir til að ráða fatlað fólk til starfa. Eftir að Landmælingar Íslands fluttu upp á Akranes og voru sjálfar með útgáfu og sölu á landakortum var hluti af þeirri starfsemi unnin hjá Fjöliðjunni sem er verndaður vinnustaður á Akranesi. Einnig má geta þess að starfsemi Landmælinga er þess eðlis að auðvelt væri að ráða fatlaða einstaklinga til starfa þar.

     3.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks?
    Ráðuneytið og Mannvirkjastofnun, sem er ein af stofnunum umhverfisráðuneytisins, og ráðuneytisstjóri og hluti starfsmanna ráðuneytisins, sem og forstöðumaður Mannvirkjastofnunar og allir stjórnendur þeirrar stofnunar, þekkja vel ákvæði fyrrgreinds samnings, sér í lagi vegna vinnu stofnunarinnar við nýja byggingarreglugerð sem er í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna. Aðrar stofnanir ráðuneytisins hafa ekki fengið kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.

     4.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun?
    Sjá einnig svar við 3. tölul. Að auki er Vatnajökulsþjóðgarður með átak vegna aðgengismála að völdum ferðamannastöðum í þjóðgarðinum í samræmi við verndaráætlun.

     5.      Hversu margir fatlaðir starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess og hversu hátt hlutfall er það af starfsmannafjölda þeirra?
    Enginn fatlaður starfsmaður er starfsmaður ráðuneytisins en hjá einni af stofnunum þess er starfandi fatlaður einstaklingur. Í þeirri stofnun eru stöðugildin u.þ.b. sjö þannig að í stofnuninni er hlutfallið um 14%.