Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 518. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 986  —  518. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um húsnæðismál.


     1.      Hver er stefna stjórnvalda í húsnæðismálum?
    Hinn 4. nóvember 2010 skipaði félags- og tryggingamálaráðherra samráðshóp um húsnæðisstefnu. Hafði samráðshópurinn það hlutverk að móta heildstæða húsnæðisstefnu sem yrði grundvölluð á því markmiði að tryggja landsmönnum fjölbreytta og örugga valkosti í húsnæðismálum. Sérstök áhersla var lögð á að efla varanlega leigu- og búseturéttarkosti og stuðla að jöfnuði milli búsetuforma.
    Samráðshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í apríl 2011. Þar stendur meðal annars: „Meginmarkmið húsnæðisstefnu stjórnvalda er að tryggja húsnæðisöryggi heimila á Íslandi. Samhliða þarf húsnæðisstefna að stuðla að félagslegri samheldni og efnahagslegum stöðugleika.“ Auk þess að tilgreina markmið húsnæðisstefnu lagði hópurinn fram tillögur um það hvernig stjórnvöld gætu náð þeim markmiðum. Stjórnvöld vinna samkvæmt þessari stefnu. Til að vinna að þessum verkefnum var á haustmánuðum 2011 stofnað til fimm vinnuhópa um húsnæðismál ásamt því að unnið er að endurskoðun húsaleigulaga í velferðarráðuneyti.
    Vinnuhóparnir sem um ræðir eru vinnuhópur til að efla og samræma öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál, vinnuhópur um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs, vinnuhópur um húsnæðisbætur, vinnuhópur um húsnæðisáætlun og vinnuhópur um endurskoðun rekstrar- og skattaumhverfis húsnæðisfélaga. Upplýsingahópurinn skilaði af sér skýrslu í janúar síðastliðnum og áformað er að aðrir vinnuhópar ljúki sínum störfum í vor og sumar samkvæmt tímasettri áætlun.

     2.      Hver er stefna stjórnvalda varðandi leiguhúsnæði?
    Sérstaklega er fjallað um aukið framboð af leigu- og búseturéttaríbúðum í skýrslu samráðshópsins og leggur samráðshópurinn til að opinberir aðilar vinni að því að efla almennan markað með leigu- og búseturéttaríbúðir. Samkvæmt tímasettri áætlun er gert ráð fyrir að vinnuhópur um endurskoðun á rekstrar- og skattaumhverfi húsnæðisfélaga skili skýrslu með tillögum sínum í vor. Með bættu rekstrarumhverfi standa vonir til að leigu- og búseturéttaríbúðir verði eftirsóknarverður fjárfestingarkostur og þar með aukist vægi þessara búsetuforma á húsnæðismarkaði.
    Með jöfnum húsnæðisbótum óháðum búsetuformi er enn frekar ýtt undir þessa þróun. Stefnir vinnuhópur um húsnæðisbætur á að skila lokaskýrslu fyrir 1. maí og skulu tillögur hópsins miða að því að húsnæðisbætur verði greiddar út í stað vaxta- og húsaleigubóta árið 2013.
    Endurskoðun húsaleigulaga snertir jafnframt á þessu markmiði húsnæðisstefnu með því að bregðast við þeim ábendingum sem borist hafa vegna núverandi húsaleigulaga. Meðal þess sem bent hefur verið á er að núgildandi lög taka einkum til þess er einstaklingar leigja af öðrum einstaklingum og ekki sé með nægilega skýrum hætti gætt réttinda leigjenda gagnvart stærri leigusölum.
    Með upptöldum aðgerðum er það von stjórnvalda að auka megi vægi búseturéttar- og leiguíbúða og þar með val heimilanna í landinu.

     3.      Hafa stjórnvöld í hyggju að starfrækja opinber húsnæðisleigufélög?
    Í skýrslu samráðshópsins er lagt til að húsaleigulög og rekstrar- og skattaumhverfi húsnæðisfélaga verði endurskoðuð til að treysta rekstrargrundvöll þeirra og bæta stöðu leigjenda og búseturéttarhafa. Þá er jafnframt lagt til að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði með þeim hætti að hlutverk ríkisins felist í að tryggja skilvirkan húsnæðislánamarkað og almennum stuðningi en sveitarfélög geti tryggt húsnæðisöryggi á grundvelli laga um húsnæðismál og laga um félagsþjónustu meðal annars með eignarhlutum í almennum húsnæðisfélögum eða ívilnunum til húsnæðisfélaga. Þá er Íbúðalánasjóður langt kominn með að leggja mat á forsendur fyrir rekstri leigufélags íbúðarhúsnæðis og ákvörðun um stofnun 100% dótturfélags Íbúðalánasjóðs utan um rekstur slíks félags verður tekin á allra næstu mánuðum. Slíkt félag mundi innihalda hátt í 800 fasteignir um allt land og vera starfrækt með það í huga að stuðla að auknu framboði á leigumarkaði til frambúðar.