Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 548. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1002  —  548. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um starfsmannastefnu ráðuneytis
og undirstofnana varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.


     1.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað sér stefnu sem atvinnuveitendur um hvernig auðvelda megi ráðningar fatlaðs fólks í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sbr. 29. og 32. gr. laganna og 27. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
    Ráðuneytið og stofnanir þess hafa ekki markað sér slíka stefnu sérstaklega, umfram það sem leiðir af lögum og reglum um auglýsingar lausra starfa hjá ríkinu sem kveða á um að ávallt skuli ráða hæfasta umsækjanda hverju sinni. Skiptir þá ekki máli hvort um fatlaðan einstakling er að ræða eða ekki. Í samræmi við það á fatlað fólk forgang að viðkomandi starfi ef hæfni þess til að gegna því er meiri eða jöfn hæfni annarra umsækjenda um starfið.

     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess gripið til viðeigandi ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa og þá hvaða?
    Almennt hefur ekki verið gripið til sérstakra ráðstafana til að ráða fatlað fólk til starfa. Í svörum stofnana við erindi ráðuneytisins í tilefni af fyrirspurninni kom fram að hjá flestum stofnunum er hugað að aðgengi fatlaðs fólks. Þess ber jafnframt að geta að húsakostur ráðuneytisins og stofnana þess er frá mismunandi tíma og aðstæður ólíkar eftir því.

     3.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynnt ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um viðeigandi ráðstafanir til að auka atvinnuþátttöku fatlaðs fólks?
    Nei.

     4.      Hafa forstöðumönnum ráðuneytisins og undirstofnana verið kynntar breyttar áherslur hvað varðar þátt umhverfishindrana og viðhorfstengdra tálma í fötlun?
    Nei.

     5.      Hversu margir fatlaðir starfa hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess og hversu hátt hlutfall er það af starfsmannafjölda þeirra?
    Í ráðuneytinu og stofnunum þess starfa þrír fatlaðir einstaklingar sem er tæpt prósent af starfsmannafjölda.