Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 505. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1029  —  505. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur
um ungmenni og vímuefnameðferð.


     1.      Hve mörg ungmenni hafa árlega verið neyðarvistuð á Stuðlum á síðustu fimm árum og hve lengi í senn?
    Samtals hafa 359 börn verið vistuð 1.114 sinnum á umræddu fimm ára tímabili. Í töflu 1 kemur fram fjöldi barna sem vistuð eru á hverju ári. Barn getur verið vistað oftar en einu sinni á ákveðnu ári, sbr. fjölda vistana. Einnig getur barn verið vistað á mörgum tímabilum, en ef horft er á samanlagt tímabilið er um að ræða 359 börn.

Tafla 1: Lokuð deild.

Fjöldi barna Fjöldi vistana
2007 93 182
2008 106 182
2009 114 263
2010 102 253
2011 98 234
Samtals fjöldi (513 ) 1114
Fjöldi barna (ekki tvítalin milli ára) 359

    Í töflu 2 kemur fram að börn eru að meðaltali sex daga í senn í neyðarvistun (á lokaðri deild). Einnig kemur fram að ákveðinn fjöldi er vistaður umfram 14 daga í senn en samkvæmt reglugerð nr. 271/1995, um meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga, er barnaverndarnefndum heimilt að vista börn allt að 14 daga á lokaðri deild. Lengri vistanir snúa að sérstökum neyðarúrræðum þar sem ekki tekst að finna barni viðeigandi úrræði en reynt er að veita barni fjölbreyttari þjónustu innan og utan lokaðrar deildar meðan á vistun stendur, eftir atvikum í samvinnu við meðferðardeild og fjölskyldu barnsins.

Tafla 2: Lokuð deild.

Stysta vistun Lengsta vistun Tíðasta gildi Meðaltal Fjöldi vistana umfram 14 daga
2007 1 dagur 17 dagar 2 dagar 5,9 dagar 6
2008 1 dagur 39 dagar 4 dagar 6,2 dagar 4
2009 1 dagur 18 dagar 3 dagar 6,0 dagar 11
2010 1 dagur 38 dagar 2 dagar 6,1 dagar 4
2011 1 dagur 15 dagar 4 dagar 6,4 dagar 7

    Í töflu 3 kemur fram hversu algengt er að sama barn sé neyðarvistað oftar en einu sinni. Ekki eru marktækar breytingar milli ára. Á fimm ára tímabili hafa samanlagt um 40% barnanna verið vistuð einu sinni en um 34% þrisvar til tíu sinnum. Dæmi eru um að barn hafi samanlagt verið allt að 24 sinnum í neyðarvistun á umræddu fimm ára tímabili.

Tafla 3: Fjöldi vistana.

2007–2011 (með 12 mánaða glugga frá fyrstu vistun barns 2007 aftur í árið 2006)*
1 vistun 2 vistanir 3–10 vistanir Fleiri en
10 vistanir
Fjöldi barna (N=359) 144 70 122 23
Hlutfall 40,1% 19,5% 34% 6,4%
*    Skýring: Allar vistanir barns á árinu 2007 eru skoðaðar með forsögu vistana barnsins 12 mánuði aftur í tímann. Dæmi: Ef fyrsta vistun barns er 1. júlí 2007, þá reiknast með allar vistanir barnsins frá 1. júlí 2006. Með þessari reikniaðferð fæst raunhæfari mynd af endurteknum vistunum barna strax frá upphafsári tímabilsins sem skoðað er (og einnig yrði samanburður endurtekinna vistana milli einstakra ára á tímabilinu marktækari).

    Í töflu 4 kemur fram að þar sem sum börn eru endurtekið í neyðarvistun geta samanlagðir vistunardagar að sama skapi orðið margir. Fram kemur að um 58% barna eru samanlagt vistuð 1–14 daga en dæmi eru um að samanlagðir vistunardagar barns geta spannað á bilinu 5–10 og jafnvel 11–22 vikur. Þess ber að geta að árið 2007 voru rúm 59% barnanna vistuð 1–14 daga en árið 2011 hafði hlutfall þeirra minnkað í 50%, sem þýðir að samanlögðum vistunardögum barna á neyðarvistun er að fjölga (athugið að teknar eru með vistanir barns á 12 mánaða tímabili fyrir fyrstu vistun á því ári eða tímabili sem um ræðir).

Tafla 4: Vistunardagar.

2007–2011 (með 12 mánaða glugga frá fyrstu vistun barns 2007 aftur í árið 2006 )*
1–7 dagar 8–14 dagar 2–3 vikur 3–4 vikur 5–10 vikur 11–22 vikur
Hlutfall 34,5% 23,1% 13,6% 5,3% 17,5% 5,8%
Fjöldi barna (N=359) 124 83 49 19 63 21
*    Skýring: Allar vistanir barns á árinu 2007 eru skoðaðar með forsögu vistana barnsins 12 mánuði aftur í tímann. Dæmi: Ef fyrsta vistun barns er 1. júlí 2007, þá reiknast með allar vistanir barnsins frá 1. júlí 2006. Með þessari reikniaðferð fæst raunhæfari mynd af endurteknum vistunum barna strax frá upphafsári tímabilsins sem skoðað er (og einnig yrði samanburður endurtekinna vistana milli einstaka ára á tímabilinu marktækari).


     2.      Hve mörg ungmenni hafa árlega notið þjónustu meðferðardeildar Stuðla á síðustu fimm árum og hve lengi í senn?
    Í töflu 5 kemur fram að ekki er algengt að sama barn sé vistað oftar en einu sinni á meðferðardeild þar sem 222 börn hafa verið vistuð þar 228 sinnum á umræddu tímabili. Meðalvistunartími er um 7 vikur.

Tafla 5: Meðferðardeild.

Fjöldi barna Fjöldi vistana Lengsta vistun Meðalvistunartími
2007 45 46 9 vikur 6,3 vikur
2008 50 50 8 vikur 6,7 vikur
2009 41 44 14 vikur 7,1 vikur
2010 42 43 12 vikur 7,5 vikur
2011 44 45 11 vikur 6,9 vikur
Samtals 222 228


     3.      Hve oft hafa dómstólar dæmt ungmenni til vímuefnameðferðar árlega á síðustu fimm árum, hverjar eru sambærilegar tölur annars staðar á Norðurlöndum og hvar fá ungmennin meðferðina?
    Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, er heimilt að skilorðsbinda dóm því að aðili gangist undir dvöl á hæli tiltekinn tíma, ef nauðsyn þykir til bera, allt að 18 mánuðum, ef venja þarf hann af notkun áfengis eða deyfilyfja, en ella allt að einu ári. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun hefur enginn einstaklingur undir 18 ára aldri fengið skilorðsbundinn dóm á síðustu fimm árum með því sérskilyrði að hann undirgangist vímuefnameðferð samkvæmt áðurnefndu ákvæði. Hins vegar var einn dómur kveðinn upp á árinu 2011 þar sem umrætt ákvæði var notað vegna einstaklings undir 18 ára aldri en í því máli var um að ræða kynferðisbrot og er ekki um að ræða vímuefnameðferð í því tilviki.
    Til viðbótar við framangreinda lagaheimild samkvæmt hegningarlögum hafa barnaverndarnefndir heimild í 27. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, til þess að úrskurða unglinga í vistun utan heimilis í allt að tvo mánuði, m.a. til dvalar á meðferðarheimili. Þegar unglingar hafa náð 15 ára aldri er ekki nægilegt að forsjáraðilar samþykki dvölina og nefndin þarf að úrskurða, samþykki unglingurinn sjálfur ekki jafnframt að fara á meðferðarheimili.
    Í töflu 6 kemur fram fjöldi barna sem barnaverndarnefnd úrskurðaði í vistun utan heimilis í allt að tvo mánuði skv. 27. gr. barnaverndarlaga. Athugið að endanlegar upplýsingar hafa enn ekki borist frá barnaverndarnefndum fyrir árið 2011 og eru því gefnar upp tölur vegna áranna 2006–2010.

Tafla 6: Úrskurður barnaverndarnefndar.

Ýmis úrræði* Stuðlar,
lokuð deild
Stuðlar, meðferðardeild Götusmiðjan Meðferðarheimili Samtals
2006 36 0 4 0 5 45
2007 30 0 3 0 1 34
2008 31 2 0 0 3 36
2009 25 0 0 0 3 28
2010 43 0 0 0 2 45
Samtals 165 2 7 0 14 188
*Vistheimili, sambýli, einkaheimili, fóstur, önnur úrræði.

    Ef barnaverndarnefnd telur að vista þurfi ungling í lengri tíma en tvo mánuði getur hún óskað eftir því að dómstóll úrskurði um vistun utan heimilis í allt að 12 mánuði. Kveðið er á um þá heimild í 28. gr. barnaverndarlaga.
    Í töflu 7 kemur fram fjöldi barna þar sem dómstólar úrskurðuðu um vistun utan heimilis í allt að 12 mánuði skv. 28. gr. barnaverndarlaga. Athugið að endanlegar upplýsingar hafa enn ekki borist frá barnaverndarnefndum fyrir árið 2011 og eru því gefnar upp tölur vegna áranna 2006–2010.

Tafla 7: Úrskurður dómstóla.

Ýmis úrræði* Stuðlar,
lokuð deild
Stuðlar, meðferðardeild Götusmiðjan Meðferðarheimili Samtals
2006 10 0 0 0 1 11
2007 6 0 1 0 1 8
2008 12 0 0 0 0 12
2009 3 0 0 0 1 4
2010 15 0 0 0 1 16
Samtals 46 0 1 0 4 51
*Vistheimili, sambýli, einkaheimili, fóstur, önnur úrræði.

    Þegar barnaverndarnefnd úrskurðar barn í meðferð og leitar í kjölfarið til dómstóla til þess að vistun geti staðið í allt að 12 mánuði fer meðferðin fram í meðferðarúrræðum Barnaverndarstofu, þ.e. á Stuðlum og meðferðarheimilum sem rekin eru skv. 79. gr. barnaverndarlaga.
    Því miður hafa Barnaverndarstofa og Fangelsismálastofnun ekki upplýsingar um framkvæmd þessara mála annars staðar á Norðurlöndum.

     4.      Stendur til frekari uppbygging, t.d. á húsakosti og meðferðarúrræðum, fyrir þessi ungmenni?
    Ljóst er að Barnaverndarstofa hefur talið þörf á frekari uppbyggingu úrræða fyrir ungmenni vegna alvarlegs hegðunarvanda og vímuefnavanda. Barnaverndarstofa lagði tvo möguleika á lausn varðandi meðferðarúrræði fyrir velferðarráðuneytið þann 1. júlí 2011.
     A.      Gerðar verði breytingar á Stuðlum til að bæta neyðarvistun og bráðaþjónustu sem og stuðning við fjölskyldur og unglinga eftir að vistun á meðferðardeild lýkur. Við afgreiðslu fjárlaga fékk Barnaverndarstofa fjárveitingu til þess verkefnis, 35 millj. kr., sem skiptist milli Stuðla og Fjölsmiðjunnar á á árinu 2011.
     B.      Til framtíðar litið yrði sett á laggirnar ný stofnun fyrir eldri unglinga sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda, og/eða sæta gæsluvarðhaldi eða afplána óskilorðsbundna fangelsisdóma. Það sem einkennir oft þennan hóp er m.a. að eiga að baki margar meðferðir á stofnunum Barnaverndarstofu. Einnig geta unglingar í þessum alvarlega vanda átt að baki innlagnir hjá SÁÁ án þess að geta nýtt sér fyllilega þá meðferð, hafa gengið út eða verið vísað þaðan vegna hegðunar. Ráðuneytið tók vel í þessar tillögur en ekki hefur fengist fé til verkefnisins. Með slíkri stofnun gæti Ísland fullgilt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem slík stofnun hefði í för með sér að unnt væri að dæma unglinga fyrir brot sem þeir fremja fyrir 18 ára aldur til meðferðar í stað fangelsis. Einnig væri þá hægt að breyta lögum á þann veg að börn sem fengju óskilorðsbundna dóma afplánuðu þá í meðferðarúrræðum. Það væri veruleg breyting á tilhögun mála þar sem hingað til hafa unglingar getað valið hvort þeir afplána í meðferð eða fangelsi og hafa verið á sérstökum skilyrðum á almennum meðferðarheimilum en þurft að fara í fangelsi við ákveðin reglubrot.
    Ákveðið var að fara leið A.