Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 655. máls.

Þingskjal 1049  —  655. mál.



Frumvarp til sviðslistalaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)



         

I. KAFLI
Markmið og yfirstjórn.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla íslenskar sviðslistir, kveða á um skipan og fyrirkomulag og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, listdans, óperuflutning, brúðuleik og skylda liststarfsemi sem heyrir ekki undir lög um aðrar listgreinar.
    Ráðherra fer með yfirstjórn sviðslistamála samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Þjóðleikhús.
2. gr.
Hlutverk.

    Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar. Í því skal iðka leiklist og aðrar sviðslistir.
    Þjóðleikhúsið skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á sviðslistum og stuðla að þróun þeirra og nýsköpun. Það skal kosta kapps um að efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna og meðferð íslenskrar tungu.

3. gr.
Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra leikverka, nýrra og gamalla, og að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers leikárs séu frumflutt íslensk leikverk og verk sérstaklega ætluð börnum og unglingum. Einnig skal leikhúsið annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að leikferðum innan lands.

4. gr.
Þjóðleikhússtjóri.

    Ráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Skipaður skal maður með háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu á sviðslistum og starfssviði leikhúss. Endurnýja má skipun þjóðleikhússtjóra einu sinni til næstu fimm ára ef meiri hluti þjóðleikhúsráðs mælir með endurráðningu.
    Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og markar listræna stefnu þess. Hann er í fyrirsvari fyrir leikhúsið og annast daglega stjórnun samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Hann ræður starfsmenn og ber ábyrgð á listrænum og fjárhagslegum rekstri svo og gerð langtímaáætlunar og að starfsemi leikhússins sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

5. gr.
Þjóðleikhúsráð.

    Ráðherra skipar fimm manna þjóðleikhúsráð. Leiklistarsamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa en þrír eru skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna. Ráðið skal skipað til fjögurra ára í senn. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í þjóðleikhúsráð lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Þjóðleikhúsráð er þjóðleikhússtjóra til ráðgjafar um stefnu leikhússins og önnur málefni er varða starfsemi þess. Ráðið veitir þjóðleikhússtjóra umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir, vinnur með honum að langtímaáætlun um starfsemina og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna.

6. gr.
Samstarf.

    Þjóðleikhúsið skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna sviðslistum ef það verður til að auka fjölbreytni og skapa listrænan ávinning fyrir aðilana.
    Leikhúsið skal eftir föngum veita leikfélögum áhugamanna lið og gera leiklistarnemendum kleift að fylgjast með starfi leikhússins.
    Leikhúsið skal einnig stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi leikhússins eftir því sem við verður komið.

7. gr.
Önnur notkun hússins.

    Þegar Þjóðleikhúsbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfsemi leikhússins samkvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfsemi.

8. gr.
Kostnaður.

    Kostnaður af rekstri Þjóðleikhússins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum og eigið aflafé leikhússins hrekkur ekki til.

9. gr.
Þjóðleikhúsbygging.

    Þjóðleikhúsbyggingin stendur ekki til tryggingar skuldbindingum Þjóðleikhússins.

III. KAFLI
Íslenski dansflokkurinn.

10. gr.
Hlutverk.

    Íslenski dansflokkurinn er eign íslensku þjóðarinnar. Hlutverk Íslenska dansflokksins er að sýna listdans, stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssmíði og vera að öðru leyti vettvangur fyrir eflingu og framþróun danslistar á Íslandi.

11. gr.
Helstu verkefni.

    Aðalverkefni Íslenska dansflokksins eru sýningar á íslenskum og erlendum dansverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Einnig skal dansflokkurinn annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að sýningarferðum innan lands. Dansflokknum er heimilt að standa að sýningarferðum til annarra landa eftir því sem aðstæður leyfa.

12. gr.
Listdansstjóri.

    Ráðherra skipar listdansstjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar. Skipaður skal maður með háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu á listdansi og starfssviði dansflokks. Endurnýja má skipun listdansstjóra einu sinni til næstu fimm ára ef meiri hluti stjórnar mælir með endurráðningu.
    Listdansstjóri er stjórnandi dansflokksins og markar listræna stefnu hans. Hann er í fyrirsvari fyrir dansflokkinn og annast daglega stjórnun samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun að fenginni umsögn stjórnar. Hann ræður starfsmenn og ber ábyrgð á listrænum og fjárhagslegum rekstri svo og gerð langtímaáætlunar og að starfsemi dansflokksins sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

13. gr.
Stjórn.

    Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Íslenska dansflokksins. Leiklistarsamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa en einn skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Stjórnin skal skipuð til fjögurra ára í senn. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórnina lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Stjórn Íslenska dansflokksins er listdansstjóra til ráðgjafar um stefnu dansflokksins og önnur málefni er varða starfsemi hans. Hún veitir listdansstjóra umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir, vinnur með honum að langtímaáætlun um starfsemina og hefur eftirlit með framkvæmd áætlananna.

14. gr.
Samstarf.

    Íslenski dansflokkurinn skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna listdansi ef það verður til að auka fjölbreytni og skapa listrænan ávinning fyrir aðilana.
    Dansflokkurinn skal stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins eftir því sem við verður komið.

15. gr.
Kostnaður.

    Kostnaður af rekstri Íslenska dansflokksins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum og eigið aflafé dansflokksins hrekkur ekki til.

IV. KAFLI
Önnur sviðslistastarfsemi.

16. gr.
Sviðslistaráð.

    Ráðherra skipar fimm manna sviðslistaráð til þriggja ára í senn. Leiklistarsamband Íslands tilnefnir fjóra fulltrúa. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi ráðsmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í sviðslistaráð lengur en tvö samfelld starfstímabil.

17. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk sviðslistaráðs er að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni íslenskra sviðslista. Hlutverk sitt samkvæmt lögum þessum rækir ráðið meðal annars með því að:
     a.      veita umsögn um þau mál sem ráðherra vísar til þess,
     b.      gera tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára í senn, sbr. 18. gr.,
     c.      úthluta árlega styrkjum úr sviðslistasjóði,
     d.      kynna íslenskar sviðslistir hér á landi og erlendis,
     e.      efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana,
     f.      sinna öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk þess eða ráðherra kann að fela því.
    Við mat á umsóknum úr sviðslistasjóði er sviðslistaráði heimilt að leita umsagnar fagaðila.
    Ráðherra er heimilt að fela sviðslistaráði að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um framkvæmd verkefna sem unnin eru í þess þágu og til að annast almenna umsýslu vegna starfsemi ráðsins og sviðslistasjóðs, sbr. 18. gr.

18. gr.
Sviðslistasjóður.

    Auk framlaga til Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins veitir Alþingi árlega fé á fjárlögum í sviðslistasjóð til stuðnings annarri sviðslistastarfsemi atvinnumanna. Auk þess veitir Alþingi einnig árlega fé til starfsemi áhugaleikfélaga.
    Sviðslistasjóður hefur það hlutverk að efla íslenskar sviðslistir með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni er falla undir hlutverk og starfsemi sviðslistaráðs, sbr. 17. gr. Umsjón með fjármunum sjóðsins er í höndum sviðslistaráðs. Ráðherra getur heimilað sviðslistaráði að semja við til þess bæran aðila að halda utan um fjármuni og rekstur sjóðsins. Ráðið ber ábyrgð á umsýslu og fjárreiðum sviðslistasjóðs.
    Sviðslistaráð ákveður árlega skiptingu ráðstöfunarfjár sviðslistasjóðs á fjárlögum á milli viðfangsefna hans, sbr. 1. mgr. 17. gr., og úthlutar úr sjóðnum. Ákvarðanir sviðslistaráðs eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.
    Sviðslistaráð gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára. Ráðherra setur sviðslistasjóði reglur um auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra. Í reglum má mæla fyrir um heimild til þess að leita umsagnar manna með sérkunnáttu um einstakar umsóknir.
    Kostnaður af starfsemi sviðslistaráðs greiðist úr sviðslistasjóði.
    Um veitingu starfslauna til sviðslistafólks fer samkvæmt ákvæðum laga um listamannalaun, nr. 57/2009.
    Bandalag íslenskra leikfélaga gerir tillögu til ráðherra um úthlutun ráðstöfunarfjár til starfsemi áhugaleikfélaga.

19. gr.
Óperustarfsemi.

    Stuðla skal að því að glæða áhuga landsmanna á óperum og skapa grundvöll fyrir óperuflutning. Í því skyni er ráðherra heimilt að styðja sérstaklega við óperustarfsemi og gera fyrir hönd ríkissjóðs tímabundinn samning við lögaðila, félög eða stofnanir um fjárstuðning, með fyrirvara um fjárveitingar á fjárlögum á samningstímanum.

20. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga í heild eða einstaka kafla þeirra.

21. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi frá 1. janúar 2013. Frá sama tíma falla úr gildi leiklistarlög, nr. 138/ 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fram til 1. janúar 2013 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laganna, m.a. með því að óska eftir tilnefningum í og skipa þjóðleikhúsráð, sbr. 5. gr., stjórn Íslenska dansflokksins, sbr. 13. gr., og sviðslistaráð, sbr. 16. gr.
    Listdansarar, sem eru fastráðnir við Íslenska dansflokkinn við gildistöku laganna en þurfa á komandi árum að láta af störfum við dansflokkinn vegna þess að þeir uppfylla ekki lengur listrænar kröfur listgreinarinnar, skulu njóta réttinda í samræmi við 5. gr. reglna nr. 14/2002 um starfsemi Íslenska dansflokksins. Nánari ákvæði um þetta skulu sett í reglugerð.
    Gildistaka laganna raskar ekki skipunartíma núverandi þjóðleikhússtjóra sem er til 1. janúar 2015. Ákvæði 4. gr. um skipunartíma þjóðleikhússtjóra gildir frá og með fyrstu skipun í embætti eftir gildistöku laganna. Sama gildir um listdansstjóra Íslenska dansflokksins hvers skipunartími er til 31. júlí 2017.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.     Inngangur.
    Árið 1998 voru sett leiklistarlög nr. 138. Þau leystu af hólmi lög um Þjóðleikhúsið og sköpuðu lagagrundvöll fyrir skipun leiklistarráðs og fjárframlög til annarrar leiklistarstarfsemi en í Þjóðleikhúsinu. Á grundvelli 1. mgr. 14. gr. þeirra laga voru á árinu 1999 settar reglur um Íslenska dansflokkinn nr. 878/1999. Vegna ýmissa breytinga sem orðið hafa á umhverfi leiklistar og annarra sviðslista er það mat ráðuneytisins að æskilegt sé að fella í ein lög ákvæði um stuðning ríkisins við sviðslistastarfsemi. Hér er einkum um að ræða starfsemi Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins og leiklistarráð. Þá er verið að víkka starfssviðið til sviðslista í heild sinni en einkum listdans hefur verið í sókn að undanförnu svo og óperustarfsemi. Endurskoðun á leiklistarlögum hefur um skeið verið í undirbúningi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hefur á seinni stigum þeirrar vinnu verið haft samráð við hlutaðeigandi stofnanir og samtök.

II.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á þeim rúma áratug sem liðinn er frá setningu leiklistarlaga, nr. 138/1998, hafa orðið ýmsar breytingar sem kalla á endurskoðun. Starfsrammi stofnana hefur breyst og ábyrgð stjórnenda aukist. Meira framboð á menntun, bæði hér á landi og erlendis, hefur leitt til þess að sífellt fjölgar þeim sem leitast við að skapa sér atvinnu á þessum vettvangi. Nauðsyn var því á að víkka út hugtakið leiklist til að ná til allra sviðslista þar sem m.a. listdansi hefur vaxið fiskur um hrygg. Þá hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að breytingum á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar í þá veru að skipa ráð eða stjórn fyrir viðkomandi listgrein sem er ráðherra til ráðgjafar um málefni hennar og stofna sjóð til að efla hana með veitingu styrkja ásamt því að skapa grundvöll fyrir rekstur skrifstofu/miðstöðvar sem þjónaði viðkomandi sjóði og stæði að kynningu á listgreininni hér á landi og erlendis. Breyting á leiklistarlögum í sömu veru er talin nauðsynleg til að framangreindir sjóðir og ráð/stjórn starfi öll við sömu lagaskilyrði, enda auðveldar það stjórnsýslu, yfirsýn og samvinnu sjóðanna.
    Íslenski dansflokkurinn hefur hingað til einungis starfað samkvæmt sérstökum reglum sem menntamálaráðherra setti honum, fyrst nr. 878/1999 og nú nr. 14/2002, sbr. einnig breytingu á þeim nr. 918/2004. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði um dansflokkinn verði felld inn í þessa rammalöggjöf.
    Meginmarkmið lagasetningarinnar er að laga starfsramma Þjóðleikhússins að ríkjandi starfssviði, skapa lagastoð fyrir starfsemi Íslenska dansflokksins og skjóta styrkum stoðum undir starfsemi sviðslistaráðs og rekstur sviðslistasjóðs svo og óperustarfsemi.

III.     Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er hugtakið sviðslistir kynnt og skilgreint, en það er notað yfir leiklist, listdans, óperuflutning, brúðuleik og aðrar skyldar listgreinar, svo sem fjölleikahús o.fl. sem ekki falla undir starfsemi annarra sjóða eða ráða á sviði lista. Á skandinavískum tungum er gjarnan notað heitið scenekunst (d) yfir þær listgreinar sem hér um ræðir. Á ensku er notað heitið the performing arts, sem í sumum tilvikum er þó einnig notað yfir tónlist.
    Nokkrar breytingar eru gerðar á II. kafla gildandi laga þar sem fjallað er um Þjóðleikhúsið. Helst er að í starfsemi leikhússins verður megináhersla lögð á íslensk og erlend leikverk þar sem óperustarfsemi hefur á undanförnum árum nær alfarið verið á vegum Íslensku óperunnar og listdans hjá Íslenska dansflokknum og fjölmörgum öðrum danshópum þó að leikhúsið sinnti einnig öðrum sviðslistum. Þá er lagt til að hægt verði að endurnýja skipun þjóðleikhússtjóra annað tímabil ef meiri hluti þjóðleikhúsráðs mælir með endurráðningu og að krafist sé háskólamenntunar í listum eða sambærilegrar menntunar og staðgóðrar reynslu og þekkingar á sviðslistum og starfssviði leikhúss til að geta hlotið skipun í starfið. Lagt er til að þjóðleikhúsráð verði áfram skipað fimm fulltrúum. Þar sem Leiklistarsamband Íslands eru heildarsamtök sviðslistafólks er lagt til að það tilnefni tvo fulltrúa. Í núgildandi lögum eru það annars vegar Félag íslenskra leikara og hins vegar Félag leikstjóra á Íslandi sem tilnefna hvort sinn fulltrúa, en þessi félög eiga aðild að Leiklistarsambandinu. Hlutverk ráðsins er lagað að þeim lagaramma sem gildir um störf forstöðumanna og lögð áhersla á ráðgjafar- og eftirlitshlutverk ráðsins, en því er ekki ætlað að samþykkja starfs- og rekstraráætlanir eins og er samkvæmt gildandi lögum heldur veita ráð og umsagnir. Lagt er til að 8. gr. gildandi laga verði felld niður þar sem stjórnun starfseminnar og skipulag, þ.e. innra starfsskipulag, er á valdi þjóðleikhússtjóra samkvæmt erindisbréfi og árangursstjórnunarsamningi ráðuneytisins og leikhússins.
    Í III. kafla er fjallað um Íslenska dansflokkinn sem hefur starfað samkvæmt sérstökum reglum um starfsemi hans. Uppbygging kaflans er hliðstæð kaflanum um Þjóðleikhúsið. Gert er ráð fyrir þriggja manna stjórn eins og hingað til, en að Leiklistarsamband Íslands tilnefni tvo fulltrúa.
    Lagt er til að III. og IV. kafla gildandi laga verði slegið saman í einn kafla er fjalli um aðra sviðslistastarfsemi en þá sem fellur undir Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn. Í þessum kafla, IV. kafla, eru ákvæði um sviðslistaráð og sviðslistasjóð sem þjóni atvinnumönnum. Samkvæmt gildandi leiklistarlögum veitir Alþingi árlega fé á fjárlögum til stuðnings starfsemi atvinnuleikhópa. Leiklistarráð hefur gert tillögu til ráðherra um úthlutun til atvinnuleikhópa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sviðslistaráð úthluti úr sviðslistasjóði og að ákvarðanir þess séu endanlegar. Bandalag íslenskra leikfélaga mun eins og hingað til gera tillögu til ráðherra um úthlutun ráðstöfunarfjár til starfsemi áhugaleikfélaga. Í frumvarpinu er lagt til að sviðslistaráð taki við af leiklistarráði. Fjölgað yrði í ráðinu um tvo fulltrúa. Leiklistarsamband Íslands, sem eru heildarsamtök þeirra sem starfa á vettvangi sviðslista, tilnefni fjóra fulltrúa. Með því er leitast við að tryggja að fulltrúar hinna ýmsu sviðslistagreina eigi fulltrúa í ráðinu. Ráðherra skipi einn fulltrúa án tilnefningar og yrði hann skipaður formaður en varaformaður yrði skipaður úr hópi aðalfulltrúa. Varamenn yrðu skipaðir með sama hætti. Gerð er tillaga um að sviðslistaráð geti fengið heimild ráðherra til að reka skrifstofu eða að það geti gert samning við til þess bæran aðila að halda utan um fjármuni og rekstur sjóðsins og starfsemi ráðsins.
    Sett er inn í IV. kafla sérákvæði um óperustarfsemi og að ráðherra sé heimilt að gera tímabundinn samning um fjárstuðning við slíka starfsemi. Hér er einkum haft í huga að ráðherrar menningarmála og fjármála hafa um langt skeið gert samning við Íslensku óperuna um fjárstuðning. Hins vegar eru felld út ákvæði um að ráðherra sé heimilt að gera samning við atvinnuleikhús þar sem fé til sviðslista utan meginstofnana, þ.e. Þjóðleikhúss og Íslenska dansflokksins, yrði í sviðslistasjóði. Það yrði því á könnu sviðslistaráðs að ákveða hvort gera ætti tímabundna samninga við rekstraraðila atvinnuleikhúss. Sviðslistaráð gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára og gæti slíkt komið fram í þeim tillögum.
    Með framangreindum breytingum er stefnt að því að sams konar rammalöggjöf gildi um sviðslistasviðið eins og önnur listasvið, þ.e. að ákvæði sé annars vegar um þær ríkisstofnanir sem starfa á viðkomandi sviði og hins vegar ákvæði um sjóð og ráð sem vinni að framgangi sviðsins utan veggja stofnananna.

IV.     Samráð.
    Frumvarpið snertir þær tvær ríkisstofnanir sem starfa á sviðslistasviðinu, þ.e. Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn. Einnig snertir það félagasamtök, ýmsa leik- og danshópa, einstaklinga og aðra sem starfa á vettvangi sviðslista. Við fyrstu gerð frumvarpsins var haft samráð við þær tvær stofnanir sem málið varðar svo og stjórn Leiklistarsambands Íslands. Fulltrúar þeirra voru boðaðir á fund í ráðuneytinu þar sem þeir fengu afhent drög að frumvarpi og gefinn frestur til að senda skriflegar athugasemdir. Þá var frumvarpið haft til almennrar kynningar á vef ráðuneytisins haustið 2011 þar sem kostur gafst á að senda inn athugasemdir eða ábendingar um efni þess. Ellefu aðilar gerðu athugasemdir, m.a. samráðsnefnd fagfélaga innan Leiklistarsambands Íslands, stofnanir á sviðslistasviðinu, Samband ísl. sveitarfélaga og nokkrir einstaklingar.
    Samráð var haft við fjármálaráðuneyti um kostnaðargreiningu á frumvarpinu og hvað varðar starfsmannamál.

V.     Mat á áhrifum.
    Telja má að samþykkt frumvarpsins muni skapa skýrari lagagrundvöll fyrir viðkomandi listastofnanir en ekki síst mun það styrkja starfsemi sviðslistahópa og skapa grundvöll til að stofna sviðslistamiðstöð til að standa að kynningu á sviðslistum innan lands sem utan.
    Hingað til hafa umsóknir um styrki til atvinnuleikhópa borist til ráðuneytisins þar sem þær hafa verið skráðar og umfjöllun leiklistarráðs undirbúin. Tillögur leiklistarráðs hafa síðan verið lagðar fyrir ráðherra til samþykktar og gengið frá bréfum til umsækjenda. Við samþykkt frumvarpsins færast þessi verkefni til sviðslistaráðs og þeirrar skrifstofu sem mun þjóna því enda er gert ráð fyrir að ákvarðanir sviðslistaráðs verði endanlegar á stjórnsýslusviði og sæti ekki kæru til ráðherra. Hvað snertir styrki til áhugaleikfélaga þá hefur það verið meira formsatriði að tillögur Bandalags íslenskra leikfélaga hafa verið lagðar fyrir ráðherra til ákvörðunar. Í frumvarpinu er gerð tillaga um að málið verði alfarið á könnu bandalagsins. Með því gæfist stjórnsýslu ríkisins betra tóm til að sinna eftirlitshlutverki sínu.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessari grein eru sameinuð ákvæði 1. og 2. gr. gildandi leiklistarlaga. Þá er tilgreint að ráðherra fari með yfirstjórn sviðslistamála í stað leiklistarmála. Hugtakið vísar til breiðara sviðs þannig að allar sviðslistir: leiklist, listdans, óperuflutningur, brúðuleikur og skyld liststarfsemi, sem ekki heyrir undir lög um aðrar listgreinar, falla undir það.

Um 2. gr.

    Í þessari grein eru felld saman ákvæði 3. gr. og 4. gr. gildandi leiklistarlaga, en efnislega eru þau að mestu óbreytt. Eins og í gildandi lögum er þess getið að Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar. Hér er átt við stofnunina sem slíka og þá starfsemi sem þar fer fram, en ekki húseignina, enda fellur hún undir umsýslu Fasteigna ríkissjóðs. Í greininni er hlutverk Þjóðleikhússins skilgreint. Sem fyrr er lögð áhersla á að Þjóðleikhúsið leitist við að efla íslenska leikritun og stuðli að þróun, en nú er einnig lögð sérstök áhersla á nýsköpun til að styrkja m.a. íslenska leikritun og þróun í sviðsetningu leikverka. Leikhúsið hefur rækt hlutverk sitt á ýmsan máta, en æskilegt er að þessir þættir verði efldir í starfseminni eftir því sem fjárveitingar leyfa.

Um 3. gr.

    Í þessari grein eru skilgreind helstu verkefni Þjóðleikhússins. Meginverkefnið er að sýna íslensk og erlend leikverk, ný sem gömul, og stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Sem þjóðarleikhús hefur það ríkar skyldur við að kynna breiddina í leikbókmenntum, íslenskum sem erlendum, nýjum sem gömlum. Miðla þarf menningararfinum en ekki síður að skapa grundvöll fyrir frumsköpun til að styrkja íslenska leikritun. Lögð er áhersla á að verkefnaval sé fjölbreytt þannig að starfsemi leikhússins höfði til breiðs hóps áhorfenda, en með þessu er þó á engan hátt verið að draga úr listrænum metnaði leikhússins. Sérstök áhersla er lögð á verk sem höfða til barna og unglinga og fræðslustarf þar sem mikilvægt er að Þjóðleikhúsið sinni vel leiklistaruppeldi ungu kynslóðarinnar. Þá er áréttað að lögð sé rækt við íslenska leikritun og gerð sú krafa að íslensk leikverk séu á dagskrá leikhússins á hverju leikári. Hér er átt við bæði frumsamin leikverk og leikgerðir byggðar á skáldsögum, en fyrra þættinum þarf ekki síst að hlúa enn frekar að. Í reglugerð og við skipulagningu á starfsemi leikhússins ætti að útfæra nánar hvernig standa ætti að því starfi. Einnig er í greininni lögð sú skylda á herðar Þjóðleikhússins að það standi fyrir leikferðum innan lands. Þjóðleikhúsið er leikhús allra landsmanna og gegnir því ríkum skyldum við alla þjóðina.

Um 4. gr.

    Ráðherra skipar þjóðleikhússtjóra að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Í greininni er lagt til að þjóðleikhússtjóri hafi háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu á sviðslistum og starfssviði leikhúss, enda er mikilvægt að starfi þjóðleikhússtjóra gegni einstaklingur með traustan bakgrunn. Þess skal getið að ekki eru mjög mörg ár liðin frá því að nám í leiklist færðist á háskólastig. Við auglýsingu á starfinu er hægt að skilgreina frekar æskilega eiginleika og hæfni ef svo ber undir.
    Til umræðu hefur verið á vettvangi listamanna að breyta skipunartíma þjóðleikhússtjóra þannig að hann geti setið tvö fjögurra ára tímabil. Þannig var ákvæði eldri laga um Þjóðleikhúsið, nr. 58/1978. Fjögurra ára tímabilinu var reyndar breytt í fimm ár við samþykkt laga nr. 83/1997, um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessi ósk um hámarksskipunartíma helgast m.a. af því að um er að ræða stefnumótandi listræna stöðu og því sé æskilegt að sami einstaklingur sitji ekki of lengi. Þess ber hins vegar að geta að almennt eru forstöðumenn ríkisstofnana skipaðir til fimm ára í senn og er því eðlilegt að halda sömu lengd á skipunartíma fyrir þjóðleikhússtjóra. Einnig ber að nefna að óskráð regla er að forstöðumaður listastofnunar sitji að öðru jöfnu ekki lengur en tvö skipunartímabil en slíkt hefur verið ósk listageirans. Lagt er til að ráðningartími þjóðleikhússtjóra verði fimm ár í senn eins og forstöðumanna annarra ríkisstofnanna. Hins vegar er lagt til að fallið verði frá því ákvæði sem er í gildandi leiklistarlögum að auglýsa skuli embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils, heldur verði veitt heimild til að endurnýja skipunina einu sinni til fimm ára ef meiri hluti þjóðleikhúsráðs mælir með því. Þjóðleikhúsið er eina ríkisstofnunin sem hefur verið undirseld því ákvæði að auglýsa starf forstöðumannsins laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils. Við setningu gildandi leiklistarlaga var talsverður þrýstingur á að svo væri. Hins vegar er spurning hvort eitthvað annað eigi að gilda um listastofnanir en ríkisstofnanir almennt. Grundvallarreglan samkvæmt starfsmannalögum er skipun í fimm ár í senn, en að ákveða beri sex mánuðum áður en ráðningartími rennur út hvort auglýsa beri stöðuna. Eins og fyrr er getið er það ósk þeirra sem starfa á vettvangi lista, og kom m.a. fram í umsögnum um þetta frumvarp, að ráðningartími forstöðumanna listastofnana sé takmarkaður við tvö starfstímabil.
    Þjóðleikhússtjóri ræður starfsmenn. Grundvallarreglan er að starfsmenn leikhússins eru ráðnir í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Samkvæmt þeim skulu starfsmenn ríkisins vera ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Sá frestur skal vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma. Heimilt er að ráða starfsmann til starfa tímabundið til tveggja ára í samræmi við 41. gr. fyrrgreindra laga. Slík ráðning getur þó aldrei varað samfellt lengur en í tvö ár. Þjóðleikhúsið getur nýtt sér þetta heimildarákvæði til að skapa meiri sveigjanleika og til að gefa sitjandi þjóðleikhússtjóra hverju sinni möguleika á að hafa áhrif á samsetningu starfsmannahópsins. Á grundvelli ákvæða í 2. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, hafa verið settar sérreglur um hvernig standa skuli að auglýsingum um laus störf hjá Þjóðleikhúsinu, dags. 29. júní 2010. Samkvæmt fyrrgreindum lögum ber að auglýsa störf. Með því að nýta fyrrgreint ákvæði um sérreglur yrði væntanlega hægt að auka gagnsæi en draga jafnframt úr kostnaði. Hér yrði sennilega einkum um það að ræða að verkefni og laus störf yrðu auglýst á vettvangi viðkomandi stéttarfélaga.

Um 5. gr.

    Við setningu leiklistarlaga nr. 138/1998 varð sú breyting á skipun þjóðleikhúsráðs að ráðið var ekki lengur skipað eftir hverjar alþingiskosningar þar sem fjórir af fimm ráðsfulltrúum voru tilnefndir af fjórum stærstu þingflokkunum, en sá fimmti skipaður samkvæmt tilnefningu Félags íslenskra leikara. Sú tilhögun hafði verið frá því að Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950. Samkvæmt gildandi lögum tilnefnir Félag íslenskra leikara einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan fulltrúa en þrír eru skipaðir án tilnefningar, tveir frá stjórnarmeirihluta og einn frá stjórnarandstöðu. Þó að skipunartími ráðsins sé fjögur ár, takmarkast starfstími þeirra fulltrúa sem skipaðir eru án tilnefningar við embættistíma ráðherrans sem skipar þá ef hann situr skemur en fjögur ár. Þetta er fellt út. Óþarfa óhagræði skapast af þessu en í reynd hafa ekki orðið mannaskipti þó að ráðherraskipti hafi orðið. Í þessari grein er gert ráð fyrir að áfram verði fimm fulltrúar í þjóðleikhúsráði. Leiklistarsamband Íslands eru heildarsamtök félaga og stofnana á sviðslistasviðinu og því eðlilegt að það tilnefni tvo fulltrúa, en ráðherra skipi þrjá án tilnefningar.
    Með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um stöðu og ábyrgð forstöðumanna hefur hlutverki þjóðleikhúsráðs verið breytt í þá veru að það veitir umsagnir um árlegar starfs- og rekstraráætlanir og vinnur með þjóðleikhússtjóra að langtímaáætlun um starfsemina, en þarf ekki lengur að samþykkja slíkar áætlanir. Eftir sem áður hefur ráðið eftirlitshlutverk.

Um 6. gr.

    Greinin er að hluta óbreytt frá 10. gr. í gildandi lögum. Leikhúsið hefur átt farsælt samstarf við ýmsa aðila. Á seinni árum hefur samstarf við ýmsa atvinnuleikhópa aukist. Mikilvægt er að slíkt samstarf skapi listrænan ávinning fyrir leikhúsið og auki fjölbreytni jafnframt því að samstarfið styðji við listrænt starf atvinnuleikhópa. Þá hefur verið bætt við ákvæði um að leikhúsið skuli stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi leikhússins eftir því sem við verður komið. Hér er fest í sessi mikilvægt starf sem leikhúsið hefur í ríkari mæli reynt að sinna.

Um 7.–9. gr.

    Þessar greinar eru óbreyttar frá ákvæðum 11., 12. og 13. gr. gildandi leiklistarlaga.

Um 10. gr.

    Bætt er við nýjum kafla um Íslenska dansflokkinn. Dansflokkurinn hefur starfað á grundvelli reglna sem menntamálaráðherra setti, fyrst nr. 878/1999 og síðar reglna nr. 14/2002 ásamt reglum nr. 918/2004 um breytingu á þeim. Reglur þessar eru settar með hliðsjón af 1. mgr. 14. gr. leiklistarlaga, nr. 138/1998, og skv. heimild í 19. gr. sömu laga. Til að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi Íslenska dansflokksins er í þessari grein skilgreind staða dansflokksins enda er dansflokkurinn orðinn fullgild ríkisstofnun.
    Í greininni er hlutverk Íslenska dansflokksins skilgreint á sama hátt og verið hefur í reglum flokksins. Auk þess að sýna listdans, ber flokknum að stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssmíði og þróun danslistar á Íslandi. Flokkurinn hefur hingað til verið öflugur vettvangur þessa, m.a. með því að ráða til sín danshöfunda, íslenska og erlenda, standa fyrir listdanssmiðju og ýmsum þróunarverkefnum.

Um 11. gr.

    Aðalverkefni Íslenska dansflokksins eru sýningar á íslenskum og erlendum dansverkum sem þegar eru til eða eru samin sérstaklega fyrir flokkinn. Dansflokkurinn skal leggja áherslu á fjölbreytni í verkefnavali sínu til að ná til breiðs hóps áhorfenda. Lögð er áhersla á að Íslenski dansflokkurinn hlúi að og styðji gerð íslenskra dansverka, en einnig ber honum að kynna erlend dansverk. Þá er lögð áhersla á að dansflokkurinn sinni fræðslu- og kynningarstarfi eins og hingað til og standi fyrir sýningarferðum innan lands. Flokknum er heimilt að standa fyrir sýningarferðum til annarra landa eftir því sem aðstæður leyfa. Á undanförnum árum hefur dansflokkurinn farið í margar sýningarferðir til útlanda og hefur oft hlotist af því fjárhagslegur ávinningur fyrir utan mikilvægan listrænan ávinning. Mikilvægt er að dansflokkurinn geti áfram ástundað slíkar sýningarferðir, en það er þó háð fjárhagslegum forsendum hverju sinni.

Um 12. gr.

    Ákvæði þessarar greinar er hliðstætt ákvæðum um starf þjóðleikhússtjóra og ráðningarmál starfsmanna, sbr. það sem segir um 4. gr. hér að framan.

Um 13. gr.

    Samkvæmt gildandi reglum skipar ráðherra tvo fulltrúa í stjórn dansflokksins án tilnefningar, en einn er tilnefndur af Félagi listdansara á Íslandi. Lagt er til að þessu verði öfugt farið, þ.e. að Leiklistarsamband Íslands, sem er heildarsamtök sviðslista, stofnana sem félaga, tilnefni tvo fulltrúa. Félag listdansara á Íslandi á aðild að Leiklistarsambandinu. Einn er skipaður án tilnefningar. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
    Ákvæði þessar greinar um hlutverk stjórnar er hliðstætt ákvæðum um starf þjóðleikhúsráðs, sbr. það sem segir um 5. gr. hér að framan.

Um 14. gr.

    Íslenski dansflokkurinn hefur átt í góðu samstarfi við ýmsa aðila, innan lands sem utan, og er eðlilegt að hann haldi því áfram og styrki það samstarf. Hann hefur lagt rækt við að kynna nemendum listdans og starfsemi dansflokksins og sérstök áhersla hefur verið lögð á að ná til stráka með sérstöku strákaverkefni, en strákar hafa tekið minni þátt í listdansi en stúlkur. Þessi starfsemi mun halda áfram.

Um 15. gr.

    Hér er um að ræða óbreytt ákvæði frá gildandi reglum.

Um 16. gr.

    Lagt er til að ákvæði um skipun leiklistarráðs í 17. gr. gildandi laga breytist í ákvæði um sviðslistaráð. Í stað þriggja manna ráðs er lagt til að fimm fulltrúar sitji í ráðinu sem skipaðir yrðu til þriggja ára. Leiklistarsamband Íslands er, eins og fyrr segir, heildarsamtök þeirra sem starfa á vettvangi sviðslista og því eðlilegt að sambandið tilnefni fjóra fulltrúa. Með því er leitast við að tryggja að hinar ýmsu sviðslistagreinar eigi fulltrúa í ráðinu. Einn fulltrúi yrði skipaður án tilnefningar og yrði hann formaður ráðsins. Varaformann skipi ráðherra úr hópi ráðsmanna. Skipunartími er einnig lengdur um eitt ár frá gildandi lögum en það er í samræmi við ákvæði í lögum um aðra sjóði á listasviðinu. Til að skapa eðlilega endurnýjun má sami maður ekki að sitja lengur en tvö skipunartímabil í ráðinu, þ.e. alls sex ár. Þessi skipan er hliðstæð skipan stjórnar bókmenntasjóðs. Regla hæfilegrar armslengdar, þ.e. að valdið er fært til þeirra sem mestra hagsmuna hafa að gæta og besta þekkingu hafa, er viðhöfð þar sem 4/5 ráðsmanna eru tilnefndir af heildarsamtökum sviðslistafólks. Þetta gefur hagsmunaaðilum mikið vald en leggur ekki síður mikla ábyrgð þeim á herðar.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. 17. gr. er hlutverk sviðslistaráðs skilgreint. Það er víðtækara samkvæmt frumvarpinu en leiklistarráð hefur samkvæmt gildandi lögum því það á að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni sviðslista í landinu og stuðla með virkum hætti að kynningu á íslenskum sviðslistum, þ.e. sviðslistamönnum og listsköpun þeirra, hér á landi og erlendis, og stuðla að alþjóðlegu samstarfi. Um er að ræða hliðstætt hlutverk stjórnar og í tilvikum bókmenntasjóðs og væntanlegs myndlistarráðs samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til myndlistarlaga. Veigamikið hlutverk ráðsins er að úthluta úr sviðslistasjóði til margvíslegra verkefna innan sviðslista, hliðstætt því sem leiklistarráð gerir tillögu um samkvæmt gildandi lögum. Um getur verið að ræða styrki til einstakra verkefna eða styrki til starfsemi atvinnuleikhóps eða atvinnuleikhúss. Í gildandi leiklistarlögum er í 16. gr. heimildarákvæði til handa menntamálaráðherra og fjármálaráðherra „fyrir hönd ríkissjóðs að gera tímabundinn samning við rekstraraðila atvinnuleikhúss og hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitarfélög um fjárstuðning við leikhúsið, með fyrirvara um fjárveitingar í fjárlögum á samningstímanum. Heimilt er einnig að gera slíka samninga við lögaðila, félög eða stofnanir á sviði listdans, óperu og annarra sviðslista. Í þessum efnum skal taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði“. Hér var einkum verið að hugsa um Leikfélag Akureyrar og Íslensku óperuna. Fjárframlag ríkisins til Leikfélags Akureyrar hefur um árabil verið innan menningarsamnings ríkisins við Akureyrarbæ og í frumvarpinu er gert ráð fyrir sérstöku ákvæði um óperustarfsemi, sbr. 19. gr. Þá er reiknað með að sviðslistasjóður sjái alfarið um annan stuðning við sviðslistir fyrir utan þær ríkisstofnanir sem að þeim starfa. Þar af leiðandi er ákvæði 16. gr. núgildandi laga fellt niður og ætlun þeirrar greinar felld undir sviðslistasjóð. Sviðslistaráði er heimilt að leita umsagnar fagaðila við mat á umsóknum.
    Samkvæmt d-lið 17. gr. er gert ráð fyrir að hluti af starfi sviðslistaráðs sé kynning á íslenskum sviðslistum hér á landi og erlendis. Um skeið hefur Leiklistarsamband Íslands hvatt til þess að komið yrði á fót sviðslistamiðstöð sem stæði að slíkum kynningarmálum. Um yrði að ræða hliðstæða starfsemi og Bókmenntasjóður, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Hönnunarmiðstöð Íslands og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar sinna á þeirra sviðum til að koma viðkomandi listamönnum og listsköpun þeirra á framfæri. Vegna umfangs slíkra kynningarverkefna og umsýslu sviðslistasjóðs er talið nauðsynlegt að ráðherra geti veitt ráðinu heimild til að reka skrifstofu eða semja við utanaðkomandi aðila um umsýslu sjóðsins og framkvæmd verkefna. Með ákvæði þessarar greinar er skapaður grundvöllur fyrir því að stofnuð verði kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista með fjárstuðningi frá ríkinu.
    Á síðustu árum hafa íslenskir sviðslistahópar sem og aðrir listahópar leitað á erlend mið með listsköpun sína. Hins vegar hefur þá skort nauðsynlegan stuðning í kynningarstarfi og uppbyggingu tengslanets. Leiklistarsamband Íslands fékk styrk á fjárlögum 2011 til að sinna kynningarstarfi. Einnig hefur skrifstofa Sjálfstæðu leikhúsanna fengið rekstrarframlag á fjárlögum og sinnt ýmsu kynningarstarfi. Sama má segja um rekstraraðila dansverkstæðis sem einnig hefur notið fjárstyrkja. Sviðslistamiðstöð mundi gegna veigamiklu hlutverki og taka við verkefnum þessara aðila. Einnig sæi slík skrifstofa eða miðstöð um skipulagningu heimsókna erlendra áhrifaaðila hingað til lands sem lið í að koma íslenskum sviðslistum á framfæri á alþjóðavettvangi. Mikilvægt er því að góð og breið samstaða skapist innan sviðslistageirans um hvernig standa skuli að málum til að fjármagn nýtist sem best.
    Leiklistarsamband Íslands gaf annað hvert ár út yfirlitsrit á ensku um íslenska leikritun undir heitinu „Theatre in Iceland“ með tilstyrk frá ráðuneytinu. Nú er ritið orðið rafrænt á vegum sambandsins. Ekki er óeðlilegt að útgáfa ritsins færist á ábyrgðarsvið sviðslistaráðs í samráði við hlutaðeigandi aðila.

Um 18. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir stofnun sviðslistasjóðs er taki m.a. við fjárveitingum til atvinnuleikhópa. Hlutverk sjóðsins er að efla sviðslistir með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni, sbr. skilgreiningu á hlutverki sviðslistaráðs í 17. gr. frumvarpsins. Ráðið skal gera tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára í senn en í því felst m.a. hvernig leggja eigi megináherslur í starfinu á tímabilinu á mismunandi viðfangsefni, svo sem styrki til atvinnuleikhópa, starfsemi atvinnuleikhúsa, kynningarmála, leikferða til útlanda og samstarfsverkefna. Eðlilegast er að slíkt sé gert í upphafi hvers skipunartímabils, en með því móti gefst nýju ráði tóm til að meta stöðuna og gera tillögur um aðrar áherslur. Ráðherra setur sjóðnum reglur um starfsemi hans m.a. hvað snertir auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra. Sökum þess að gera má ráð fyrir að sótt verði um styrki til mjög mismunandi verkefna þykir rétt að veita sviðslistaráði heimild til að leita til sérfræðinga um mat á umsóknum, sem síðan verði lagt fyrir ráðið.
    Gerð er tillaga um að sviðslistaráð úthluti árlega úr sviðslistasjóði og að ákvarðanir ráðsins séu endanlegar á þessu stjórnsýslustigi og ekki kæranlegar til ráðherra. Þetta er hliðstætt ákvæðum í lögum um bókmenntasjóð þar sem stjórn sjóðsins sér um úthlutanir úr sjóðnum.
    Með tilkomu nýrra laga um listamannalaun og stofnun launasjóðs sviðslistafólks breyttist hlutverk leiklistarráðs. Leiklistarráð gerði tillögu til stjórnar listamannalauna um úthlutun starfslauna til leikhópa. Samkvæmt nýju lögunum er skipuð sérstök úthlutunarnefnd með fulltrúum tilnefndum af Leiklistarsambandi Íslands. Fyrrnefndum hópum ber þó að eiga gott samstarf sín á milli. Á þetta reyndi fyrst á árinu 2010 við úthlutanir til leikhópa, annars vegar á grundvelli tillagna frá leiklistarráði um verkefnastyrk og hins vegar ákvarðanir úthlutunarnefndar um starfslaun til sviðslistafólks. Síðan hefur verið reynt að sníða af agnúa sem upp komu við fyrstu úthlutun úr launasjóði sviðslistafólks og hafa seinni úthlutanir gengið vel fyrir sig.
    Áfram er gert ráð fyrir að Alþingi veiti árlega fé til stuðnings leiklistarstarfsemi áhugaleikfélaga. Bandalag íslenskra leikfélaga mun áfram gera tillögu til ráðherra um úthlutun fjárins.

Um 19. gr.

    Fyrir daga Íslensku óperunnar setti Þjóðleikhúsið oft upp óperusýningar. Íslenska óperan hefur hins vegar verið starfrækt um langt árabil og frá stofnun hennar hafa óperusýningar nær eingöngu verið á vegum hennar. Hún hefur notið fjárstuðnings opinberra aðila. Lengi framan af styrktu ríki og Reykjavíkurborg Íslensku óperuna, en á seinni árum hefur eingöngu ríkið veitt henni fjárstuðning á grundvelli tímabundins samnings. Þar sem ekki er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að Þjóðleikhúsinu sé beint ætlað að sinna óperustarfsemi eins og í gildandi lögum, er gerð tillaga um að setja inn sérstakt ákvæði um óperustarfsemi, m.a. til að skapa grundvöll fyrir óperuflutning á vegum lögaðila, félaga eða stofnana. Hér er einkum verið að leggja tryggari grunn að starfsemi Íslensku óperunnar, en einnig að skapa grundvöll fyrir óperuflutning almennt. Samningar ríkisins við Íslensku óperuna hafa verið gerðir á grundvelli heimildarákvæðis í 16. gr. gildandi laga.

Um 20.–21. gr.

    Greinarnar krefjast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Æskilegt er að ráðuneytið geti undirbúið gildistöku laganna með því að leita eftir tilnefningum í þjóðleikhúsráð, stjórn Íslenska dansflokksins og sviðslistaráð þannig að þau geti tekið til starfa sem fyrst eftir gildistöku laganna.
    Í 5. gr. gildandi reglna um Íslenska dansflokkinn er ákvæði um að dansari, sem hefur verið fastráðinn í a.m.k. átta ár frá 1. mars 2001 og þarf að láta af störfum við Íslenska dansflokkinn vegna þess að hann uppfyllir ekki lengur listrænar kröfur listgreinarinnar, eigi rétt á styrk með tvennum hætti. Þremur mánuðum fyrir starfslok skal listdansarinn velja hvort hann kýs að fá ákveðna eingreiðslu eða námsstyrk sem nemur 75% af launum. Upphæð eingreiðslu eða lengd námsstyrks fer eftir lengd fastráðningar, þ.e. átta ár eða tólf.
    Viðurkennt er að starfsævi listdansara er almennt ekki löng þar sem dansinn gerir miklar kröfur um líkamlega getu og færni sem dvínar með aldrinum. Klassískur listdans er sínu kröfuharðari en nútímadans, en það breytir því þó ekki að starfsævi listdansara er almennt styttri en margra annarra listamanna. Þegar þetta ákvæði var upphaflega sett í reglur um Íslenska dansflokkinn voru dansarar flokksins margir hverjir ekki með annað nám að baki en skyldunám og svo dansnám. Með árunum hefur það hins vegar breyst. Nú eru flestir listdansarar með háskólanám að baki í listdansi. Einnig hafa möguleikar almennt breyst mikið til að afla sér endurmenntunar samhliða starfi.
    Í ljósi þess að aðstæður hafa almennt breyst er talið rétt að draga úr þessum stuðningi, en hins vegar verður að gæta ákveðinnar varfærni. Því er lagt til nokkurs konar sólarlagsákvæði þannig að þeir listdansarar sem eru fastráðnir við Íslenska dansflokkinn við gildistöku laganna njóti þessa. Eðlilegt er að áfram verði miðað við ákvæði í reglunum um Íslenska dansflokkinn, þ.e. að viðkomandi, sem er fastráðinn við Íslenska dansflokkinn við gildistöku laganna, hafi starfað í a.m.k. átta ár til að geta notið þessara kjara þegar starfslok þurfa að verða vegna þess að viðkomandi uppfyllir ekki lengur kröfur listgreinarinnar. Þetta gildi hins vegar ekki um þá dansara sem síðar verða fastráðnir hjá flokknum. Að öðru leyti gildi ákvæði kjarasamninga um laun og önnur kjör listdansara sem annarra ríkisstarfsmanna og unnið verði á þeim vettvangi að bæta almennt kjör listdansara við dansflokkinn sem og kjör þeirra við starfslok.
    Gildistaka laganna raskar ekki skipunartíma núverandi þjóðleikhússtjóra né listdansstjóra. Ákvæði annars vegar 4. gr. og hins vegar 12. gr. um skipunartíma gilda frá og með að nýr aðili er skipaður í embætti eftir gildistöku laganna.
Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til sviðslistalaga.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði almenn rammalöggjöf um sviðslista-greinar en til þeirra teljast m.a. listdans, brúðuleikhús auk fleiri skyldra listgreina. Frumvarpið byggist að hluta á leiklistarlögum, nr. 138/1998, sem gert er ráð fyrir að verði felld úr gildi 1. janúar 2013 með gildistöku frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru hlutverk og verkefni þjóðleikhúsráðs, Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins skilgreind auk þess sem kveðið er á um fjárstuðning við óperuflutning. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um stofnun sviðslistasjóðs og skipan sérstaks sviðslistaráðs sem m.a. er ætlað að taka við verkefnum leiklistarráðs og að vera þar með umsagnaraðili og veita ráðherra ráðgjöf varðandi stefnu og áherslur í starfi sviðslistasjóðs. Ráðinu er einnig ætlað að efla íslenska sviðslist á innlendum og erlendum vettvangi með úthlutunum úr sviðslistasjóði sem gert er ráð fyrir að komi í stað fjárveitinga sem verið hafa til atvinnuleikhópa í fjárlögum. Allur kostnaður ráðsins verður greiddur af sjóðnum samkvæmt frumvarpinu. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir því að Bandalagi íslenskra leikfélaga verði falið að úthluta fé sem verið hefur í fjárlögum til stuðnings við starfsemi áhugaleikfélaga fremur en að slíkar úthlutanir fari fram á vegum Alþingis.
    Til þess að annast framkvæmd kynningarverkefna og umsýslu sviðslistasjóðs verður sviðslistaráði heimilt að reka eða fela öðrum rekstur sérstakrar skrifstofu. Hér virðist vera kominn vísir að skrifstofu sem yrði afar lítil í sniðum líkt og Miðstöð íslenskra bókmennta er ætlað að verða samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira, nr. 91/2007. Nokkur fjöldi slíkra skrifstofa og stofnana sem hafa sambærileg verkefni eru nú starfandi annaðhvort alfarið á vegum ríkisins eða með fjárhagslegum stuðningi þess. Þær eiga það allar sammerkt að hafa það hlutverk að efla listgreinar hver á sínu sviði, ýmist með styrkveitingum til útgáfu og sinna kynningar- og markaðsmálum heima og erlendis. Um er að ræða skrifstofur eins og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Ekki verður séð að rekstur margra og smárra sambærilegra eininga sé í samræmi við stefnu núverandi ríkisstjórnar um að sameina og stækka ríkisstofnanir til að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri samhliða því að treysta fagleg vinnubrögð innan stjórnsýslunnar. Þegar starfseining tekur einungis til örfárra starfsmanna hlýtur ávallt að þurfa að taka til skoðunar hvort hægt sé að sameina hana öðrum litlum einingum eða tengja við aðra stærri.
    Í frumvarpinu er lagt til að hlutverki þjóðleikhússráðs verði breytt þannig að það veiti umsagnir um árlegar starfs- og rekstraráætlanir fremur en að samþykkja slíkar áætlanir eins og hingað til. Með þessu færist stjórnunarfyrirkomulag stofnunarinnar nær því horfi sem algengast er fyrir ríkisstofnanir. Fjármálaráðuneytið fær þó ekki séð að þörf sé fyrir að sérstakt ráð hafi fjárhagsáætlanir til umsagnar við þessa stofnun fremur eru aðrar og telur að það geti hamlað fjárhagslegri ábyrgð forstöðumanns á starfseminni þótt tilefni gæti þótt vera fyrir umfjöllun slíks ráðs um faglega eða listræna stefnumörkun.
    Þá er í frumvarpinu bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að listdansarar sem eru fastráðnir við Íslenska dansflokkinn við gildistöku laganna og þurfa á næstu árum að láta af störfum við dansflokkinn vegna þess að þeir uppfylla ekki lengur listrænar kröfur skuli njóta sambærilegra réttinda og kveðið er á um í reglum um starfsemi dansflokksins. Þar segir að við slíkar aðstæður geti þeir sem verið hafa fastráðnir í að minnsta kosti átta ár frá árinu 2001 geti annaðhvort fengið eingreiðslu eða námsstyrk sem nemur allt að 75% af launum sem ræðst af lengd fastráðningar. Bráðabirgðaákvæðið er sólarlagsákvæði þar sem það gildir eingöngu um þá dansara sem eru fastráðnir fyrir gildistöku laganna en ekki fyrir þá sem ráðnir verða síðar. Fyrirkomulag og greiðslur við starfslok tilvonandi dansara flokksins munu ráðast af útfærslu í kjarasamningum. Að því gefnu að engu áþekku fyrirkomulagi verði komið á kann þetta að draga úr útgjöldum ríkissjóðs við starfsmannahald leikflokksins. Sökum þess að um mjög langt tímabil er að ræða og að erfitt er að henda reiður á þessum fjárhæðum verður ekki lagt mat á hugsanlegan sparnað af þessu hér.
    Lögfesting frumvarpsins miðar að breytingum á fyrirkomulagi og skipulagi í stjórnsýslu og starfsemi sviðslista sem ekki fela beinlínis í sér aukið umfang og kostnað í málaflokknum. Gera verður ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið muni nýta til reksturs stofnana, úthlutunarsjóða og hugsanlegs reksturs skrifstofu sviðslistaráðs þær fjárheimildir sem nú þegar eru ætlaðar til sams konar verkefna í fjárlögum.