Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 578. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1120  —  578. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur
um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var leitað upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu og byggjast eftirfarandi svör á upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu.

     1.      Hvernig hefur Fjármálaeftirlitið fylgt eftir 2. mgr. 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki, þar sem segir að fjármálafyrirtæki skuli framkvæma reglulega álagspróf og skjalfesta forsendur og niðurstöður þeirra?
    Vegna þessa skal upplýst að fjármálafyrirtækjum er gert að skila reglulega til Fjármálaeftirlitsins skýrslu um eiginfjárkröfu fjármálafyrirtækja, svonefndri ICAAP-skýrslu (e. Internal Capital Adequacy Assessment Process), sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Innramatsferlið (ICAAP) snýr að áhættustýringarferlum og stjórnunarháttum fjármálafyrirtækja og áhættuþáttum þeirra. Það byggist á tveimur jafnmikilvægum þáttum: viðskiptastefnu, sem er áætlun til að tryggja langtímaarðsemi fyrirtækis og áhættustefnu, sem er áætlun sem tilgreinir og takmarkar þá áhættu sem fólgin er í viðskiptaáætlun.
    Það er hlutverk eftirlitsaðila að kanna og meta eiginfjárþörf og traustleika innri stjórnunarferla þar sem innramatsferli er notað. Það er hins vegar á ábyrgð fjármálafyrirtækja að koma á fót þessu matsferli. Í því skyni má taka tillit til stærðar, mikilvægis og margbreytileika fjármálafyrirtækis.
    Könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins, svonefnt SREP-ferli (e. Supervisory Review and Evaluation Process), er skoðun og mat Fjármálaeftirlitsins á innramatsferli fjármálafyrirtækja. Það beinist að því að leggja mat á samræmi og gæði viðskiptaáætlunar og áhættustefnu sem mælikvarða á styrk fjármálafyrirtækja. Álagspróf eru stór hluti í mati fjármálafyrirtækja á eiginfjárþörf og sem hluti ICAAP-skýrslu eru þau próf og niðurstöður þeirra metin af Fjármálaeftirlitinu í SREP-ferlinu.
    Enn fremur er fyrirhugað að leggja fyrir fjármálafyrirtækin (stóru viðskiptabankana) samræmd álagspróf síðar á þessu ári.
    ICAAP-skýrslu er að jafnaði skilað árlega (fyrri hluta árs). Skiladagsetning er ákveðin af Fjármálaeftirlitinu og miðar yfirleitt við skil á ársuppgjöri.

     2.      Hefur Fjármálaeftirlitið sett reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja eins og það skal gera skv. 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki? Hvernig hljóma reglurnar og hvenær voru þær settar? Ef þær hafa ekki verið settar, af hverju hefur Fjármálaeftirlitið ekki farið að lögum?
    Fjármálaeftirlitið hefur ekki sett reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Unnið hefur verið að undirbúningi reglna þessara frá árinu 2011. Þeirri vinnu hefur miðað hægt sökum anna og umfangs verkefnis þessa. Að teknu tilliti til skipulagsbreytinga sem urðu hjá eftirlitinu í janúar sl. má vænta aukins þunga við framkvæmd eftirlits með eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum. Fjármálaeftirlitið hyggst ljúka frágangi reglna þessara á 2. ársfjórðungi 2012.
    Markmið fyrirhugaðra reglna er að stuðla að því að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði og auka þannig traust og trúverðugleika á fjármálamarkaði. Markmið þeirra er einnig að tryggja að fjármálafyrirtæki séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni viðskiptavina, hluthafa, stofnfjáreigenda og alls þjóðarbúsins að leiðarljósi. Mikilvægt er að reglur sem þessar hafi að geyma ákvæði sem stuðli að bættri réttarstöðu aðila, þar á meðal viðskiptavina.

     3.      Hafa öll fjármálafyrirtæki uppfyllt ákvæði 4. mgr. 19. gr. laganna um að tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtækinu? Ef svo er, hverjir eru þeir sem eiga 5% eða stærri hluti í einstökum fjármálafyrirtækjum? Ef ekki, af hverju hefur ákvæðum laganna ekki verið fylgt eftir?
    Sú skylda fjármálafyrirtækja að tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtæki kom inn með lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi í júní 2010.
    Komið hefur í ljós að tæpur helmingur starfandi fjármálafyrirtækja, 20 af 43, hefur uppfyllt ákvæði 4. mgr. 19. gr. nefndra laga um að tilgreina á vefsíðu sinni nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtækinu. Upplýsingar um þá aðila sem eiga 5% eða stærri hluti í einstökum fjármálafyrirtækjum er að finna á heimasíðum viðkomandi fjármálafyrirtækja. Um er að ræða stærstu fjármálafyrirtækin.
    Hvað varðar þau fjármálafyrirtæki sem hafa ekki birt framangreindar upplýsingar, er það mál til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu og verður gripið til viðeigandi ráðstafana vegna þess.
    Rétt er að geta þess að fylgi eftirlitsskyldur aðili ekki lögum getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum sinni hann ekki kröfum um úrbætur innan frestsins.

     4.      Hversu oft fer Fjármálaeftirlitið að jafnaði í vettvangsrannsókn til fjármálafyrirtækja, mánaðarlega, á hálfs árs fresti, árlega eða sjaldnar?
    Á síðastliðnu ári fór Fjármálaeftirlitið í 23 vettvangsathuganir til eftirlitsskyldra aðila. Rétt er að geta þess að vettvangsathuganir geta verið margs konar, t.a.m. heildarúttekt eða þemaskoðun. Eftirlitið átti og fjölda funda með einstökum eftirlitsskyldum aðilum í tengslum við afgreiðslu mála.
    Sem fyrr segir hefur Fjármálaeftirlitið tekið upp nýtt skipurit sem tók gildi í janúar sl. Samkvæmt því eru eftirlitssvið þrjú og beinast að vettvangsathugunum, eindareftirliti og greiningu og áætlunum. Hið nýja skipulag er verkefnamiðað og taka nýju eftirlitssviðin við öllum verkefnum frá þeim fimm eldri sviðum sem lögð voru niður en skipting þeirra tók að miklu leyti mið af geirum fjármálamarkaðarins. Markmið skipulagsbreytinganna er að auka skilvirkni og samhæfingu í starfseminni. Vettvangsathugunum hefur í ljósi framanritaðs verið gefið aukið vægi.