Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1121  —  428. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndal um álögur á lífeyrissjóði.



     1.      Hvaða álögur eru lagðar á lífeyrissjóði með lögum og hvaða álögur er fyrirhugað að leggja á lífeyrissjóði samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 (til dæmis greiðslur til Fjármálaeftirlitsins, umboðsmanns skuldara, Endurhæfingarsjóðs og greiðslur í tengslum við vaxtaniðurgreiðslu)? Óskað er upplýsinga um mismunandi tegundir álaga, á hvaða stofn þær leggjast og hver er tilgangur álagningar.
    Lífeyrissjóðir greiða eftirlitsgjöld til Fjármálaeftirlitsins og umboðsmanns skuldara og sérstakt gjald í tengslum við vaxtaniðurgreiðslu (sjá a–c-liði). Þá er fyrirhugað að lífeyrissjóðir greiði gjald til starfsendurhæfingar (sjá d-lið).
     a. Eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins. Í 1. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, er mælt fyrir um að eftirlitsskyldir aðilar og aðrir gjaldskyldir aðilar skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Hlutdeild lífeyrissjóðanna nemur 0,011% af hreinni eign til greiðslu lífeyris, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þá getur stjórn Fjármálaeftirlitsins ákveðið að eftirlitsskyldum aðila verði gert að greiða samkvæmt reikningi fyrir umframeftirlit, enda sé eftirlit með viðkomandi eftirlitsskyldum aðila umtalsvert kostnaðarsamara og mannaflsfrekara en áætlun um reglubundið eftirlit gerir ráð fyrir, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna.
    Heildarfjárhæð eftirlitsgjalda til Fjármálaeftirlitsins er 1.935 millj. kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012. Hlutur lífeyrissjóðanna er ekki sundurgreindur í fjárlögum.
    b. Gjald til umboðsmanns skuldara. Í 1. gr. laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, er mælt fyrir um að tilteknir aðilar á fjármálamarkaði, þ.m.t. lífeyrissjóðir, skuli standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds sem nemur 0,03% af öllum útlánum lífeyrissjóðs í lok árs miðað við ársreikning fyrir almanaksárið á undan næstliðnu ári.
    Heildarfjárhæð eftirlitsgjalda til umboðsmanns skuldara er 1.050 millj. kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012. Hlutur lífeyrissjóðanna er ekki sundurgreindur í fjárlögum.
     c. Greiðslur í tengslum við vaxtaniðurgreiðslu. Með lögum nr. 156/2011, um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, er mælt fyrir um að við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013 skuli aðilar sem falla undir 6. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum, greiða sérstakt gjald í ríkissjóð sem nemur 0,0814% af hreinni eign til greiðslu lífeyris, sbr. 39. gr., eins og hún er í lok næstliðins árs. Gjalddagi er 1. nóvember 2012 og 1. nóvember 2013 og eindagi 15 dögum síðar. Þá er mælt fyrir um að greiða skuli fyrir fram upp í álagt gjald hinn 31. desember 2011 og 1. nóvember 2012 og miðast sú greiðsla við hreina eign til greiðslu lífeyris eins og hún var í árslok 2010 og 2011. Sjá bráðabirgðaákvæði XIV við lög nr. 129/1997. Samkvæmt fjárlögum ársins 2012 eru áætlaðar tekjur af þessu gjaldi samtals 1.400 millj. kr. Gert er ráð fyrir að tekjur af gjaldinu verði sambærilegar árið 2013.
    Þess skal getið í þessu samhengi að hinn 8. febrúar sl. undirrituðu fjármálaráðherra og forsvarsmenn Landssamtaka lífeyrissjóða samkomulag um vaxtabætur þar sem stefnt er að þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun sérstakra vaxtabóta með þátttöku þeirra í útboðum Seðlabankans með tilboðum um að kaupa með erlendum gjaldeyri aflandskrónur og nota þær til kaupa á ríkisskuldabréfum. Gangi sameiginleg markmið aðila um þátttöku lífeyrissjóðanna í útboðunum eftir mun ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi frumvarp, eigi síðar en á haustþingi 2012, um að fella brott ákvæði laga sem fela í sér skattlagningu á hreina eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris vegna áranna 2011 og 2012.
     c. Gjald til starfsendurhæfingar. Gert er ráð fyrir að greiðsluskylda lífeyrissjóðanna til starfsendurhæfingarsjóða verði virk þegar lagarammi hefur verið settur um sjóðina, greiðslur til þeirra og rétt til starfsendurhæfingar, eigi síðar en hinn 1. júlí 2012, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 156/2011, um breytingu á lögum nr. 129/1997. Þá er gert ráð fyrir að gjaldið nemi 0,13% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 129/1997 vegna hvers sjóðfélaga.

     2.      Hver hefur verið fjárhæð þessara álaga frá 2007 til og með 2010? Hver er áætluð fjárhæð 2011 og 2012? Hvernig skiptast þær á lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og sveitarfélaga annars vegar (sjóði með opinberri ábyrgð eða sjálfvirkt hækkandi iðgjaldi opinbers launagreiðanda) og aðra lífeyrissjóði hins vegar (án ábyrgðar launagreiðanda)?
    Eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins frá lífeyrissjóðum nam 133.544.000 kr. á árinu 2008. Þar af voru 102.812.000 kr. greiddar af sjóðum án ábyrgðar og 30.732.000 kr. af sjóðum með ábyrgð. Á árinu 2009 nam eftirlitsgjaldið 151.221.000 kr. og skiptist þannig að sjóðir án ábyrgðar greiddu 112.993.000 kr. og sjóðir með ábyrgð 38.228.000 kr. Fjárhæðin nam 156.913.000 kr. á árinu 2010 og þar af greiddu sjóðir án ábyrgðar 116.689.000 kr. og sjóðir með ábyrgð 40.224.000 kr. Á árinu 2011 nam fjárhæðin 196.994.000 kr. og komu 146.114.000 kr. í hlut sjóða án ábyrgðar og 50.880 kr. í hlut sjóða með ábyrgð. Áætlun fyrir 2012 liggur ekki fyrir samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu. Heildarfjárhæð eftirlitsgjalda til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 er 1.935 millj. kr. Hlutur lífeyrissjóðanna í þeirri fjárhæð er ekki sundurgreindur í fjárlögum.
    Eftirlitsgjald til umboðsmanns skuldara vegna ársins 2010 nam 12.876.762 kr. Þar af greiddu sjóðir með ábyrgð 4.477.404 kr. og sjóðir án ábyrgðar 8.399.358 kr. Eftirlitsgjaldið vegna ársins 2011 nam 44.584.477 kr. Sjóðir með ábyrgð greiddu 15.537.289 kr. og sjóðir án ábyrgðar 29.047.188 kr. Álagt eftirlitsgjald til umboðsmanns skuldara fyrir fyrsta þriðjung ársins 2012 nemur 19.561.278 kr. Þar af greiddu sjóðir með ábyrgð 6.817.092 kr. og sjóðir án ábyrgðar 12.744.186 kr. Gera má ráð fyrir að heildargreiðslur lífeyrissjóðanna á árinu 2012 nemi þreföldum þessum tölum.
    Eins og að framan greinir er unnið að frumvarpi um starfsendurhæfingarsjóði, greiðslur til starfsendurhæfingarsjóða og rétt til starfsendurhæfingar. Stefnt er að því að það verði að lögum fyrir mitt ár og að greiðsluskylda lífeyrissjóða til starfsendurhæfingarsjóða verði virk frá 1. júlí 2012. Ef það gengur eftir er áætlað að lífeyrissjóðir án ábyrgðar greiði 313.128.000 kr. til starfsendurhæfingar á síðari hluta ársins og sjóðir með ábyrgð 96.719.000 kr. Samanlagðar greiðslur lífeyrissjóðanna eru samkvæmt þessu áætlaðar 626.256.000 kr. fyrir sjóði án ábyrgðar og 193.439.000 kr. fyrir sjóði með ábyrgð.
    Fyrirframgreiðsla sérstaks gjalds á lífeyrissjóði var á gjalddaga hinn 31. desember 2011. Sjóðir án ábyrgðar greiddu sem nam 1.011.123.000 kr. og sjóðir með ábyrgð sem nam 388.048.000 kr. Sjá einnig svar hér að framan.
    Upplýsingar undir þessum lið voru fengnar frá Fjármálaeftirlitinu ef frá eru taldar upplýsingar um gjöld til umboðsmanns skuldara sem voru fengnar frá Fjársýslu ríkisins.

     3.      Hver er staða lífeyrissjóða í þessum tveimur framangreindu flokkum? Hvað vantar mikið upp að eignir samtals standi undir skuldbindingum samtals í hvorum flokki? Hvernig munu opinberu sjóðirnir bregðast við því og hvernig gætu almennu sjóðirnir brugðist við?
    Samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum nemur neikvæður munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga 146 milljörðum kr. eða 6,3% í sjóðum án ábyrgðar. Ef litið er til áfallinnar stöðu nemur neikvæður mismunur eignarliða og lífeyrisskuldbindinga 116 milljörðum kr. eða 8%.
    Í sjóðum með ábyrgð nemur neikvæður munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga, á grundvelli tryggingafræðilegra athugana, 458 milljörðum kr. eða 52%. Mismunurinn á milli eignarliða og áfallinna skuldbindinga var neikvæður um 408 milljarða kr. eða 45%.
    Vísað er til ákvæða 39. gr. og 51. gr. laga nr. 129/1997, 13. gr. laga nr. 1/1997, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og eftir atvikum ákvæða í samþykktum einstakra lífeyrissjóða um það hvernig stjórnum lífeyrissjóða er ætlað að bregðast við neikvæðum mun á milli eignarliða og skuldbindinga.
    Upplýsingar undir þessum lið eru fengnar frá Fjármálaeftirlitinu.

     4.      Hefur verið lagt mat á getu einstakra lífeyrissjóða til að standa undir þessum álögum og hvort þessar álögur muni valda aukinni skerðingu lífeyris þeirra?
    Nei. Slíkt mat liggur ekki fyrir í fjármálaráðuneytinu.