Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 426. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1154  —  426. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndal um ríkisstuðning við innlánsstofnanir.


     1.      Hvaða innlánsstofnanir hafa fengið eða er fyrirhugað að fái ríkisstuðning frá september 2008?
     2.      Hafa einhverjar innlánsstofnanir skv. 1. lið verið sameinaðar eða teknar yfir af öðrum innlánsstofnunum, og þá hverjum og hvenær?
     3.      Hversu há var eða verður ríkisaðstoðin í hverju tilfelli?


Ríkisaðstoð/ríkisstuðningur.
    Frá falli bankanna 2008 hefur íslenska ríkið gripið til margvíslegra ráðstafana til þess að endurheimta og tryggja fjármálastöðugleika og viðhalda þjónustu á bankamarkaði. Þessar ráðstafanir hafa verið takmarkaðar við það sem nauðsynlegt hefur verið til að ná umræddum markmiðum og viðhalda um leið virkri samkeppni á fjármálamarkaði eftir því sem unnt er.
    Í yfirstandandi fjármálakreppu í Evrópu hefur verið litið svo á að ráðstafanir opinberra aðila til hagsbóta fyrir fjármálastofnanir teljist almennt til ríkisaðstoðar frekar en fjárfestinga á markaðsforsendum. Slíkar ráðstafanir eru þannig skilgreindar sem ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993. Sú skilgreining er óháð því hvort og þá hvaða ávöxtun fæst af þeim fjármunum sem lagðir eru til. Ráðstafanir íslenska ríkisins sem um ræðir teljast falla undir undanþáguákvæði b-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins, sem heimilar ríkisaðstoð til að ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis EES-samningsins. Slík ríkisaðstoð er tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og leggur stofnunin mat á hvort hún uppfylli skilyrði þess að teljast nauðsynleg, fullnægjandi, vel til þess fallin að ná markmiðum sem að er stefnt og hafi ekki í för með sér óhæfileg áhrif á samkeppni.
    ESA hefur í tengslum við yfirstandandi ástand á fjármálamarkaði birt tímabundnar leiðbeiningar um ríkisaðstoð í tengslum við fjármálakreppuna, sambærilegar við þær sem gefnar hafa verið út á vettvangi Evrópusambandsins, til þess að meta hvort ráðstafanir ríkja á fjármálamarkaði samrýmist framkvæmd EES-samningsins. Má þar einkum nefna leiðbeiningar stofnunarinnar um „endurnýjað rekstrarhæfi og mat á ráðstöfunum til endurskipulagningar í fjármálafyrirtækjum í yfirstandandi fjármálakreppu samkvæmt reglum um ríkisaðstoð“ (leiðbeinandi reglur um endurskipulagningu), en aðrir kaflar í tímabundnu reglunum fjalla um beitingu ríkisaðstoðarreglna gagnvart ráðstöfunum sem gerðar eru vegna fjármálastofnana (leiðbeinandi reglur um bankastarfsemi), endurfjármögnun fjármálastofnana í yfirstandandi fjármálakreppu (leiðbeinandi reglur um endurfjármögnun), og meðferð virðisrýrðra eigna innan bankakerfisins á EES-svæðinu (leiðbeinandi reglur um virðisrýrðar eignir).
    Tíu innlánsstofnanir hafa notið ríkisaðstoðar í framangreindum skilningi frá september 2008, í tengslum við þann markaðsbrest sem hefur orðið vegna yfirstandandi fjármálakreppu. Þar af eru fjórir viðskiptabankar og sex sparisjóðir. Þær upplýsingar sem hér fara byggjast einkum á skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, sem lögð var fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011, 694. mál, þskj. 1213.
Ráðstafanir vegna krafna Seðlabanka Íslands á hendur minni sparisjóðum.
    Með falli SPB hf. (áður Sparisjóðabankans hf.) árið 2009 eignaðist Seðlabanki Íslands kröfur á hendur sparisjóðum, sbr. ákvörðun FME, dags. 21. mars 2009, um ráðstöfun eigna og skulda bankans. Á sama tíma versnaði eignastaða sjóðanna, m.a. vegna þess að þeir höfðu átt hluti í SPB, hvers verðgildi rýrnaði til muna. Í því skyni að tryggja endurheimtur krafnanna og bæta um leið rekstrarhæfi sparisjóðanna var ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu sjóðanna með aðkomu Seðlabankans og annarra kröfuhafa. Þeir fimm sjóðir sem um ræðir eru Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Svarfdæla, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis. Í endurskipulagningunni fólst að kröfuhafar og stofnfjárhafar urðu að gefa eftir af eignum sínum og var kröfum Seðlabankans á hendur sjóðunum breytt í víkjandi lán, almenn lán, stofnfé og þær afskrifaðar, eins og sýnt er í eftirfarandi töflum.

Sparisjóður Bolungarvíkur (SpBol)
Nafnverð %
Seðlabanki Íslands 542.744,00 81,23%
Byggðastofnun 64.946,00 9,72%
Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV hf. 27.127,00 4,06%
Aðrir 33.368,00 4,99%
Samtals 668.185,00 100,00%
Íslenska ríkið 607.690,00 90,95%
Meðhöndlun krafna SÍ
Breytt í stofnfé á gengi 1 542.744,00
Greitt með peningum 387.552,00
Ný lán 620.083,00
Afskrifað SÍ 2.325.311,00
Krafa SÍ á SpBol alls 3.875.690,00
Meðhöndlun krafna Byggðastofnunar
Breytt í stofnfé 64.946,00
Breytt í nýtt víkjandi lán 15.587,00
Afskrifað 179.252,00
Krafa Byggðastofnunar á SpBol alls 259.785,00
Sparisjóður Norðfjarðar (SpNor)
Nafnverð %
Seðlabanki Íslands 150.000,00 23,97%
Byggðastofnun 159.493,00 25,49%
Aðrir 316.306,00 50,54%
Samtals 625.799,00 100,00%
Íslenska ríkið 309.493,00 49,46%
Meðhöndlun krafna SÍ
Breytt í stofnfé á gengi 1 150.000,00
Breytt í víkjandi ESÍ 140.000,00
Afskrifað SÍ 269.000,00
Krafa SÍ á SpNor alls 559.000,00
Meðhöndlun krafna Byggðastofnunar
Breytt í stofnfé á gengi 1,23 159.493,00
Afskrifað 36.683,00
Krafa Byggðastofnunar á SpNor alls 196.176,00
Sparisjóður Svarfdæla (SpSvar)
Nafnverð %
Seðlabanki Íslands 381.960,0 89,99%
Aðrir 42.479,0 10,01%
Samtals 424.439,0 100,00%
Íslenska ríkið 381.960,00 89,99%
Meðhöndlun krafna SÍ
Breytt í stofnfé 381.960,00
Afskrifað SÍ 363.116,00
Krafa SÍ á SpSvar alls 745.076,00
ESÍ víkjandi lán 20.000,00
Sparisjóður Vestmannaeyja (SpVest)
Nafnverð % %
Seðlabanki Íslands 555.000,00 55,69% 55,25%
Eigendur víkjandi krafna 42.159,00 4,23% 4,20%
Vestmannaeyjabær 101.428,57 10,18% 10,10%
Vinnslustöðin 50.000,00 5,02% 4,98%
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja 149.430,00 14,99% 14,88%
Eldri stofnfjáreigendur 98.571,43 9,89% 9,81%
Samtals 996.589,00 100,00% 99,21%
Eigin bréf sparisjóðsins 7.894,00 0,79%
Útgefið stofnfé 1.004.483,00 100,00%
Íslenska ríkið 555.000,00 55,69%
Meðhöndlun krafna SÍ
Breytt í stofnfé á gengi 1 555.000,0
Ný lán 563.939,8
Ný víkjandi lán 310.000,0
Afskrifað SÍ 786.470,0
Krafa SÍ á SpVest alls 2.215.409,8
Sparisjóður Þórshafnar (SpÞór)
Nafnverð %
Seðlabanki Íslands 105.000,0 40,82%
Byggðastofnun 90.055,6 35,01%
Tryggingasjóður sparisjóða 60.000,0 23,33%
Aðrir 2.143,0 0,83%
Samtals 257.198,6 100,00%
Íslenska ríkið 195.055,59 75,84%
Meðhöndlun krafna SÍ
Breytt í stofnfé 105.000,00
Afskrifað SÍ 751.254,00
Krafa SÍ á SpÞór alls 856.254,00
Meðhöndlun krafna Byggðastofnunar
Breytt í stofnfé gengi 1,5 90.055,6
Krafa Byggðastofnunar á SpÞór alls 135.083,40
ESÍ víkjandi lán 19.000,00

    Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í sparisjóðunum. Samningur um kaup Landsbankans á öllum eignum og rekstri Sparisjóðs Svarfdæla var undirritaður 29. desember 2011. Kaupin eru m.a. háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem ekki liggur fyrir þegar þetta er ritað í mars 2012.

Ráðstafanir vegna stofnunar og endurreisnar nýju viðskiptabankanna.
    Í október 2008 voru settir á fót nýir bankar á grunni hinna föllnu viðskiptabanka, með flutningi á skuldum og eignum til nýju bankanna. Meginverkefnum í endurreisn nýju bankanna var lokið rúmu ári síðar, með samkomulagi um uppgjör við gömlu bankana vegna hinna yfirfærðu eigna og þátttöku þeirra í fjármögnun nýju bankanna. FME setti fram skilyrði gagnvart bönkunum um fjárhagslegan styrk sem kváðu á um að eigið fé banka væri að lágmarki 16% af áhættugrunni og þar af að lágmarki 12% samkvæmt eiginfjárþætti A. Þá voru einnig sett skilyrði um lausafjárstyrk sem gerði ráð fyrir að aðgangur að lausu fé skyldi nema að lágmarki 20% af innstæðum.
    Auk þess er um að ræða ráðstafanir vegna stofnunar Byrs hf. og Spkef sparisjóðs í mars 2010, á grunni eigna og innstæðna sem yfirfærðar voru frá Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík. Spkef var með ákvörðun FME, dags. 5. mars 2011, tekinn yfir af Landsbankanum og þann 25. nóvember sama ár sameinuðust Íslandsbanki og Byr undir merkjum Íslandsbanka.
    Á grundvelli laga nr. 125/2008 hefur ríkissjóður lagt fram hlutafé/stofnfé, veitt víkjandi lán og lausafjárfyrirgreiðslu vegna eftirtalinna fjármálafyrirtækja:
Nafn Hlutafé/Stofnfé Af heildarhlutafé
Landsbankinn hf. 122.000.000.000 81,33%
Arion banki hf. 9.862.060.000 13%
Íslandsbanki hf. 6.332.329.432 5%
Spkef sparisjóður 860.000.000 100%*
Byr hf. 860.000.000 11,6%*
Samtals 140.829.094.432

*
Lágmarksframlag vegna stofnunar fjármálafyrirtækis er 5 milljónir evra samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Byr hefur verið seldur til Íslandsbanka og framlagið að mestu endurgreitt til ríkissjóðs, eða 765 m.kr. (11,6% af söluverði, sem var 6,6 ma.kr.).

    Ríkissjóður ábyrgist þær kröfur sem kunna að falla á Landsbankann vegna yfirtöku á eignum og skuldum Spkef sparisjóðs, en sú ábyrgð mun leiða til útgjalda ríkissjóðs sem nemur því sem á vantar til að heildareignir sparisjóðsins svari til yfirtekinna innstæðna, líkt og nánar segir hér á eftir. Með sameiningunni varð ekki úr að ríkissjóður mundi leggja sjóðnum til nýtt eigið fé, en nýtt eigið fé hefði að líkindum þurft að nema 8,2 ma.kr.
    Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í viðskiptabönkunum þremur.
    Til að uppfylla kröfur FME um eiginfjárhlutfall voru Arion banka og Íslandsbanka veitt víkjandi lán, sem standa á eftir almennum lánum en á undan hlutafé í greiðsluforgangi. Lánin eru í erlendri mynt.

Nafn Víkjandi lán (staða í árslok 2011)
Arion banki hf. 32.189.145.539
Íslandsbanki hf. 21.997.569.553
Samtals 54.186.715.092

    Flutningur á innstæðum Straums til Íslandsbanka: Líkt og fram kemur í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna ákvað FME þann 17. mars 2009, í kjölfar yfirtöku á valdi stjórnar og hluthafafundar í Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka hf. skv. heimildum í neyðarlögunum, að flytja innstæður Straums til Íslandsbanka, til að tryggja innstæðueigendum aðgang að innstæðum sínum. Samhliða ákvað FME að Straumur skyldi gefa út skuldabréf til handa Íslandsbanka með veði í öllum eigum félagsins til að tryggja Íslandsbanka greiðslu fyrir yfirteknar innstæðuskuldbindingar. Var skuldabréfið gefið út 3. apríl 2009 að fjárhæð um 43,7 ma.kr. með lokagjalddaga 31. mars 2013. Samhliða gerðu fjármálaráðuneytið og Íslandsbanki með sér samning um lausafjárstuðning við Íslandsbanka vegna hugsanlegs útflæðis á yfirfærðum innstæðum. Umrætt skuldabréf er nú að fullu uppgreitt af Straumi.
     Samningur um fyrirgreiðslu vegna lausafjárstöðu Íslandsbanka: Þá kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra að við sameiginlega fjármögnun Glitnis og ríkisins á Íslandsbanka fékk ríkissjóður til baka frá Íslandsbanka hluta af þeim ríkisskuldabréfum sem lögð höfðu verið fram sem greiðsla fyrir hlutafé. Við þá aðgerð versnaði lausafjárstaða Íslandsbanka, þar sem ríkisskuldabréfin eru veðhæf við lausafjárfyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands. Þegar samningur um sameiginlega stofnfjármögnun var undirritaður var því samþykkt að veita Íslandsbanka aðgang að lausu fé með láni á ríkisbréfum gegn veði í traustum eignum Íslandsbanka, allt að 25 ma.kr. Samkomulagið gildir til 30. september 2012.
     Flutningur á innstæðum SPRON til Arion banka: Enn fremur er greint frá því í fyrrnefndri skýrslu fjármálaráðherra að FME ákvað, í kjölfar yfirtöku á valdi stjórnar og hluthafafundar í SPRON, að flytja hæfar innstæður SPRON til Arion banka. Þá ákvað FME að SPRON skyldi stofna sérstakt hlutafélag (sem fékk nafnið Drómi ehf.) sem myndi yfirtaka allar eignir SPRON, þar með talin veðréttindi og ábyrgðir. Drómi tók yfir skuldbindingar SPRON gagnvart Arion vegna flutnings á innstæðum og skyldi gefa út skuldabréf til Arion sem samsvaraði yfirteknum innstæðukröfum, með veði í öllum eignum félagsins ásamt hlutafjáreign SPRON í Dróma, hið svokallaða SPRON-skuldabréf. Vegna yfirtöku Arion banka á innstæðum SPRON var samið um sérstaka lausafjárfyrirgreiðslu við Arion vegna hugsanlegs útflæðis á yfirfærðum innstæðum áður en greiðslur af SPRON-skuldabréfinu ættu sér stað, sambærileg við þá sem veitt er Íslandsbanka. Fjármálaráðuneytið hefur einnig lýst því yfir gagnvart Arion að bankanum verði haldið skaðlausum að því er varðar SPRON-viðskiptin og tryggja þar með í raun greiðslu á SPRON-skuldabréfinu. Yfirlýsingin er í gildi til lokagjalddaga SPRON-skuldabréfsins á árinu 2014.

Aðrar skuldbindingar.
    Samkvæmt samkomulagi frá 14. október 2010 var Byr hf. veitt víkjandi lán frá ríkissjóði að fjárhæð 5 m.kr. á grundvelli laga nr. 125/2008. Í kjölfar sölu Byrs hf. til Íslandsbanka hf. í júlí 2011 var samþykkt, með heimild í fjáraukalögum fyrir árið 2011, nr. 150/2011, að láninu yrði breytt í lausafjárfyrirgreiðslu til Íslandsbanka að sömu fjárhæð. Lausafjárfyrirgreiðslan var samþykkt vegna innstæðna sem bankinn tók yfir frá Byr en háð tilteknum skilyrðum. Eitt skilyrðanna var samþykki ESA, sem ekki liggur fyrir þegar þetta er ritað í mars 2012.
    Líkt og fram kom í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um framlög ríkisins til SpKef og Byrs þann 8. september 2011 (139. löggjafarþing, þskj. 1834 - 894. mál) var það mat stjórnenda Spkef sparisjóðs að 11,2 ma.kr. skorti á að eignir sparisjóðsins dygðu fyrir innstæðum. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar Landsbankann á eignum og skuldbindingum sparisjóðsins í kjölfar yfirtökunnar var að verðmæti eigna hefðu verið um 20 ma.kr. lægra en fyrrnefnt mat stjórnenda Spkef, þ.e. að um 30 ma.kr. skorti á að eignir dygðu fyrir innstæðum. Ágreiningur aðila um uppgjör hefur verið lagður fyrir úrskurðarnefnd í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Niðurstöðu nefndarinnar er að vænta innan fárra vikna.

Aðgengi að fjármagni til skamms tíma.
    Íbúðalánasjóður veitti á árinu 2008 skammtímalán til viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem veitt höfðu verið gegn veði í íbúðarhúsnæði, á grundvelli reglugerðar nr. 458/1999, sbr. breytingarreglugerð nr. 715/ 2008, sem felld var brott með reglugerð nr. 57/2009. Tilgangur þess kerfis var að veita fjármálafyrirtækjum aðgengi að fjármögnun til skamms tíma. Lánin hafa verið gerð upp og kerfið aflagt.

Endurgjald vegna ríkisaðstoðar.
    Um endurgjald til ríkisins, þ.e. kjör á víkjandi lánum og lausafjárfyrirgreiðslum, vísast einkum til áður nefndrar skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna. Um arðsemiskröfu vegna eignar ríkisins í innlánsstofnunum vísast til ársskýrslna Bankasýslu ríkisins.
    Engar aðrar ráðstafanir sem talist geta til ríkisaðstoðar eða ríkisstuðnings hafa verið settar í framkvæmd eða eru fyrirhugaðar.

     4.      Hver var fjárhæð innlána hjá hverri stofnun skv. 1. lið í lok hvers mánaðar frá september 2008 til september 2011 eða til þess tíma að þau voru yfirtekin af annarri innlánsstofnun skv. 2. lið sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort innstæðan er verðtryggð eða óverðtryggð og samanlagt,
                  b.      hvort eigandinn er innlendur eða erlendur,
                  c.      hvort eigandinn er einstaklingur, einkafyrirtæki, sveitarfélag, ríkið eða annað?

    Ráðherra óskaði eftir upplýsingum frá viðkomandi innlánsstofnunum vegna 4. tölul., en þar sem umræddar upplýsingar lúta ekki að opinberu málefni er stofnununum ekki skylt að veita þær. Fjármálastofnanirnar lögðust gegn því að umbeðnar upplýsingar yrðu birtar, þar sem um væri að ræða upplýsingar sem skaðað gætu viðskiptahagsmuni þeirra ef þær yrðu gerðar opinberar.
    Á það skal hins vegar bent að í Hagtölum Seðlabanka Íslands, sem birtar eru á vef bankans, er að finna upplýsingar um heildarinnlán í innlendum fjármálastofnunum, m.a. skipt eftir því hvort innlánseigendur séu innlendir eða erlendir, innstæður séu verðtryggðar eða óverðtryggðar og skipting eftir eigendum, m.a. hvort um sé að ræða heimili, lífeyrissjóði, fyrirtæki eða sveitarfélög. Þar gefur að líta þróun þessara hagtalna eftir mánuðum.