Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1201  —  614. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur
um textun á innlendu sjónvarpsefni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Eftir hvaða reglum fer RÚV við textun á innlendu sjónvarpsefni í því skyni að auðvelda heyrnarskertum að fylgjast með útsendingum? Telur ráðherra reglurnar fullnægjandi?

    Samkvæmt samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem í gildi er á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins, lið 3.10, skal Ríkisútvarpið veita heyrnarskertum aðgang að útvarpsþjónustu í almannaþágu með því að nýta tæknimöguleika, svo sem með textun á sjónvarpsefni í textavarpinu og á vefsvæði sínu ef því verður við komið. Sé þess kostur skal öll forunnin innlend dagskrá textuð og sama gildir um undirbúin innlend innslög í aðalfréttatíma Sjónvarps. Innlendir þættir sem ekki næst að texta fyrir frumsýningu skulu textaðir fyrir endursýningu. Frétta- og dægurmálaþættir skulu textaðir fyrir endursýningu.
    Í lið 2.6 í málstefnu Ríkisútvarpsins segir að tekið skuli mið af þörfum heyrnarlausra, heyrnarskertra og þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli með því að bjóða upp á táknmálsþýðingar og textun innlends sjónvarpsefnis eftir því sem kostur er.
    Í lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, segir í 30. gr. að þær fjölmiðlaveitur sem miðli myndefni skulu eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun. Úrræði til að tryggja aðgengi eru m.a. táknmál, textun og hljóðlýsing.
    Mikið hefur breyst á síðastliðnum áratug hvað varðar textun á innlendu efni. Árið 2002 voru um sautján klukkustundir af íslensku efni textaðar í Sjónvarpinu en árið 2011 voru þær 248. Textun innlends efnis hefur því tæplega fimmtánfaldast á einum áratug og Ríkisútvarpið hefur náð því markmiði að texta alla forunna innlenda þætti (efni telst forunnið þegar a.m.k. sex klst. eru til útsendingar.) Þá hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins fylgt þeirri vinnureglu að þegar send er út dagskrá vegna óvæntra atburða, svo sem náttúruhamfara, rennur textaborði með helstu efnisatriðum yfir skjáinn. Þegar um er að ræða beinar útsendingar frá mikilvægum fundum er leitast við að endurtaka útsendinguna við fyrsta tækifæri með texta á síðu 888 í Textavarpinu.
    Þótt margt hafi breyst til batnaðar varðandi textun innlends efnis má enn gera betur. Komið hefur fyrir að textaborðar hafi gleymst við útsendingar vegna óvæntra atburða. Þá eru endursýningar mikilvægra funda, sem búið er að texta, stundum sýndar seint að kveldi. Beinar útsendingar eru ekki textaðar, og á það til dæmis við um fréttir og spjallþætti. Núverandi búnaður leyfir ekki textun beinna útsendinga, enda kallar slíkt á sérstakan talgreini. Talgreinar styðjast við víðtækan gagnagrunn orða til að greina mælt mál og þýða það jafnóðum yfir í texta. Þessi tækni er einungis fyrir hendi á stærri málsvæðum (t.d. þar sem enska er töluð). Ísland er lítið málsvæði, þróunin skammt á veg komin og íslenskur gagnagrunnur er hreinlega ekki fyrir hendi, fremur en á öðrum Norðurlöndum.
    Fréttir Ríkisútvarpsins eru ekki textaðar fyrir endursýningu eins og kveðið er á um í samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Á vef Ríkisútvarpsins má hins vegar nálgast allar fréttir þess í textaformi, sem nýtist heyrnarskertum sem og öðrum. Þar hefur sérstök áhersla hefur verið lögð á að skrifa upp bein ummæli viðmælenda í fréttum.
    Þó að textun á innlendu efni í Ríkisútvarpinu hafi aukist verulega undanfarin ár má betur ef duga skal. Þess vegna er skerpt á aðgengismálum heyrnarskertra í nýju frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þar segir í 6. gr.:

         Ríkisútvarpið skal veita heyrnarskertum aðgang að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með textun á sjónvarpsefni, með textavarpi, útsendingum á táknmáli og/eða öðrum miðlunarleiðum er henta í þessu skyni og eru í samræmi við tæknilega möguleika á hverjum tíma.
         Ef rof verður á dagskrá eða fréttatímar sendir út við sérstakar aðstæður, skal Ríkisútvarpið gera efnið aðgengilegt heyrnarskertum með táknmálstúlkun og/eða textun.

    Með þessari grein er markmiðið að tryggja heyrnarskertum greiðan aðgang að upplýsingum sem Ríkisútvarpið miðlar og þannig auðvelda þeim að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Verði frumvarpið að lögum er það mat ráðherra að reglur um það málefni sem er spurt um séu fullnægjandi.