Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 619. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1203  —  619. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur
um almenningsíþróttir.


     1.      Hvaða stefna er í gildi varðandi almenningsíþróttir hér á landi?
    Samkvæmt íþróttalögum, nr. 64/1998, teljast íþróttir hvers konar líkamleg þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti. Meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála er að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði. Í nýlegri stefnumótun ráðuneytisins í íþróttamálum er lögð áhersla á útfærslu þessarar hugmyndafræði á öllum sviðum íþrótta. Tvö af meginmarkmiðum stefnunnar varða almenningsíþróttir. Annars vegar markmið um að almenningsíþróttir verði efldar og landsmenn taki aukinn þátt í íþróttum og almennri hreyfingu. Hitt markmiðið er að sem flestir hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga. Í kafla stefnunnar um almenningsíþróttir er hnykkt á því að íþróttaiðkun almennings sé einn af þeim lykilþáttum sem geta haft áhrif á lífsstíl fólks til heilbrigðara lífernis og mikilvægt sé að tryggja gott framboð á fjölbreyttri hreyfingu fyrir alla aldurshópa.
    Í stefnunni eru nefndar nokkrar leiðir sem styðja eiga við almenningsíþróttaiðkun hér á landi. Þær eru:
          Sveitar- og íþróttafélög auki aðgengi almennings að íþróttamannvirkjum og fjölgi tilboðum um íþróttir, hreyfingu og útivist.
          Aðgengi almennings að íþróttamannvirkjum verði aukið og tilboðum um íþróttir, hreyfingu og útivist fjölgað.
          Stutt verði við almenningsíþróttaverkefni sem stuðla að heilbrigði þjóðarinnar.
          Atvinnurekendur og forsvarsmenn launþega taki þátt í að hvetja til heilbrigðs lífsstíls meðal þjóðarinnar.
          Við skipulag vinnustaða verði gert ráð fyrir reiðhjólageymslum, sturtum og búningsaðstöðu.
          Stuðlað verði að auknu svigrúmi fyrir launþega til að hafa hreyfingu sem hluta af vinnudegi.
    Í kafla stefnunnar um íþróttamannvirki er komið inn á að uppbygging mannvirkja taki mið af nýtingu þeirra fyrir skóla, íþróttafélög og almenning og að sveitarfélög geri ráð fyrir reiðhjóla- og göngustígum og grænum svæðum til útivistar og leikja fyrir börn og fullorðna í skipulagsvinnu sinni.
    Í inngangi stefnunnar kemur fram að um sé að ræða sameiginlega stefnumótun þeirra aðila sem bera ábyrgð á málaflokknum sem eru ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin.
    Til þess að tryggja eftirfylgni og það náist að hrinda sem flestu í framkvæmd sem fram kemur í stefnunni hefur verið ákveðið að skipa stýrihóp um íþróttastefnu sem hafi það hlutverk að samræma aðgerðir ríkis, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar út frá gildandi stefnumótun í íþróttamálum. Í stýrihópnum verða fulltrúar frá ríki, sveitarfélögum og íþróttahreyfingunni. Hópnum er ætlað að gera tillögur um forgangsröðun aðgerða út frá stefnumótun í íþróttamálum og hver séu brýnustu verkefnin. Einnig verði unnar tillögur um aðgerðir út frá einstökum markmiðum stefnunnar og hvaða skref þurfi að taka til þess að ná viðkomandi markmiðum. Einnig verði fjallað um kostnað sem aðgerðir þessar hafa í för með sér og er hópnum ætlað að meta þann kostnað.

     2.      Stendur til að auka stuðning hins opinbera við almenningsíþróttir?
    Mikil vakning hefur orðið á Íslandi á sviði almenningsíþrótta. Almenningur hefur úr fjölmörgu að velja þegar kemur að hreyfingu, hvort sem fólk hyggst taka tilboðum líkamsræktarstöðva, taka þátt í almenningsíþróttum á vegum íþróttafélaga eða stunda útivist á eigin vegum eða í skipulögðum útivistarferðum svo eitthvað sé nefnt. Stjórnvöld vinna nú þegar í anda stefnunnar á ýmsum af þeim sviðum sem þegar hafa verið nefnd. T.d. hafa mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti auk landlæknisembættisins stutt sameiginlega við verkefni Íþrótta- og Ólympíusambandsins (ÍSÍ) eins og Lífshlaupið sem er vinnustaðakeppni á sviði almenningsíþrótta. Þar tóku tuttugu þúsund manns þátt í ár og hefur þátttaka aukist ár frá ári frá því það byrjaði fyrir fimm árum. Svo má nefna verkefni eins og Hjólað í vinnuna og Kvennahlaupið sem ÍSÍ skipuleggur, Reykjavíkurmaraþon sem Íþróttabandalag Reykjavíkur skipuleggur, Landsmót UMFÍ og Gengið á fjallið sem UMFÍ skipuleggur, auk fleiri verkefna sem draga að þúsundir þátttakenda. Einnig hafa sveitarfélög í auknum mæli verið að bæta samgöngur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem hefur mikil áhrif á skilyrði til iðkunar almenningsíþrótta. Hér má einnig nefna uppbyggingu og viðhald skíðasvæða í landinu. Sveitarfélög með skilyrði til vetraríþrótta hafa mörg hver staðið myndarlega að uppbyggingu skíðasvæða hvert í sínu sveitarfélagi. Ríkið hefur tekið þátt í uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri og er í undirbúningi samningur um frekari uppbyggingu þar. Þá má nefna að í úthlutun af fjárlagaliðum sem Alþingi veitti áður var úthlutað fyrir árið 2012 25 millj. kr. til landsmótssvæða sem nýtast til einnig almenningsíþróttaiðkunar. Hvað frekari stuðning við almenningsíþróttir varðar mun væntanlegur stýrihópur um íþróttastefnu m.a. fjalla um og gera tillögur um aðgerðir hins opinbera á sviði almenningsíþrótta í samræmi við núverandi stefnu.