Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 755. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1204  —  755. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum
og tollalögum (fóðursjóður).

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson,
Birgir Ármannsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Jón Gunnarsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
með síðari breytingum.

1. gr.

    31. og 33. gr. laganna falla brott.

II. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005, með síðari breytingum:
     a.      Tollur á vörum í eftirfarandi tollskrárnúmerum í 10. kafla verður 0%: 1001.1910, 1001.9910, 1002.9010, 1003.9010, 1004.9010, 1005.9001, 1007.9010, 1008.1001, 1008.2910, 1008.3001, 1008.4010, 1008.5010, 1008.6010 og 1008.9010.
     b.      Tollur á vörum í eftirfarandi tollskrárnúmerum í 11. kafla verður 0%: 1101.0021, 1102.2001, 1102.9011, 1102.9091, 1103.1101, 1103.1311, 1103.1321, 1103.1901, 1103.2001, 1104.1221, 1104.1901, 1104.2221, 1104.2301, 1104.2901, 1104.3001, 1005.2001, 1106.2001 og 1008.1301.
     c.      Tollur á vörum í 12. kafla í tollskrárnúmerum 1213.0011 og 1213.0021 verður 0%.
     d.      Tollur á vörum í 17. kafla í tollskrárnúmerum 1703.1001 og 1703.9001 verður 0%.
     e.      Tollur á vörum í 23. kafla tollskrárinnar verður 0%.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Eftirstöðvar fóðursjóðs skv. 31. og 33. gr. laga nr. 99/1993 við gildistöku laga þessara skulu renna til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og andvirði þeirra ráðstafað sem lánum eða framlögum til eflingar nýjum viðfangsefnum í landbúnaði og til stuðnings við búgreinar og breytingar búskaparhátta á lögbýlum.

Greinargerð.

    Mál þetta var áður flutt á 132. þingi (þskj. 1074, 738. mál). Með frumvarpi þessu er lagt til að fóðursjóður sem er í vörslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og starfar samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, verði lagður niður. Í fóðursjóð renna tolltekjur af innfluttu fóðri og hráefni sem fellur undir 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005.
    Í reglugerð nr. 431/1996 er fjallað um greiðslur úr fóðursjóði. Skv. 2. gr. eru misháar greiðslur eftir því annars vegar hvort um er að ræða hráefni eða fullunnið fóður og hins vegar hvort um er að ræða hráefni eða fullunnið fóður til annars en loðdýraræktar og fiskeldis. Fyrir hráefni eða fullunnið fóður til loðdýraræktar eða fiskeldis er greitt að fullu andvirði þess tolls sem lagður var á við innflutning. Þegar um ræðir hráefni til fóðurgerðar, annarrar en fiskeldis- og loðdýraræktarfóðurs, eru dregnar frá 0,80 kr. á kíló af andvirði þess tolls sem lagður var á við innflutning en frádregnar 7,80 kr. á kíló ef um er að ræða fóðurblöndur til annars en loðdýraræktar og fiskeldis.
    Heimild er í 4. gr. reglugerðarinnar til að skuldajafna áður en útborgun á sér stað og er framkvæmdin sú að skuldajafnað er áður en til greiðslu kemur, og rennur því einungis í sjóðinn sú fjárhæð sem frádregin er frá andvirði tollsins, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar, sem fer síðan í Framleiðnisjóð landbúnaðarins.
    Á hverju ári renna eftirstöðvar sjóðsins til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins skv. 33. gr. laganna. Fénu er ráðstafað sem lánum eða framlögum til eflingar nýjum viðfangsefnum í landbúnaði og til stuðnings við búgreinar og breytingar á búskaparháttum á lögbýlum. Verði frumvarpið að lögum verður eftirstöðvum sjóðsins ráðstafað til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins við gildistöku.
    Flutningsmenn telja að sjóðurinn sé óþarfa millifærslusjóður sem nýtist engum. Auk þess er með niðurfellingu hans dregið úr stuðningi við landbúnaðarkerfið.