Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 674. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1227  —  674. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um samskipti RÚV við Evrópusambandið.


    Þar sem spurningar háttvirts þingmanns snerta starfsemi Ríkisútvarpsins beint var óskað eftir svörum frá stofnuninni vegna þeirra.

     1.      Hafa stjórn RÚV, útvarpsstjóri, dagskrárstjóri og fréttastjóri mótað reglur um samskipti RÚV við Evrópusambandið og stofnanir á þess vegum (þar á meðal Evrópustofu) vegna aðildarviðræðna Íslands? Ef svo er, hverjar eru þær reglur?
    Nei, samskipti við Evrópusambandið lúta sömu almennu lögmálum og venjum sem gilda um önnur alþjóðasamtök, bandalög, einstök ríki og aðra hagsmunaaðila og mótast einungis af því hlutverki að miðla fréttum og upplýsingum til almennings.

     2.      Hafa starfsmenn RÚV þegið kynnisferðir kostaðar af Evrópusambandinu eða stofnana á þess vegum (þar á meðal Evrópustofu)? Ef svo er, hversu margar ferðir er um að ræða og hvaða starfsmenn hafa þegið slíkar ferðir?
    Ríkisútvarpið þiggur ekki styrki frá Evrópusambandinu eða öðrum til fréttaöflunarferða eða dagskrárgerðar. Hér eru tilgreindar náms- og kynnisferðir einstakra starfsmanna Ríkisútvarpsins í tengslum við Evrópusamstarfið og kostaðar voru af Evrópusambandinu, aðildarríkjum eða tengdum aðilum:
     *      28.–29. október 2009 sótti Ragnhildur Thorlacius ásamt fleiri íslenskum blaða- og fréttamönnum eins dags námskeið fyrir blaða- og fréttamenn og síðan hálfs dags ráðstefnu: Poverty: Perceptions and Reality – The Communication Challenge, sem haldin var í tilefni „árs fátæktar“ 2010. Áhersla var lögð á að vekja athygli evrópskra blaða- og fréttamanna á því að fátækt gæti þrifist hjá borgurum Evrópusambandslanda. Almannatengslaskrifstofa skipulagði ráðstefnuna en hún var kostuð af Evrópusambandinu.
     *      14.–22. september 2011 fóru fréttamennirnir Bára Sif Halldórsdóttir (sem hafði verið sumarafleysingamaður á Akureyri og kom ekki aftur til starfa), Gunnar Hrafn Jónsson og Ægir Þór Eysteinsson í hópi íslenskra starfsfélaga til Lúxemborgar þar sem stofnanir Evrópusambandsins í landinu voru kynntar: Evrópudómstóllinn, Evrópski fjárfestingabankinn og Evrópska hagstofan. Ferðin var á vegum utanríkisráðuneytis Lúxemborgar og skipulögð af European Journalism Center, sem er óháð hollensk rannsóknar- og fræðslustofnun, fyrir evrópska blaðamenn.
     *      29.–30. mars 2012 fór Heiðar Örn Sigurfinnsson í hópi íslenskra blaða- og fréttamanna í kynnisferð til Brussel á vegum European Journalism Center sem kostuð var af Evrópusambandinu. Tilgangurinn var að kynna blaða- og fréttamönnum hvernig aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu gengju og þau mál sem Íslendingar leggja höfuðáherslu á í viðræðunum. Í ferðinni gafst kostur á að hitta stækkunarstjóra Evrópusambandsins og samningamenn Íslands.

     3.      Hefur RÚV tekið við fjármunum frá Evrópusambandinu eða stofnunum þess (þar á meðal Evrópustofu) í þeim tilgangi að kynna starfsemi sambandsins?
    Nei.