Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 470. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1237  —  470. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um heildarkostnað við flutning ráðuneyta, stofnana, nefnda og ráða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er heildarkostnaður ríkissjóðs á þessu kjörtímabili við flutning ráðuneyta, stofnana, nefnda og ráða í samræmi við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að flytja alla stjórnsýsluna í nágrenni við forsætisráðuneytið?

    Ríkisstjórn Íslands hefur ekki markað þá stefnu að öll stjórnsýslan skuli færð í nágrenni við forsætisráðuneytið.
    Í tengslum við breytingar á ráðuneytum hefur áhersla verið lögð á að aðalskrifstofur ráðuneytanna séu nálægt svonefndum stjórnarráðsreit og var við sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins starfsemin sameinuð í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17, en áður hafði heilbrigðisráðuneytið og þrjár fastanefndir á þess vegum verið í Vegmúla 3.
    Forsætisráðuneytið kannast ekki við að aðrar stofnanir nefndir og ráð hafi verið flutt í nágrenni við ráðuneytið.
    Hér að neðan er gerð grein fyrir heildarkostnaði hjá Fasteignum Stjórnarráðsins sem er fjárlagaliður í umsjón forsætisráðuneytisins við framkvæmdir vegna breytinga í tengslum við stofnun innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis sem og vegna nýs efnahags- og viðskiptaráðuneytis á árinu 2009. Eins og fram kemur var verkefnið viðamikið og réð forsætisráðuneytið Framkvæmdasýslu ríkisins til að hafa umsýslu og verkstjórn með verkinu og framkvæmdum í samráði við ráðuneytið.
    Í verkefninu fólst eftirfarandi:
     1.      Heilbrigðisráðuneytið ásamt þremur fastanefndum þess flutti úr Vegmúla 3 í Hafnarhúsið við Tryggvagötu 17.
     2.      Samgönguráðuneytið flutti úr Hafnarhúsinu að Sölvhólsgötu 7 og dómsmála- og mannréttindaráðuneytið flutti úr Skuggasundi 3 á sama stað. Þar er nú innanríkisráðuneytið til húsa.
     3.      Fjársýsla ríkisins flutti úr Sölvhólsgötu 7 í Vegmúla 3.
     4.      Efnahags- og viðskiptaráðuneytið flutti úr Sölvhólsgötu 7 í Skuggasund 3.
     5.      Hluti Vinnumálastofnunar, sem var til húsa í Hafnarhúsinu, flutti í Kringluna 1.
    Heildarkostnaður við breytingarnar og flutninga, viðhald og endurbætur á húsnæði ráðuneytanna nam 216,6 millj. kr., því til viðbótar var kostnaður vegna flutnings Fjársýslu ríkisins í Vegmúla 3 samtals 26,8 millj. kr., þ.e. heildarkostnaður verkefnisins var 243,4 millj. kr. Áætlun gerði ráð fyrir 228,2 millj. kr., frávik eru því að raunkostnaður varð 15,2 millj. kr. hærri eða 6,66%. Þau frávik skýrast að mestu á magntölubreytingum og endurnýjun öryggis- og aðgangsstýringakerfa í húsunum vegna hertra krafna þar um. Sé tekið tillit til þess er verkefnið nánast á áætlun.
    Þegar nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti var stofnað lögðu Fasteignir Stjórnarráðsins 24,2 millj. kr. á árinu 2009 til hins nýja ráðuneytis vegna húsnæðisbreytinga því samfara.
    Að mati Framkvæmdasýslu ríkisins gekk verkefnið fljótt og vel og búið var að flytja til 290 starfsmenn Stjórnarráðs Íslands innan fjögurra mánaða frá því að framkvæmdir hófust. Þá kemur jafnframt fram í niðurstöðum skýrslunnar að mat á fjárhagslegum árangri í heild út frá faglegum athugunum, samanburði við önnur verk, samanburð raunkostnaðar og áætlunar, svo og skýringar frávika, er að hann sé góður.
    Nýja ítarlega skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins um húsnæði Stjórnarráðs Íslands er að finna á vefslóðinni www.fsr.is/library/7340.