Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 480. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1286  —  480. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar um forstöðumenn ríkisstofnana sem fara umfram heimildir í fjárlögum.


     1.      Hversu margir forstöðumenn ríkisstofnana hafa frá 1995 ítrekað farið umfram heimildir í fjárlögum og þar af leiðandi:
                  a.      verið áminntir í starfi,
                  b.      fengið tilsjónarmenn með rekstri, og
                  c.      verið vikið úr starfi?

    Ráðuneytið kallaði eftir svörum annarra ráðuneyta og niðurstaðan er sú að tveir forstöðumenn hafa verið áminntir í starfi, fjórir fengið tilsjónarmenn með rekstri og tveimur hefur verið vikið úr starfi á tímabilinu. Sundurliðun eftir ráðuneytum er hér í töflunni:
a b c
Forsætisráðuneyti 0 0 0
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 1 3 1
Utanríkisráðuneyti 0 0 0
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 1 0 0
Innanríkisráðuneyti 0 0 0
Velferðarráðuneyti 0 1 0
Fjármálaráðuneyti 0 0 0
Iðnaðarráðuneyti 0 0 0
Efnahags- og viðskiptaráðuneyti 0 0 1
Umhverfisráðuneyti 0 0 0
Samtals 2 4 2

     2.      Túlkar fjármálaráðuneytið það sem lögbrot að reka ríkisstofnun ítrekað umfram heimildir í fjárlögum?
    Í 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, kemur fram að forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila beri ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir. Brot á því varði skyldur opinberra starfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í reglugerð um framkvæmd fjárlaga, nr. 1061/2004, er fjallað um skyldur forstöðumanna þar sem segir meðal annars að forstöðumaður beri ábyrgð á því að útgjöld stofnunar séu í samræmi við fjárheimildir og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Þá segir jafnframt að komi í ljós að heildarútgjöld, að frádregnum tekjum, séu meira en 4% umfram áætlun stofnunar skuli forstöðumaður tafarlaust skýra stjórn hennar og ráðuneyti frá því hverjar ástæður þess eru og hvernig hann hyggst bregðast við þeim. Hvert ráðuneyti fer með yfirstjórn þeirra mála sem undir það heyra og skal hafa eftirlit með því að forstöðumaður reki sína stofnun innan fjárheimilda. Jafnframt ber ráðuneytinu að bregðast við ef um umframútgjöld er að ræða og hefur til þess verkfæri sem tilgreind eru sérstaklega bæði í lögum nr. 70/ 1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og einnig í áðurnefndri reglugerð um framkvæmd fjárlaga.