Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 780. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1311  —  780. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og lögum um brunavarnir,
nr. 75/2000, með síðari breytingum.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Þór Saari.


Breyting á lögum um mannvirki, nr. 160/2010.


1. gr.

    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, 10. tölul., svohljóðandi: að starfrækja brunavarnasjóð sem sveitarfélög geta sótt um styrk í vegna kostnaðar slökkviliðs við kaup á sérhæfðum björgunarbúnaði til björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.

2. gr.

    Við 4. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna bætist: 1/ 10 hluti þess skal þó renna í brunavarnasjóð, sbr. 7. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000.

Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.
3. gr.

    7. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Brunavarnasjóður.
    

    Mannvirkjastofnun starfrækir brunavarnasjóð sem sveitarfélög geta sótt um styrk í vegna kostnaðar slökkviliðs við kaup á sérhæfðum björgunarbúnaði til björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.
    Mannvirkjastofnun skal árlega leggja sjóðnum til fé sem nemur 1/ 10 hluta byggingaröryggisgjalds, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010.
    Stjórn sjóðsins ráðstafar fé úr sjóðnum í samræmi við reglur sem sjóðsstjórn setur sér og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur skv. 4. mgr. Stjórnin skal skipuð fjórum fulltrúum. Forstjóri Mannvirkjastofnunar skal vera formaður hennar, ráðherra skal skipa einn og Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna skulu hvort um sig skipa einn fulltrúa. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Ráðherra setur reglugerð um brunavarnasjóð þar sem m.a. er kveðið nánar á um skilyrði fyrir styrkveitingu, fjárhæðir styrkja og form umsókna.

4. gr.

    Við 4. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarfélag getur sótt um styrk vegna kostnaðar við kaup á sérhæfðum búnaði skv. 3. mgr. í brunavarnasjóð, sbr 7. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Mannvirkjastofnun skal við gildistöku laga þessara leggja 5% af byggingaröryggisgjaldi yfirstandandi árs í brunavarnasjóð.

Greinargerð.


    Með lögum nr. 160/2010 var slökkviliðum falið það verkefni að bjarga fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði. Frumvarpið sem varð að þeim lögum hafði þá verið lagt fram nokkrum sinnum á Alþingi og umsagna um það leitað á ýmsum þingum. Í umsögnum um málið bentu mörg sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga á að þessu nýja verkefni mundi fylgja ærinn kostnaður enda er þessi sérhæfði björgunarbúnaður mjög dýr og fá slökkvilið áttu þá fullnægjandi búnað. Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið kom fram að ekki væri talið að með þessari breytingu og nýju verkefni mundi nýr kostnaðar falla á sveitarfélögin nema í undantekningartilvikum. Var það byggt á því að langflest slökkvilið landsins hefðu þegar sinnt þessu verkefni í meira en áratug án lagaskyldu og því að kennsla í meðferð klippibúnaðar er hluti af námi við Brunamálaskólann.
    Ljóst er að kostnaðarmatið hefur ekki staðist. Kostnaður vegna tækjakaupa hefur fallið á slökkviliðin og þar með sveitarfélögin og fjármagn hefur ekki fylgt þessu nýja verkefni sem nú er lögboðin skylda slökkviliða að sinna. Eðlilegt er því að ríkið komi til móts við þann kostnað sem nýju verkefni hefur fylgt með því að styrkja sveitarfélög vegna kaupa á sérhæfðum búnaði. Ekki verður heldur horft fram hjá því að á árunum 2001–2005 gátu sveitarfélög sótt um styrk til Brunamálastofnunar vegna slökkviliða og gert var ráð fyrir því að hluti brunavarnagjalds rynni til þess að styrkja slökkvilið. Árið 2010 var brunavarnagjaldið lagt niður en svokallað byggingaröryggisgjald lagt á í staðinn. Gjaldstofn þess er að öllu leyti sambærilegur brunavarnagjaldinu og tilgangur þess einnig að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir fjármunum til að styrkja slökkvilið. Með frumvarpinu er því lagt til að ákveðinn hluti byggingaröryggisgjaldsins renni hér eftir í brunavarnasjóð sem hafi það hlutverk að styrkja sveitarfélög vegna kostnaðar slökkviliðs við kaup á sérhæfðum björgunarbúnaði til björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að Mannvirkjastofnun hafi það lögbundna hlutverk að starfrækja brunavarnasjóð sem sveitarfélög geti sótt um styrk í vegna kostnaðar slökkviliðs við kaup á sérhæfðum björgunarbúnaði til björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum. Breytingin felur í sér að skylda stofnunarinnar til að starfrækja sjóðinn sé skýr en efnisákvæði um sjóðinn verður svo að finna í lögum um brunavarnir.

Um 2. gr.

    Brunaöryggisgjald skv. 50. gr. laga um mannvirki nemur 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Fyrir gildistöku laganna var kveðið á um sambærilegt gjald, svokallað brunavarnagjald, í 37. gr. laga um brunavarnir. Samkvæmt mannvirkjalögum skal byggingaröryggisgjaldið notað til að fjármagna starfsemi Mannvirkjastofnunar. Brunavarnagjaldið var notað á líkan hátt til að fjármagna starfsemi Brunamálastofnunar sem lögð var niður við stofnun hinnar nýju Mannvirkjastofnunar sem tók við verkefnum hennar.
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við brunavarnalögin var Brunamálastofnun þó á árunum 2001–2005 heimilt að veita sveitarfélögum fjárstuðning til að styrkja sveitarfélög sem sameinast um rekstur eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs. Hluti brunavarnagjaldsins var því nýttur til að veita sveitarfélögum styrk til að þau gætu betur sinnt lögbundnum skyldum sínum í samræmi við lög um brunavarnir og styrkt slökkvilið sín.
    Lagt er til að ákveðnum hluta byggingaröryggisgjaldsins verði á ný varið til að veita sveitarfélögum styrk til að tryggja að þau geti sinnt lögbundnum skyldum sínum enda var árið 2010 bætt við þau nýju verkefni án þess að fjármagn fylgdi því. Þannig verði 10% byggingaröryggisgjaldsins sett í brunavarnasjóð. Í hann geti sveitarfélög sótt styrk í samræmi við 3. gr. frumvarps þessa. Reynist fjárþörf sjóðsins meiri eða ofmat er á þörfinni verður unnt að breyta þessu hlutfalli með lögum.

Um 3.og 4. gr.

    Með ákvæðum greinanna eru lagðar til breytingar á lögum um brunavarnir.
    Í 3. gr. er lagt er til að við II. kafla laganna, sem fjallar um stjórn og skipan brunamála, bætist ný grein þar sem tíunduð er skylda Mannvirkjastofnunnar til að starfrækja sjóð sem sveitarfélög geti sótt um styrk til vegna kostnaðar slökkviliðs við kaup á sérhæfðum björgunarbúnaði til björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.
    Gert er ráð fyrir því að stjórn sjóðsins sé skipuð fjórum fulltrúum, forstjóri Mannvirkjastofnunar sé einn þeirra og jafnframt formaður sjóðsstjórnar. Þá skipi ráðherra einn fulltrúa og Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna einn hvort. Með þessu er tryggð breið aðkoma að stjórninni og að fjölbreytt sjónamið komist að. Lagt er til að stjórnin setji sér sjálf reglur.
    Kveðið er á um að Mannvirkjastofnun skuli leggja sjóðnum til fé í samræmi við 50. gr. laga um mannvirki og að það nemi 10% af byggingaröryggisgjaldi.
    Gert er ráð fyrir því að ráðherra setji reglugerð þar sem m.a. verði nánar kveðið á um skilyrði styrkveitingar, fjárhæðir styrkja og form umsókna. Með því að festa styrkveitingar ekki í lagatexta skapast svigrúm til að ákveða hvort betra sé að festa ákveðna fjárhæð í reglugerðina eða tiltaka hlutfall af kaupverði búnaðar. Við gerð reglna um mat á umsóknum um styrki er talið mikilvægt að heildstætt mat liggi til grundvallar, sérstaklega ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða styrkjum. Þannig verði forgangsröðun byggð á slíku heildstæðu mati sem m.a. feli í sér mat á hættunni sem því fylgir að nota núverandi búnað slökkviliðsins eða ef ekki er um búnað að ræða, auk þess sem horft verði til almennrar endurnýjunarþarfar búnaðarins. Lögð er áhersla á að markmiðum laganna sé fylgt við ákvörðun um styrki og þannig verði horft til þess að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit, forvarnir og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi. Með þessi markmið að leiðarljósi verður að leggja heildstætt mat á þörf á búnaði þar sem öryggi manna, líf þeirra og heilsa er lögð til grundvallar. Mikilvægt er að við gerð reglugerðarinnar sé haft samráð við sveitarfélög og slökkvilið.
    Í 4. gr. er svo áréttuð sú heimild sveitarfélaga að sækja um styrk vegna kaupa á búnaðinum.

Um 5. gr.

Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Þar sem brunavarnasjóði hefur ekki verið lagt til fjármagn á yfirstandandi ári er hér lagt til að við gildistöku laganna beri Mannvirkjastofnun að leggja honum til 5% af byggingaröryggisgjaldi.