Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 375. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1426  —  375. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs
og stranda, með síðari breytingum (mengunarvarnaráð hafna og bráðamengun).


Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ingvarsson og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneytinu, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gísla Gíslason frá Hafnasambandi Íslands, Dagmar Sigurðardóttur og Ásgrím L. Ásgrímsson frá Landhelgisgæslunni, Árnýju Sigurðardóttur og Kristínu Lóu Ólafsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Baldur Bjartmarsson og Hermann Guðjónsson frá Siglingastofnun. Umsagnir bárust frá Hafnasambandi Íslands, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Landhelgisgæslu Íslands, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Olíudreifingu ehf., Olíuverslun Íslands hf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum verslunar og þjónustu, Siglingastofnun Íslands og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að skipað verði mengunarvarnaráð hafna sem leysi af hólmi núverandi svæðisráð. Einnig eru lagðar til aðrar breytingar sem eiga að skýra og afmarka hlutverk og verkefni viðbragðsaðila við bráðamengun.
    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um mengunarvarnaráð hafna. Það á að vera formlegur samráðsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um þau málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða, stuðla að samstarfi og samhæfingu milli hafna um viðbúnað, samræmingu viðbragðsáætlana og viðbragða við mengun, gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á bráðamengunarbúnaði í höfnum landsins og koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana.
    Mengunarvarnaráð hafna kemur sem fyrr segir í stað þeirra fimm svæðisráða sem starfandi eru í dag, en þrír til fimm fulltrúar sitja nú í hverju svæðisráði. Það er mat meiri hlutans að það sé framfaraskref að setja á fót eitt mengunarvarnaráð sem þjóni öllu landinu og leggja þess í stað niður svæðisráðin. Það svið sem mengunarvarnaráði er ætlað að fjalla um skarast að nokkru leyti við það starf sem hafnaráð hefur hingað til sinnt, en frumvarp liggur fyrir Alþingi um að leggja hafnaráð niður (þskj. 300). Meiri hlutinn áréttar að verkefni mengunarvarnaráðs fjalla eingöngu um viðbúnað og viðbrögð vegna bráðamengunar og er ætlað að einfalda óskilvirkt kerfi svæðisráða og stuðla að nauðsynlegri samhæfingu og framþróun. Skv. 3. gr. frumvarpsins á mengunarvarnaráð að vera skipað sex fulltrúum. Umhverfisstofnun skal tilnefna tvo fulltrúa, Hafnasamband Íslands skal tilnefna þrjá fulltrúa og Samband íslenskra sveitarfélaga skal tilnefna einn fulltrúa. Meiri hlutinn telur eðli málsins samkvæmt rétt að Siglingastofnun Íslands tilnefni einnig einn fulltrúa en stofnunin fer með framkvæmd siglinga-, hafna- og vitamála í landinu og yfirgripsmikil sérþekking er þar til staðar sem meiri hlutinn telur að geti nýst vel í mengunarvarnaráði. Meiri hlutinn leggur einnig til þá breytingu að sá fulltrúi sem Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni verði starfandi heilbrigðisfulltrúi.
    Fjallað er um tilkynningu um bráðamengun í 4. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram í 2. mgr. að tilkynna skuli um óhöpp á sjó utan hafnarsvæða til Landhelgisgæslu Íslands. Meiri hlutinn bendir á að um tilkynningar um óhöpp og slys á sjó gilda lög nr. 41/2003, um vaktstöð siglinga, en markmið þeirra laga er m.a. að efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Einnig kemur fram í 11. gr. laganna að skipstjóri skips sem siglir um landhelgi eða efnahagslögsögu Íslands skal, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð, tilkynna tafarlaust um sérhvert óhapp eða slys sem hefur áhrif á öryggi áhafnar, farþega og skips, ógnar öryggi í siglingum og kann að valda mengun sjávar eða stranda Íslands. Með áherslu á skýrleika og lagasamræmi telur meiri hlutinn mikilvægt að kveða ekki á um tilkynningarskyldu til ólíkra aðila í mismunandi lögum. Slíkt getur haft í för með sér að upp komi vafi hjá tilkynningarskyldum aðilum og að árekstrar verði í störfum stjórnvalda. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að óhöpp á sjó utan hafnarsvæða skuli tilkynna til vaktstöðvar siglinga í samræmi við gildandi lög. Meiri hlutinn bendir einnig á í þessu sambandi að nefndin hefur haft til meðferðar frumvarp til laga um umhverfisábyrgð (þskj. 448). Skv. 11. gr. frumvarpsins er það Umhverfisstofnun sem metur hvort orðið eða yfirvofandi tjón sé umhverfistjón í skilningi þeirra laga, hvort yfirvofandi hætta sé á umhverfistjóni og hver beri ábyrgð á slíku tjóni eða hættu á tjóni. Meiri hlutinn áréttar að ef eftirlitsaðila berst tilkynning um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni skal hann tilkynna það án tafar til Umhverfisstofnunar sem tekur þá ákvörðun um hvort um sé að ræða umhverfistjón í skilningi frumvarpsins.
    Meiri hlutinn ræddi einnig um olíuslys á úthöfum en frumvarpið tekur ekki á olíuleit og olíuvinnslu á hafi út, hvorki hvað varðar slys né úrgangsefni. Það er mat meiri hlutans að hraða þurfi allri vinnu sem að þessu lýtur. Nauðsynlegt er að setja viðmið fyrir mismunandi mengunarefni og skilgreina hlutverk stjórnvalda í þessu samhengi öllu. Meiri hlutinn fékk þær upplýsingar að samráðsfundir hafa átt sér stað árlega þar sem farið hefur verið yfir þær umhverfishættur sem því fylgja að sigla með olíu og hættuleg efni umhverfis landið. Þar hefur verið rætt hvernig staðið er að vöktun og viðbúnaði og ræddar tillögur að úrbótum. Umhverfisstofnun hefur unnið við gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshaf, en það er grundvöllur fyrir samræmdar aðgerðir komi til umhverfisslys, og á vettvangi Norðurskautsráðsins er unnið að bindandi samkomulagi um aðgerðir gegn mengunaróhöppum á norðurslóðum. Meiri hlutinn fékk þær upplýsingar að stefnt er að því að setja upp verk- og tímaáætlun varðandi laga- og reglugerðarbreytingar sem nauðsynlegar eru, m.a. vegna aukinna umsvifa á úthafinu. Meiri hlutinn áréttar í því samhengi mikilvægi þess að öflugur þverfaglegur samráðshópur sé til staðar sem fjallar um þessi mál.
    Í b-lið 5. gr. frumvarpsins er fjallað um bráðamengun utan hafnarsvæða. Þar er mælt fyrir um að Umhverfisstofnun sé heimilt að fela heilbrigðisnefnd eða öðrum aðilum í umboði stofnunarinnar umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. Hjá umsagnaraðilum komu fram ábendingar um að nauðsynlegt væri að taka af allan vafa um hvort í slíku framsali fælist vald til að taka ákvarðanir um þvingunarúrræði. Meiri hlutinn bendir á að ekki er gert ráð fyrir því að þeir sem hafa stjórn á vettvangi vegna upphreinsunar í umboði Umhverfisstofnunar né heilbrigðisnefnd sem falið er af Umhverfisstofnun að meta umfang og nauðsynlegar aðgerðir fái heimild til að beita þvingunarúrræðum laganna í þessu samhengi. Ef til þess kemur að beita þurfi þvingunarúrræðum er gert ráð fyrir því að Umhverfisstofnun beiti þeim þar sem mengun getur, svo dæmi sé tekið, náð yfir fleiri en eitt heilbrigðiseftirlitssvæði eða verið utan netlaga.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að Umhverfisstofnun skuli sjá um gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun og að höfðu samráði við ráðgjafaraðila. Hjá umsagnaraðila komu fram athugasemdir um hvort þessi viðbragðsáætlun væri sú sama og kveðið væri á um í 20. gr. reglugerðar um vaktstöð siglinga nr. 676/2006 og 21. gr. hafnalaga, nr. 61/2003. Meiri hlutinn bendir á að hér er um að ræða tengdar áætlanir en ekki einu og sömu áætlunina. Meiri hlutinn telur hins vegar mikilvægt að þessar áætlanir séu samræmdar svo bregðast megi við slysum og mengunarhættu á hafi eins fljótt og auðið er.
    Fjallað er um mengunarvarnabúnað í 7. gr. frumvarpsins. Vakin var athygli meiri hlutans á því að lokamálsliður 2. mgr. um að Umhverfisstofnun tæki ákvörðun um uppbyggingu og endurnýjun búnaðar um borð í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands var felldur brott. Fram kom við meðferð málsins að slík breyting væri ekki æskileg. Meiri hlutinn leggur því til að bætt verði við 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins að ákvæðið taki einnig til Landhelgisgæslunnar.
Meiri hlutinn leggur til breytingar á 2. mgr. 21. gr. laganna þess efnis að ráðherra setji gjaldskrá að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Í 21. gr. laganna er kveðið á um gjaldskrá fyrir eftirlit vegna bráðamengunar og aðgerða til að draga úr slíkri mengun. Þar segir að gjöld skuli tryggð með lögveðsrétti í eitt ár í viðkomandi skipi eða fasteign. Í lögskýringargögnum með frumvarpinu kemur hins vegar fram að lögveðsréttur skuli vera tvö ár, en það er til samræmis við 2. mgr. 21. gr. hafnalaga, nr. 61/2003. Til þess að gæta lagasamræmis leggur meiri hlutinn til þær breytingar að lögveðsréttur gjalda skuli vera tryggður í tvö ár. Hið sama á við í 23. gr. laganna sem kveður á um dagsektir.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 3. gr.
              a.      Í stað orðsins „sex“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: sjö.
              b.      3. málsl. 1. efnismgr. orðist svo: Hafnasamband Íslands tilnefnir þrjá fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa, og skal hann vera starfandi heilbrigðisfulltrúi, og Siglingastofnun Íslands einn fulltrúa.
     2.      Við 4. gr.
              a.      Í stað orðanna „Landhelgisgæslu Íslands“ og „Landhelgisgæslan“ í 2. efnismgr. komi: vaktstöðvar siglinga, og: Vaktstöð siglinga.
              b.      Orðin „um bráðamengun“ í fyrirsögn falli brott.
     3.      Við lokamálslið 2. efnismgr. 7. gr. bætist: og um borð í varðskipum Landhelgisgæslu Íslands.
     4.      Við 8. gr. bætist tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
        c.    Í stað orðanna „eitt ár“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: tvö ár.
        d.    Á eftir orðunum „að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
     5.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Í stað orðanna „eitt ár“ í lokamálslið 23. gr. laganna kemur: tvö ár.

    Mörður Árnason og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. maí 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Þuríður Backman.



Róbert Marshall.


Ásmundur Einar Daðason.


Atli Gíslason.