Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 798. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1487  —  798. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn
Höskuldar Þórhallssonar um tónlistarsjóð.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver hefur verið þróun styrkja úr tónlistarsjóði á undanförnum árum og hvernig sér ráðherra fyrir sér framtíð sjóðsins?

    Tónlistarsjóður starfar samkvæmt lögum nr. 76/2004. Hlutverk hans er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Sjóðurinn veitir annars vegar styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, svo sem tónlistarflutnings, tónlistarhópa, tónlistarhátíða, rannsókna og skráningar á tónlist, varðveislu tónlistar og annarrar tónlistarstarfsemi og hins vegar styrki til markaðssetningar og kynningarverkefna á íslenskri tónlist og tónlistarmönnum innanlands og erlendis. Tónlistarráð gerir tillögu til ráðherra um úthlutun úr tónlistarsjóði.
    Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir úthlutanir styrkja úr tónlistarsjóði á tímabilinu 2007–2012.

Úthlutanir styrkja úr tónlistarsjóði 2007–2012.

Ferðir erlendis, tónleikar og kynning Útgáfustyrkir Tónleikahald á höfuðborgarsvæði Tónleikahald, utan höfuðborgarsvæðis Verkefnastyrkir/ samstarfssamningar Úthlutanir alls Heildarupphæð
2007
11 12 10 5 13 51 102 21.480.000
10 8 11 8 14 51 18.150.000
2008
11 8 15 10 7 51 130 38.390.000
14 29 17 7 12 79 13.530.000
2009
11 26 18 7 8 70 121 40.645.000
8 20 9 8 6 51 12.550.000
2010
19 1 12 16 11 59 110 36.110.000
16 14 8 12 1 51 8.950.000
2011
13 1 19 13 11 57 100 30.500.000
15 1 14 11 2 43 10.020.000
2012
13 6 18 14 10 61 61 33.710.000
Samtals
141 126 151 111 84 624 264.035.000
Hlutföll styrkja til tónleikahalds: 58% 42%


    Úthlutun úr sjóðnum fer fram tvisvar á ári, í ársbyrjun og í byrjun sumars. Í fyrri úthlutun er ráðstafað umtalsvert hærri upphæð af ráðstöfunarfé sjóðsins sem helgast ekki síst af því að þá hefur verið veitt fé til samstarfssamninga. Átta aðilar njóta nú slíks samnings: Kammersveit Reykjavíkur, Caput, Myrkir músíkdagar, Stórsveit Reykjavíkur, FÍT og FÍH vegna tónleika á landsbyggðinni, Kammermúsíkklúbburinn, Sumartónleikar í Skálholti og Tónlistarhátíð unga fólksins. Á þessu tímabili hefur alls verið úthlutað um 264 millj. kr. til 624 verkefna. Vegna niðurskurðar á fjárlögum síðustu ára hefur fjárframlag til sjóðsins á fjárlögum lækkað umtalsvert síðan það var hæst á árinu 2008 eða úr 54 millj. kr. í 43,6 millj. kr. árið 2011 en árið 2012 hækkaði fjárveitingin í 47 millj. kr. þar sem fé til þriggja tónlistarverkefna á fjárlagalið 02-982-1.90 á fjárlögum 2011 var millifært til tónlistarsjóðs. Þeim verkefnum sem hlotið hafa styrk úr tónlistarsjóði á síðustu árum hefur heldur fækkað vegna þess niðurskurðar sem orðið hefur á fjárframlagi til sjóðsins.
    Eins og fram kemur í töflunni hefur ekki orðið umtalsverð breyting á úthlutun styrkja ef frá eru taldir útgáfustyrkir og styrkir til tónleikahalds utan höfuðborgarsvæðisins. Útgáfustyrkjum hefur fækkað umtalsvert á síðustu árum. Hins vegar hefur styrkjum til tónleikahalds utan höfuðborgarsvæðisins heldur fjölgað. Tónlistarverkefni sem fá styrk á grundvelli menningarsamninga geta einnig sótt um styrk til tónlistarsjóðs. Þá hefur styrkjum til kynningar- og markaðsverkefna erlendis heldur fjölgað en með öflugu starfi Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar hafa íslenskum tónlistarmönnum gefist fleiri tækifæri til að koma fram erlendis.
    Þess er vænst að með bættum fjárhag ríkisins verði hægt að hækka framlag til tónlistarsjóðs þannig að hann geti aukið stuðning við hið blómlega tónlistarlíf sem ríkir á Íslandi. Styrkir eru í flestum tilvikum frekar lágir og æskilegt væri að geta bæði hækkað einstaka styrki en einnig fjölgað þeim verkefnum sem hljóta styrk. Heildarfjárhæð umsókna til tónlistarsjóðs er ætíð margföld sú upphæð sem er til ráðstöfunar. Með auknu ráðstöfunarfé mætti hugsanlega fjölga árlegum úthlutunum til að geta komið betur til móts við þörf tónlistarmanna fyrir ferða- og kynningarstyrki, ekki síst vegna verkefna erlendis. Ráðherra hefur lýst áhuga á að styrkja sérstaklega útflutningsverkefni á sviði tónlistar í takt við aukna áherslu á skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg.