Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 762. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1566  —  762. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum (sparisjóðir).


Frá Birki Jóni Jónssyni.



     1.      Á eftir 10. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við gildistöku laga þessara bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, svohljóðandi:
                  Skattaðili sem kaupir stofnfjárbréf við stofnfjáraukningu í sparisjóði getur dregið kaupverð þeirra bréfa frá skattskyldum tekjum sínum á tekjuárinu. Sama gildir um sparisjóði í sömu félagaformum heimilisfasta innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
                  Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og nema verðmæti keyptra stofnfjárbréfa umfram verðmæti seldra stofnfjárbréfa í sams konar sparisjóðum, en þó aldrei meira en 300.000 kr. hjá einstaklingi og 600.000 kr. hjá hjónum. Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má með sömu skilyrðum draga mest 15.000.000 kr. Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði frádráttar.
     2.      Við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Ráðherra skal við gildistöku laga þessara skipa þriggja manna starfshóp til að meta árangur af framkvæmd laganna og skoða hvaða leiðir séu færar til þess að styrkja félagaform sparisjóða sem sjálfseignarstofnana. Starfshópurinn skal skila ráðherra tillögum sínum og drögum að lagabreytingum eigi síðar en 1. október 2012. Ráðherra skal gefa Alþingi skýrslu um störf hópsins og leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum, eftir því sem efni standa til.

Greinargerð.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að auka möguleika starfandi sparisjóða til að sækja sér eigið fé á markaði með því að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Í ljósi varhugaverðrar reynslu af hlutafjárvæðingu sparisjóða er lagt til að áfram verði leitað leiða til að efla sparisjóðina sem sjálfseignarstofnanir. Skattafslátturinn sem hér er lagður til á sér fyrirmynd í upphaflegum lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sbr. lög nr. 152/2009, en vegna afstöðu ESA ákvað löggjafinn að nema hann brott úr þeim lögum með lögum nr. 165/2010. Flutningsmaður telur með hliðsjón af þeim ólíku sjónarmiðum sem eiga við í rekstri sparisjóða sem sjálfseignarstofnana og hlutafélaga að ríkisstyrkjareglur standi ekki í vegi fyrir því að skattafslátturinn verði látinn eiga við í tilviki hinna fyrrnefndu. Í áliti meiri hlutans er gerð grein fyrir hinu sérstaka eðli sparisjóða sem sjálfseignarstofnana.