Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 37. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1568  —  37. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um nýsköpunarátak
til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála, Íslandsstofu, ISAVIA ohf., Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum atvinnulífsins, Icelandair Group hf., Þróunarfélagi Austurlands og Markaðsstofu Austurlands.
    Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela iðnaðarráðherra að hlutast hið fyrsta til um að hafið verði nýsköpunarátak í ferðaþjónustu úti á landi í þeim þríþætta tilgangi að fjölga erlendum ferðamönnum utan háannatíma, bæta við áfangastöðum á landinu, svo að álag á ferðamannastaði dreifist betur, og nýta betur og efla öll þau fjölmörgu samgöngu- og menningarmannvirki sem ríki og sveitarfélög hafa fjárfest í. Er lagt til að nýsköpunarátakið verði sjálfstætt samvinnuverkefni Íslandsstofu, Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi og ISAVIA með beinni aðkomu ráðuneyta ferðamála og samgangna, auk eftirlits og ráðgjafar af hálfu Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála. Í greinargerð tillögunnar kemur m.a. fram að með henni sé þess freistað að styrkja ferðaþjónustu á landsbyggðinni í fullu samræmi við markmið Sóknaráætlunar 20/20 um tímabundinn stuðning við vaxtargreinar, sérstakan stuðning við vetrarferðaþjónustu, stuðning við klasasamstarf fyrirtækja og umhverfismál ferðaþjónustu. Þá taki tillagan einnig tillit til nýrrar ferðamálaáætlunar stjórnvalda. Er tekið fram að sérstaklega sé horft til svæðisins frá Húnavatnssýslum og austur á firði, með miðpunkt í Eyjafirði, enda geti það á einna auðveldastan hátt tekið við auknum straumi ferðamanna á næstu árum.
    Umsagnaraðilar eru jákvæðir í garð tillögunnar. Margir þeirra taka sérstaklega undir mikilvægi þess að stuðla að fjölgun erlendra ferðamanna utan háannatíma. Benda þeir á að ferðamennska á Íslandi hafi verið mjög árstíðabundin sem geri það að verkum að fjárfestingar standi oft ónýttar utan háannatíma í ferðamennsku. Þá taka sumir sérstaklega undir að efla beri menningarmannvirki þar sem það geti verið liður í því að laða erlenda ferðamenn til landsins. Telja einstaka aðilar tillöguna jákvætt skref í markaðssetningu Norðurlands sem ferðamannastaðar.
    Á móti kemur að sumir umsagnaraðilar telja mikilvægt að rammi tillögunnar verði rýmri og átaksverkefnið þurfi að ná til stærra svæðis eða jafnvel að horfa verði til landsins í heild þegar kemur að eflingu ferðaþjónustunnar. Virðist það einnig mat sumra þeirra að efling vöruþróunar og nýsköpunar sé heppilegra byrjunarskref til að laða að erlenda ferðamenn en bein fjölgun áfangastaða.
    Innan nefndarinnar var góður rómur gerður að tillögunni. Þó var bent á að e.t.v. væri nokkuð bratt farið í greinargerð hennar þar sem fram kemur að tillagan feli í sér að ríkið leggi til 75 millj. kr. á árunum 2012–2014 svo að hefja megi átak til að festa millilandaflug um Akureyrarflugvöll í sessi. Er það álit nefndarinnar að fjárframlög til framgangs tillögunni megi verða hærri og framkvæmdartími þess lengri og að fjárframlögin þurfi því að ná til lengri tíma. Þá kann að vera rétt að leggja meiri áherslu á markaðsstarf og nýsköpun en bein orð greinargerðarinnar gefa til kynna samhliða því sem gæta þarf að samræmi áætlanagerðar stjórnvalda.
    Einn þáttur í tilgangi tillögunnar er að stuðla að því að álag á ferðamannastaði dreifist betur. Þennan þátt ræddi nefndin sérstaklega á fundum sínum. Nefndin minnir á að í nefndaráliti hennar um tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi (þingskjal 993 á 140. löggjafarþingi) tók nefndin undir framkomnar áhyggjur af álagi á ferðamannastaði og benti á að síðustu ár virðist innlend ferðamannaþjónusta hafa vaxið með auknum fjölda ferðamanna. Taldi nefndin að ákveðinnar varkárni þyrfti að gæta varðandi burðarþol ferðamannastaða. Í ljósi þessa vekur nefndin athygli á því að tillögunni er ekki aðeins ætlað að efla vöxt og verðmætasköpun innlends ferðamannaiðnaðar heldur einnig, og ekki síður, að dreifa álagi vegna umgangs ferðamanna á fleiri staði á landinu ásamt því að jafna hann út yfir árið. Er slík áhersla í fullu samræmi við ályktanir og niðurstöður ýmissa fræðimanna á sviði ferðamála.
    Þrátt fyrir að segja megi að auðvitað sé allt landið undir þegar kemur að eflingu ferðaþjónustunnar telur nefndin að í ljósi staðsetningar öflugs flugvallar í Eyjafirði og sterkra innviða atvinnusvæðisins þar um kring sé réttlætanlegt að hefja nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi á því svæði. Þá þekkingu og reynslu sem skapast við skipulagningu og vinnslu verkefnisins geta stjórnvöld og önnur landsvæði nýtt í kjölfarið til eflingar ferðaþjónustu víðar um land.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir og Þór Saari voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. júní 2012.



Sigmundur Ernir Rúnarsson,


2. varaform.


Ólína Þorvarðardóttir.


Björn Valur Gíslason.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.