Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 812. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1712  —  812. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um öryggi íbúa höfuðborgarsvæðisins verði eldgos í nágrenni þess.


     1.      Hafa ráðherra og fulltrúar Vegagerðarinnar og Almannavarna sameiginlega lagt mat á þá hættu sem skapast gæti á höfuðborgarsvæðinu verði eldgos á Reykjanesi, í Bláfjöllum eða annars staðar í nágrenni Reykjavíkur?
    Í tilefni af fyrirspurninni aflaði ráðuneytið umsagna Vegagerðarinnar og embættis ríkislögreglustjóra sem fer með málefni almannavarna í umboði ráðherra.
    Árið 2002 gaf Almannavarnanefnd Kjósar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness út skýrslu um undirbúning áhættumats, þar er m.a. fjallað um eldgos í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þá var gefin út skýrsla um áhættuskoðun á höfuðborgarsvæðinu árið 2011 þar sem m.a. er fjallað um eldgos (kafli 3.3, bls. 25). Vegagerðin og almannavarnir hafa ekki lagt sameiginlegt mat á þá hættu sem skapast gæti á höfuðborgarsvæðinu við náttúruhamfarir en vísar til þess að almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hefur unnið áhættugreiningu fyrir höfuðborgarsvæðið.
    Þá tekur stofnunin það fram að Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar hefur styrkt verkefni þar sem rýming Suðurnesja í hættuástandi er sviðsett og „flöskuhálsar“ greindir. Í verkefninu, sem VSÓ ráðgjöf leiðir með aðkomu viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, er gert ráð fyrir að rýming fari um Reykjanesbrautina og þegar er búið að greina umferðarflæði og flöskuhálsa að Hafnarfirði. Verkefnið hefur fengið áframhaldandi stuðning frá Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar til frekari greiningar. Með tilkomu Suðurstrandarvegar opnast nýr möguleiki á flóttaleið frá svæðinu.
    Í svari ríkislögreglustjóra, dags. 19. júní 2012, kemur fram að nú sé unnið að gerð heildstæðs hættumats vegna eldgosa á Íslandi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar sl. haust. Unnið er að kortlagningu eldstöðva svo unnt sé leggja mat á þá hættu sem af þeim stafar, sem nýtt verður við forgangsröðun hættumatsins. Lagt er upp með að þær eldstöðvar sem taldar eru skapa mestu hættu verði metnar fyrst. Fjármagn til verkefnisins hefur verið tryggt úr Ofanflóðasjóði til næstu þriggja ára.
    Samkvæmt þeim gögnum sem nú eru fyrirliggjandi er ætlunin að skoða eldstöðvar í þessari röð: Undir jöklum, vegna hættu á sprengigosum, í Vestmannaeyjum og á Reykjanesi. Nálægð við byggð og möguleikar á alvarlegum truflunum á samgöngum eru m.a. höfð til hliðsjónar við þessa röðun. Þátttakendur í gerð hættumatsins eru auk vísindamanna Veðurstofunnar og Háskóla Íslands, ríkislögreglustjóri og þær lykilstofnanir sem koma að mótvægisaðgerðum og viðbrögðum, svo sem Vegagerðin, ISAVIA, landlæknir og almannavarnanefndir á hverjum stað.
    Í hættumatinu verður að meta þörf á rýmingu og framkvæmd hennar. Þar sem nú er unnið að gerð hættumats er á þessu stigi ekki hægt að svara hvort ákveðnar leiðir munu henta til rýmingar eða hvort þörf sé á samningum við aðila sem gætu tekið þátt í slíkum flutningum. Auk þess er bent á að ýmsar heimildir eru þessu tengdar samkvæmt ákvæðum almannavarnalaga, nr. 82/2008, varðandi ráðstafanir á hættustundu.      2.      Meta þessir aðilar það svo að Ártúnsbrekkan ráði við rýmingu höfuðborgarsvæðisins í hættuástandi?
    Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að skapist það hættuástand að rýma þurfi höfuðborgarsvæðið í austurátt eru fleiri leiðir austur yfir Elliðaár en Ártúnsbrekkan, og nefnir sem dæmi gegnumakstur um Breiðholtshverfin, Bláfjallaleiðina og Suðurstrandarveginn. Ólíklegt er að Ártúnsbrekkan anni allri umferð ef rýma þarf höfuðborgarsvæðið í skyndi, það gæti tekið nokkurn tíma.
    Í umsögn ríkislögreglustjóra kemur fram að vísindamenn Veðurstofunnar og Háskóla Íslands sem starfa með ríkislögreglustjóra telja, út frá þeim gögnum sem fyrir liggja, ekki líkur á að rýma þurfi allt höfuðborgarsvæðið heldur er líklegra að flytja þurfi íbúa til innan svæðisins komi til slíkra atburða

     3.      Má reikna með að Reykjavíkurflugvöllur lokist verði eldgos í nágrenni borgarinnar, og er talið að Reykjavíkurhöfn nái að sinna brottflutningi á fólki?
    Ríkislögreglustjóri telur ólíklegt að rýma þurfi allt höfuðborgarsvæðið heldur er líklegra að flytja þurfi íbúa til innan svæðisins komi til slíkra atburða. Ekki er hægt að útiloka að loka verði flugvellinum um einhvern tíma en það fer m.a. eftir eðli goss, þ.e. hvort um öskugos er að ræða eða ekki og vindátt svo eitthvað sé nefnt. Áður en hættumat hefur farið fram er ekki hægt að svara því fyllilega hvort búast megi við öskugosum á þessu svæði.
    Hvað varðar getu Reykjavíkurhafnar til að sinna brottflutningi á fólki skal á það bent að um er að ræða tvær meginhafnir sem kæmu til greina við brottflutning fólks frá Reykjavík, þ.e. annars vegar Gömlu höfnina og hins vegar Sundahöfn. Ljóst er að aðstaðan við Sundahöfn býður upp á brottflutning fólks frá svæðinu á skjótvirkan hátt, enda gert ráð fyrir aðstöðu stórra skemmtiferðaskipa á hafnarsvæðinu sem getur vel annað því að flytja fjölda fólks frá landinu í einu vetfangi gerist þess þörf.

     4.      Hefur verið samið við útgerðaraðila um að hafa tiltæk skip til að flytja fólk í burtu skapist slíkt hættuástand?
    Þar sem nú er unnið að gerð heildstæðs hættumats vegna eldgosa á Íslandi er á þessu stigi ekki unnt að svara hvort ákveðnar leiðir munu henta til rýmingar eða hvort þörf sé á samningum við aðila sem gætu tekið þátt í slíkum flutningum. Auk þess er bent á að ýmsar heimildir eru þessu tengdar samkvæmt ákvæðum almannavarnalaga, nr. 82/2008, varðandi ráðstafanir á hættustundu, þ.m.t. um borgaralega skyldu aðila til að gegna starfi í þágu almannavarna á hættustundu, krefjist lögreglustjóri þess.

     5.      Hefur verið samið við Strætó bs. um að hafa tiltæka nógu marga vagna til mannflutninga skapist slíkt hættuástand?
    Vísað er til svars við 4. tölul. hér að framan. Einnig má nefna að Strætó bs. hefur unnið viðbragðsáætlun í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, m.a. um yfirtöku vagnaflotans ef upp koma alvarlegar aðstæður vegna björgunaraðgerða eða ef þörf skapast fyrir fjölda stórra ökutækja við björgunaraðgerðir.

     6.      Hvenær má búast við að stjórnvöld ráðist í nýjar vegaframkvæmdir til að tryggja öryggi íbúa höfuðborgarsvæðisins?

    Í svari Vegagerðarinnar kemur fram að greina þurfi hvaða hættur geti steðjað að höfuðborgarsvæðinu og hvaða líkur séu á slíkum stórviðburðum, áður en unnt sé að ráðast í nýjar vegaframkvæmdir á grundvelli slíkra þátta. Í framhaldinu þyrfti að greina mögulegar flóttaleiðir og skoða hvaða framkvæmdir væru æskilegar í kjölfarið.
    Eins og fram kemur í svari ríkislögreglustjóra er nú unnið að heildstæðu hættumati vegna eldgosa á Íslandi, þ.m.t. á Reykjanesi. Ætla má að þegar það mat liggur fyrir verði farið heildstætt yfir það hvaða vegaframkvæmdir séu nauðsynlegar til að tryggja öryggi íbúa á höfuðborgarsvæðinu.