Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 40. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 40  —  40. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskipulagningu á lífeyrissjóðakerfinu.

Flm.: Lilja Mósesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að bregðast við upplýsingum um tap lífeyrissjóðanna á bankahruninu haustið 2008 með því að skipa nefnd sem vinni að endurskipulagningu og yfirferð lífeyrissjóðakerfisins á þann veg að jafnvægi milli lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins verði aukið. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en í júní 2013.

Greinargerð.


    Nýlega birti úttektarnefnd lífeyrissjóða skýrslu þar sem er að finna yfirlit og úttekt á starfsemi lífeyrissjóða árin 2006–2010 og áhrifum efnahagshrunsins 2008 og 2009 á eignir sjóðanna. Samkvæmt skýrslunni töpuðust 480 milljarðar kr. við bankahrunið sem er meira en búast mátti við. Það liggur fyrir að margir bera ábyrgð á þessu tapi, bankarnir, stjórnendur lífeyrissjóðanna o.fl. Iðgjaldagreiðslur launafólks sl. 12 ár hafa tapast og lífeyrir þeirra sem byggt hafa upp sjóðina frá grunni mun að óbreyttu ekki duga til framfærslu. Líkur eru til þess að tapið muni aukast þegar búið verður að leiðrétta virði eigna lífeyrissjóðanna og Íbúðalánasjóðs þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvaða innstæður þar eru fyrir. Tap sjóðanna varpar ljósi á ókosti þess að byggja upp lífeyriskerfi þar sem lífeyrissjóðir leika aðalhlutverkið og sjá um samtrygginguna ásamt ávöxtun viðbótarlífeyris á markaðsforsendum í óstöðugu hagkerfi. Mikilvægt er að gripið verði til viðeigandi ráðstafana í ljósi þeirrar sláandi niðurstöðu sem fram kemur í skýrslu úttektarnefndar lífeyrissjóða og nauðsynlegt er að byggja upp nýtt lífeyriskerfi hér á landi þar sem til jafns er stuðst við almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðina og er það markmið þessarar tillögu.
    Í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við er meira jafnvægi milli lífeyrissjóða og almannatryggingakerfisins, þrátt fyrir meiri efnahagslegan stöðugleika en þekkist hér á landi. Á Íslandi hefur að meginstefnu til verið byggt upp sjóðakerfi í stað gegnumstreymiskerfis þar sem samtímagreiðslur standa undir lífeyrisskuldbindingum þeirra sem þegar eru komnir á eftirlaun. Sjóðskerfi gerir það að verkum að miklar eignir safnast upp til fjárfestinga sem á hinn bóginn gerir miklar kröfur til fjármálakerfisins og þeirra sem stýra sjóðunum, en slíkt getur verið gríðarlega áhættusamt eins og dæmin sanna. Fjallað var um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna og ókosti kerfisins í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (viðauka 1 I 3b). Fram kemur í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (þskj. 1501 í 705. máli á 138. löggjafarþingi) sú tillaga að sjálfstæð og óháð rannsókn og greining á lífeyrissjóðunum verði framkvæmd á vegum Alþingis, þar sem rannsóknarnefnd Alþingis var ekki unnt að ráðast í slíka framkvæmd. Þingmannanefndin lagði til að í kjölfar slíkrar rannsóknar færi fram heildarendurskoðun á lífeyrissjóðunum. Slík rannsókn á vegum Alþingis hefur enn ekki farið fram, en fyrir liggur rannsókn úttektarnefndar lífeyrissjóðanna eins og fyrr er rakið. Það er mat flutningsmanns að í ljósi niðurstöðu úttektarnefndarinnar sé nauðsynlegt að ráðast í endurskoðun kerfisins hið fyrsta.
    Við endurskipulagningu lífeyriskerfisins hér á landi er nauðsynlegt að hafa hugfast að sjóðsmyndunarkerfi felur í sér töluverða áhættu. Í sjóðsmyndunarkerfinu er hætta á að eignir sjóðanna rýrni og tapist eins og staðfest er svo ekki verður um villst í skýrslu úttektarnefndarinnar. Auk þess byggist sjóðsmyndunarkerfið á því að fólk öðlist réttindi í samræmi við iðgjaldagreiðslur og það viðheldur þannig launamun á vinnumarkaði. Á hinn bóginn felst áhætta gegnumstreymiskerfisins fyrst og fremst í aldurssamsetningu þjóðarinnar og þróun raunlauna. Ef raunlaun hækka ekki í samræmi við fjölgun lífeyrisþega á sama tíma og fjöldi skattgreiðenda stendur í stað þarf að hækka skatta til að fjármagna kerfið. Mun auðveldara er að ná fram tekjujöfnun í gegnum lágmarkslífeyri með gegnumstreymiskerfi.
    Sú leið sem lagt er til að farin verði í ályktun þessari er blönduð leið. Með tillögu þessari er lagt til að komið verði á fót nefnd sem vinni að endurskipulagningu lífeyrissjóðakerfisins. Við þá vinnu er lagt til að stuðst verði við blandað kerfi sjóðsmyndunar og gegnumstreymis þar sem það er áhættuminna og gerir okkur kleift að leggja af verðtryggingu og auka jöfnuð. Mikilvægt er að auka vægi almannatryggingakerfisins sem fyrst og nota það til að tryggja öllum lágmarkslífeyri. Lífeyrissjóðum verður ekki falið að sjá um samtrygginguna, aðeins ávöxtun viðbótarlífeyrisins. Þessi tilhögun mundi leiða til þess að hætt yrði að nota samtrygginguna, sem innbyggð er í starfsreglur flestra lífeyrissjóða, sem réttlætingu þess að skuldsett heimili séu látin bæta tap sjóðanna. Fjármagna á lífeyrisgreiðslur almannatrygginga sem duga til framfærslu með skatti á inngreiðslur í lífeyrissjóðina. Þessi skattur mun hafa þau jákvæðu áhrif að minnka umfang lífeyrissjóðanna sem voru orðnir of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf fyrir hrun og tóku því mikla áhættu í fjárfestingum.