Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 82. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 82  —  82. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.


Flm.: Magnús M. Norðdahl, Björgvin G. Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir,
Lúðvík Geirsson, Árni Páll Árnason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Árni Þór Sigurðsson, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari.

1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir Fæðingarorlofssjóður foreldri orlofslaun skv. 7. gr. laga um orlof, nr. 30/1987, enda ávinni það sér ekki rétt til orlofslauna á sama tíma úr hendi vinnuveitanda síns.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi (þskj. 1075, 669. mál).
    Meginregla 13. og 14. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, er sú að foreldri í fæðingarorlofi glatar hvorki né hættir að ávinna sér starfstengd réttindi meðan á fæðingarorlofi stendur. Að svo miklu leyti sem réttindi þessi eru ekki greidd af vinnuveitanda greiðir Fæðingarorlofssjóður ákveðið hlutfall þeirra. Það á við um ávinnslu orlofs og greiðsluréttar samkvæmt lögum um orlof, nr. 30/1987. Framkvæmd laga um fæðingar- og foreldraorlof fer gegn efni og markmiði þeirra og er andstæð ákvæðum laga um orlof. Frumvarpi þessu er ætlað að leiðrétta framkvæmd Fæðingarorlofssjóðs og að lagfæra og skýra réttarstöðu foreldra í orlofi.
    Með lögum um orlof nr. 16/1943 var staðfest sú meginregla að órjúfanlegt samband væri milli orlofs frá störfum og greiðslu. Þannig var ákveðið í 3. og 4. gr. laganna að launafólk hefði bæði rétt á og skyldu til hlutfallslega launaðs orlofs tiltekinn dagafjölda á ári miðað við unna mánuði síðustu 12 mánuði þar á undan. Án hlutfallslegrar greiðslu mundi það ekki hafa efni á að fara í orlof eins og það var orðað í greinargerð. Meginregla þessi er enn í gildi þó að reglum um meðferð, vörslu og innheimtu orlofsfjár hafi verið breytt og orlofsréttur aukinn.
    Þessi meginregla kemur fram í gildandi lögum um orlof, nr. 30/1987. Í 1. gr. þeirra segir að allir, sem starfa í þjónustu annarra, eigi rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt lögunum. Skv. 4. gr. laganna skal orlof veitt í einu lagi á tilteknu tímabili almanaksársins og jafnframt að því skuli alltaf lokið fyrir lok orlofsársins, og skv. 13. gr. er óheimilt að flytja áunnin orlofslaun milli orlofsára. Skv. 3. gr. laga um orlof er orlof nú tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknast hálfur mánuður eða meira sem heill mánuður en skemmri tími telst ekki með. Það telst unninn mánuður þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa ef hann fær greitt kaup á meðan eða er í orlofi. Frítökuréttur án greiðslu er með öðrum orðum ekki orlofsréttur eða orlofstökuréttur í skilningi laga um orlof.
    Samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, á launafólk í fæðingarorlofi rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs skuli nema ákveðnum hluta af meðaltali heildarlauna miðað við 12 mánaða samfellt tímabil. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Samhljóða ákvæði er í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/ 2008. Skv. 7. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, teljast til gjaldstofns skv. 6. gr. laganna meðal annars hvers konar laun og þóknanir, þar með talið orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof.
    Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000 greiðir Fæðingarorlofssjóður það mótframlag til lífeyrissjóðs sem vinnuveitanda ber ekki að greiða og skv. 2. mgr. 14. gr. reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. Ekki er um tæmandi talningu að ræða í ákvæðinu.
    Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði segir að fæðingarorlof allt að sex mánuðum teljist til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki orlofslauna. Launamaður á almennum vinnumarkaði á því ekki rétt til launaðs orlofs úr hendi vinnuveitanda þá mánuði sem hann er í fæðingarorlofi og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, líkt og á við um rétt til mótframlags í lífeyrissjóð.
    Lögin um fæðingar- og foreldraorlof eru framkvæmd þannig, að foreldri í fæðingarorlofi ávinnur sér ekki rétt til orlofslauna í því orlofi. Sú framkvæmd er í beinni andstöðu við afstöðu Alþingis eins og hún var skömmu eftir setningu laganna um fæðingarorlof. Í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn á 128. löggjafarþingi 2002–2003 kemur fram að ekki sé unnt að undanskilja ávinnslu á rétti til greiðslna í orlofi frá öðrum starfstengdum réttindum. Því beri Fæðingarorlofssjóði að greiða foreldrum orlofslaun vegna þess tíma sem þeir eru í fæðingarorlofi og njóta greiðslna úr sjóðnum. Félagsmálaráðherra sá sem svaraði fyrirspurninni samdi og lagði fram frumvarp það er varð að lögum nr. 95/2000 og ítrekaði þetta viðhorf sitt í umræðum á Alþingi.
    Í þessu sambandi ber einnig að taka tillit til þess að auk þess sem lög nr. 95/2000 juku almenn fæðingarorlofsréttindi var markmið þeirra að jafna fæðingarorlofsréttindi þannig að réttur beggja kynja skyldi vera jafn og sami réttur á opinberum og almennum vinnumarkaði. Samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna halda þeir áfram að ávinna sér rétt til orlofslauna úr hendi launagreiðanda þá mánuði sem þeir eru í fæðingarorlofi og njóta sömu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Framkvæmd ríkisins er þannig í beinni andstöðu við markmið Alþingis og laganna um að jafna fæðingarorlofsréttindi allra foreldra.
    Markmið laga nr. 95/2000 var einnig að hvetja foreldra til samvista með börnum sínum, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra, en því markmiði verður ekki náð ef greiðslum Fæðingarorlofssjóðs er þannig hagað að fæðingarorlof skerði lög- og kjarasamningsbundinn rétt og raunar skyldu til launaðs orlofs frá störfum.
    Einnig ber að taka tillit til þess að framkvæmd laganna er í andstöðu við 1. mgr. 7. gr. tilskipunar ráðsins 93/104/EB um ákveðna þætti er varða vinnutíma, sbr. auglýsingu nr. 285/1997 sem skyldar íslenska ríkið til að tryggja öllu launafólki a.m.k. 4 vikna launað orlof árlega. Ólaunaður 2 daga frítökuréttur fyrir hvern mánuð í fæðingarorlofi samræmist því ákvæði ekki.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að upphaflegum markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof verði hrint í framkvæmd og þeirri framkvæmd Fæðingarorlofssjóðs sem vinnur gegn markmiðum þeirra verði hætt.