Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 98. máls.

Þingskjal 98  —  98. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2012 um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar)
við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2012, frá 30. mars 2012, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ESB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum (endurútgefin).
    

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2012, frá 30. mars 2012, um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ESB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum (endurútgefin).
    Tilgangur tilskipunar 2011/7/ESB er að vinna gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum til að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins og þar með auka samkeppnishæfni fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ESB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum (endurútgefin).
    Tilgangur tilskipunarinnar er átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum til að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins og þar með auka samkeppnishæfni fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ályktað er að greiðsludráttur sé orðinn skuldurum hagkvæmur í flestum aðildarríkjum, vegna lágra eða engra vaxtagreiðslna vegna greiðsludráttar en nauðsynlegt sé að snúa þeirri þróun við.
    Tilskipunin tekur til greiðslna í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra aðila. Helstu nýmæli tilskipunarinnar felast í því að fyrirtæki skuli greiða reikninga innan 60 daga, nema sérstaklega sé samið um annað og ef slíkt er ekki bersýnilega ósanngjarnt. Við kaup opinberra aðila á vörum og þjónustu skuli greitt innan 30 daga og aðeins í undantekningartilvikum verði fresturinn 60 dagar. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki skuli almennt eiga rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar og geti enn fremur krafið um innheimtukostnað. Þá er kveðið á um lágmarksálag vegna álagningar vanefndaálags (dráttarvaxta).
    Frestur til innleiðingar tilskipunarinnar er til 16. mars 2013.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2011/7/ESB hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, innheimtulögum, nr. 95/2008, og fleiri lögum ásamt því að líklega þarf að setja sérstök lög til að innleiða að fullu ákvæði tilskipunarinnar. Vinna við innleiðingu er á byrjunarstigi en stefnt er að því að ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar leggi fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingarnar muni hafa umtalsverðan kostnað í för með sér eða stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.




Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 55/2012

frá 30. mars 2012

um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn



SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 frá 30. apríl 2010 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ESB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum ( 2 ).

3)        Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2011/7/ESB fellur úr gildi frá 16. mars 2013 tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/35/EB ( 3 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum frá 16. mars 2013.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Texti 2. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/35/EB) í XII. viðauka við samninginn hljóði svo frá 16. mars 2013:

        „32011 L 0007: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ESB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum (Stjtíð. ESB L 48, 23.2.2011, bls. 1).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2011/7/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.


3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 31. mars 2012, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 30. mars 2012.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

starfandi formaður.





Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2011/7/ESB
frá 16. febrúar 2011
um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum
(endurútgefin)
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 114. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Nokkrar veigamiklar breytingar verða gerðar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/35/ EB frá 29. júní 2000 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum ( 3 ). Fyrir skýrleika sakir og hagræðingar er æskilegt að viðkomandi ákvæði verði endurútgefin.
2)        Flestar vörur og þjónusta eru afhentar af rekstraraðilum innan innri markaðarins til annarra rekstraraðila og til opinberra yfirvalda á grundvelli frestaðrar greiðslu en samkvæmt því veitir afhendingaraðilinn viðskiptavininum tíma til að greiða reikninginn, eins og samningsaðilar hafa komið sér saman um, eins og hann er settur fram í reikningi afhendingaraðilans eða eins og mælt er fyrir um í lögum.
3)        Margar greiðslur í verslunarviðskiptum á milli rekstraraðila eða á milli rekstraraðila og opinberra yfirvalda eru inntar af hendi seinna en samið var um í samningnum eða mælt er fyrir um í almennu viðskiptakjörunum. Þrátt fyrir að vörurnar hafi verið afhentar eða þjónustan hafi verið veitt eru margir samsvarandi reikningar ekki greiddir fyrr en löngu eftir að fresturinn rennur út. Slíkur greiðsludráttur hefur neikvæð áhrif á lausafjárstöðu og gerir fjármálastjórnun fyrirtækja erfiðari viðfangs. Það hefur einnig áhrif á samkeppnishæfni og arðsemi þeirra þegar lánardrottinn þarf að afla ytri fjármögnunar vegna greiðsludráttar. Áhætta slíkra neikvæðra áhrifa eykst verulega á tímum efnahagssamdráttar þegar aðgangur að fjármagni er torveldari.
4)        Þegar hefur verið auðveldað fyrir kröfur fyrir dómstólum að því er varða greiðsludrátt með reglugerð ráðsins (EB) nr. 44/2001 frá 22. desember 2000 um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum og viðskiptamálum ( 4 ), reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 805/2004 frá 21. apríl 2004 um að koma á evrópskum fullnustufyrirmælum þegar um er að ræða óumdeildar kröfur ( 5 ), reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1896/2006 frá 12. desember 2006 um að koma á evrópskum reglum um fyrirmæli um greiðslu ( 6 ) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 861/2007 frá 11. júlí 2007 um að koma á evrópskri málsmeðferð fyrir lágar kröfur ( 7 ). Þó er nauðsynlegt að mæla fyrir um ákvæði til fyllingar til að koma í veg fyrir greiðsludrátt í verslunarviðskiptum.
5)        Fyrirtæki skulu geta stundað viðskipti á öllum innri markaðnum með skilyrðum sem tryggja að viðskipti yfir landamæri feli ekki í sér meiri áhættu en sala á heimamarkaði. Röskun á samkeppni myndi fylgja í kjölfar þess að gjörólíkar reglur giltu um viðskipti á heimamarkaði annars vegar og viðskipti yfir landamæri hins vegar.
6)        Í orðsendingu sinni frá 25. júní 2008 sem ber heitið „„Hugsið smátt í fyrstu“ — „Lög um lítil fyrirtæki“ í Evrópu“ lagði framkvæmdastjórnin áherslu á að auðvelda skyldi aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni og að þróa skyldi laga- og viðskiptaumhverfi sem styður við tímanlegar greiðslur í verslunarviðskiptum. Það skal tekið fram að opinber yfirvöld bera sérstaka ábyrgð að því er þetta varðar. Skilyrðin fyrir skilgreininguna á litlum og meðalstórum fyrirtækjum eru sett fram í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreininguna á örfyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( 1 ).
7)        Ein af forgangsaðgerðum orðsendingar framkvæmdastjórnarinnar frá 26. nóvember 2008 sem ber heitið „Efnahagsleg endurreisnaráætlun fyrir Evrópu“ er að draga úr stjórnsýsluálagi og að ýta undir frumkvöðlastarfsemi með því m.a. að tryggja að meginreglan sé sú að reikninga fyrir vörur og þjónustu, þ.m.t. frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, skuli greiða innan eins mánaðar til að forðast hömlur á greiðsluhæfi.
8)        Gildissvið þessarar tilskipunar skal vera bundið við greiðslur sem eru þóknun fyrir verslunarviðskipti. Tilskipun þessi skal ekki taka til viðskipta við neytendur, vaxta í tengslum við aðrar greiðslur, t.d. greiðslna samkvæmt lögum um ávísanir og víxla, eða skaðabótagreiðslna, þ.m.t. greiðslna frá tryggingafélögum. Enn fremur skulu aðildarríki eiga þess kost að undanskilja skuldir sem falla undir málsmeðferð vegna greiðsluerfiðleika, þ.m.t. málsmeðferð sem hefur endurskipulagningu skulda að markmiði.
9)        Tilskipun þessi skal taka til allra verslunarviðskipta milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra yfirvalda, þar eð opinber yfirvöld inna af hendi fjölmargar greiðslur til fyrirtækja. Hún skal því einnig taka til allra viðskipta milli aðalverktaka og birgja þeirra og undirverktaka.
10)         Enda þótt menntastéttirnar falli undir gildissvið þessarar tilskipunar eru aðildarríkin ekki skuldbundin til að meðhöndla þá sem þeim tilheyra sem fyrirtæki eða kaupmenn á sviðum sem falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
11)        Afhending á vörum og þjónustustarfsemi gegn greiðslu sem fellur undir þessa tilskipun skal einnig taka til hönnunar og framkvæmdar á opinberum verkum ásamt byggingarvinnu og mannvirkjagerð.
12)        Greiðsludráttur er brot á samningi sem er fjárhagslega hagstæður fyrir skuldunauta í flestum aðildarríkjum sökum lágra eða engra vaxta af greiðsludrætti og/eða hægvirkrar innheimtuaðferðar. Ákveðin breyting til þess að skapa hefð fyrir greiðslum án tafar, þar sem ávallt skal líta á undanþágu frá réttinum til að krefjast vaxta sem greinilega ósanngjarna samningsskilmála eða venju, er nauðsynleg til snúa þessari þróun við og til að koma í veg fyrir greiðsludrátt. Slík breyting skal einnig fela í sér innleiðingu sértækra ákvæða um greiðslufrest og um bætur til lánardrottna vegna kostnaðar sem stofnað er til og m.a. að undanþága frá rétti til bóta vegna innheimtukostnaðar skuli teljast greinilega ósanngjörn.
13)        Í samræmi við það ber að kveða á um að almennt skuli takmarka samningsbundinn greiðslufrest milli fyrirtækja við 60 almanaksdaga. Eigi að síður getur verið um að ræða kringumstæður þar sem fyrirtæki þarfnast lengri greiðslufrests, t.d. ef fyrirtæki óska eftir að veita viðskiptavinum sínum frest til greiðslu (e. trade credit). Því skal vera mögulegt fyrir samningsaðilana að samþykkja sérstaklega greiðslufrest sem er lengri en 60 almanaksdagar, að því tilskildu að slík framlenging sé ekki greinilega ósanngjörn gagnvart lánardrottni.
14)        Til að tryggja samræmi í löggjöf Sambandsins gildir skilgreiningin á „samningsyfirvöldum“ í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/ EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu ( 2 ) og í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/ EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga ( 3 ) að því er varðar þessa tilskipun.
15)        Reikna skal gjaldfallna lögboðna vexti vegna greiðsludráttar daglega sem einfalda vexti, í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE, KBE) nr. 1182/71 frá 3. júní 1971 sem setur reglur um hvernig reikna ber tímabil, dagsetningar og fresti ( 1 ).
16)        Þessi tilskipun skuldbindur ekki lánardrottinn til að krefjast vaxta vegna greiðsludráttar. Ef um greiðsludrátt er að ræða skal þessi tilskipun heimila lánardrottni að krefjast vaxta fyrir greiðsludrátt án þess að þurfa fyrst að senda frá sér ítrekun eða aðra svipaða tilkynningu til að minna skuldunautinn á skuldbindingar sínar til að greiða.
17)        Greiðsla skuldunautar skal teljast of sein, að því er varðar kröfu um vexti vegna greiðsludráttar, ef lánardrottinn hefur ekki fjárhæð skuldarinnar til ráðstöfunar á gjalddaganum að því tilskildu að hann hafi uppfyllt lagalegar og samningsbundnar skyldur sínar.
18)        Vörureikningar setja greiðslubeiðnir í gang og eru mikilvæg skjöl í keðju viðskiptagerninga við afhendingu á vörum og þjónustu, m.a. til að ákvarða greiðslufresti. Að því er varðar þessa tilskipun skulu aðildarríkin koma á kerfum sem gefa réttarvissu að því er varðar nákvæma dagsetningu á móttöku skuldunautanna á vörureikningum, þ.m.t. á sviði rafrænna reikninga þar sem hægt væri að færa rafrænar sannanir fyrir móttöku vörureikninga sem að hluta til lúta ákvæðum um vörureikninga sem um getur í tilskipun ráðsins 2006/112/EB frá 28. nóvember 2006 um sameiginlega virðisaukaskattkerfið ( 2 ).
19)         Sanngjarnar bætur til lánardrottins vegna innheimtukostnaðar sem stofnað er til vegna greiðsludráttar eru nauðsynlegar til að hvetja ekki til dráttar á greiðslum. Innheimtukostnaður ætti einnig að fela í sér endurgreiðslu umsýslukostnaðar og bætur fyrir innri kostnað sem stofnað var til vegna greiðsludráttar og skal þessi tilskipun kveða á um fasta lágmarksfjárhæð sem heimilt er að bæta við uppsöfnuðum vöxtum vegna greiðsludráttar. Bætur í formi fastrar fjárhæðar skulu miða að því að takmarka umsýslukostnað og innri kostnað sem tengist innheimtunni. Bætur vegna innheimtukostnaðarins skulu ákvarðaðar án þess að hafa áhrif á innlend ákvæði, sem innlendur dómstóll getur dæmt eftir til að veita lánardrottni bætur fyrir frekari skaða sem greiðsludráttur skuldunautar hefur valdið.
20)        Auk réttarins á greiðslu á fastri fjárhæð vegna innri innheimtukostnaðar skulu lánardrottnar eiga rétt á endurgreiðslu á öðrum innheimtukostnaði sem þeir stofna til vegna greiðsludráttar skuldunautar. Slíkur kostnaður skal einkum fela í sér þann kostnað sem lánardrottnar stofna til við ráðningu lögfræðings eða innheimtuþjónustu.
21)        Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkja til að kveða á um fastar fjárhæðir fyrir bætur vegna innheimtukostnaðar sem eru hærri og því hagstæðari fyrir lánardrottinn eða að hækka þær fjárhæðir m.a. til að halda í við verðbólgu.
22)        Þessi tilskipun kemur ekki í veg fyrir greiðslu með afborgunum eða greiðslu í áföngum. Hverja afborgun eða greiðslu skal þó inna af hendi samkvæmt þeim skilmálum sem samþykktir voru og skulu falla undir reglurnar um greiðsludrátt sem settar eru fram í þessari tilskipun.
23)         Að jafnaði njóta opinber yfirvöld öruggari, fyrirsjáanlegri og samfelldari tekjuleiða en fyrirtæki. Að auki geta mörg opinber yfirvöld aflað fjármögnunar á hagstæðari kjörum en fyrirtæki. Jafnframt reiða opinber yfirvöld sig í minna mæli en fyrirtæki á uppbyggingu stöðugra viðskiptatengsla til að ná markmiðum sínum. Langir greiðslufrestir og greiðsludráttur af hálfu opinberra yfirvalda fyrir vörur og þjónustu leiðir til óréttmæts kostnaðar fyrir fyrirtæki. Því er rétt að kynna sértækar reglur að því er varðar verslunarviðskipti fyrir afhendingu fyrirtækja á vörum og þjónustu til opinberra yfirvalda sem ættu sérstaklega að kveða á um að greiðslufrestur eigi að öllu jöfnu ekki að fara yfir 30 almanaksdaga, nema annað sé sérstaklega samþykkt í samningnum og að því gefnu að það sé rökstutt á hlutlægan hátt í ljósi sérstakra eiginleika eða þátta samningsins og að fresturinn fari aldrei yfir 60 almanaksdaga.
24)         Engu að síður skal taka tillit til þeirra sérstöku aðstæðna þegar opinber yfirvöld annast atvinnustarfsemi á sviði iðnaðar eða verslunar með því að bjóða vörur eða þjónustu á markaðnum sem opinbert fyrirtæki. Í því skyni ber að heimila aðildarríkjum að lengja lögboðna greiðslufrestinn við sérstakar aðstæður í allt að 60 almanaksdaga að hámarki.
25)         Aðstæður heilbrigðisþjónustu í fjölmörgum aðildarríkjum gefa sérstakt tilefni til að vera á varðbergi í tengslum við greiðsludrátt. Heilbrigðiskerfi, sem grundvallarþáttur í félagslegu grunnvirki Evrópu, eru oft skuldbundin til að samræma þarfir einstaklinga og það fjármagn sem er til ráðstöfunar á sama tíma og íbúar Evrópu eldast, væntingar til heilbrigðiskerfisins aukast og læknavísindin þróast. Öll kerfi þurfa að takast á við þá áskorun að forgangsraða heilsugæslu á þann hátt að jafnvægi ríki á milli þarfa einstakra sjúklinga og þess fjármagns sem er til ráðstöfunar. Aðildarríki skulu því eiga þess kost að veita opinberum aðilum sem annast heilbrigðisþjónustu vissan sveigjanleika til að standa við skuldbindingar sínar. Í því skyni ber að heimila aðildarríkjum að lengja lögboðna greiðslufrestinn við sérstakar aðstæður í allt að 60 almanaksdaga að hámarki. Aðildarríki skulu samt sem áður kappkosta að tryggja að greiðslur í heilbrigðisgeiranum séu greiddar innan lögboðins greiðslufrests.
26)         Til þess að stofna ekki í hættu því sem áunnist hefur við að ná markmiði þessarar tilskipunar, skulu aðildarríki sjá til þess að rauntími málsmeðferðar við viðurkenningu eða sannprófun í verslunarviðskiptum sé að jafnaði ekki lengri en 30 almanaksdagar. Engu að síður skal vera mögulegt að málsmeðferð við viðurkenningu taki lengri tíma en 30 almanaksdaga, t.d. ef um er að ræða sérstaklega flókna samninga, þegar það er sérstaklega samþykkt í samningnum og öðrum útboðsgögnum og að því gefnu að það sé ekki greinilega ósanngjarnt gagnvart lánardrottni.
27)         Stofnanir Sambandsins og opinber yfirvöld aðildarríkjanna eru í sambærilegri aðstöðu að því er varðar fjármögnun þeirra og viðskiptatengsl. Reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/ 2002 frá 25. júní 2002 um fjárhagsreglugerðina sem varðar fjárlög Evrópubandalaganna ( 1 ) tilgreinir að staðfestingu, heimilun og greiðslu útgjalda af hálfu stofnana Sambandsins verður að ljúka innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um í framkvæmdarreglum þeirrar reglugerðar. Þessar framkvæmdareglur eru núna settar fram í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB, KBE) nr. 2342/2002 frá 23. desember 2002 þar sem mælt er fyrir um ítarlegar reglur um framkvæmd reglugerðar ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/2002 um fjárhagsreglugerðina sem varðar fjárlög Evrópubandalaganna ( 2 ) og tilgreina við hvaða aðstæður þeir lánardrottnar sem greitt er seint eiga rétt á vanskilavöxtum. Í tengslum við stöðuga endurskoðun þessara reglugerða skal séð til þess að hámarksgreiðslufrestur fyrir greiðslur af hálfu stofnana Sambandsins sé í samræmi við lögboðinn frest sem á við um opinber yfirvöld í samræmi við þessa reglugerð.
28)         Með þessari tilskipun skal banna misnotkun samningsréttar lánardrottni í óhag. Afleiðingin er sú að ef einstakir samningsskilmálar eða -venjur að því er varða greiðsludaginn eða -frestinn, vexti vegna greiðsludráttar eða að bætur vegna innheimtukostnaðar eru ekki sanngjarnar á grundvelli þeirra skilmála sem skuldunautum eru settir eða ef megintilgangurinn er að útvega skuldunaut meira lausafé á kostnað lánardrottins getur slíkt talist vera misnotkun. Í þeim tilgangi og í samræmi við fræðileg „drög að sameiginlegum viðmiðunarramma“ skulu þeir samningsskilmálar eða venjur sem eru áberandi frávik frá góðum viðskiptaháttum sem stríða gegn góðri trú og sanngjörnum notum teljast ósanngjarnar gagnvart lánardrottninum. Ávallt skyldi líta á undanþágu frá réttinum til að krefjast vaxta sem greinilega ósanngjarna, einnig skal undanþága frá rétti til bóta vegna innheimtukostnaðar teljast greinilega ósanngjörn. Tilskipun þessi skal ekki hafa áhrif á innlend ákvæði um samningsgerð eða um gildi samningsákvæða sem eru ósanngjörn í garð skuldunautar.
29)         Í tengslum við eflingu átaks til að koma í veg fyrir misnotkun samningsréttar lánardrottnum í óhag, skal aðilum eða stofnunum, sem er opinberlega viðurkennt að komi fram fyrir eða sem hafa lögmæta hagsmuni í að koma fram fyrir hönd fyrirtækis, vera heimilt að fara með mál fyrir innlenda dómstóla eða fyrir stjórnsýslustofnanir til að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun samningsskilmála og -venja sem eru greinilega ósanngjarnar gagnvart lánardrottninum.
30)         Í því skyni að stuðla að framgangi markmiða þessarar tilskipunar skulu aðildarríki ýta undir útbreiðslu góðra starfsvenja, þ.m.t. með því að hvetja til birtingar skrár yfir greiðendur sem greiða án tafar.
31)         Æskilegt er að sjá til þess að lánardrottnar eigi þess kost að láta ákvæðið um áframhaldandi eignarhald gilda án mismununar alls staðar í Sambandinu ef ákvæðið um áframhaldandi eignarhald er virkt samkvæmt gildandi ákvæðum landslaga sem eru sett á grundvelli alþjóðlegs einkamálaréttar.
32)         Í þessari tilskipun er hugtakið „aðfararhæfur úrskurður“ skilgreint en hvorki skal kveðið á um reglur um málsmeðferð við fullnustu slíkra úrskurða né skilyrði stöðvunar eða frestunar fullnustu.
33)         Afleiðingar greiðsludráttar hafa einungis letjandi áhrif ef lánardrottnar geta beitt innheimtuaðferðum sem eru skjótvirkar og skilvirkar. Í samræmi við meginregluna um bann við mismunun, sem sett er fram í 18. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, ætti slík málsmeðferð að vera tiltæk öllum lánardrottnum sem hafa staðfestu í Sambandinu.
34)         Í því skyni að auðveldara sé að fara að ákvæðum þessarar tilskipunar skulu aðildarríki hvetja til notkunar á sáttaumleitun eða annarra lausna í deilumálum. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/52/EB frá 21. maí 2008 um tiltekna þætti við sáttaumleitun í einkamálum og viðskiptamálum ( 1 ) er þegar kveðið á um ramma fyrir kerfi í sáttaumleitunum á vettvangi Evrópusambandsins, sérstaklega í deilumálum yfir landamæri, án þess að koma í veg fyrir beitingu þess ramma í innri kerfum í sáttaumleitunum. Aðildarríki skulu einnig hvetja hagsmunaaðila til að semja valfrjálsar siðareglur sem miða einkum að því að stuðla að framkvæmd þessarar tilskipunar.
35)         Nauðsynlegt er að tryggja að innheimtu vegna óvefengdra krafna er varða greiðsludrátt í verslunarviðskiptum ljúki á skömmum tíma, þ.m.t. ef málsmeðferð hefur verið hraðað og án tillits til fjárhæðar skuldarinnar.
36)         Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, sem er átak gegn greiðsludrætti á innri markaðinum, og því verður betur náð á vettvangi Evrópusambandsins, vegna umfangs og áhrifa aðgerðarinnar, er Evrópusambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
37)         Skyldan að lögleiða þessa tilskipun í aðildarríkjunum skal takmarkast við þau ákvæði sem fela í sér verulega breytingu í samanburði við tilskipun 2000/35/EB. Skyldan til að lögleiða óbreyttu ákvæðin er fyrir hendi í þeirri tilskipun.
38)         Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á skuldbindingar aðildarríkjanna að því er varðar fresti til lögleiðingar í aðildarríkjunum og beitingu tilskipunar 2000/35/EB.
39)         Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 2 ) eru aðildarríkin hvött til þess, bæði í eigin þágu og í þágu Sambandsins, að taka saman og birta sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem kostur er, samsvörun milli þessarar tilskipunar og lögleiðingarráðstafana þeirra.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA

1. gr.

Efni og gildissvið

1.     Markmið þessarar tilskipunar er átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum til að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins og þar með auka samkeppnishæfni fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
2.     Tilskipun þessi gildir um allar greiðslur sem eru þóknun fyrir verslunarviðskipti.
3.     Aðildarríkin geta undanskilið skuldir sem eru í málsmeðferð, sem er höfðað gegn skuldunauti, vegna greiðsluerfiðleika þ.m.t. málsmeðferð sem hefur endurskipulagningu skulda að markmiði.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „verslunarviðskipti“: viðskipti milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra yfirvalda, sem fela í sér afhendingu á vörum eða þjónustustarfsemi gegn þóknun,
2)    „opinber yfirvöld“: samningsyfirvald, eins og það er skilgreint í a-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2004/17/EB og í 9. mgr. 1. gr. tilskipunar 2004/ 18/EB án tillits til efnis eða verðmætis samningsins,
3)    „fyrirtæki“: sérhver eining, fyrir utan opinber yfirvöld, sem kemur fram í krafti sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar eða sérfræðistarfa, jafnvel þótt störfin séu aðeins unnin af einum einstaklingi,
4)    „greiðsludráttur“: greiðsla sem ekki er greidd innan samningsbundins- eða lögboðins greiðslufrests og þar sem skilyrðin sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 4. gr. eru uppfyllt,
5)    „vextir vegna greiðsludráttar“: lögboðnir vextir vegna greiðsludráttar eða vextir sem bæði fyrirtækin eru ásátt um, að teknu tilliti til 7. gr.,
6)    „lögboðnir vextir vegna greiðsludráttar“: einfaldir vextir vegna greiðsludráttar sem jafngilda fjárhæð viðmiðunarvaxtanna og a.m.k. átta prósentustigum,
7)    „viðmiðunarvextir“: annað hvort eftirfarandi:
    a)    fyrir aðildarríki sem hefur evru sem gjaldmiðil, annað hvort:
        i.     vextir sem Seðlabanki Evrópu notaði við síðustu mikilvægu skuldbreytingaraðgerðir, eða
        ii.    lágmarksvextir sem leiddu af útboðsaðferð með breytilegum vöxtum við síðustu mikilvægu skuldbreytingaraðgerðir Seðlabanka Evrópu,
    b)     fyrir aðildarríki sem hefur ekki evru sem gjaldmiðil eru sambærilegir vextir ákveðnir af seðlabanka viðkomandi aðildarríkis,
8)    „gjaldfallin fjárhæð“: höfuðstóll sem hefði átt að greiða innan samningsbundins eða lögboðins greiðslufrests, þ.m.t. viðeigandi skatta, skyldur, álögur og gjöld sem tilgreind eru á vörureikningnum eða sambærilegum tilmælum um greiðslu,
9)    „áframhaldandi eignarhald“: samningskjör sem fela í sér að seljandi hefur áfram eignarhald á viðkomandi vörum þar til greitt hefur verið fyrir þær að fullu,
10)    „aðfararhæfur úrskurður“: ákvörðun, dómur eða fyrirmæli um greiðslu, sem dómstóll eða annað lögbært yfirvald gefur út, þ.m.t. ákvörðun, dómur eða fyrirmæli sem eru aðfararhæf til bráðabirgða, hvort sem um er að ræða tafarlausa greiðslu eða greiðslu með afborgunum en þannig getur lánardrottinn látið innheimta kröfu hjá skuldunauti sínum með fullnustu úrskurðar.

3. gr.

Viðskipti milli fyrirtækja

1.     Í viðskiptum milli fyrirtækja skulu aðildarríkin sjá til þess að lánardrottinn eigi rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar án þess að nauðsynlegt sé að senda áminningu ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a)     lánardrottinn stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi eða lögum, og
b)     lánardrottinn fær ekki gjaldfallna fjárhæð greidda á réttum tíma, nema skuldunauturinn beri ekki ábyrgð á töfinni,
2.     Aðildarríki skulu tryggja að gildandi viðmiðunarvextir:
a)     á fyrsta misseri viðkomandi árs skuli vera gildandi vextir 1. janúar þess árs,
b)     á öðru misseri viðkomandi árs skuli vera gildandi vextir 1. júlí þess árs.
3.     Ef skilyrðin, sem sett eru fram í 1. mgr., eru uppfyllt skulu aðildarríkin sjá til þess:
a)     að lánardrottinn eigi rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar frá deginum eftir síðasta greiðsludag eða lok þess greiðslufrests sem tilgreindur er í samningnum,
b)     þar sem greiðsludagurinn eða -fresturinn er ekki tiltekinn í samningnum, að lánardrottinn eigi rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar ef einn af eftirfarandi frestum er liðinn:
    i.     30 almanaksdögum eftir að skuldunauturinn fær reikninginn eða sambærileg tilmæli um greiðslu,
    ii.    30 almanaksdögum eftir móttöku vöru eða þjónustu ef vafi leikur á hvenær tekið var við reikningnum eða sambærilegum tilmælum um greiðslu,
    iii.    30 almanaksdögum eftir móttöku vöru eða þjónustu ef skuldunauturinn fær reikninginn eða sambærileg tilmæli um greiðslu áður en hann fær vörurnar eða þjónustuna,
    iv.    30 almanaksdögum eftir þá dagsetningu ef í lögum eða í samningnum er kveðið á um málsmeðferð við viðurkenningu eða sannprófun, sem fara skal eftir þegar gengið er úr skugga um að vörurnar eða þjónustan samræmist samningnum, og skuldunauturinn fær reikninginn eða sambærileg tilmæli um greiðslu fyrir þann dag eða á þeim degi sem slík viðurkenning eða sannprófun á sér stað.
4.     Ef kveðið er á um málsmeðferð við viðurkenningu eða sannprófun, sem fara skal eftir þegar gengið er úr skugga um að vörurnar eða þjónustan samræmist samningnum, skulu aðildarríki sjá til þess að rauntími þess ferlis sé ekki lengri en 30 almanaksdagar frá þeim degi sem vörurnar eða þjónustan eru móttekin, nema annað sé sérstaklega samþykkt í samningnum og að því gefnu að það sé ekki greinilega ósanngjarnt gagnvart lánardrottni samkvæmt skilningi 7. gr.
5.     Aðildarríki skulu sjá til þess að greiðslufresturinn sem tilgreindur er í samningnum sé ekki lengri en 60 almanaksdagar nema annað sé sérstaklega samþykkt í samningnum og að því gefnu að það sé ekki greinilega ósanngjarnt gagnvart lánardrottni samkvæmt skilningi 7. gr.

4. gr.

Viðskipti milli fyrirtækja og opinberra yfirvalda

1.     Í verslunarviðskiptum þar sem skuldunauturinn er opinbert yfirvald skulu aðildarríkin sjá til þess að lánardrottinn eigi rétt á lögboðnum vöxtum vegna greiðsludráttar við lok tímabilsins sem skilgreint er í 3., 4. eða 6. mgr. án þess að nauðsynlegt sé að senda áminningu ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a)     lánardrottinn stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi eða lögum, og
b)     lánardrottinn fær ekki gjaldfallna fjárhæð greidda á réttum tíma, nema skuldunauturinn beri ekki ábyrgð á töfinni.
2.     Aðildarríki skulu tryggja að gildandi viðmiðunarvextir:
a)     á fyrsta misseri viðkomandi árs skuli vera gildandi vextir 1. janúar þess árs,
b)    á öðru misseri viðkomandi árs skuli vera gildandi vextir 1. júlí þess árs.
3.     Í viðskiptum þar sem skuldunauturinn er opinbert yfirvald skulu aðildarríkin sjá til þess að:
a)     greiðslufresturinn sé ekki lengri en einn af eftirfarandi frestum:
    i.    30 almanaksdögum eftir að skuldunauturinn fær reikninginn eða sambærileg tilmæli um greiðslu,
    ii.    30 almanaksdögum eftir móttöku vöru eða þjónustu ef vafi leikur á hvenær tekið var við reikningnum eða sambærilegum tilmælum um greiðslu,
    iii.    30 almanaksdögum eftir móttöku vöru eða þjónustu ef skuldunauturinn fær reikninginn eða sambærileg tilmæli um greiðslu áður en hann fær vörurnar eða þjónustuna,
    iv.    30 almanaksdögum eftir þá dagsetningu ef í lögum eða í samningnum er kveðið á um málsmeðferð við viðurkenningu eða sannprófun, sem fara skal eftir þegar gengið er úr skugga um að vörurnar eða þjónustan samræmist samningnum, og skuldunauturinn fær reikninginn eða sambærileg tilmæli um greiðslu fyrir þann dag eða á þeim degi sem slík viðurkenning eða sannprófun á sér stað,
b)     viðtökudagur vörureiknings fellur ekki undir samningskjör milli skuldunautar og lánardrottins.
4.     Aðildarríkin geta framlengt frestina sem um getur í a-lið 3. mgr. að hámarki í allt að 60 almanaksdaga fyrir:
a)     hvert það opinbert yfirvald sem annast atvinnustarfsemi á sviði iðnaðar eða verslunar með því að bjóða vörur eða þjónustu á markaðnum og heyra sem opinber fyrirtæki undir kröfurnar um gagnsæi sem mælt er fyrir um í tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/111/EB frá 16. nóvember 2006 um gagnsæi fjármálatengsla milli aðildarríkjanna og opinberra fyrirtækja, svo og gagnsæi í fjármálum tiltekinna fyrirtækja ( 1 ),
b)    opinbera aðila sem annast heilsugæslu og eru viðurkenndir í þeim tilgangi.
Ákveði aðildarríki að framlengja frestina í samræmi við þessa málsgrein, skal það senda skýrslu um slíka framlengingu til framkvæmdastjórnarinnar fyrir 16. mars 2018.
Á þeim grundvelli skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið þar sem tilgreint er hvaða aðildarríki hafa framlengt frestina í samræmi við þessa málsgrein og þar sem tekið er tillit til áhrifanna á starfsemi innri markaðarins, einkum á lítil og meðalstór fyrirtæki. Skýrslunni skulu fylgja viðeigandi tillögur.
5.     Aðildarríki skulu sjá til þess að rauntími málsmeðferðar við viðurkenningu eða sannprófun, sem um getur í iv. lið a-liðar 3. mgr., sé ekki lengri en 30 almanaksdagar frá þeim degi sem vörurnar eða þjónustan eru móttekin, nema annað sé sérstaklega samþykkt í samningnum og öðrum útboðsgögnum og að því gefnu að það sé ekki greinilega ósanngjarnt gagnvart lánardrottni í skilningi 7. gr.
6.     Aðildarríki skulu sjá til þess að greiðslufresturinn sem tilgreindur er í samningnum sé ekki lengri en fresturinn sem kveðið er á um í 3. mgr. nema annað sé sérstaklega samþykkt í samningnum og að því gefnu að það sé rökstutt á hlutlægan hátt í ljósi sérstakra eiginleika eða þátta samningsins og að fresturinn fari aldrei yfir 60 almanaksdaga.

5. gr.
Greiðsluáætlun

Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á getu aðilanna til að semja um greiðsluáætlun með afborgunum sem fellur undir viðeigandi ákvæði í gildandi landslögum. Í slíkum tilfellum, ef afborgun hefur ekki verið greidd á þeim degi sem samið var um, skal einungis reikna út vexti og bætur sem kveðið er á um í þessari tilskipun á grundvelli gjaldfallinnar fjárhæðar.

6. gr.

Bætur vegna innheimtukostnaðar

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að í þeim tilfellum þegar borga ber vexti vegna greiðsludráttar í verslunarviðskiptum í samræmi við 3. eða 4. gr., þá eigi lánardrottinn rétt á fastri fjárhæð að lágmarki 40 evrum frá skuldunautnum.
2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að fasta fjárhæðin sem vísað er til í 1. mgr. greiðist án þess að nauðsynlegt sé að senda áminningu og sem bætur vegna innheimtukostnaðar lánardrottins.
3.     Lánardrottinn á rétt á, auk föstu fjárhæðarinnar sem um getur í 1. mgr., sanngjörnum bótum frá skuldunautnum vegna innheimtukostnaðar sem er hærri en fasta fjárhæðin og sem stofnað var til vegna greiðsludráttar skuldunautarins. Þetta gæti m.a. falið í sér kostnað vegna ráðningu lögfræðings eða innheimtuþjónustu.

7. gr.

Ósanngjarnir samningsskilmálar eða -venjur

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að einstakir samningsskilmálar eða -venjur að því er varða greiðsludaginn eða -frestinn, vexti vegna greiðsludráttar eða bætur vegna innheimtukostnaðar skuli annaðhvort ekki vera aðfararhæfar eða leiða til skaðabótakröfu ef slíkt er greinilega ósanngjarnt gagnvart lánardrottni.
Við ákvörðun á því hvort samningsskilmálar- eða venja sé greinilega ósanngjörn gagnvart lánardrottni í skilningi fyrstu undirgreinar skal taka tillit til allra málsatvika, þ.m.t.:
a)    áberandi frávika frá góðum viðskiptavenjum sem stríða gegn góðri trú og sanngjörnum notum,
b)     hvers eðlis varan eða þjónustan er, og
c)    hvort skuldunauturinn hafi einhverja gilda ástæðu til að víkja frá lögboðnum vöxtum vegna greiðsludráttar, frá greiðslufrestinum sem um getur í 5. mgr. 3. gr, a-lið 3. mgr. 4. gr., 4. mgr. 4. gr. og 6. mgr. 4. gr. eða frá föstu fjárhæðinni sem um getur í 1. mgr. 6. gr.
2.     Að því er varðar 1. mgr. skulu samningsskilmálar eða -venja sem undanskilur vexti vegna greiðsludráttar teljast greinilega ósanngjörn.
3.     Að því er varðar 1. mgr. skulu samningsskilmálar eða -venja sem undanskilur bætur vegna innheimtukostnaðar, sem um getur í 6. gr., teljast greinilega ósanngjörn.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að þau ráði yfir nægum og skilvirkum aðferðum, í þágu lánardrottna og samkeppnisaðila, til að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun samningsskilmála og -venja sem eru greinilega ósanngjarnar í skilningi 1. mgr.
5.     Þær aðferðir, sem um getur í 4. mgr., skulu taka til ákvæða um að aðilum eða stofnunum, sem er opinberlega viðurkennt að hafi fyrirsvar fyrir eða sem hafa lögmæta hagsmuni í að hafa fyrirsvar fyrir fyrirtæki, sé heimilt samkvæmt viðkomandi landslögum að fara með mál fyrir dómstóla eða fyrir lögbæra stjórnsýslustofnun ef samningsskilmálar og -venjur eru greinilega ósanngjarnar í skilningi 1. mgr., þannig að hægt sé að finna viðeigandi og skilvirkar leiðir til að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun slíkra skilmála.

8. gr.

Gagnsæi og vitundarvakning

1.     Aðildarríki skulu tryggja gagnsæi að því er varðar réttindi og skyldur er fylgja þessari tilskipun, þ.m.t. með því að gera upplýsingar um gildandi lögboðna vexti vegna greiðsludráttar aðgengilegar öllum.
2.     Framkvæmdastjórnin skal sjá til þess að upplýsingar um gildandi lögboðna vexti, sem gilda í öllum aðildarríkjum ef um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum er að ræða, séu aðgengilegar öllum á Netinu.
3.     Aðildarríkin skulu, eftir því sem við á, nota fagtímarit, kynningarherferðir eða önnur úrræði til að auka vitund í fyrirtækjum um úrræði vegna greiðsludráttar.
4.     Aðildarríkjum er heimilt að hvetja til innleiðingar reglna um greiðslur án tafar sem setja fram með skýrum hætti fresti til greiðslna og viðeigandi ferli til að sjá um greiðslur sem ágreiningur ríkir um eða hvetja til annarra framtaksverkefna sem fást við það mikilvæga mál sem greiðsludráttur er og stuðla að því að skapa hefð fyrir greiðslum án tafar og styðja markmið þessarar tilskipunar.

9. gr.

Áframhaldandi eignarhald

1.     Aðildarríkin skulu, í samræmi við gildandi ákvæði landslaga, sem eru sett á grundvelli alþjóðlegs einkamálaréttar, sjá til þess að seljandi hafi áfram eignarhald á viðkomandi vörum þar til greitt hefur verið fyrir þær að fullu ef kaupandi og seljandi hafa með ótvíræðum hætti samið um áframhaldandi eignarhald áður en vörurnar eru afhentar.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að samþykkja eða halda í gildi ákvæðum um innborgun sem skuldunautur hefur þegar innt af hendi.

10. gr.

Innheimta óvefengdra krafna

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að aðfararhæfur úrskurður, þ.m.t. ef málsmeðferð hefur verið hraðað og án tillits til þess hve há skuldin er, fáist alla jafna innan 90 almanaksdaga frá því að lánardrottinn leggur fram kæru eða beiðni hjá dómstóli eða lögbærri stjórnsýslustofnun, að því tilskildu að skuldunauturinn vefengi ekki skuldina eða hluta málsmeðferðarinnar. Aðildarríkin skulu framfylgja þessari skyldu í samræmi við viðkomandi innlend lög og stjórnsýslufyrirmæli.
2.     Samkvæmt innlendum lögum og stjórnsýslufyrirmælum skulu sömu skilyrði gilda um alla lánardrottna sem hafa staðfestu í Sambandinu.
3.     Þegar tímabilið, sem um getur í 1. mgr., er reiknað út skal eftirfarandi ekki teljast með:
a)     frestur til að birta málsgögn,
b)    tafir sem lánardrottinn á sök á, t.d. sá tími sem fer í að leiðrétta beiðnir.
4.     Þessi grein skal ekki hafa áhrif á ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1896/2006.


11. gr.

Skýrsla

Framkvæmdastjórnin skal, fyrir 16. mars 2016, leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar. Skýrslunni skulu fylgja viðeigandi tillögur.

12. gr.

Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að 1.–8. gr. og 10. gr. þessarar tilskipunar eigi síðar en 16. mars 2013. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Í þeim skal einnig vera yfirlýsing um að líta beri á tilvísanir í gildandi lögum og stjórnsýslufyrirmælum í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun og samsetningu slíkrar yfirlýsingar.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt að halda ákvæðum í gildi eða setja ákvæði sem eru hagstæðari fyrir lánardrottna en þau fyrirmæli sem eru nauðsynleg til að fara að tilskipun þessari.
4.     Við lögleiðingu tilskipunarinnar skulu aðildarríkin ákveða hvort undanskilja skuli samninga sem gerðir eru fyrir 16. mars 2013.

13. gr.

Niðurfelling

Tilskipun 2000/35/EB er felld úr gildi frá og með 16. mars 2013, með fyrirvara um skuldbindingar aðildarríkjanna að því er varðar fresti til lögleiðingar og beitingar tilskipunarinnar. Hún skal þó áfram eiga við um samninga sem gerðir eru fyrir þá dagsetningu og um hverja þessi tilskipun gildir ekki skv. 4. mgr. 12. gr.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í viðaukanum.

14. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

15. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg, 16. febrúar 2011.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK MARTONYI J.
forseti. forseti.

___





VIÐAUKI


Samsvörunartafla


Tilskipun 2000/35/EB Þessi tilskipun
1. mgr. 1. gr.
1. gr. 2. mgr. 1. gr.
Fyrsta undirgrein 1. mgr. 2. gr. 1. mgr. 2. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr. 2. gr. 2. mgr. 2. gr.
Þriðja undirgrein 1. mgr. 2. gr. 3. mgr. 2. gr.
2. mgr. 2. gr. 4. mgr. 2. gr.
5. mgr. 2. gr.
6. mgr. 2. gr.
Inngangshluti 7. mgr. 2. gr.
8. mgr. 2. gr.
3. mgr. 2. gr. 9. mgr. 2. gr.
4. mgr. 2. gr. a-liður 7. mgr. 2. gr.
5. mgr. 2. gr. 10. mgr. 2. gr.
a-liður 1. mgr. 3. gr. a-liður 3. mgr. 3. gr.
Inngangshluti b-liðar 1. mgr. 3. gr. Inngangshluti b-liðar 3. mgr. 3. gr.
i. liður b-liðar 1.mgr. 3. gr. i. liður b-liðar 3.mgr. 3. gr.
ii. liður b-liðar 1. mgr. 3.gr. ii. liður b-liðar 3. mgr. 3. gr.
iii. liður b-liðar 1. mgr. 3. gr. iii. liður b-liðar 3. mgr. 3. gr.
iv. liður b-liðar 1. mgr. 3. gr. iv. liður b-liðar 3. mgr. 3. gr.
4. mgr. 3. gr.
5. mgr. 3. gr.
c-liður 1. mgr. 3. gr. 1. mgr. 3. gr.
Fyrsti og þriðji málsliður d-liðar 1. mgr. 3. gr.
Annar málsliður d-liðar 1. mgr. 3. gr. b-liður 7. mgr. 2. gr.
2. mgr. 3. gr.
4. gr.
5. gr.
1. mgr. 6. gr.
2. mgr. 6. gr.
e-liður 1. mgr. 3. gr. 3. mgr. 6. gr.
2. mgr. 3. gr.
3. mgr. 3. gr. 1. mgr. 7. gr.
2. mgr. 7. gr.
3. mgr. 7. gr.
4. mgr. 3. gr. 4. mgr. 7. gr.
5. mgr. 3. gr. 5. mgr. 7. gr.
8. gr.
4. gr. 9. gr.
1., 2. og 3. mgr. 5. gr. 1., 2. og 3. mgr. 10. gr.
4. mgr. 5. gr.
4. mgr. 10. gr.
11. gr.
1. mgr. 6. gr.
1. mgr. 12. gr.
2. mgr. 6. gr. 3. mgr. 12. gr.
3. mgr. 6. gr. 3. mgr. 1. gr.
4. mgr. 6. gr. 2. mgr. 12. gr.
5. mgr. 6. gr.
4. mgr. 12. gr.
13. gr.
7. gr. 14. gr.
8. gr. 15. gr.
Viðauki

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 181, 15.7.2010, bls. 18, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 37, 15.7.2010, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 48, 23.2.2011, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 200, 8.8.2000, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB L 255, 22.9.2010, bls. 42.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Afstaða Evrópuþingsins frá 20. október 2010 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 24. janúar 2011.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB L 200, 8.8.2000, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 12, 16.1.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. ESB L 143, 30.4.2004, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. ESB L 399, 30.12.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(7)    Stjtíð. ESB L 199, 31.7.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(3)    Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 114.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 124, 8.6.1971, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. ESB L 347, 11.12.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. EB L 248, 16.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Stjtíð. EB L 357, 31.12.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. ESB L 136, 24.5.2008, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 20
(2)    Stjtíð. ESB L 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. ESB L 318, 17.11.2006, bls. 17.