Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 160. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 160  —  160. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

Flm.: Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Kristján Þór Júlíusson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lúðvík Geirsson,
Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að setja fram markvissa, heildstæða og tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga. Áætlunin liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2013.

Greinargerð.


    Tillaga sama efnis var lögð fram á síðasta löggjafarþingi (220. mál).
    Tillagan er lögð fram til þess að efla, samhæfa og samræma nærþjónustu við íbúa landsins í sinni heimabyggð. Þegar eru á hendi sveitarfélaga stórir málaflokkar sem teljast til nærþjónustunnar, meðal þeirra er leikskóli, sem reyndar er ekki lögbundið verkefni, og lögbundin verkefni svo sem grunnskóli, félagsþjónusta og málefni fatlaðra, sem færð voru til sveitarfélaganna 1. janúar 2011. Þá er fyrirhugað færa einnig málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga innan tíðar.
    Samþætting nærþjónustu við íbúa mun stuðla að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda í daglegu lífi og sveitarfélögin eru betur í stakk búin en ríkið til að laga nærþjónustu að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum íbúa.
    Ráðherra hefur nú þegar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, heimild til að fela sveitarfélagi eða öðrum aðilum að sjá um framkvæmdir og rekstur tiltekinna þátta þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veita skal. Sem dæmi um samninga af þessu tagi má nefna þjónustusamning við Akureyrarbæ um rekstur Heilsugæslunnar á Akureyri og þjónustusamning við Sveitarfélagið Hornafjörð um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands.
    Skoða þarf sérstaklega með hvaða hætti unnið verði með sveitarfélögum er hafa samvinnu um skipulag og framkvæmd heilsugæslunnar. Nú er heimilt að fela einu þeirra skipulag og framkvæmd hennar og tekur viðkomandi sveitarfélag þá ákvarðanir um þjónustuna fyrir hönd annarra sveitarfélaga á svæðinu. Nýta mætti reynslu af yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga við yfirfærslu heilsugæslunnar. Einnig mætti horfa til þess að við yfirfærslu á málefnum fatlaðra voru mynduð skilgreind þjónustusvæði og gerðir voru þjónustusamningar milli einstakra sveitarfélaga þannig að eitt sveitarfélag getur séð um þjónustuna á stærra svæði með samningum. Slíkt fyrirkomulag getur hentað vel fyrir minni sveitarfélög sem þannig geta myndað eitt skilgreint þjónustusvæði og einnig geta stærri sveitarfélög séð um þjónustuna á svæði sem náð getur yfir nálæg sveitarfélög.
    Á vegum velferðarráðuneytisins er nú starfandi verkefnastjórn sem vinnur að undirbúningi á yfirfærslu málefna aldraðra til sveitarfélaganna. Fram hefur komið skýr vilji margra sveitarfélaga til að yfirfærsla heilsugæslunnar verði í samhengi við þá vinnu enda er ljóst að mikil samþætting yrði fólgin í því að fella undir eina stjórn heimilisaðstoð t.d., sem nú er á forræði sveitarfélaganna, og heimahjúkrun sem er stýrt af heilsugæslunni á hverjum stað.
    Sjálfstæð gagnaöflun um gæði heilsugæslunnar, starfsmannamál og meðferð fasteigna verður sá faglegi og fjárhagslegi grunnur sem er nauðsynlegur til þess að yfirfærslan geti orðið árangursrík. Enn fremur verður að gera ráð fyrir eftirliti með þeirri þjónustu sem er áætlað að veita og faglegu og fjárhagslegu endurmati á árangri tilfærslunnar.
    Samhliða yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga væri ástæða til þess að fara í endurskoðun á þeim greinum heilbrigðislaga sem snerta heilsugæsluna og þá þjónustu sem þar ber að veita. Skilgreining hugtaksins heilsugæsluþjónusta er nokkuð víðtæk og gera þarf ráð fyrir því, ef um yfirfærslu verður að ræða, að nánar verði mælt fyrir um það í nýrri reglugerð hvaða þjónustu skuli almennt veita á heilsugæslustöðvum og þá hvort tiltekna sérhæfða heilbrigðisþjónustu skuli veita á einstökum heilsugæslustöðvum. Sömuleiðis er ástæða til að fara í heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðra og lögum um félagsþjónustu til þess að samþætting nærþjónustu við íbúa verði byggð á traustum grunni.