Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 171. máls.

Þingskjal 172  —  171. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014 .

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




    Alþingi ályktar, sbr. lög um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, að á árunum 2011–2014 skuli unnið að fjarskiptamálum í samræmi við eftirfarandi áætlun:

ALMENN FJARSKIPTAVERKEFNI


    Á árunum 2011–2014 verði unnið að verkefnum sem falla undir fjögur meginmarkmið fjarskiptaáætlunar, í samræmi við stefnumótun í fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022.

1. Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Skilgreindir verði þjóðfélagslega mikilvægir fjarskiptastaðir, og kröfur til þeirra, sem nauðsynlegir eru til að ná markmiðum um öryggi fjarskiptakerfa á landsvísu sem og útbreiðslu og afköst.
     b.      Samstarfsvettvangur hagsmunaaðila móti tillögur að úrbótum sem greiði fyrir endurnýjun og uppbyggingu ljósleiðarastofn- og aðgangsneta um land allt.
     c.      Skilgreindur verði markaðsbrestur í fjarskiptum og leiðir stjórnvalda til úrbóta.
     d.      Fjarskiptasjóður vinni stöðumat, þarfagreiningu og forgangsröðun núverandi og mögulegra verkefna.
     e.      Tryggt verði jafnt aðgengi fjarskiptafyrirtækja að sendistöðum utan þéttbýlis og stuðlað að hóflegri verðlagningu.
     f.      Settar verði fram myndrænar upplýsingar um fjarskiptastaði, fjarskiptakerfi og þjónustusvæði þeirra.
     g.      Yfirfærslu hliðrænnar útsendingar sjónvarps yfir á stafrænt form verði lokið fyrir árslok 2014.
     h.      Þjóðskrá, skipaskrá, ökutækjaskrá og fleiri skrár verði samþættar/sameinaðar í samvinnu við nýja upplýsingatæknimiðstöð.
     i.      Innleidd verði rafræn viðskipti hjá innanríkisráðuneytinu þar sem það er tæknilega mögulegt og hagkvæmt.
     j.      Innleidd verði eftir þörfum tilskipun ESB varðandi opnun póstmarkaða.
     k.      Opnað verði fyrir aðgang að skjölum og samskiptum einstaklinga og lögaðila við opinbera aðila á island.is.
     l.      Tryggt verði aðgengi að einni hljóðvarpsrás á helstu stofnvegum.

2. Markmið um hagkvæm og skilvirk fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Evrópuregluverk verði innleitt eftir þörfum árið 2012.
     b.      Vinnuhópur geri tillögur að hagræðingu í opinberum innkaupum á fjarskiptaþjónustu.
     c.      Úttekt verði gerð á tækni og verði nettenginga opinberra stofnana utan helstu þéttbýlissvæða.
     d.      Opinberir aðilar horfi til samnýtingar á nettengingum í opinberum innkaupum.
     e.      Lagaumhverfi verði endurskoðað með tilliti til aukins hvata til fjárfestinga í fjarskiptainnviðum auk þess sem stuðlað verði að samnýtingu og samstarfi.
     f.      Gjaldskrá tíðna verði endurskoðuð með tilliti til aukinnar útbreiðslu fjarskipta í dreifbýli.
     g.      Auðlindagjald fyrir tíðnir verði útfært og innleitt.
     h.      Reiknivélar á netinu nái yfir helstu fjarskiptaþjónustu á hverjum tíma.
     i.      Fjarskiptafyrirtæki setji fram upplýsingar um verð á fjarskiptaþjónustu á samanburðarhæfan hátt.
     j.      Verkefnahópur geri tillögur að útfærslu á alþjónustukvöð í fjarskiptum sem verði endurskoðuð á fjögurra ára fresti, fyrst árið 2014.
     k.      Lög verði sett um íslenska landslénið .is sem tryggi örugga og skilvirka stjórnarhætti landslénsins.
     l.      Stjórnunarhættir internetsins innan stjórnsýslunnar verði metnir og nauðsynlegar úrbætur gerðar.
     m.      Tilskipun 2008/6/EB um póstmarkaði verði innleidd eftir þörfum með hliðsjón af íslenskum aðstæðum.
     n.      Reglur um póstflutninga og vöruflutninga verði samræmdar eins og við á.
     o.      Skilgreining á alþjónustu í pósti verði endurskoðuð og hagkvæm lausn fundin á fjármögnun.

3. Markmið um örugg fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Mótuð verði stefna stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi og vernd ómissandi upplýsingainnviða er varða þjóðaröryggi.
     b.      Mótaðar verði tillögur að framtíðarskipan fyrirkomulags öryggisstjórnunar á grunnstoðum fjarskipta á neyðarstundu þjóðar.
     c.      Skilgreindar verði kröfur til neyðarfjarskipta.
     d.      Mikilvægir fjarskiptainnviðir verði skilgreindir og kortlagðir.
     e.      Lagarammar og stjórnsýsluleg ábyrgð varðandi öryggisfjarskipti verði skýrð.
     f.      Mótaðar verði viðbragðsáætlanir um náttúruvá, farsóttir og netárásir í samstarfi við fjarskiptafyrirtæki og neyðar- og viðbragðsaðila.
     g.      Skilgreindur verði vettvangur fyrir neyðarsamstarf fjarskiptafyrirtækja og stærstu hagsmunaaðila.
     h.      Nauðsynlegar úrbætur sem efla þol gagnvart stóráföllum verði skilgreindar og innleiddar.
     i.      Skilgreindar og framkvæmdar verði reglubundnar æfingar á viðbrögðum við stóráföllum.
     j.      Útbúinn verði rafrænn vettvangur og einföld kæruleið fyrir kærur notenda gagnvart fjarskiptafyrirtækjum.
     k.      Upplýsingum um staðsetningu radíósenda verði safnað og haldið til haga og þær gerðar aðgengilegar almenningi.
     l.      Stofnað verði CERT-ÍS-öryggis- og viðbragðsteymi vegna ómissandi netþjónustu fyrir árslok 2011 með það að markmiði að draga úr hættu af völdum öryggisatvika (bilanir undanskildar) og lágmarka útbreiðslu þeirra og það tjón sem innviðirnir kunna að verða fyrir af þeim sökum.
     m.      Gerð verði úttekt og áhættumat fyrir fjarskiptainnviði Stjórnarráðsins og mikilvægra stofnana. Mótuð verði stefna og nauðsynlegar breytingar innleiddar.
     n.      Staðlar og gæðaviðmið fjarskiptaþjónustu verði endurskoðuð og eftir atvikum gefnar út reglur þar að lútandi. Kannanir verði gerðar reglulega hjá þjónustuveitum, niðurstöður birtar opinberlega og úrbótaþörf fylgt eftir.
     o.      Skilgreind verði úrræði ábyrgðaraðila til að minnka líkur á misnotkun á netinu.
     p.      Fræðslu um netöryggi, auðkenningu, nafnleynd og traust er varðar netnotkun almennt verði viðhaldið og hún efld.
     q.      Eftirlitsaðilum verði tryggð úrræði til að koma í veg fyrir og stöðva misnotkun á netinu.

4. Markmið um umhverfisvæn fjarskipti.
Verkefni:
     a.      Póst- og fjarskiptastofnun haldi skrá yfir skilgreinda fjarskiptainnviði.
     b.      Starfshópur geri tillögur um kostnaðarskiptingu og aukna samnýtingu jarðframkvæmda.
     c.      Skoðað verði hvort raunhæft sé að heimila samninga um rafrænar póstsendingar.
     d.      Skoðaðar verði leiðir til að fækka útburðardögum pósts með nýtingu rafrænna samskipta.
     e.      Fyrirkomulag förgunar á fjarskiptabúnaði verði endurskoðað í samstarfi við umhverfisráðuneytið og kannað hvort fella eigi hana undir Úrvinnslusjóð.
     f.      Kortlögð verði tækifæri til samnýtingar samgöngutækja í póst- og vörudreifingu.
     g.      Fjarskipta- og póstþjónustufyrirtæki setji sér umhverfisstefnu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með lögum nr. 78/2005, um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, samþykkti Alþingi að mótuð yrði heildstæð stefna í fjarskiptamálum og var í kjölfarið mótuð fyrsta fjarskiptaáætlunin sem gilti frá 2005–2010. Árið 2009 lagði forsætisráðherra fram tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt, Ísland 2020, sem felur í sér að útbúin verði samræmd áætlun til sóknar í íslensku atvinnulífi. Þar var m.a. gert ráð fyrir að samþætta nýja fjarskiptaáætlun annarri áætlanagerð. Með fjarskiptaáætlun til tólf ára, 2011–2022, og framkvæmdaáætlun um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014 er sett fram stefna í fjarskiptamálum stjórnvalda. Litið er til fjarskipta, póstmála, rafrænna samskipta og stafrænnar miðlunar. Horft er til þess að áætlanagerðin sé í samræmi við aðra áætlanagerð innanríkisráðuneytis, síðast en ekki síst samgönguáætlun, en gert er ráð fyrir að samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun séu lagðar samhliða fyrir Alþingi til umræðu og umfjöllunar.
    Í áætluninni er fjallað um fjarskipti út frá fjórum áhersluatriðum sem eru í samræmi við áherslur samgönguáætlunar og eru rökrétt umfjöllunarefni varðandi uppbyggingu og rekstur innviða samfélagsins. Áherslur fjarskiptaáætlunar eru sett fram í fjórum markmiðum sem eru:
          Aðgengileg og greið fjarskipti.
          Hagkvæm og skilvirk fjarskipti.
          Örugg fjarskipti.
          Umhverfisvæn fjarskipti.
    Áætluninni er ætlað að fjalla um forsendur aðkomu stjórnvalda við að setja reglur um fjarskiptaþjónustu sem tryggja samkeppni á jafnræðisgrunni. Einnig setja stjórnvöld reglur sem ætlað er að stuðla að öryggi fjarskipta auk áforma um hvernig þau koma að öryggi með öðrum hætti en reglusetningu. Þá er fjallað um markaðsbrest og lagðar til reglur og stefnuviðmið um hvernig eigi að tryggja aðgengi ýmissa hópa að fjarskiptum, svo sem fatlaðra og þeirra sem búa utan þéttbýlis. Ein af forsendunum fyrir stefnumótun stjórnvalda er landfræðilegar aðstæður og strjálbýli sem eru helstu hindranir í vegi fyrir uppbyggingu á háhraðanettengingum á markaðslegum forsendum. Loks fjallar áætlunin um umhverfismál og setur fram stefnu stjórnvalda um hvernig haga megi fjarskiptum svo að þau séu sem sjálfbærust og stuðli að sjálfbærni annarra þátta.
    Fjarskiptaáætlun var unnin í samráði við hagsmunaaðila og hafa drögin m.a. verið kynnt á opnum fundi með Skýrslutæknifélagi Íslands auk þess að vera kynnt á vef innanríkisráðuneytisins þar sem óskað var eftir athugasemdum hagsmunaaðila. Tekið hefur verið tillit til athugasemda eins og rétt þótti.
    Varðandi fjárheimildir til að fylgja eftir framkvæmd fjögurra ára fjarskiptaáætlunar er gert ráð fyrir að það hlutverk sem Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað að sinna rúmist innan tekjustofna stofnunarinnar. Einnig gerir áætlunin ráð fyrir að Alþingi samþykki frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum sem heimili að skilgreindar verði mun hærri kröfur til gagnaflutninga undir alþjónustukvöðum og að stofnkostnaður yrði fjármagnaður úr alþjónustusjóði.
    Fjarskiptasjóður hefur verið starfræktur frá árinu 2005, en lög nr. 132/2005, um fjarskiptasjóð, voru samþykkt á Alþingi árið 2005 samhliða lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., en frumvarp til þeirra laga var lagt fram af hálfu forsætisráðherra. Með lögunum var skotið stoðum undir ályktun Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum með stofnun sérstaks sjóðs til þess að ráðstafa fjármunum til framkvæmda á sviði fjarskipta, svo og til að setja sjóðnum stjórn og skipulag. Samhliða framlagningu tólf og fjögurra ára fjarskiptaáætlana á 140. löggjafarþingi voru m.a. lagðar fram tillögur til breytinga á lögum um fjarskiptasjóð sem ætlað var að styrkja framkvæmd þessara áætlana. Með breytingum á lögunum var líftími sjóðsins framlengdur um fimm ár, auk þess sem kveðið var á um að tekjur ríkissjóðs af leyfisgjöldum fyrir notkun tíðna skyldu renna í fjarskiptasjóð og myndast þá svigrúm til að sinna smærri verkefnum sem standa ekki undir sér á markaðslegum forsendum, til þess að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu og þróun fjarskipta um allt land.
    Að öðru leyti vísast í athugasemdir við tillögu til þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022 sem lögð er fyrir Alþingi samhliða þessari tillögu.