Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 210. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 253  —  210. mál.




Svar



forseta Alþingis við fyrirspurn Ólínu Þorvarðardóttur um skýrslubeiðnir til Ríkisendurskoðunar.


     1.      Hversu margar skýrslubeiðnir hafa borist Ríkisendurskoðun sl. 5 ár?
    Frá ársbyrjun 2007 hafa Ríkisendurskoðun borist samtals átta formlegar skýrslubeiðnir frá forsætisnefnd Alþingis, sbr. 3. gr. laga um Ríkisendurskoðun.

     2.      Hversu mörgum þeirra hefur verið svarað með fullbúnum skýrslum?
    Af átta formlegum skýrslubeiðnum, sem Ríkisendurskoðun hafa borist frá Alþingi frá ársbyrjun 2007, var einni hafnað en hún varðaði forsendur fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga. Sex hefur verið svarað með fullbúnum skýrslum og vinna við eina er langt komin en þar er um að ræða athugun á ráðstöfun framlaga ríkisins til æskulýðsmála.

     3.      Hversu mörgum skýrslubeiðnum sem borist hafa Ríkisendurskoðun sl. 10 ár er ósvarað með öllu, þ.e. án þess að skýrslugerð sé hafin?
    Engri skýrslubeiðni síðustu 10 ár er ósvarað með öllu, þ.e. án þess að skýrslugerð sé hafin.

     4.      Hversu margar skýrslur liggja fyrir í óafgreiddum drögum hjá stofnuninni?
    Samtals eru 13 skýrslur í vinnslu hjá stofnuninni. Drög að þessum skýrslum eru mismunandi langt á veg komin, sum eru á frumstigi en önnur á lokastigi. Af þessum 13 skýrsludrögum eru tvenn unnin samkvæmt formlegri beiðni frá Alþingi: Drög að skýrslu um framlög ríkisins til æskulýðsmála og drög að skýrslu um kaup og innleiðingu á fjárhags- og mannauðskerfi fyrir ríkið.