Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 256  —  8. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar
um framkvæmd þingsályktunar um olíu- og gasrannsóknir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi sem samþykkt var á Alþingi 2. maí 2011?

    Þann 2. maí 2011 var eftirfarandi þingsályktun samþykkt á Alþingi:
    „Alþingi ályktar að tryggðir verði fjármunir til að nú þegar verði hafnar markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Leitað verði samstarfs við erlenda aðila um rannsóknir eftir því sem við á og við staðarval verði stuðst við fyrri rannsóknir.“
    Orkustofnun hefur eftir megni stuðlað að rannsóknum á því hvort olía eða gas finnst á svokölluðu Gammsvæði á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Rannsóknirnar hafa verið stundaðar að svo miklu leyti sem kostnaður vegna þeirra hefur rúmast innan fjárhagsramma stofnunarinnar. Nú er áætlað að kostnaður við þær viðbótarrannsóknir sem taldar eru nauðsynlegar á svæðinu geti numið um 13 millj. kr. Miðað við núverandi fjárhagsramma Orkustofnunar er ólíklegt að hægt verði að ljúka þessum rannsóknum á næstunni nema sérstakar fjárveitingar komi til.