Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 238. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 258  —  238. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætur fyrir tjón af völdum gróðurelda.


Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Guðmundur Steingrímsson,
Atli Gíslason, Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Mósesdóttir,
Jón Gunnarsson, Jón Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa nefnd, með aðild sveitarfélaga, sem fái það hlutverk að móta annars vegar stefnu um hvernig greitt verði fyrir tjón sem sveitarfélög og einstaklingar verða fyrir af völdum gróðurelda, svo sem sinu- og skógarelda eða sambærilegrar náttúruvár, og ekki er bætt af hálfu tryggingafélaga, og hins vegar að marka stefnu um hvernig staðið verði að forvörnum vegna hættu af gróðureldum. Nefndin skili áliti til ráðherra eigi síðar en innan sex mánaða.

Greinargerð.


    Nýleg dæmi um skógar- og sinuelda hér á landi hafa dregið athygli að því tjóni sem auðveldlega getur hlotist af. Hlýnandi veður, stóraukin skógrækt, breytt landnotkun, vaxandi útivist, aukin sumarbústaðabyggð og aðrir þættir valda því að meiri hætta getur stafað af gróðureldum sem geta valdið mjög tilfinnanlegu tjóni. Afleiðingarnar geta orðið mjög kostnaðarsamar.
    Ekki hefur nægjanlega verið hugað að því hvernig þessu skuli mætt. Bætur sem fást frá tryggingafélögum og opinberum sjóðum, sem nýttir eru til þess að bregðast við margs konar vá, ná alls ekki til allra tjóna sem af gróðureldum stafa. Nýleg dæmi færa okkur heim sanninn um það. Þau tilvik sem upp hafa komið og valdið hafa umtalsverðu tjóni, eru sem betur fer enn sem komið er frekar fá. En nýlega hafa komið upp tilvik sem gera það brýnt að huga að þessum málum til frambúðar.

Skógar- og sinueldar í Laugardal.
    Skógar- og sinueldarnir í Laugardal við Ísafjarðardjúp í sumar eru taldir hafa kviknað af aðgæsluleysi einstaklinga. Tjónið sem af hlýst er um 20 millj. kr., sem sveitarfélagið Súðavík verður að standa straum af. Í sveitarfélaginu eru um 200 íbúar og kostnaðurinn á hvern þeirra nemur því um 100 þús. kr. Þetta er vitaskuld mjög tilfinnanlegt högg fyrir fjárhag sveitarfélagsins og getur haft áhrif á getu þess til þjónustu og framkvæmda að óbreyttu.
    Bruninn varð á um 10 hekturum lands og er hann talinn hafa verið annar stærsti sinubruni landsins.

Mýraeldar.
    Langstærsti bruninn af þessu tagi varð vorið 2006 á Mýrum, í fyrrum Hraunhreppi í Borgarbyggð. Eldurinn blossaði upp að morgni 30. mars í sinu sem fór um 75 km² landsvæði á Mýrum, en alls brunnu um 67 km² lands. Þetta voru nefndir „mestu sinueldabrunar Íslandssögunnar“.
    Engar skemmdir urðu á mannvirkjum, að girðingum undanskildum, en margir bæir voru mjög nálægt því að verða eldinum að bráð. Bærinn Hamrar var þannig einungis örfáa metra frá eldinum á tímabili. Eldarnir höfðu gífurleg áhrif á lífríkið, en svæðið sem brann var eitt stærsta samfellda mýrlendi á landinu og er í raun nær lagi að tala um náttúruhamfarir en venjulegan sinubruna. Engin meiðsl urðu þó á fólki.
    Mýraeldarnir, sem svo voru kallaðir, ollu margvíslegu tjóni. Þeir höfðu mikil áhrif á búskap, lífríki og náttúrufar, mikil mengun stafaði af og sveitarfélagið hafði af þeim umtalsverðan kostnað sem ekki fékkst bættur.
    Bæði Mýraeldarnir og brunarnir í Ísafjarðardjúpi voru þannig að í raun kraumaði eldur í jarðveginum. Mjög erfitt var því að ráða niðurlögum hans. Kalla þurfti til nálæg slökkvilið og koma í veg fyrir frekari tjón með því að beita stórvirkum vinnuvélum. Allt slíkt kostar fjármuni sem greiddir eru úr sjóðum viðkomandi sveitarfélags.

Hætta á skógareldum.
    Með stóraukinni skógrækt í landinu telja sérfróðir aðilar að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær, skógareldar kvikna hér fyrir alvöru. Þegar er farið að vinna áætlanir á einstökum stöðum um hvernig bregðast skuli við ef eldur kviknar í skóglendi. Tjón af slíkum brunum getur orðið mikið. Byggingar og önnur mannvirki standa oft í eða við skóglendi. Sumarbústaðir hafa risið í þúsundavís á svæðum þar sem slík mannvirki hafa ekki staðið áður. Mannaferðir og framkvæmdir geta aukið hættu á að eldur kvikni. Ljóst er því að nauðsynlegt er að hyggja að því hvernig helst verði dregið úr hættu á brunatjóni við slíkar aðstæður.
    Það sem gerir þetta mál enn meira áríðandi er sú augljósa staðreynd að tjón af þeim toga sem að framan er lýst á sér helst stað í dreifbýlum og oft fámennum sveitarfélögum sem ekki hafa burði til þess að glíma við fjárhagstjón af þessum toga.
    Jafnframt þessu er ástæða til að skoða fleiri þætti málsins. Má þar nefna:
          Verksvið lögreglu í rannsókn á upptökum elds.
          Ábyrgð þeirra sem verða valdir að tjóni vegna gróðurelda.
          Hvort eldar sem kvikna af völdum erlendra ferðamanna, til dæmis, séu bættir með tryggingum þeirra.

Forvarnaaðgerðir.
    Kanna þarf hvernig efla mætti ýmsar forvarnaaðgerðir til þess að sporna við hættunni á gróðureldum. Má í því sambandi nefna:
     1.      Mat á því hvar mesta áhættan liggi.
     2.      Áherslur í mögulegu forvarnastarfi til að lágmarka líkur á gróðureldum.
     3.      Aðgerðir til að lágmarka tjón vegna gróðurelda. Má þar nefna úttekt á svæðum þar sem t.d. er mikið um sumarbústaði og hvernig best sé að skipta svæðum í „eldvarnahólf“.
     4.      Loks þarf að fara fram úttekt og mat á þeim slökkvibúnaði sem til er hér á landi til að takast á við gróðurelda og hvort til ætti að vera í landinu sértækur slökkvibúnaður sem hægt væri að flytja með stuttum fyrirvara á svæði þar sem alvarlegir gróðureldar kvikna.
    Ýmislegt hefur þegar verið gert í forvörnum á þessu sviði. Í kjölfar Mýraeldanna var keyptur tækjabúnaður til þess að berjast við slíka elda, skrifuð var kennslubók um gróðurelda, gerðar hafa verið svæðisbundnar viðbragðsáætlanir, sem geta orðið fyrirmynd annarra slíkra áætlana, og nú er hafinn undirbúningur á vegum Mannvirkjastofnunar og Veðurstofunnar að viðvörunaráætlun að erlendri fyrirmynd. Þá má enn nefna að nú hafa farið fram athyglisverðar tilraunir í Skorradal að frumkvæði Guðmundar Hallgrímssonar á Hvanneyri með búnað til að skipta landi í brunahólf.

Mótun stefnu.
    Að framansögðu sést að eðlilegt er að mótuð verði stefna um hvernig slík tjón verði bætt, jafnframt því að farið verði skipulega yfir það hvernig megi stuðla að forvörnum sem dragi úr líkum á gróðureldum. Eðlilegast er að slíkt verkefni verði unnið á landsvísu.
    Ekki er viðunandi að lítil og dreifbýl sveitarfélög þurfi að reiða fram verulega fjármuni af völdum slíkra hamfara. Við höfum þegar komið okkur upp úrræðum til þess að takast á við afleiðingar náttúruvár eða tjóns af því tagi þar sem tryggingafélög koma ekki til skjalanna. Það á ekki við varðandi sinu- eða skógarbruna, eða bruna í jarðvegi, sem getur valdið mjög umtalsverðu tjóni eins og dæmin hafa sannað.
    Margar leiðir koma til greina þegar þessi mál eru skoðuð og upp koma álitamál. Þess vegna er eðlilegast að skipuð verði nefnd sem kanni þetta mál sérstaklega og freisti þess að koma með tillögur um hvernig brugðist skuli við þessum vanda sem getur verið mjög umtalsverður þar sem hann kemur upp. Vegna eðlis málsins er sjálfsagt mál að sveitarfélögin eigi aðild að slíkri vinnu.