Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 328  —  295. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (talsmaður barns).


Flm.: Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 4. mgr. 33. gr. a laganna, sbr. 12. gr. laga nr. 61/2012, kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þegar sýslumaður hefur boðið aðilum sáttameðferð skal hann taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að skipa barni talsmann við sáttameðferðina. Hlutverk talsmanns er að ræða við barnið og koma sjónarmiðum þess á framfæri. Talsmaður hefur ekki rétt til aðgangs að gögnum máls en sýslumanni ber að meta það hverju sinni hvaða upplýsingar um málið er rétt að talsmaður fái til að geta gegnt hlutverki sínu.

2. gr.

    Við 38. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við þingfestingu máls skal dómari taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að skipa barni talsmann við meðferð málsins fyrir dómi. Hlutverk talsmanns er að ræða við barnið og koma sjónarmiðum þess á framfæri. Um hlutverk talsmanns fer að öðru leyti eftir ákvæðum 43. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, þess efnis að við meðferð forsjármála, umgengnismála, lögheimilismála og annarra mála hjá sýslumönnum og fyrir dómstólum verði heimilt að skipa barni eða börnum sérstakan talsmann við meðferð máls. Slík ákvörðun skal vera skrifleg, rökstudd og skráð sérstaklega. Hlutverk talsmanns verði að ræða við barnið, kanna afstöðu þess til máls og koma sjónarmiðum þess á framfæri. Talsmanni ber að gæta hlutleysis gagnvart foreldrum barns eða eftir atvikum öðrum aðilum máls og gæta eingöngu að hagsmunum barns.
    Við umfjöllun um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum á 139. löggjafarþingi (þskj. 1374, 778. mál) barst umsögn frá Dómarafélagi Íslands þar sem fram kom að huga bæri að því hvort ekki væri rétt að lögfesta heimild til að skipa barni talsmann við meðferð mála á grundvelli barnalaga hjá sýslumanni og fyrir dómi. Í nefndaráliti velferðarnefndar við umfjöllun um frumvarp það er varð að lögum nr. 61/2012, um breytingu á barnalögum (þskj. 1427 á 140. löggjafarþingi), kom fram að nefndin teldi rétt að skoða þann möguleika að lögfesta heimild sýslumanns og dómara til að skipa barni sérstakan talsmann við meðferð mála með það fyrir augum að styrkja ráðgjafar- og sáttaferli, barni til hagsbóta. Frumvarp þetta byggist á þeirri hugmynd og telur flutningsmaður að um þarfa breytingu sé að ræða. Meginregla barnalaga er að hafa skuli hagsmuni barns að leiðarljósi í hverju máli en því miður eru mörg mál á grundvelli barnalaga því marki brennd að þar deila foreldrar oft án þess að hagsmunir barns skipti þar öllu máli. Með þeirri breytingu sem lögð er til hér má ætla að hagsmunir barns fái aukið vægi við meðferð mála á grundvelli barnalaga bæði hjá sýslumönnum og fyrir dómi.
    Þegar metið er hvort barni skuli skipaður talsmaður ber að hafa hagsmuni þess að leiðarljósi. Þeim er skipar barni talsmann ber að velja talsmann sem er best til þess fallinn að þjóna hagsmunum barns í hverju máli. Þannig ber að horfa til þess hvert markmið með skipan talsmanns er í hverju máli fyrir sig, um hvers kyns mál er að ræða og hversu djúpstæður ágreiningur er milli foreldra. Ekki eru í frumvarpinu gerðar sérstakar hæfis- eða menntunarkröfur til talsmanns en almennt verður sá aðeins skipaður talsmaður sem hefur sérþekkingu á málefnum barna og hefur ekki tengsl við barn eða foreldra þess eða sérstaka hagsmuni af úrlausn málsins. Hafa ber til hliðsjónar þau grunnrök sem búa að baki reglum VII. kafla reglugerðar nr. 56/2004, um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, um hæfi talsmanns.