Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 297. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 330  —  297. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hlé á greiðslu lífeyrisiðgjalda við húsnæðiserfiðleika.


Flm.: Mörður Árnason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og galla þess að fólki sem er í vanda vegna húsnæðisskulda gefist kostur á að gera hlé á greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð í ákveðinn tíma, svo sem fimm ár, en greiði þess í stað inn á höfuðstól húsnæðisskulda sinna. Skýrslu um þetta verði skilað til Alþingis fyrir 1. mars 2013.

Greinargerð.

    Margt hefur verið rætt um lausn á vanda þeirra sem skulda húsnæðislán, einkum verðtryggð lán, og ýmsar hugmyndir reifaðar í því sambandi. Samkvæmt þeirri hugmynd sem hér er lagt til að verði könnuð gæfist fólki heimild til að taka lífeyrisiðgjöld sín tímabundið úr farvegi sem skilar því varla meira en 2,5% ávöxtun og borga frekar niður húsnæðislán sín sem iðulega bera á bilinu 5–7% vexti. Með þessu móti kynni skuldabyrðin að léttast verulega hjá ýmsum hópum þar sem höfuðstóll skuldanna minnkaði mánaðarlega.
    Með þessu er ekki verið að fella niður skuldir, sem merkir að aðrir greiði þær, né búnir til peningar úr engu, heldur er skuldugu fólki í raun gefinn kostur á að taka lán hjá sjálfu sér. Þar sem líta má á húsnæðiseign sem eitt form lífeyrissparnaðar væri ekki heldur verið að auka neyslu fyrr á ævinni á kostnað eðlilegs undirbúnings elliára. Eðlilegt er að takmarka heimild af þessu tagi við allerfiða skuldastöðu og gera ráð fyrir að iðgjaldagreiðslan bætist við aðrar fastar greiðslur af lánunum.
    Könnun sú sem hér er farið fram á þarf meðal annars að beinast að því hversu mikinn hag tilteknir hópar skuldara hefðu af þessari heimild, hver yrði missir þeirra í lífeyri að meðaltali, hverju þessi heimild mundi breyta fyrir stöðu lífeyrissjóðanna og annarra fjármálastofnana, svo sem Íbúðalánasjóðs, hver yrði ávinningur ríkissjóðs til skamms tíma af skattgreiðslum og hvaða lagabreytingar þyrfti til.
    Þótt hart sé deilt um ýmsa þætti lífeyrismála er það almennt viðhorf að lífeyrissjóðaskipan okkar sé eitt af jákvæðum einkennum samfélagsgerðarinnar. Þá er sérstaklega nefnt til samtryggingarprinsippið sem þeir byggjast á annars vegar, og hins vegar skipulag sjóðsöfnunar í stað gegnumstreymis sem viðgengst víða í lífeyrissjóðum grannlandanna. Því er lögð áhersla á að þetta úrræði sé tímabundið, til þess ætlað að leysa að hluta vanda illa staddra fjölskyldna eftir eitt mesta áfall Íslandssögunnar af mannavöldum síðan á Sturlungaöld.