Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 159. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 348  —  159. mál.




Svar


atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um merkingar,
rekjanleika og innflutning erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.


     1.      Telur ráðherra að reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs sé framfylgt í ljósi niðurstöðu rannsóknar sem Neytendasamtökin, Matvæla- og veitingafélag Íslands og Náttúrulækningafélag Íslands stóðu að og birtu nýlega?
    Ábyrgð á merkingu matvæla liggur hjá framleiðendum þeirra eða stjórnendum fyrirtækja sem setja þau á markað. Samkvæmt matvælalögum er óheimilt að villa um fyrir neytendum með merkingum eða öðrum upplýsingum sem veittar eru um matvæli og á öllum stigum framleiðslu og markaðssetningar skal vera til staðar kerfi sem tryggir rekjanleika matvæla eða efnisþátta sem notaðir eru við framleiðslu þeirra. Það er því á ábyrgð fyrirtækja eða forráðamanna þeirra að afla upplýsinga um hvort matvæli séu erfðabreytt eða geti innhaldið erfðabreytt efni og, ef svo er, tryggja að neytendur fái upplýsingar um þetta í samræmi við gildandi reglur.
    Þrátt fyrir að erfitt sé að fullyrða um hvernig framfylgni á reglugerð nr. 1038/2010 er háttað hérlendis, eru vísbendingar um að á markaði séu erfðabreytt matvæli, þ.e. matvæli sem innihalda eða samanstanda af erfðabreyttum lífverum eða eru framleidd úr eða innhalda innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum, án þess að slík matvæli uppfylli kröfur skv. 5. gr. reglugerðarinnar um merkingar þess efnis. Eftirlitsaðilum hafa sömuleiðis borist ábendingar um að enn sjáist lítið af slíkum merkingum á matvælum í verslunum þrátt fyrir að reglugerðin hafi tekið gildi þann 1. janúar 2012 fyrir matvæli. Hins vegar er vitað til þess að fyrirtæki hafi látið rannsaka vörur til staðfestingar á því hvort þær séu merkingarskyldar skv. reglugerðinni.
    Sömuleiðis liggur fyrir að einstök heilbrigðiseftirlitssvæði sveitarfélaga hafa upplýst fyrirtæki á sínum svæðum um skyldur þeirra skv. reglugerð nr. 1038/2010. Þannig má sem dæmi nefna að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) sendi helstu dreifingaraðilum matvæla á sínu starfsvæði bréf og óskaði eftir upplýsingum um til hvaða aðgerða fyrirtækin hefðu gripið í kjölfar setningar reglugerðarinnar. Í þeim svörum sem bárust var þess getið að fyrirtækin hefðu leitað eftir upplýsingum frá birgjum sínum um hvort viðkomandi vörur innihéldu erfðabreyttar lífverur eða innihaldsefni unnin úr þeim. Í þeim tilvikum þar sem svo reyndist vera var þess getið í svörum fyrirtækjanna að innflutningi hefði verið hætt eða viðkomandi vörur merktar í samræmi við reglugerðina.
    Auk merkingar matvæla gildir reglugerðin um merkingar á fóðri. Þrátt fyrir vísbendingar um að framfylgni með merkingum erfðabreyttra matvæla sé að einhverju leyti ábótavant eru merkingar á erfðabreyttu fóðri, þ.e. fóðri sem inniheldur eða samanstendur af erfðabreyttum lífverum eða er framleitt úr eða innheldur innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum, almennt í samræmi við kröfur skv. 6. gr. reglugerðarinnar.
    Varðandi niðurstöður þeirrar rannsóknar sem Neytendasamtökin, Matvæla- og veitingafélag Íslands og Náttúrulækningafélag Íslands stóðu fyrir, er rétt að geta þess að HER hafði samband við þrjú fyrirtæki sem flytja inn vörur sem rannsakaðar voru. Þessi fyrirtæki hafa starfsleyfi frá HER. Samkvæmt upplýsingum, sem HER barst frá tveimur þessara fyrirtækja, urðu mistök þess valdandi að vörurnar voru ekki merktar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1038/2010. Þriðja fyrirtækið gat framvísað staðfestingu þess efnis að umrædd vara, sem markaðssett var hérlendis, innihéldi ekki erfðabreytt hráefni. Hinsvegar flytur fleiri en einn aðili þessa vöru til landsins og ekki kom fram í rannsókninni hvaða innflytjandi hefði flutt inn þá vöru sem var til umfjöllunar í fyrrnefndri rannsókn.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við ef merkingum og rekjanleika samkvæmt reglugerðinni er enn ábótavant?
    Um opinbert eftirlit með reglum um merkingar erfðabreyttra matvæla og fóðurs segir í 10. gr. reglugerðarinnar: „Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna erfðabreyttra matvæla. Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna erfðabreytts fóðurs. Þegar sannreyna þarf efnainnihald matvæla og fóðurs skal Matvælastofnun sjá um að rannsóknir séu framkvæmdar. Matvælastofnun skal samræma eftirlit með erfðabreyttum matvælum þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu, sbr. 7. mgr. 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli.“
    Eftirlit með merkingum á erfðabreyttum matvælum felst í að skoða umbúðir og önnur gögn, ásamt því að greina sýni og athuga hvort merking sé í samræmi við innihald og uppfylli þar með ákvæði reglugerðarinnar. Skipulagðar sýnatökur munu eiga sér stað á hverju ári og mun Matvælastofnun vinna að samræmingu þess eftirlits hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, setja upp sýnatökuáætlun og ákveða hvaða sýni verða tekin hverju sinni. Það ákvarðast m.a. af upprunalandi, algengi á markaði, markhópi vöru og gerð matvæla, þ.e. hvort þau innihalda algengar erfðabreyttar lífverur.
    Löggjöf hér á landi um merkingu á erfðabreyttum matvælum og fóðri tekur mið af reglum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og verður að vera í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Eftir að reglugerðin var sett komu fram athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) varðandi einstök ákvæði hennar og taldi ESA nauðsynlegt að sníða agnúa af reglugerðinni þannig að hún bryti ekki í bága við ákvæði samningsins. Unnið hefur verið að breytingum á reglugerðinni til að koma til móts við athugasemdir ESA og hefur reglugerðinni nú verið breytt með reglugerð nr. 849/2012. Fyrir liggur að Matvælastofnun hefur útbúið leiðbeiningar fyrir heilbrigðiseftirlitssvæði sveitarfélaganna. Beðið hefur verið með útgáfu þessara leiðbeininga þar til búið er að birta fyrrnefndar breytingar á reglugerðinni.
    Samkvæmt starfsáætlun var ráðgert að hefja sýnatökur haustið 2012 og verður áhersla lögð á innihaldsefni eins og maís og soja þetta árið. MAST mun sjá um samræmingu á sýnatökum hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna og setja upp sýnatökuáætlun. Ráðgert er að farið verði í slíkar samræmdar sýnatökur einu sinni ár hvert. Gert er ráð fyrir að Matís muni rannsaka hvort erfðabreytingar séu til staðar í matvælunum, en magngreining tiltekinna efnisþátta mun fara fram á rannsóknastofum erlendis. Vinnu við uppsetningu á mæliaðferðum hjá Matís lauk fyrir skömmu og ráðgert er að sýnatökur hefjist í nóvember nk.

     3.      Hefur þvingunarúrræðum og viðurlögum skv. 11. gr. reglugerðarinnar verið beitt og ef svo er, í hvaða tilfellum hefur það verið?
    Matvælastofnun hefur ekki haft ástæðu til að beita þvingunarúrræðum eftir að reglugerðin tók gildi gagnvart markaðssetningu á fóðri. Þá hefur heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna upplýst að þvingunarúrræðum eða viðurlögum hafi enn ekki verið beitt skv. 11. gr. reglugerðarinnar vegna eftirlits með matvælum. Ástæður þess má m.a. rekja til þess að útgáfa eftirlitsleiðbeininga og samræmd sýnataka og greining mun ekki eiga sér stað fyrr en reglugerðinni hefur verið breytt í samræmi við athugasemdir ESA. Þá er rétt að eftirfarandi komi fram:
    Framfylgni reglugerðar nr. 1038/2010 er flókin og erfið í framkvæmd. Orsakast það bæði af viðskiptaháttum hérlendis og því hversu mikið af matvælum og fóðri koma frá ríkjum utan EES, en þar eru reglur um merkingar og rekjanleika með allt öðrum hætti. Þannig má nefna að í Bandaríkjunum eru ekki gerðar kröfur um merkingar á erfðabreyttum matvælum og matvælafyrirtæki þurfa ekki að uppfylla kröfur um rekjanleika með erfðabreyttum matvælum eða innihaldsefnum. Innflytjendur sem kaupa vörur af stórum vörudreifingaraðilum í Bandaríkjunum eiga því í vandkvæðum með að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Bæði liggja ekki fyrir upplýsingar frá framleiðanda um hvort matvæli falla undir reglugerðina og svo er engar merkingar að finna á vörunni um hvort varan er framleidd úr erfðabreyttri lífveru eða innihaldsefnum sem framleidd eru úr erfðabreyttri lífveru. Innflytjendur geta því oft ekki fengið upplýsingar frá framleiðendum og í mörgum tilvikum er ekki hægt að greina slíkt þrátt fyrir rökstuddan grunn, t.d. í þeim tilvikum þegar matvæli innhalda innihaldsefni sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum, svo sem sojaolíu, baðmullarolíu, repjuolíu, maíssterkju, glúkósa úr maís, sykur úr sykurrófum og lesitín úr soja. Sama á við um ýmsar tómatvörur. Í tilvikum þar sem óvissa er um upplýsingar og ekki er hægt að sannreyna gildi þeirra eða sannprófa grun um að varan sé ekki merkt í samræmi við reglugerð nr. 1038/2010, þá geta eftirlitsaðilar átt erfitt með að beita þeim þvingunarúrræðum sem getið er um í lögum nr. 93/1995. Annað gildir um niðurstöður greininga á vörum þar sem hægt er að greina erfðaefni eða prótein sem breytt hefur verið með erfðabreytingu, sbr. það sýnatökuverkefni sem ráðgert er að hefjist nú í nóvember.

     4.      Telur ráðherra að herða þurfi viðurlög við brotum á merkingum (innihaldslýsingu) á matvörum og dýrafóðri?
    Matvælastofnun hefur óskað eftir að opinberir eftirlitsaðilar fái heimild til að beita fyrirtæki fjársektum, gerist þau brotleg við matvælalöggjöfina. Hér er um að ræða sambærileg ákvæði og þær heimildir sem verið er að veita MAST í lögum um fóður, áburð og sáðvöru. Ráðuneytið tekur undir óskir Matvælastofnunar hvað þetta varðar.

     5.      Hvernig mun ráðherra bregðast við niðurstöðum nýrrar langtímarannsóknar um áhrif fóðrunar með erfðabreyttum maís sem birtist 19. september 2012 í tímaritinu Food and Chemical Toxicology („Long term toxicity of a Roundup herbicide and a Roundup- tolerant genetically modified maize“)?
    Rannsókn þessi náði til áhrifa fóðurs með erfðabreyttum maís og illgresiseyði (Roundup), sem inniheldur virka efnið glýfosat, á rottur. Umrætt afbrigði af maís hefur verið viðurkennt til notkunar sem fóður og matvæli eða sem efnisþáttur í slíkum vörum í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og víðar. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA), sem hefur það hlutverk að gera áhættumat og koma með álit áður en leyfi er veitt til markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra í Evrópu, hefur farið yfir framkvæmd rannsóknarinnar og niðurstöður hennar. EFSA komst að þeirri niðurstöðu að rannsóknin hefði ekki verið framkvæmd á nægilega vísindalegan hátt til að teljast marktæk til áhættumats. Bráðabirgðaniðurstöður EFSA voru því þær að framkvæmd rannsóknarinnar hefði verið verulega ábótavant og að ekki væri ástæða til að endurskoða afstöðu stofnunarinnar til markaðssetningar vörunnar. Stofnunin hefur óskað eftir nánari upplýsingum frá þeim sem stóðu að rannsókninni og mun koma með endanlegt álit fyrir lok þessa mánaðar. Matvælastofnun er tengiliður Íslands við EFSA og mun stofnunin fylgjast með þróun mála þar og hjá samstarfsstofnunum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Ekki er talin ástæða til að bregðast sérstaklega við þessum rannsóknarniðurstöðum fyrr en endanleg afstaða liggur fyrir af hálfu EFSA og annarra stofnana sem nú eru að skoða framkvæmd og niðurstöður þessarar rannsóknar.