Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 338. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 385  —  338. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa,
varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa (skipstjórnarnám).

Flm.: Árni Johnsen, Bjarni Benediktsson, Björgvin G. Sigurðsson,
Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Gunnarsson,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Gunnar Bragi Sveinsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Birkir Jón Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Helgi Hjörvar.


1. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
    Að meðtöldum skólum skv. 1. mgr. 4. gr. skulu skólar eða námsbrautir skóla á Ísafirði, Dalvík, Hornafirði, Vestmannaeyjum, Grindavík og Reykjavík annast menntun og þjálfun skipstjóra til ótakmarkaðra réttinda á önnur íslensk skip en farþega- og flutningaskip.
    Skilyrði inntöku í skóla eða námsbrautir skv. 1. mgr. eru eftirfarandi:
     a.      að umsækjandi hafi staðist inntökupróf sem fara skal fram eigi síðar en tveimur vikum fyrir upphaf skólaárs,
     b.      að umsækjandi hafi lokið grunnskólaprófi eða sé ella 18 ára að aldri eða eldri,
     c.      að umsækjandi hafi áunnið sér a.m.k. 24 mánaða staðfestan siglingatíma eftir 15 ára aldur.
    Markmið skóla eða námsbrauta skv. 1. mgr. er að útskrifa þá nemendur sem uppfylla skilyrði til inntöku sem skipstjóra með skipstjórnarréttindi innan lands á skip styttri en 45 metra á einu skólaári og sem skipstjóra með ótakmörkuð skipstjórnarréttindi á tveimur skólaárum.
    Um námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um framhaldsskóla og reglugerðum samkvæmt þeim.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 139. og 140. löggjafarþingi og er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Árið 1991 voru gerðar verulegar breytingar á reglum sem giltu um skipstjórnarnám á Íslandi. Höfðu þær breytingar í för með sér að hluti námsins var færður inn á framhaldsskólastigið. Frá því að þetta gerðist hafa orðið enn frekari breytingar á framangreindum reglum. Er svo komið að fyrirkomulag skipstjórnarprófa á Íslandi er útfært með það að markmiði að námið uppfylli kröfur alþjóðasamnings sem á frummálinu ber heitið International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Fishing Vessel Personnel, 1995.
    Fyrir þær breytingar sem ráðist var í á árinu 1991, og voru undanfari fyrirkomulags námsins í dag, þurftu nýnemar að hafa lokið gagnfræðaprófi og stundað sjó í 24 mánuði eftir 15 ára aldur eða taka inntökupróf til að fá inngöngu í stýrimannaskóla. Stór hluti nemenda í skipstjórnarfræðum voru menn sem höfðu farið á sjóinn að loknu grunnskólanámi, stofnað heimili, komið sér þaki yfir höfuðið og síðan á aldrinum 25–35 ára ákveðið að afla sér skipstjórnarréttinda eftir umtalsverða reynslu á sjó. Stýrimannaskólarnir í Vestmannaeyjum og á Dalvík lögðu upp laupana í kjölfar breytinganna árið 1991. Var það óbætanlegt tjón, ekki síst fyrir Vestmannaeyjar þar sem skipstjórnarfræðsla hafði verið starfrækt með hléum frá þarsíðustu öld og óslitið frá árinu 1957. Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum sóttu að jafnaði fjölmargir nemendur víðs vegar að af landsbyggðinni og þar gátu nemendur framfleytt sér og sínum á auðveldari máta en annars staðar vegna þeirra atvinnumöguleika sem fyrir lágu með námi í stærstu verstöð landsins.
    Í dag er staðan sú að mjög lítil aðsókn er að jafnaði í skipstjórnarnám á Íslandi. Innritast aðeins um 10–12 nemendur á ári í slíkt nám og er það ekki nægilegur fjöldi nemenda til að anna eðlilegri endurnýjunarþörf íslenska skipaflotans. Telja verður að haldi slík þróun áfram geti það haft alvarleg áhrif á þá starfsemi sem aflar Íslandi hvað mestra gjaldeyristekna. Af þeim sökum verður vart hjá því komist að takmarka það tjón sem fyrirsjáanlegt er og opna leið fyrir sjóreynda menn til þess að fá metna þá reynslu sem þeir búa yfir og nýta hana til að afla sér skipstjórnarmenntunar á tiltölulega skömmum tíma. Þar sem alþjóðleg viðurkenning skipstjórnarréttinda hefur náð þeirri útbreiðslu sem raun er verður þó ekki hjá því komist að takmarka þau réttindi sem mögulegt verður að afla með þessu móti við stjórn skipa innan lands.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjómönnum í öllum landshlutum verði boðið upp á að afla sér skipstjórnarréttinda og þeir þurfi að fara sem stystan veg í þeim tilgangi. Er hugsunin sú að með því móti sjái fleiri sér fært að hefja skipstjórnarnám. Þá er gert ráð fyrir því að inntökuskilyrði námsins taki mið af því að sem flestir sjóreyndir menn hafi tækifæri á að nýta þekkingu sína til réttindanáms. Eru markmið námsins útfærð í frumvarpinu en gert ráð fyrir því að öll frekari útfærsla þess fari fram af hendi fagaðila í kennslufræði og skipulagi skipstjórnarnáms með setningu reglugerða og námskráa. Þess má geta að þorri íslenskra skipstjóra hlaut skipstjórnarréttindi sín við álíka námsfyrirkomulag og frumvarpið stefnir að.