Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 392  —  345. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun íslenskrar handverksdeildar í Listaháskóla Íslands.

Flm.: Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Gunnar Bragi Sveinsson,
Jón Gunnarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Vigdís Hauksdóttir.

    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma upp íslenskri handverksdeild í Listaháskóla Íslands.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. og 140. þingi og er nú endurflutt óbreytt.
    Íslenskt handverk lærðra sem leikmanna stendur mjög hátt á heimsmælikvarða. Um allt land eru snjallir handverksmenn að verki í prjónlesi, útskurði, rennismíði, járnsmíði, mótun í leður og bein og listmálun svo að nokkuð sé nefnt. Reglulegar sýningar handverksmanna undirstrika að hér er um að ræða listamenn af Guðs náð og það hefur skort á að þessum verkmenntaþætti sé sinnt í íslenska skólakerfinu en hann er ýmist sjálfsprottinn eða líður fram mann fram af manni í hefðum, reynslu og verksviti.
    Í grunnskólum og verkmenntaskólum er að sjálfsögðu unnið á vettvangi íslensks handverks, í smíðum, föndri, myndmennt og fleiri þáttum, en rík ástæða er til þess að leggja meiri rækt við þennan þátt íslensks þjóðlífs og leggja öflugri grunn að kennslu á þessum sviðum í íslenska skólakerfinu.
    Auðvitað á íslensk handverkskunnátta að vera grein í Listaháskóla Íslands, ekki síst vegna þess að saman fer hugvit, verkvit, handverk og hönnun.
    Gott dæmi um afar snjallan listamann í handverki er Sigga á Grund í Árnessýslu. Hún er í röð fremstu listamanna þjóðarinnar með útskurði sínum í tré, en listamenn á þessu sviði skipta hundruðum á Íslandi.
    Þá er rík ástæða til þess að styðja sérstaklega við íslenska prjónlesið, sem að öllu jöfnu er unnið af konum í öllum byggðum landsins, handverk sem er stolt íslensks iðnaðar umfram margt annað.
    Sýna þarf íslensku handverki virðingu og hvatningu með því að stofna til handverksdeildar á íslenskum grunni í Listaháskóla Íslands. Listaháskólinn ætti einnig að vera í fararbroddi við að útfæra handverksþáttinn fyrir og með öðrum skólum landsins. Ef Íslendingar leggja ekki rækt við sína eigin menningu er ranglega í leiðina lagt inn í framtíðina.